Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Afskorin blóm eins og hátíðarliljur eru falleg og gleðja bæði hjartað og andann, eða eins og Guðmundur Daníelsson rithöfundur sagði: „Blóm eru andleg munaðarvara eins og til dæmis skáldlistin, gagnlaus þeim sem sneyddir eru fagurskyni og hæfileikum til hu
Afskorin blóm eins og hátíðarliljur eru falleg og gleðja bæði hjartað og andann, eða eins og Guðmundur Daníelsson rithöfundur sagði: „Blóm eru andleg munaðarvara eins og til dæmis skáldlistin, gagnlaus þeim sem sneyddir eru fagurskyni og hæfileikum til hu
Á faglegum nótum 11. apríl 2019

Blóm eru andleg munaðarvara

Höfundur: Vilmundur Hansen

Afskorin blóm eins og hátíðarliljur eru falleg og gleðja bæði hjartað og andann, eða eins og Guðmundur Daníelsson rithöfundur sagði: „Blóm eru andleg munaðarvara eins og til dæmis skáldlistin, gagnlaus þeim sem sneyddir eru fagurskyni og hæfileikum til hughrifa, grænmeti og garðávextir eru hins vegar átmeti. Hvorugt má vanta.“

Erfitt er að átta sig á fjölda þeirra hátíðarlilja, eins og páska- og hvítasunnuliljur eru stundum kallaðar, sem ræktaðar eru í heiminum enda eru þær ræktaðar bæði í einkagörðum og sem afskorin blóm í garðyrkjustöðvum. Stærstu framleiðendur afskorinna blóma í heiminum eru Kína, Indland og Bandaríki Norður-Ameríku og stærsti inn- og útflytjandi þeirra er Holland. Bretar eru einkar hrifnir af hátíðarliljum og áætlað að þeir rækti þær til afskurða á um 4400 hekturum lands. Verslun með lauka hátíðarlilja er einnig mikil og hér á landi eru þeir settir niður á haustin.

Hátíðarlilja í blóma.

Samkvæmt upplýsingum á vef Hagstofu Íslands voru flutt inn rúm 6,2 tonn af páskaliljulaukum í dvala og 128 kíló af páskaliljulaukum í vexti árið 2018. Ekkert er flutt inn af afskornum páskaliljum í blóma og Íslendingar sjálfum sér nógir hvað þær varðar.

Gísli Jóhannsson hjá Dalsgarði í Mosfellsdal er stærsti framleiðandi afskorinna páskalilja hér á landi og framleiðir að eigin sögn 70 þúsund stykki á ári. Að sögn Þorvaldar Snorrasonar, garðyrkjubónda í Flóru, framleiðir hann um 15 þúsund afskornar pákaliljur árlega. Auk þess sem nokkrir garðyrkjubændur rækta þær í minna mæli og má því ætla að árlega séu ræktaðar um 100 þúsund afskornar páskaliljur hér á landi.

Áætluð framleiðsla hér á landi af smáum hátíðarliljum í pottum, eða 'Tete-á-Tete' eins og þær kallast, er um 25.000 stykki á ári.

Ættkvíslin Narcissus

Upprunaleg útbreiðsla lauka af ættkvíslinni Narcissus er í Suður-Evrópu og norðanverðri Afríku. Grasafræðingar eru ekki á sama máli um fjölda tegunda innan ættkvíslarinnar. Tegundafjöldi hefur verið sagður á bilinu 6 til 160. Í dag segja sumir tegundirnar um 60 og að helmingur þeirra séu náttúrulegir blendingar en aðrir vilja ekki telja blendingana til tegunda og segja þá undirtegundir og tegundirnar því í kringum 30.

Allar tegundir ættkvíslarinnar eru fjölærar og vaxa upp af laukum sem myndast á fyrsta ári eftir að plantan hefur vaxið upp af fræi. Laukurinn sem ofanjarðarhlutinn vex af er ljósbrúnn og túrban eða egglaga með áberandi hálsi sem blöðin vaxa upp af. Hver laukur skiptist í lög sem vaxa innan frá og fjölgar lögunum með auknum vexti og aldri, ystu lögin þurrt skæni en þau innri safarík og mjúk.

Laukur hátíðarlilju.

Blöðin safarík, ljós- eða blágræn, 5 til 80 sentímetrar að lengd eftir tegundum, flöt eða ávöl, heilrennd og með sljóum oddi. Blómstöngullinn sem er holur getur verið kantaður eða ávalur og vex upp í miðju blaðanna. Hann ber eitt til tuttugu blóm eftir tegundum sem eru hvít eða gul og einstaka sinnum græn. Blómin eru þrískipt, yst eru sex krónu- eða hlífðarblöð sem mynda stjörnu, næst er eins konar bjalla sem umlykur frævuna og sex frævla. Blómin annaðhvort uppreist eða drjúpandi og sjá skordýr um frjóvgun þeirra. Eftir frjóvgun myndast þrískiptur fræbelgur og í honum fjöldi svartra fræja sem eru eins og stór sandkorn að stærð. Fræbelgurinn þornar og rifnar þegar fræin hafa náð fullum þroska.

Að lokinni fræmyndun safna blöðin forða í laukinn og sölna að því loknu. Neðan á lauknum vaxa fremur stuttar en gildar rætur sem draga hann aðeins dýpra ofan í jörðina á haustin um það leyti sem laukurinn fer í vetrardvala fram að næsta vori. Eins og blöðin visna ræturnar fyrir veturinn. Við góð skilyrði mynda laukarnir hliðarlauka og eru einstakir laukar fremur langlífir.

Narcissus poeticus – Skáldalilja

Þau blóm sem við þekkjum sem páskaliljur í dag þekkjast ekki villtar í náttúrunni og eru að öllum líkindum afkomandi Narcissus poeticus, eða skáldalilju á latínu, en hátíðarliljurnar N. tazetta og N. jonquilla koma einnig til greina sem forverar þeirra.

Villtar skáldaliljur eru milli 20 og 40 sentímetrar að hæð og bera ilmsterk hvít blóm og gulleita bjöllu með rauðum jöðrum. Plantan er upprunnin í Mið- og Suðaustur-Evrópu frá Spáni allt til Úkraínu.

Ólíkar blómgerðir hátíðarlilja.

Ræktaðar hátíðarliljur skiptast í fjölda undirtegunda og ræktunarafbrigði og yrki N. poeticus skipta þúsundum og 2018 höfðu 28.000 hlotið nafn en greining milli þeirra er vandasöm og ekki á færi nema sérfræðinga og jafnvel þekkingar í erfðafræði. Mismunandi yrki og afbrigði eru ólík að hæð, stærð, lit og lögun blóma. Ólík afbrigði og yrki eru ræktuð til afskurðar eða sem laukar sem seldir eru til áframræktunar í görðum og við þekkjum sem haustlauka.

Bretar hafa lengi verið duglegir að frjóvga saman N. poeticus og N. pseudonarcissus sem vex villt á Bretlandseyjum og þannig ná fram fjölbreyttu úrvali afbrigða og yrkja. Sumir áhugasamir ræktunarmenn segja að ýmis gömul yrki séu öllum blómum fallegri.

Gular páskaliljur eru mikið seldar sem afskorin blóm á vorin og í margra huga tákn vorsins og páskanna.

Uppruni og saga

Talið er að forverar ættkvíslarinnar Narcissus hafi fyrst komið fram á Íberíuskaga fyrir 18 til 30 milljónum ára og snemma á þróunarferlinum skipst í ýmsar tegundir samhliða því að plönturnar breiddust út norðan og sunnan Miðjarðarhafsins.

Narcissus fellur fyrir eigin spegilmynd. Málverk eftir Alexey Chizhov, 2011.

Elsta skráða heimild um skáldalilju er í grasafræðiriti Grikkjans Theophrasusar sem var uppi á annarri og þriðju öld fyrir Krist. Rómverska skáldið Virgil nefnir einnig skáldalilju í fimmta Hjarðkvæði sínu sem var samið í sexliðahætti um 40 fyrir Krist. Gríski læknirinn, grasa- og lyfjafræðingurinn, Dioscorides, sem uppi var á þriðju og annarri öld fyrir Krist talar um skáldaliljur í grasafræði sinni.

Í einni útgáfu grískra goðsagna um hetjuna Narkissos refsaði hefndargyðjan Nemisis hetjunni með því að breyta Narkissos í blómið sem við þekkjum sem skáldalilju í dag. Í annarri útgáfu segir að fegurð Narkissosar hafi verið slík að hann hafi orðið ástfanginn að eigin spegilmynd þar sem hann sat við lækjarbakka og horfði í vatnið og við það breyst í skáldalilju. Með tímanum hefur heiti Narkissosar orðið samnefnari yfir sjálfsást og fólk sem hugsar um eigin hag umfram allt annað.

Ilmur skáldaliljunnar er samkvæmt goðsögnum tengdur gyðjunni Persefón og fylgjendum hennar og því að undirheimaguðinn Haden hafi rænt henni og flutt til heljar. Á öðrum stað segir að Jörðin hafi skapað skáldaliljuna að beiðni Seifs til að gleðja Hades þar sem hann tók við svo mörgum til undirheima eftir andlátið. Mun sá siður sem víða þekkist erlendis að planta hátíðarliljum á grafir tengjast þeim goðsögum.
Ramses II Egyptalandsfaraó var lagður til í steinkistu sína með hátíðarlauka í augntóftunum.

Í kristnum helgimyndum tákna hátíðarliljur aftur á móti sigur kærleikans og framhaldslífs yfir dauðanum, egóinu og syndinni.

Það var Rómverjinn Pliny eldri, uppi á fyrstu öld eftir Krist, sem fyrstur kallar plöntuna latneska heitinu Narcissus í náttúrufræði sinni.

Miðalda rithöfundurinn Albert Magnus segir, af óþekktri ástæðu, skáldalilju minna í útliti á púrrulauk í De Vegetabilibus et Plantis frá þrettándu öld og endurreisnarmaðurinn William Turner segir frá lækningamætti þeirra í A New Herbal frá 1551. Svíinn Carl Linnaeus lýsir skáldalilju í bók sinni Species Plantarum sem kom út 1753 og heldur sig við heitið Narcissus og þar festist heitið endanlega við ættkvíslina.

Plantan hefur lengi verið í ræktun bæði sem skrautblóm og sem lækningajurt. Til eru heimildir sem greina frá landnámi bæði villtra og ræktaðra hátíðarlilja í Austurlöndum fjær á tíundu öld og hefur því verslun með þær hafist snemma.

Vincent van Gogh. 1890. Tvær fígúrur í undirgróðri. Olía á striga 50x100 sentímetrar. 

Sagan segir að breski lávarðurinn Geoffrey de Fynderne hafi borið með sér fyrstu lauka skáldalilju til þorpsins Findern á Bretlandseyjum eftir krossferð sína til landsins helga skömmu fyrir 1100. Laukarnir sem Fynderne hafði með sér döfnuðu og hafa gert sig heimakomna kringum þorpið og dafna þar vel enn í dag. Talið er að laukarnir hafi borist til Nýja heimsins seint á átjándu öld í farangri nýbúa frá Evrópu.

Heimildir sýna að ræktun á hátíðarliljum nær langt aftur í aldir en vinsældir þeirra uxu mikið í Evrópu á sautjándu öld og hafa haldist allt til dagsins í dag. Sem dæmi um vinsældir hátíðarlilja í Evrópu snemma á átjándu öld þá bauð hollenskur pöntunarlisti til sölu 50 mismunandi laukaafbrigði.

Nafnaspeki

Latneska ættkvíslarheitið Narcissus er að líkindum dregið af gríska orðinu narkad sem þýðir að deyfa eða svæfa og vísar til ilms blómsins. Tegundarheitið poeticus þýðir aftur á móti skáld eða skáldmæltur.

Á ensku þekkjast heitin daffadown dilly, daffydowndilly, daffodil, pheasant's-eye daffodil, poet's narcissus og lent lily eða föstulilja. Á frönsku nefnist plantan claudinette, narcisse, narcisse poetes og 'oeil de faisan. Þjóðverjar kalla plöntuna weiße Narzisse, Ítalir og Spánverjar kalla hana narciso auk þess sem heitin narciso blanco og trompon þekkjast á Spáni og Svíar kalla hátíðarliljur pingstlilja.

Heitin páska- og hvítasunnulilja á íslensku tengjast að öllum líkindum blómgunartíma plantnanna og heitið hátíðarlilja er samheiti yfir margar tegundir. Til að rétt sé rétt kalla sumir N. poeticus páskalilju á íslensku en N. pseudonarcissus hvítasunnulilju.

Lilju-endingin í íslenska heitinu gæti átt rætur að rekja til þess að í eina tíð töldust tegundir innan ættkvíslarinnar Narcissus til ættkvíslarinnar Lilium eða sem liljur.

Verndun

Þrátt fyrir miklar vinsældir ræktaðra hátíðarlilja eiga villtar hátíðarliljur víða undir högg að sækja í náttúrulegum heimkynnum sínum og sumar á mörkum þess að deyja út sem villtar tegundir. Ástæður þessa eru meðal annars útþensla borga og ásælni safnara í sjaldgæfa Narcissussa. Í dag eru fimm tegundir hátíðarlilja á lista International Union for Conservation of Nature yfir plöntur sem eru taldar í útrýmingarhættu eða IUCN Red List. Það eru N. alcaracensis, N. bujei, N. longispathus, N. nevadensis og N. radinganorum.

Nytjar og tákn

Auk þess að vera einstakt augna­konfekt og andleg munaðar­vara eru framleiddar ilmolíur úr hátíðarliljum og er angan þeirra sá algengasti sem notaður er í alls kyns tælandi vellyktandi og ilmvötn.

Hátíðarliljur hafa frá ómunatíð verið notaðar í lækningaskyni. Í seinni tíð hefur verið unnið úr þeim efni sem kallast galantamine og er notað í baráttunni við Alzheimer. Þær eru víða um heim tákn um baráttuna gegn krabbameini.

Í Kóreu eru efni sem unnin eru úr hátíðarlilju notuð í augndropa við sprungnum augnæðum, þvagfæravandamálum og tíðateppu.

Ummyndun Narcissuar. Salvardor Dali, 1937.

Hátíðarliljur eru þjóðartákn Wales en á Írlandi var um tíma bannað að bera páskaliljur í hnappagatinu á páskasunnudag þar sem þær voru sagðar tákn um uppreisnina í Dublin 1916.

Liljurnar, sem stundum eru nefndar í Biblíunni, eins og til dæmis í Síraksbók 50:9 „Hann var sem útsprungin rós á vordegi, liljur við lindaruppsprettu, skrúð Líbanonsskóga á sumardögum“ og í 6:2 í Ljóðaljóðunum, „Elskhugi minn er farinn niður í garð að sinna ilmjurtareitunum, til leiks í görðunum, að tína liljur“, eru af grasafræðingum taldar geta verið annaðhvort eða bæði N. poeticus og N. tazetta.

Hátíðarliljur eru gríðarlega vinsælar í íslamskri garðlist og blómið sagt minna á auga. Spámaðurinn Múhameð á að hafa sagt að ef menn ættu tvö brauð ættu þeir að selja annað og kaupa sér hátíðarlilju í staðinn. „Brauðið mettar magann en blómið sálina.“

Goðsögnin um Narkissos hefur víða komið fram sem viðfang í myndlist og bókmenntum. Ítalinn Caravaggio sem uppi var á 16. öld málaði fræga mynd af Narkissos þar sem hann dáist að eigin spegilmynd og Salvador Dali málaði sína sýn á goðsögnina 1937. Narkissosar-mótífið er einnig greinilegt í bókinni Myndin af Dorian Gray eftir Oscar Wilde.

Allar tegundir af ættkvíslinni Narcissus eru eitraðar og ekki ætlaðar til átu, auk þess sem margir hafa ofnæmi fyrir þeim.

Ræktun

Best er að setja hátíðarliljulauka niður á haustin í lok september eða byrjun október eða áður en jörð frýs. Laukunum líður best séu þeir hafðir nokkrir saman í hnapp og auk þess er fallegra að þeir standi nokkrir saman eftir að þeir koma upp í stað þess að standa einn og einn á stangli. Laukunum líður best í næringarríkri og eilítið sandblendinni mold með pH 6.5 til 7.0. Einföld þumalfingursregla segir að setja skuli laukana niður sem nemur tvö- til þrefaldri hæð þeirra, og heldur dýpra í lausum jarðvegi. Yfirleit blómstra laukarnir í lok maí og verða 40 til 50 sentímetra háir.

Hátíðarliljuakur í Hollandi.

'Tete-á-Tete' eru smáar hátíðarliljur sem mikið er selt af í pottum um páskaleytið. Eftir blómgun má gróðursetja plöntuna eins og hún kemur fyrir í pottinum úti í garðinum og þar kemur hún upp og blómgast á hverju vori eftir það.

Hátíðarliljur á Íslandi

Um miðjan fyrsta áratug síðustu aldar og árin þar á eftir má sjá auglýsingu í íslenskum blöðum þar sem boðnar eru til sölu páskaliljur. Það er þó ekki fyrr en með tilkomu sérhæfðra blómaverslana að einhver festa kemst í sölu afskorinna blóma hér á landi. Í bókinni Hallir gróðurs háar risa – Saga ylræktar á Íslandi eftir Harald Sigurðsson segir að stríðsárin hafi verið blómlegt tímabil í rekstri blómabúða í Reykjavík.

„Öll blóm sem berast í búðirnar seljast upp en framleiðslan er ekki ýkja mikil á þessum árum. Herliðið í bænum kaupir að sjálfsögðu mikið af blómum handa stelpunum. Jóhanna Zoëga sem rekur Litlu blómabúðina í Bankastræti á þessum árum fer ekki varhluta af góðri sölu. Sagt er að Jóhanna hafi engan peningakassa en setji peningana þess í stað í poka og af því að salan er svo góð virðist alltaf vera nóg af peningum í pokanum.“

Hjónin Þórður Þorsteinsson, fyrrum hreppstjóri í Kópavogshreppi og garðyrkjubóndi að Sæbóli, og Helga Sveinsdóttir stofnuðu fyrstu blómabúðina í Kópavogi skömmu eftir miðja síðustu öld og fékk verslunin heitið Blómaskálinn. Áður en hjónin stofnuðu verslunina voru þau með torgsölu á blómum í Reykjavík.

Sagan segir að einu sinni skömmu fyrir páska hafi verið svo mikið af páskaliljum á markaði að óhugsandi virtist að hægt væri að selja þá alla. Sagt er að Þórður á Sæbóli hafi tekið 30.000 stykki til sölu. Þegar viðskiptavinirnir fóru að streyma í torgsöluna um morguninn segir Þórður hverjum og einum viðskiptavini að allt útlit sé fyrir að það verði skortur á páskaliljum og að það verði að skammta hverjum og einum 20 til 30 blóm svo að allir fái eitthvað. Þegar komið var fram að hádegi var Þórður búinn að selja allar páskaliljurnar. 

Áætluð framleiðsla hér á landi af smáum hátíðarliljum í pottum, eða 'Tete-á-Tete' eins og þær kallast, er um 25.000 stykki á ári.

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun