Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Flugvél frá Air Iceland Connect lent á Keflavíkurflugvelli með rúmlega fjögur þúsund hænuunga frá Danmörku.
Flugvél frá Air Iceland Connect lent á Keflavíkurflugvelli með rúmlega fjögur þúsund hænuunga frá Danmörku.
Mynd / ehg
Fréttir 16. febrúar 2021

Dagsgamlir ungar komu til landsins á fyrsta farrými

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Það var óneitanlega eftirminnilegt að fá innsýn í innflutning á dagsgömlum hænuungum frá Danmörku í síðustu viku sem flogið var til landsins á fyrsta farrými og mikill viðbúnaður var á Reykjavíkurflugvelli við komu þeirra til landsins. Stofnungi, sem flytur ungana inn, hefur þurft að breyta verklagsreglum í kjölfarið af COVID-19, því áður fyrr voru egg flutt inn frá Noregi en vegna sóttvarnareglna var það ekki lengur mögulegt og því þarf að flytja inn dagsgamla unga til landsins.

Hildur Traustadóttir, fram­kvæmda­stjóri Félags eggja- og kjúklinga­bænda og Stofnunga, var með í för og fylgdi ungunum til landsins frá Danmörku. Ferðin gekk að mestu leyti vel að hennar sögn, fyrir utan tafir á Kastrup-flugvelli sem komu þó ekki að sök.

Í síðustu viku voru um fjögur þúsund dagsgamlir stofnungar fluttir til landsins frá Danmörku, en hver ungi vegur ekki nema í kringum 40 grömm.

Engin frumstofnaræktun í alifuglaeldi á Íslandi

„Það er engin frumstofnaræktun í alifuglaeldi á Íslandi. Stofn­fuglar hafa verið keyptir frá Norðurlöndunum með sérstökum samningi við stofnabú sem sérhæfa sig í ræktun varpfugla og hér var um innflutning á stofnfuglum að ræða. Ferillinn hefur verið sá að kaupa frjóegg, sem fara í einangrunarstöð hér á landi. Úr þessum eggjum koma ungar sem þarf að kyngreina. Þessir ungar eru líka í einangrun þar til búið er að taka blóðsýni sem þarf að senda utan og fá það staðfest að fuglinn sé ekki með sjúkdóma sem finnast ekki hér á landi. Sýnatakan er framkvæmd þegar fuglinn er um það bil átta vikna. Ef allt er í lagi fara fuglarnir til bænda sem hafa pantað fugla og hafa til þess leyfi að rækta áfram þennan stofnfugl,“ segir Hildur.

HIldur Traustadóttir komin með kassa í hendur fullan af ungum. Vegna COVID-19 hefur Stofnungi, sem flytur ungana inn, þurft að breyta verklagsreglum, því áður fyrr voru egg flutt inn frá Noregi en vegna sóttvarnareglna var það ekki lengur mögulegt og því þarf að flytja inn dagsgamla unga til landsins. Hún segir félagið flytja inn Lohman-unga einu sinni til tvisvar á ári en betra sé að flytja inn tvisvar út af aldri fuglanna og til að dreifa áhættu.

Léttur en dýrmætur farmur

Vandamál komu upp vegna COVID-19 þar sem reglulegt flug milli landa liggur nánast niðri. Einnig er erfitt að fá starfsmenn sem koma frá Noregi til að kyn­greina fuglinn þar sem þeir þurfa að fara í sótt­kví við heimkomuna eftir að hafa starfað á Íslandi. Ákveðið var að reyna að flytja til landsins með leigu­flugi dagsgamla unga. Samið var við Air Iceland Connect um að annast þennan viðkvæma flutning.

„Á hverju ári þarf ekki nema um það bil fimm til sex þúsund fugla í frumstofni til að anna allri eggjaframleiðslu hér á landi. Í síðustu viku fór flugvél til Kaupmannahafnar til að sækja rúmlega fjögur þúsund unga en hver ungi er ekki nema um það bil 40 grömm svo farmurinn er ekki þungur. Ungarnir klöktust út á stofnabúi á Sjálandi um morguninn. Þetta er varpfuglategund sem kallast Lohmann, bæði hvítur og brúnn stofn, hanar og hænur. Áttatíu fuglar voru settir í hvern kassa og hver kassi er hólfaður niður í fjögur hólf. Ungarnir voru síðan keyrðir á Kastrup-flugvöll þar sem flugvélin beið eftir farminum. Nokkur töf varð í tollafgreiðslu þar sem ekki fékkst leyfi til að aka bílnum, sem ungarnir voru í, á flughlaðið heldur þurfti að setja alla kassana á töskuvagna og keyra þá síðan að flugvélinni. Þarna var ekki verið að hugsa um dýravelferð en kjörhiti fyrir fuglinn er 25 °C til 30 °C. Á flugvellinum var -2 °C, nokkur gola en heiðskírt. Í flugvélinni fór vel um fuglinn, hlýtt og rúmgott. Lent var á Reykjavíkurflugvelli um klukkan tæplega hálf sjö um kvöldið og vélin dregin inn í skýli, þar var kössunum raðað í bíl og keyrt var síðan í einangrunarstöð í Borgarfirði. Mjög vel hefur gengið að koma fuglinum af stað og virðist honum ekki hafa verið meint af þessu ævintýri,“ útskýrir Hildur.

Ungunum komið fyrir í bíl til flutnings í Borgarfjörð. Á hverju ári þarf ekki nema um það bil fimm til sex þúsund fugla í frumstofni til að anna allri eggja­framleiðslu hér á landi en mikill viðbúnaður er við flutning á ungunum þar sem rétt hitastig og aðbúnaður er lykilatriði.

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk
Fréttir 13. desember 2024

Matvæli fyrir níutíu milljónir evra gerð upptæk

Matvælasvindl er vaxandi vandamál í heiminum. Engin mál tengd meintum matarsviku...

Kortleggja ræktarlönd
Fréttir 13. desember 2024

Kortleggja ræktarlönd

Matvælaráðuneytið ætlar að ráðast í kortlagningu á gæðum ræktarlands á Íslandi.

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði
Fréttir 12. desember 2024

Verðhækkun á grænmeti mun fylgja hækkun á raforkuverði

Um áramót taka gildi umtalsverðar hækkanir á raforkuverði til garðyrkjubænda. Ge...

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga
Fréttir 12. desember 2024

Þáttaskil þurfi í loftslagsaðgerðum Íslendinga

Loftslagsráð segir að nú þurfi að verða þáttaskil í framkvæmd loftslagsaðgerða o...

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands
Fréttir 12. desember 2024

Framleiða ætti flestallar landbúnaðarvörur innanlands

Landsmenn vilja að landbúnaðarvörur séu framleiddar innanlands ef marka má niður...

Metinnflutningur á koltvísýringi
Fréttir 11. desember 2024

Metinnflutningur á koltvísýringi

Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa verið flutt inn til landsins um 2.600 tonn af k...

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára
Fréttir 11. desember 2024

Fjöldi stangveiddra laxa jókst nokkuð milli ára

Heildarfjöldi stangveiddra laxa árið 2024 var, skv. bráðabirgðatölum Hafrannsókn...

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki
Fréttir 11. desember 2024

Kýrnar sluppu en pyngjan ekki

Afleiðingar rafmagnsleysis í Lundarreykjadal í febrúar urðu bændum dýrkeyptar.