Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 ára.
Aukin eftirspurn eftir hrossum
Mynd / Bbl
Fréttir 18. nóvember 2020

Aukin eftirspurn eftir hrossum

Höfundur: Erla Hjördís Gunnarsdóttir

Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda, segir horfur í greininni góðar og bjartsýni ríki meðal hrossabænda þrátt fyrir að kórónuveirufaraldurinn hafi sett ýmislegt úr skorðum í starfseminni. Öflugt markaðsstarf sé að skila sér í gegnum Horses of Iceland-verkefnið þar sem vöxtur hafi verið í útflutningi og þrátt fyrir ástandið hafi náðst að halda allar kynbótasýningar í sumar eins og til stóð.  

„Þetta hefur vissulega áhrif í okkar ranni eins og annars staðar, þar sem þurfti til dæmis að aflýsa landsmóti. Á landsmótsárum hefur alltaf verið kippur í sölu á hrossum og það að við þurftum að aflýsa hafði líka áhrif á margs konar þjónustu sem hrossabændur eða hestaferðaaðilar hafa verið að veita í kringum mótið. Við vonumst til að mótahald verði komið í eðlilegt horf næsta sumar, landsmótinu var frestað um tvö ár en stefnt er á að halda Heimsmeistaramót íslenska hestsins og Íslandsmótið á næsta ári,“ segir Sveinn og bætir við:

„Ljósi punkturinn er þó sá að við náðum að halda allar kynbótasýningar í sumar eins og til stóð svo það starf varð ekki fyrir neinni röskun, sem var afar mikilvægt. Félag hrossabænda stóð fyrir landssýningu kynbótahrossa þar sem komu öll kynbótahross sem annars hefðu verið á landsmótinu í sumar, viðburðinum var streymt og var tekið upp svo urðu til heimildir til jafns við það sem hefði gerst að öllu jöfnu. Það er mikilvægt að það sé samfella í upplýsingum og það tókst í sumar. Í haust stefnum við síðan á að vera með ráðstefnu fagráðs sem verður rafrænn viðburður, við tökum hann upp og sendum út þar sem við veitum viðurkenningar fyrir árangur á árinu.“

Markaðsstarfið er langhlaup

Líkt og kom fram í síðasta Bændablaði hefur verið vöxtur í útflutningi á hestum og stefnir í sögulega gott ár þrátt fyrir COVID-19.

„Það er ánægjulegt hvað vel hefur gengið að selja hross á þessu ári og virðist það eiga við bæði sölur hér innanlands og eins erlendis. Það er alveg ljóst að fleiri hross væru að seljast ef kaupendur væru að koma til landsins og á það kannski sérstaklega við um dýrari hrossin sem væntanlegir kaupendur vilja prófa áður en kaup eru gerð. Það er búinn að vera vöxtur í útflutningi undanfarin ár þannig að árangurinn í ár er í góðu framhaldi af því og væri ánægjulegt ef við færum yfir 2.000 hross í ár,“ útskýrir Sveinn og segir jafnframt: 

Sveinn Steinarsson, formaður Félags hrossabænda.

„Hrossin fara víða um heiminn og er það eitt af því sem endurspeglar áherslur í því markaðsstarfi sem við höfum stundað undanfarin ár. Í mínum huga er alveg á hreinu að áhrif af markaðsverkefninu Horses of Iceland (HOI) er að skila sér, verkefnið er markvisst í markaðssetningu sem er algert lykilatriði. Kynning á hestinum og hestamennskunni er það sem mun standa með okkur í framtíðinni ásamt því að bæta okkur enn frekar í ræktun á reiðhestum sem þurfa að vera umfram allt ganggóðir og traustir. Við erum orðin fullkomlega meðvituð um að markaðsstarf er langhlaup, ekki bara þátttaka í einskaka viðburðum og sýningum.“

55 milljónir birtinga

„Sem betur fer höfum við haft góðan skilning hjá ráðherrum landbúnaðarmála á markaðsstarfi okkar en aðkoma ríkisins ásamt samstarfi við Íslandsstofu eru alger forsenda verkefnisins. Fjöldi aðila úr ólíkum áttum hafa komið að verkefninu. Félag hrossabænda og Lands-samband hestamannafélaga hafa verið kjarnaaðilar i þessu verkefni enda styður starf HOI á mjög margan hátt við starf þessara félaga. Við horfum vongóð til þess að við fáum nýjan samning við ríkið enda mikilvægt að sú þekking og fjárfesting sem þegar er í verkefninu glatist ekki. 

Við eigum í frábæru samstarfi við Íslandsstofu þaðan sem verkefninu er stýrt  af Jelenu Ohm og í mínum huga er ekki spurning að kynningar- og markaðsstarf með hestinn eigi best heima þar enda mikil samlegð við að kynna hestinn, landið og tækifærin á Íslandi samtímis. Jelena rakti vel í síðasta Bændablaði hvað við höfum helst verið að fást við en gríðarlegt verðmæti er orðið i markaðssetningu í gegnum samfélagsmiðla og eru birtingar þar 55 miljónir frá því verkefnið hóf sitt reglulega starf en nokkurn tíma tók að koma verkefninu á þann stað sem það er í dag. Við hrossabændur vonum að aukin eftirspurn eftir hrossum og þá ekki síst eftirspurn eftir venjulegum reiðhestum, sem oft hefur gengið treglega að selja, endurspegli fjölgun í röðum hestamanna og muni þá skila sér í betri afkomu til framtíðar.“

Skylt efni: Hestar | útflutningur hesta

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum
Fréttir 20. júní 2024

Stækka ræktarland og fjölga vörutegundum

Hvítlauksbændurnir í Neðri-Brekku í Dölum fengu nýlega tvo styrki úr Matvælasjóð...

Verðlaunuðu góðan árangur
Fréttir 20. júní 2024

Verðlaunuðu góðan árangur

Tabea Elisabeth Schneider hlaut verðlaun fyrir besta árangur á B.S. prófi þegar ...

Fuglum fækkar vegna óveðurs
Fréttir 20. júní 2024

Fuglum fækkar vegna óveðurs

Samkvæmt fuglatalningu varð algjört hrun í fjölda fugla á Norðausturlandi þegar ...

Óhrædd að takast á við áskoranir
Fréttir 19. júní 2024

Óhrædd að takast á við áskoranir

Tilkynnt var um ráðningu Margrétar Ágústu Sigurðardóttur í starf framkvæmdastjór...

Halla færir út kvíarnar
Fréttir 19. júní 2024

Halla færir út kvíarnar

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjuframleiðandi og eigandi garðyrkjustö...

Sala Búvís stöðvuð
Fréttir 19. júní 2024

Sala Búvís stöðvuð

Samkeppniseftirlitið hefur komið í veg fyrir að Skeljungur kaupi Búvís ehf. þar ...

Heitt vatn óskast
Fréttir 19. júní 2024

Heitt vatn óskast

Bláskógaveita, sem er í eigu sveitarfélagsins Bláskógabyggð, hefur óskað eftir t...

Minni innflutningur og meiri framleiðsla
Fréttir 19. júní 2024

Minni innflutningur og meiri framleiðsla

Um 300 tonn af nautakjöti voru flutt inn á fyrstu fjórum mánuðum ársins 2024.