Auknar rekstrartekjur RML
Stjórn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) hélt ársfund í Borgarnesi til þess að miðla upplýsingum um rekstur félagsins, stöðu þeirra verkefna sem unnið er að og til að skapa umræðuvettvang fyrir bændur til að koma sínum sjónarmiðum á framfæri.
Í kynningu Karvels L. Karvelssonar, framkvæmdastjóra RML, kom fram að hagnaður fyrirtækisins á árinu 2024 fyrir skatta voru 30 milljónir, sem er breyting til batnaðar um 29 milljónir. EBITDA ársins 2024 var jákvæð um 17 milljónir, eða 1,5 prósent, en var neikvæð um 11 milljónir árið 2023, eða mínus eitt prósent. Karvel sagði fyrirtækið vera í eigu bænda og í sjálfu sér ekki vera hagnaðardrifið.
Um 31 prósent teknanna koma í gegnum rekstrarframlög, 41 prósent tekjur af seldri vöru og þjónustu og 28 prósent tekjur af verksamningum. Karvel segir töluverðar breytingar í þessum hlutföllum borið saman við nokkur ár aftur í tímann. Skýrist það meðal annars vegna átaksverkefna eins og riðuarfgerðagreinar í sauðfé.
Bændur hafa aðgang að nokkrum forritum í gegnum RML og kynnti Karvel breytingar sem hafa átt sér stað þar eða eru í farvatninu. Forrit eins og Huppa, sem kúabændur nota, og Fjárvís, sem sauðfjárbændur nota, skalast núna í farsíma og hefur allt viðmótið verið hannað upp á nýtt. Þá hafa miklar breytingar verið gerðar á WorldFeng, sem er skýrsluhaldsforrit fyrir íslenska hesta um allan heim. Enn fremur er unnið að nýrri heimasíðu fyrir RML sem fer í loftið innan skamms.
