Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
Um 2.500 bændur og smáframleiðendur á Slow Food-ráðstefnunni marseruðu á EXPO, vopnuð kröfuspjöldum, til að minna á sjálfbæra, fjölbreytta og umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Einnig hollan mat fyrir alla og minni sóun.
Um 2.500 bændur og smáframleiðendur á Slow Food-ráðstefnunni marseruðu á EXPO, vopnuð kröfuspjöldum, til að minna á sjálfbæra, fjölbreytta og umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Einnig hollan mat fyrir alla og minni sóun.
Mynd / Slow Food Youth Network.
Fréttir 17. desember 2015

Bændum fækkar og þekking á framleiðsluaðferðum glatast

Höfundur: Berglind Häsler og Svavar Pétur Eysteinsson Karlsstöðum Djúpavogshreppi
Í Mílanó á Ítalíu var í október síðastliðnum haldin ráðstefna á vegum Ungliðahreyfingar Slow Food-samtakanna. Tilgangur ráðstefnunnar var að vekja athygli á málstað bænda og smáframleiðenda í heiminum. 
 
Kveikjan að ráðstefnunni var heimssýningin í Mílanó, EXPO 2015, en þema sýningarinnar að þessu sinni var matur og fannst Slow Food að sýningin gerði iðnaðarframleiðslu helst til of hátt undir höfði á kostnað bænda og smáframleiðenda.
 
Svar við EXPO
 
Ungliðahreyfing Slow Food ákvað því að blása til ráðstefnunnar We Feed the Planet sem eins konar svari við EXPO. Einungis 6 mánuðir fóru í að skipuleggja ráðstefnuna og var 2.500 bændum, framleiðendum og áhugafólki boðin þátttaka. Undirrituð, frá Karlsstöðum í Berufirði, þáðu boð um að taka þátt.
 
Matvælaöryggi heimsins er stefnt í voða
 
Í opnunarræðu ráðstefnunnar fór Joris Lohman, formaður Ungliðahreyfingar Slow Food, yfir kveikjuna að ráðstefnunni og það vandamál sem matvælaframleiðsla í heiminum stendur frammi fyrir. Framleiðslan færist sífellt á færri hendur, smáframleiðendum og bændum fækkar og þekking á framleiðsluaðferðum glatast. Þannig verða lönd ósjálfbjarga og matvælaöryggi heimsins er stefnt í voða.
 
Áhugaverður fyrirlestur um „andgróða“
 
Ráðstefnan byggðist á fyrirlestrum og umræðum. Franski heimspekingurinn Serge Latouche flutti áhugaverðan fyrirlestur um andgróða (e. degrowth). Hans kenningar fjalla um að gróði eigi sér ekkert annað markmið en að græða. Eyðing auðlinda svo sem vatns og lands sé takmarkalaus og úrgangur eigi sér heldur engin takmörk. Notkun á áburði og eiturefnum er hömlulaus og ekkert sé hugsað út í afleiðingarnar, aðeins fjárhagslegan skammtíma gróða.
 
Ótti við TTIP-fríverslunar­­­samning Bandaríkjanna og ESB
 
Í umræðum um fríverslunarsamninga (e. Global Trade Agreements) var mikið rætt um TTIP-fríverslunarsamninginn milli Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Samningurinn, sem er í deiglunni, er mjög umdeildur. Margir óttast að erfðabreytt matvæli eigi eftir að flæða hömlulaust til Evrópu án þess að neytendur séu upplýstir um það og evrópskum landbúnaði sé stefnt í voða. Andstæðingar samningsins segja að viðskipti með matvæli megi ekki lúta sömu reglum og viðskipti með vörur eins og bíla og raftæki. Margir telja þó að TTIP muni ekki fá brautargengi þar sem andstæðingar hans séu margir. Neytendur vilji ekki ódýran, erfðabreyttan, verksmiðjuframleiddan mat heldur vilji þeir frekar gæða hráefni með sögulega skírskotun til framleiðsluaðferða. TTIP stefni aðeins að gróða stórra matvælafyrirtækja en hafi ekki hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi.
 
Þörf á reglum um landhremmingar 
 
Á fyrirlestri um landhremmingar (e. land grabbing) var rætt um reglur sem sumar þjóðir hafa sett varðandi eignarhald á bújörðum. Reglurnar eru settar til þess að verja bændur og staðbundinn landbúnað. Við þetta vakna spurningar um hvort setja þurfi reglur um eignarhald á íslenskum bújörðum. Jarðir eru ódýrari á Íslandi miðað við annars staðar í Evrópu. Þarf kannski að tryggja til framtíðar að bújarðir hér á landi séu nýttar til landbúnaðar? 
 
Hlúa þarf að nýsköpun
 
Á fyrirlestri um nýsköpun var kynning á Global Youth Innovation Netvork (gyin.org). Stofnunin hefur það að markmiði að hlúa að nýsköpun í landbúnaði og gera fólki kleift að hefja rekstur við matvælaframleiðslu. Það má velta því upp hvort tími sé kominn til að setja upp nýtt stuðningskerfi hér á landi sem gerði fjölskyldum kleift að festa kaup á jörð til búskapar og hefja hefðbundinn rekstur og/eða stunda nýsköpun í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Kerfi sem byggt væri upp á skammtíma fjárfestingum en ekki langtíma beingreiðslum. Kerfi sem ynni með Nýsköpunarmiðstöð landbúnaðarins sem er brýnt að setja á fót í samvinnu við fjármálastofnun, þ.e. búnaðarbanka. Í Evrópu eru bankar sem sinna eingöngu fjárfestingum í matvælaframleiðslu og landbúnaði. Hér á landi er mikill metnaður þegar kemur að fjárfestingum og nýsköpun í sjávarútvegi og það væri gaman að sjá svipaðan metnað í landbúnaði.
 
Í lok þessarar þriggja daga ráðstefnu marseruðu 2.500 bændur og smáframleiðendur á EXPO, vopnuð kröfuspjöldum, til að minna á sjálfbæra, fjölbreytta og umhverfisvæna matvælaframleiðslu. Hollan mat fyrir alla og minni sóun.
 
Að lokum viljum við þakka þeim aðilum sem styrktu okkur til ferðarinnar. Djúpavogshreppur, sem hefur hugmyndafræði Slow Food að leiðarljósi þar sem sveitarfélagið er opinber aðili að Cittaslow, samtökum sveitarfélaga innan Slow Food. Matís, sem er ómetanleg stofnun fyrir smáframleiðendur og mikilvægur vettvangur fyrir nýsköpun og rannsóknarstarf í landbúnaði og matvælaframleiðslu. Síðast en ekki síst viljum við þakka Bændasamtökunum fyrir veittan stuðning.
 
Berglind Häsler og 
Svavar Pétur Eysteinsson
Karlsstöðum
Djúpavogshreppi

8 myndir:

Skylt efni: Slow Food

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi
Fréttir 8. júní 2023

Auknar fjárveitingar til viðhalds varnarlína í Miðfjarðarhólfi

Fjárveitingar til viðhalds á tveimur varnarlínum sauðfjársjúkdóma milli Miðfjarð...

Nýr lausapenni
Fréttir 8. júní 2023

Nýr lausapenni

Umfangsmeira Bændablað kallar á mannafla og er Þórdís Anna Gylfadóttir nýr liðsf...

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts
Fréttir 8. júní 2023

Dregur úr innlendri framleiðslu nautakjöts

Samdráttur í nautakjötsframleiðslu nú er afleiðing lægra afurðaverðs árið 2021 a...

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá
Fréttir 8. júní 2023

Eitt sýni jákvætt á Urriðaá

Nú er ljóst að eina staðfesta riðuveikitilfellið á Urriðaá í Miðfirði var í kind...

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar
Fréttir 8. júní 2023

Ályktað um innflutning og upprunamerkingar

Aðalfundur Kaupfélags Skagfirðinga, sem haldinn var á Sauðárkróki þann 6. júní s...

Eftirmál riðuveiki
Fréttir 8. júní 2023

Eftirmál riðuveiki

Sauðfjárbændurnir á Urriðaá og Bergsstöðum í Miðfirði standa saman í erfiðum sam...

Óvissa um starfsemi BÍL
Fréttir 7. júní 2023

Óvissa um starfsemi BÍL

Aðalfundur Bandalags íslenskra leikfélaga (BÍL) lýsir yfir vonbrigðum með drátt ...

Vilja flytja út færeysk hross
Fréttir 6. júní 2023

Vilja flytja út færeysk hross

Til þess að bjarga færeyska hrossastofninum frá aldauða hefur komið til skoðunar...