Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Bjart með köflum
Mynd / smh
Skoðun 9. mars 2017

Bjart með köflum

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Bændasamtökin héldu sinn fyrsta ársfund á Akureyri síðasta föstudag. Ársfundur kemur í stað Búnaðarþings annað hvert ár eftir breytingar sem gerðar voru á samþykktum 2015. Um morguninn héldum við stuttan aðalfund og eftir hádegið var ráðstefnan „Búskapur morgundagsins“ og svo bændahátíð um kvöldið. Fjallað er um alla þessa viðburði annars staðar í blaðinu en segja má að allt hafi heppnast vel. Aðsókn var góð, ánægja með dagskrá og dagurinn einkar bjartur og fallegur nyrðra.
 
Á ráðstefnunni fengum við til okkar fólk til að fjalla um mál sem skipta máli fyrir sókn landbúnaðarins til framtíðar, bæði frá sjónarhóli bænda sjálfra, neytenda, afurðavinnslunnar, stjórnvalda og menntastofnana í landbúnaði. Innleggin snertu fjölmörg mál svo sem loftslagsmál, sjálfbærni, orkunýtingu og afurðavinnslu. Allt mál sem hafa þýðingu fyrir búskap morgundagsins.
 
Fólk vill góðan mat
 
Við setningu ráðstefnunnar sagði ég meðal annars að landbúnaður hefði líklega aldrei verið jafn mikilvægur fyrir mannfólkið og hann er nú þegar við erum komin áleiðis inn í 21. öldina. Eftirspurn eftir matvælum fer stöðugt vaxandi samhliða mikilli fólksfjölgun í heiminum. Til að setja það í samhengi þá erum við nú rúmir sjö milljarðar manna sem byggjum þessa jörð og er gert ráð fyrir að árið 2050, eftir aðeins 33 ár, verðum við tæpir 10 milljarðar. Allt þetta fólk þarf að borða. Það mun þó ekki aðeins vilja fá einhvern mat heldur eru sífellt gerðar meiri kröfur til matvæla. Fólk vill fá betri mat – hreinni, heilbrigðari og umhverfis­vænni mat.
 
Bændur um allan heim standa því frammi fyrir miklum áskorunum. Aukin eftirspurn kallar á meiri framleiðslu en á sama tíma þarf þessi framleiðsla að uppfylla nýjar kröfur sem ekki hafa áður verið. Aukin iðnaðarframleiðsla í landbúnaði þar sem eina krafan sem þarf að uppfylla er aukið framboð og lægra verð er ekki lengur ásættanleg lausn. Þessi staða mun kalla á að hvert og eitt ríki í heiminum mun leggja aukna áherslu á að tryggja framboð á matvælum sem uppfylla allar kröfur innan sinna landamæra. Áhersla ríkja á að tryggja fæðuöryggi innan sinna landamæra sést best á því að aðeins 10% af landbúnaðarframleiðslu jarðarinnar er seld á milli ríkja, hin 90% eru til neyslu og vinnslu á heimamarkaði.
 
Landbúnaðarafurðir framleiddar í nærumhverfinu
 
Íslenskir bændur geta í dag boðið íslenskum neytendum upp á heilnæmar landbúnaðarafurðir á sanngjörnu verði. Notkun sýkla­lyfja og annarra lyfja í íslenskum landbúnaði er með því minnsta sem þekkist. Íslenskir búfjárstofnar eru að mestu lausir við alvarlega búfjársjúkdóma sem bændur víða um heim þurfa að glíma við. Við höfum á undanförnum árum stigið mikilvæg skref í að bæta aðbúnað húsdýra sem miða að því að auka velferð þeirra. Fyrst með nýjum lögum og síðan með innleiðingu þeirra sem nú stendur yfir og mikilvægt er að gangi vel fyrir sig. Íslenskir bændur geta einnig tryggt Íslendingum landbúnaðarafurðir sem framleiddar eru í þeirra nærumhverfi, sem tryggir að umhverfisfótsporið verður eins lítið og mögulegt er því þær þarf ekki að flytja um langan veg með tilheyrandi umhverfiskostnaði.
 
Hlutverk bænda að sjá okkur fyrir matvælum
 
Íslenskur landbúnaður stendur því vel þegar kemur að því að mæta þessum nýju kröfum. Okkar hlutverk er auðvitað fyrst og fremst að sjá þeim sem búsettir eru hér á landi eða gestir okkar fyrir matvælum.
 
Íslensk landbúnaðarframleiðsla er að mestu byggð upp af fjölskyldubúum um allt land. Íslensk bú eru í alþjóðlegu samhengi afar lítil. Þetta tryggir að landbúnaður á Íslandi er stundaður í sátt við nærsamfélagið og náttúruna. Sérstaða íslensks landbúnaðar felst í þessu – að hér á landi er stundaður heilnæmur landbúnaðar. Á þessari sérstöðu eigum við að byggja.
 
Framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað
 
Þess vegna var það fagnaðarefni þegar Alþingi fól landbúnaðarráðherra að setja á laggirnar samráðshóp um landbúnaðarstefnu samhliða afgreiðslu sinni á búvörusamningum síðastliðið haust. Markmið Alþingis með þessu var að skapa grundvöll allra helstu hagsmunaaðila sem tengjast landbúnaði til að ræða og móta framtíðarsýn fyrir íslenskan landbúnað. Það yrði með upplýstum hætti byggt á nauðsynlegum upplýsingum og greiningum.
 
Frumvarpsdrög valda vonbrigðum
 
Við, sem erum fulltrúar bænda, höfum lagt áherslu á að nálgast þessa vinnu með opnum huga með áherslu á fagleg og skipuleg vinnubrögð. Í þeim anda lögðum við fram ítarlega greinargerð á fyrsta fundi samráðshópsins þar sem gerð var grein fyrir sýn okkar og áherslum í vinnunni. Við sjáum þessa vinnu fyrst og fremst sem tækifæri til þess að færa umræðu um landbúnaðarmál frá því að byggja á áróðri sérhagsmunaaflanna yfir í upplýsta umræðu um leiðir til að byggja upp íslenskan landbúnað til framtíðar.
 
Greinargerðin sem við lögðum fyrir samráðshópinn hefur verið birt í heild sinni á vef Bændasamtakanna, bondi.is. Til að taka af allan vafa þá hefur þessi samráðshópur ekki það hlutverk að semja um endurskoðun búvörusamninga. Þeir samningar verða gerðir á milli bænda og stjórnvalda og síðan munu þeir fara í almenna kosningu á meðal bænda. Hlutverk starfshópsins er fyrst og fremst að vinna að sátt um þá framtíðarsýn sem stjórnvöld geta síðan byggt á við sínar ákvarðanir.
 
Það bar skugga á þá vinnu þegar að ráðherra birti á mánudag frumvarpsdrög sem breyta verulega starfsskilyrðum mjólkurframleiðslunnar án þess að þau kæmu inn í samráðshópinn fyrst. Bændur hafa litið svo á að hópnum væri ætlað að skoða allt kerfið í heild og það gengur einfaldlega ekki ef ráðherra ætlar að handvelja hverju hann ætlar að treysta hópnum fyrir og hverju ekki. Það er í það minnsta ekki líklegt til sátta. Ef við ætlum að stuðla að betri og upplýstari umræðu um landbúnaðinn þá verðum við að hafa þolinmæði til að láta hana fara fram.
 
Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...