Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Dómur fellur í verðtryggingarmálinu í dag
Fréttir 26. nóvember 2015

Dómur fellur í verðtryggingarmálinu í dag

Höfundur: Hörður Kristjánsson

Þann 20. nóvember síðastliðinn var flutt í Hæstarétti Íslands mál Hagsmunasamtaka heimilanna (HH) sem snýst um upplýsingaskyldu lánveitenda um verðtryggingu neytendalána. Talið er að þetta mál geti skipt gríðarlegu máli varðandi verðtryggð lán á Íslandi í framtíðinni.

Búist var við að dómur félli þegar nær dregur jólum, en öllum að óvörum mun það gerast klukkan fjögur í dag. Þrátt fyrir mikilvægi málsins hefur það ekki verið birt í dagskrá á vefsíðu dómsins í dag. Bændablaðið hefur samt fengið staðfestingu um að svo sé samhliða  uppkvaðningu dóma í nokkrum öðrum málum. 

Formlega er þetta mál Theodórs Magnússonar og Helgu Margrétar Magnúsdóttur númer 243/2015 gegn Íbúðalánasjóði  sem  Hagsmunasamtökin hafa rekið sem prófmál.

Ef þau vinna málið gæti það mögulega kallað á endurútreikning allra slíkra lána sem tekin voru eftir 11. janúar árið 2001. Spurningin getur því mögulega snúist um lán upp á hundruð milljarða króna. Þetta mál hefur verið að velkjast í kerfinu frá síðari hluta árs 2012. Ef dómurinn fellur Hagsmunasamtökunum í vil felur endurútreikningur lána alls ekki í sér neina gjöf til lántaka. Heldur yrði skrúfuð til baka þá væntanlega dæmd ólögleg innheimta vegna verðtryggingar.

Snýst um að upplýsingaskylda laga hafi ekki verið virt

Guðmundur Ásgeirsson, sem starfa sem erindreki HH ásamt því að stunda nám í lögfræði við Háskólann í Reykjavík, segir að málatilbúnaðurinn byggist ekki á lögum um vexti og verðtryggingu sérstaklega, heldur lögum um neytendalán nr. 121 frá árinu 1994. Helstu röksemdirnar eru þær að lánveitendur hafi brotið gegn upplýsingaskyldu þeirra laga með því að veita engar upplýsingar um kostnað við verðtryggingu. Sá kostnaður er einmitt lykilatriði í margfeldisáhrifum í framreikningi slíkra lána þannig að lántakendur hafa enga möguleika haft til að meta hver endanleg stað lánanna yrði.

Lagagreinarnar sem um ræðir eru í lögum númer 121/1994, Í 6. Grein þeirra laga segir segir að við gerð lánssamnings skuli lánveitandi gefa neytanda greinargóðar upplýsingar um kostnað við lánið. Þar á meðal höfuðstól, útborgaða fjárhæð, vexti og önnur gjöld, heildarlántökukostnað, árlega hlutfallstölu kostnaðar, greiðsluáætlun o.fl.

7. gr. skilgreinir heildarlántökukostnað þannig að hann feli í sér allan kostnað af láninu, þar með talda vexti og önnur gjöld sem neytandi skal greiða.

10.-12. gr. skilgreina svo útreikning árlegrar hlutfallstölu kostnaðar, sem skal endurspegla heildarlántökukostnaðinn reiknaðan samkvæmt 7. gr.

14. gr. laganna kveður á um þær afleiðingar vanrækslu á upplýsingaskyldu, að óheimilt sé að innheimta kostnað sem ekki var upplýst um.

„Þegar lánið sem um ræðir var tekið, þá fengu lántakendur engar af þessum upplýsingum, nema í mjög takmörkuðum mæli. Það er að segja, eingöngu höfuðstól og vaxtaprósentu, og áætlaða mánaðarlega greiðslubyrði, án kostnaðar vegna verðbóta.

Við teljum því að þar sem þau fengu engar upplýsingar um kostnað í formi verðbóta, hafi verið óheimilt að innheimta verðbætur,“ segir Guðmundur.

Illa brengluð hagspeki

Í hnotskurn snýst málið í raun um þá hugmyndabrenglun hagfræðinga heimsins að hægt sé að reikna sér raunverðmæti af peningum í formi vaxta án þess að nokkur raunverðmæti komi þar á móti. Vitandi það að peningar eru í sjálfu sér einungis ávísun á einhver raunverðmæti eins og fiskflak, kartöflupoka, hús eða pylsu með öllu.

Þekktir sérfræðingar hafa sagt að grunnvandi peningakerfis heimsins sé vextir á peninga og veldisvöxtur vaxta sem fjármálakerfi heimsins hafi lifað á. Gallinn liggi í því að á bakvið vexti á fjármagn séu engin raunverðmæti. Því þurfi  reglulega að leiðrétta kerfið með færslu á raunverðmætum frá almenningi, sem feli í sér stórfellda eignaupptöku. Þannig fái þeir sem standa hæst í píramídanum og eiga mikla peninga og innheimta vexti af þeim, upp í hendur stóraukin raunverðmæti við hverja kollsteypu kerfisins. Með orðum, orðum þeir ríku verða ríkari á kostnað fjöldans.

Lögin eru alveg skýr

En víkjum aftur að máli Hagsmunasamtaka heimilanna sem nú er fyrir Hæstarétti Íslands og  spjallinu við Guðmundur Ásgeirsson.

- Eru lögin ekki kristaltær og hvers vegna hafa þau þá verið túlkuð eftir hagsmunum banka og fjármálastofnana en ekki lántaka?

„Okkur þykir lögin alveg skýr hvað þetta varðar, en lánveitendur hafa haldið öðru fram, og eins og búast má við viljað túlka lögin sér í hag,“ segir Guðmundur.

Varðandi það hvernig lánveitendur hafa túlkað lögin sér í hag, þá er þar eiginlega um að skýringu á tveimur orðum í lagatextanum. Orðalagið sem um ræðir fjallar um þær forsendur sem miða skal við þegar greiðsluáætlun er reiknuð út, þ.e. orðalagið „óbreytt verðlag".

Lánveitendur halda því fram að það þýði að miða eigi við 0% verðbólgu. Sú túlkun er hinsvegar í algjöru ósamræmi við raunveruleikann. Eins og við vitum er verðbólga aldrei 0% á Íslandi, en við teljum að miða hafi átt við óbreytta þá verðbólgu sem raunverulega var við lýði.

Þannig að ef verðbólgan var 2% þegar lánið var tekið þá hefði greiðsluáætlunin átt að sýna kostnað sem endurspeglar það.“

Ólögmætið viðurkennt af Neytendastofu og EFTA-dómstólnum

„Þú spyrð hvers vegna lögin hafi þá verið túlkuð eftir hagsmunum banka og fjármálastofnana. Það hafa reyndar ekki allir túlkað þau þannig. Fyrir liggja úrskurðir frá Neytendastofu og áfrýjunarnefnd neytendamála, og dómur EFTA-dómstólsins, þar sem er fallist á ólögmætið! Meira að segja í héraðsdómi í þessu tiltekna máli var fallist á að brotið hefði verið gegn lögum um neytendalán eins og við héldum fram. Hinsvegar virðast héraðsdómarar ekki hafa treyst sér til að dæma um afleiðingar brotsins, og kannski viljað eftirláta Hæstarétti það.“

Mögulega þyrfti að endurútreikna lán 14 ár aftur í tímann

-Hvaða áhrif hefur það á lán fólks ef Hæstiréttur dæmir hagsmunasamtökunum í vil og hvað er mögulegt að afturvirkur endurútreikningur nái langt?

„Varðandi tímabilið sem um ræðir, þá hafa lögin um neytendalán gilt um húsnæðislán allt frá lagabreytingu sem tók gildi 11. janúar 2001. Falli dómur neytendum í hag gæti hann því mögulega haft áhrif fyrir öll lán sem voru tekin eftir 11. janúar 2001. Endurútreikningurinn sem gerð er krafa um fer eftir sömu aðferð og dæmd hefur verið um gengistryggðu lánin.

Áhrif slíkrar niðurstöðu yrðu auðvitað mismunandi fyrir hvert og eitt lán eftir því hvenær það var tekið og til hversu langs tíma o.s.frv.

Til einföldunar má þó benda á að um helmingur húsnæðisskulda landsmanna samanstendur af áföllnum verðbótum eða a.m.k. 600 milljarðar kr. Það skal tekið fram að sú tala er að okkar mati lágmark, enda eru ekki inni í henni öll þau lán sem búið er að greiða upp eða endurfjármagna.“

-Eru bankar ekki búnir að gera ráð fyrir að tapa þessu máli í sínum efnahagsreikningi?

„Allar staðreyndir um það eru kirfilega varðveitt leyndarmál sem þess er vandlega gætt að við fáum engar upplýsingar um. Við vitum þó að þegar lánasöfnin voru flutt frá gömlu bönkunum til þeirra nýju þá voru þau verðmetin á hálfvirði. Það svarar hér um bil til áfallinna verðbóta eins og áður sagði, og við teljum því að svigrúm sé til fyrir þessu.

Einnig má benda á að frá hruni er uppsafnaður hagnaður nýju bankanna næstum 450 milljarðar króna. Sú fjárhæð liggur að mestu leyti óráðstöfuð inni á hagnaðarreikningum bankanna.“

-Ef Hæstiréttur kemst að neikvæðri niðurstöðu, verður á haldið áfram með málið og þá hvar?

„Komist Hæstiréttur að neikvæðri niðurstöðu, munum við að sjálfsögðu skoða hver verði næstu skref í málarekstrinum.

Það er varla tímabært að vera með miklar ágiskanir um hver þau gætu orðið, það fer eftir því hvernig verður dæmt. Endanlegar bætur mun þó alltaf þurfa að sækja fyrir innlendum dómstólum þ.e. héraðsdómi og svo Hæstarétti,“ sagði Guðmundur Ásgeirsson.

Hæstaréttardómurinn verður sögulegur

Vilhjálmur Bjarnason, „ekki fjárfestir“ og formaður Hagsmunsamtaka heimilanna segir að samtökin hafi frá upphafi unnið fyrir öll heimili í landinu, þar með talin sveitaheimili. „Einnig leiguheimili því það er í raun allt verðtryggt, allt frá lambalærinu til leigunnar og með því að ná verðtryggingunni af lánum heimilanna þá t.d. hættir leigan að vera verðtryggð og lambalærið líka.“

Hann þekkir vel til fasteignamarkaðarins, enda hafði hann áður starfað sem fasteignasali í 23 ár.

Segir bankana eiga fyrir þessu á varúðarreikningi

Varðandi spurninguna um  hvort bankar séu búnir að gera ráð fyrir að tapa þessu máli í sínum efnahagsreikningi bætir Vilhjálmur eftirfarandi við svar Guðmundar:

„Bankarnir hafa þær upphæðir sem um getur verið að ræða í dómsmálinu sem við erum með fyrir Hæstarétti inn á svokölluðum varúðarreikningum sem enginn fær að sjá eða heyra af og þeir þurfa ekki einu sinni að gefa upp hagnaðinn af þessum upphæðum sem skipta hundruðum milljarða að mínu mati og komast upp með það.

Þessu til skýringar segi ég oft meðfylgjandi sögu. Ef þú átt tryggingafélag og það strandar skip þá þarf tryggingarfélagið að leggja inn á varúðarreikning segjum 1 milljarð fyrir skipinu, 1 milljarð fyrir áhöfninni, 1 milljarð fyrir farminum og 1 milljarð fyrir umhverfisspjöllum.

Þessa peninga má ekki nota eða telja fram á meðan þeir eru inn á þessum varúðarreikningum og það sama á við ef fjármálafyrirtæki verða fyrir lögsóknum.“ 

Þetta verða söguleg endalok málsins

Í þættinum Afsal sem Rakel Sveinsdóttir stýrði á  sjónvarpstöðinni Hringbraut á dögunum sagði Vilhjálmur að málið væri nú búið að velkjast í kerfinu frá síðari hluta árs 2012. Það sé búið að taka mun lengri tíma en gert hafi verið ráð fyrir.

„Þetta verða söguleg endalok á þessu máli, hvort sem Hæstiréttur þorir að dæma þetta ólöglegt eða hvort við þurfum að fara til Evrópu með þetta,“ sagði Vilhjálmur.

Hann sagði að svo virtist sem búið væri að undirbúa dómskerfið á þann veg að það fari allt til fjandans á Íslandi ef dæmt þannig að verðtryggingin sé ólögleg. Þar sé þetta lagt þannig út að hagkerfið hrynji og Ísland færist aftur á miðaldir.

„Það er bara einu sinni þannig að Hæstiréttur og aðrir dómstólar á Íslandi eiga að fara eftir lögunum. Lögin eru mjög skýr. Verðtryggingin lána heimilanna var ekki kynnt löglega fyrir almenningi þegar þetta var gert. Lögin segja bara að þá beri að taka það út úr lánasamningum. Lánin haldi sér að öðru leyti með þeim vöxtum sem á þeim voru en verðtryggingin fellur út. Þá þarf að leiðrétta þetta aftur til 11. janúar 2001.“

Vilhjálmur sagði í viðtalinu að áhrifin yrðu veruleg ef málið yrði dæmt HH í vil.

„Ég held að áhrifin verði stórkostleg. Í fyrsta lagi færi verðtryggingin af til fortíðar. Í öðru lagi þýddi það að þessi sömu lán yrðu verðtryggingarlaus til framtíðar, sem í raunþýddi það að það þyrfti loks að fara að stjórna þessu hagkerfi okkar af alvöru.“

Sagði hann að á meðan lán heimilanna væru verðtryggð hefðu fjármálastofnanir, fjárfestar og ríkið engan hag af því að halda verðbólgunni í skefjum. Í raun hefðu þessir aðilar beinan hag af því að verðbólgan sé há.

Öfugsnúið kerfi á Íslandi miðað við önnur lönd

Vísaði hann í stöðuna á Norðurlöndum og víðar þar sem verðtrygging ríkti á milli fagfjárfesta og síðan á milli fagfjárfesta og ríkisins. Það væri gert til að halda verðbólgu í skefjum.

„Hjá okkur er þetta öfugt. Ríkið er jafnvel farið að fjármagna sig á óverðtryggðum lánum og var að stæra sig af því um daginn að það hafi grætt 35 milljarða á slíku.

Einhver borgaði þó þessa 35 milljarða, þannig að gróði eins er alltaf tap annars. Þessu er velt yfir á almenning sem hefur þau áhrif að ráðandi öfl á markaði hafa ekki hag af því að halda verðbólgunni í skefjum. Almenningur ræður engu um þetta, hann bara borgar.

Þetta er stóra myndin og þess vegna förum við gegn verðtryggingunni.“

Munum aldrei gefast upp

Vilhjálmur sagði í samtali við Bændablaðið að Hagmunasamtökin myndu aldrei gefast upp þó málið tapaðist í Hæstarétti.

„Eins og ég hef margoft sagt þá gefumst við aldrei upp, aldrei. Ef Hæstiréttur þorir ekki að dæma eftir íslenskum lögum þá förum við um leið með málið til allra þeirra erlendu dómstóla sem hægt er, nærtækast er EFTA dómstóllinn, svo hefur verið minnst á mannréttindadómstólinn og jafnvel að kalla eftir áliti sérstakrar nefndar eða ráðs innan Sameinuðu þjóðanna.“

Hæstiréttur gæti mögulega flutt ábyrgðina frá bönkum yfir á ríkið

„Ef Hæstiréttur þorir ekki að dæma eftir íslensku lögunum og við þurfum að fá dóminn erlendis. Þá verður að Hæstiréttur búinn að gera íslenska ríkið, þ.e.a.s. okkur sjálf ábyrg fyrir leiðréttingu lánanna. Við höfum einmitt barist allan tímann fyrir því að það gerist ekki,“ sagði Vilhjálmur.

Hvað er að gerast akkúrat núna þessa dagana, verið er að semja við slitastjórnirnar, eða fá þær til að samþykkja stöðuleikaskilyrðin og hvers vegna heldur þú að það sé gert akkúrat núna?

Þó aðeins sé innan við mánuður í dóminn þá er verið að nota líkindareikning um það á hvern veginn dómurinn fellur inn í uppgjörinu á milli bankanna og í stöðuleikaskilyrðunum sem er fáránlegt miðað við það sem undir liggur.

Sagan segir okkur að íslenska ríkið hefur nú ekki verið duglegt að semja á þann veg að almenningur hafi hag af þeim samningum.“

Setur búsetuna á Íslandi að veði

Vilhjálmur segist sakna þess að forystumenn ríkisstjórnarinnar hafi ekki viljað ræða við Hagsmunasamtökin um málið sem nú er fyrir Hæstarétti. Hann segist telja að ein af skýringum áframhaldandi fólksflótta úr landi svo löngu eftir hrun sé að fólk sé búið að gefast upp á að bíða eftir að fjármálakerfið verði lagfært hvað verðtrygginguna varðar. Þetta fólk vilji ekki bjóða börnunum sínum upp á það að hér neyðist menn áfram til að taka verðtryggð lán.

„Ég og konan eigum sex börn. Ég ætla ekki að láta bjóða mínum börnum upp á verðtryggð lán. Ef mér tekst ekki að laga þessa verðtryggingu, þá ætla ég ekki að búa á þessu landi,“ sagði Vilhjálmur í viðtalinu á Hringbraut. Segir hann að með flótta úr landi sé framtíðin í raun að flýja fortíðina.

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins
Fréttir 19. apríl 2024

Fyrsti umplöntunarróbóti landsins

Í maí í fyrra var settur upp umplöntunarróbóti á gróðrarstöðinni Sólskógum í Kja...

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum
Fréttir 19. apríl 2024

Ólöglegur frágangur á dýrahræjum

Opinn gámur, yfirfullur af dýrahræjum, stóð á dögunum á steyptu bílastæði við in...

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni
Fréttir 18. apríl 2024

Verslunarrekstur í dreifbýli er samfélagsverkefni

Vegamót á Bíldudal er matvöruverslun og veitingastaður. Gísli Ægir Ágústsson, ve...

„Allt of fáar messur“
Fréttir 18. apríl 2024

„Allt of fáar messur“

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson, sem er á sautjánda aldursári, hefur vakið athygli fyr...