Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Elínborg Aðils, tók við verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar Borghildar og Ragnars Inga Bjarnasonar á Bollastöðum, Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, Kristján Oddsson, einn aðaleigandi Biobús og bóndi á Neðra Hálsi, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sem afhenti verðlaunin.
Elínborg Aðils, tók við verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar Borghildar og Ragnars Inga Bjarnasonar á Bollastöðum, Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð, Kristján Oddsson, einn aðaleigandi Biobús og bóndi á Neðra Hálsi, og Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sem afhenti verðlaunin.
Mynd / smh
Fréttir 31. mars 2022

Bollastaðir, Biobú og Karólína hlutu Landbúnaðarverðlaunin 2022

Höfundur: smh

Landbúnaðarverðlaunin 2022 voru veitt á setningarathöfn Búnaðarþings núna rétt fyrir hádegi. Verðlaunahafar að þessu sinni eru sauðfjárbændurnir á Bollastöðum í Blöndudal, lífrænt vottaða mjólkurvinnslan Biobú í Reykjavík og Karólína Elísabetardóttir, sauðfjárbóndi í Hvammshlíð í Skagabyggð.

Það er matvælaráðuneytið sem hefur umsjón með Landbúnaðarverðlaununum, en verðlaunagripirnir eru hannaðir af vöruhönnuðinum Ólínu Rögnudóttur fyrir íslenska hönnunarmerkið FÓLK.

Minna kolefnisspor og hagræðing í búrekstri

Bændurnir á Bollastöðum, Borghildur Aðils og Ragnar Ingi Bjarnason, eru þátttakendur í verkefninu Loftslagsvænn landbúnaður og hafa í gegnum það verkefni innleitt aðgerðir sem munu minnka kolefnissporið en á sama tíma auka framleiðni og hagræðingu í búrekstrinum. Í aðgerðaráætlun Bollastaða í loftslagsmálum fyrir árin 2020 til 2025 eru metnaðarfullar og raunhæfar aðgerðir sem draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Ber þar helst að nefna minni notkun tilbúins áburðar með betri nýtingu búfjáráburðar, belgjurtaræktun og nákvæmnisdreifingu. Einnig er markmið þeirra að draga úr iðragerjun með aukinni framleiðslu á hvern grip og draga saman í olíunotkun með hagræðingu í notkun véla. Bollastaðir eru einnig  í kolefnisbindingu með landgræðslu, leggja áherslu á sjálfbæra landnotkun, ræktun hagaskóga og skjólbelta ásamt því að meta möguleika til nytjaskógræktar.

Biobú hefur dregið vagninn

Biobú hefur sérhæft sig til vinnslu á lífrænum mjólkurafurðum, en en það var stofnað í júlí 2002 og hóf sölu á lífrænni jógúrt 3. júní 2003.

Fyrirtækið hefur sérhæft sig í vinnslu á lífrænt vottuðum mjólkurafurðum og stefnir á framleiðslu á lífrænt vottuðu nautakjöti. Stofnendur og aðaleigendur fyrirtækisins eru hjónin Dóra Ruf og Kristján Oddsson, en þau stunda lífræna mjólkurframleiðslu að Neðra Hálsi í Kjós.

Biobú hefur dregið vagninn á lífræna mjólkurmarkaðnum hér á landi allt frá stofnun þess og er eina mjólkurvinnslan á Íslandi sem vinnur úr lífrænt vottaðri mjólk.

Öll mjólk frá Neðra Hálsi – og auk þess mjólk frá Búlandi og að hluta frá Eyði sandvík og Skaftholti – fer til vinnslu hjá Biobú sem er til húsa að Gylfaflöt í Grafarvogi, þar sem eingöngu er unnið úr lífrænni mjólk. Nú stefnir í að allt að 800 þúsund lítrar af lífrænum mjólkurvörum fari út á markaðinn á næstu misserum.

Á síðasta ári fór Biobú einnig að þreifa fyrir sér með sölu á lífrænu nautakjöti.

Útrýming á riðu í gegnum ræktunarstarf

Að frumkvæði Karólínu Elísabetardóttur, sauðfjárbónda í Hvammshlíð í Skagabyggð, var síðastliðið vor hafin leit í erlendum rannsóknum sem gætu sýnt fram á lausnir gegn riðuveiki. Í kjölfarið var farið af stað með tvö rannsóknarverkefni sem höfðu það meginmarkmið að leita að verndandi arfgerðum gegn riðu í íslensku sauðfé. Annarsvegar voru það sérfræðingar á Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræðum að Keldum og hinsvegar sauðfjárbóndinn Karólína, ásamt erlendum vísindamönnum sem stóðu fyrir rannsóknunum. Þessi rannsóknaverkefni hlutu bæði styrk úr Þróunarsjóði sauðfjárræktarinnar sem er í umsjá matvælaráðuneytisins.

Karólína komst á snoðir um rannsóknarskýrslur frá Ítalíu sem sýndu fram á að tvær arfgerðir í viðbót, við ARR-arfgerðina sem er alþjóðlega viðurkennd, kynnu að vera verndandi. Önnur þeirra hét T137.

Í gegnum verkefnin hafa nú fundist tíu gripir með arfgerðina T137 og níu með ARR-arfgerðina sem eru mjög mikilvæg tíðindi fyrir íslenska sauðfjárrækt og baráttuna við riðuveiki sem gefur góða von um að það verði hægt að útrýma sjúkdómnum í náinni framtíð í gegnum ræktunarstarfið.

Verðlaunagripirnir sem verðlaunahafarnir fá eru gerðir í takmörkuðu upplagi, en í þá eru notaðar steintegundir úr íslenskri náttúru og nærumhverfi; gabbró frá Öræfum, líparít úr Hamarsfirði og blágrýti úr Hrunamannahreppi sem fá að njóta sín í fallegu samspili lita og forma.

Sumarkomunni fagnað
Fréttir 25. apríl 2024

Sumarkomunni fagnað

Að venju verður opið hús í Garðyrkjuskólanum á Reykjum á sumardaginn fyrsta, fim...

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd
Fréttir 24. apríl 2024

Burðarhjálp: Leiðbeiningarmyndbönd

Síðan 2019 geta bændur og aðstoðarfólk notað fjölda leiðbeiningarmyndbanda, sem ...

Afurðamestu sauðfjárbúin
Fréttir 24. apríl 2024

Afurðamestu sauðfjárbúin

Í niðurstöðum skýrsluhalds í sauðfjárrækt fyrir síðasta ár, sem eru birtar hér í...

SS segir of flókið að upprunamerkja
Fréttir 24. apríl 2024

SS segir of flókið að upprunamerkja

Sláturfélag Suðurlands (SS) sér ekki hag í að upprunamerkja svínakjöt frá Korngr...

Hraðhlaðið við Galdrasafnið
Fréttir 23. apríl 2024

Hraðhlaðið við Galdrasafnið

Orkubú Vestfjarða hefur sett upp nýja 400 kW hraðhleðslustöð við Galdrasafnið á ...

Hámarksmagn minnkað í matvælum
Fréttir 23. apríl 2024

Hámarksmagn minnkað í matvælum

Innan skamms taka gildi breytingar á reglugerð þar sem leyfilegt hámarksmagn nít...

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland
Fréttir 22. apríl 2024

Greiða götu viðskiptasambanda við Indland

Bæði þjónustu- og vöruviðskipti við Indland munu að öllum líkindum aukast á næst...

Jarðræktarmiðstöðin rís
Fréttir 22. apríl 2024

Jarðræktarmiðstöðin rís

Jarðræktarmiðstöð Landbúnaðarháskóla Íslands mun verða tilbúin árið 2027 gangi á...