Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
Aukin afköst við mjaltir
Á faglegum nótum 1. mars 2017

Aukin afköst við mjaltir

Höfundur: Snorri Sigurðsson
Hvort heldur sem notuð eru hefðbundin mjaltatæki við mjaltir eða mjaltaþjónar er alltaf mikilvægt að horfa til afkasta við mjaltirnar. 
 
Það getur vissulega verið misjafnt á milli búa og eftir bústærð hvað verja þarf miklum tíma í mjaltir og þar sem mjaltaþjónar eru í notkun skiptir auðvitað miklu máli að nýta þá sem allra best, enda ekki til dýrari aðferð við mjaltir.
 
Slök nýting mjaltaþjóna
 
Það kom skýrt í ljós við uppgjör á afurðasemi mjaltaþjóna síðastliðið ár, eins og greint var frá í síðasta Bændablaði, að hægt er að stórbæta nýtingu þeirra mjaltaþjóna sem þegar eru til hér á landi og má í raun ætla að þegar hafi verið fjárfest í tækni sem gæti sinnt um 100 milljón lítra árlegri framleiðslu, þ.e. nærri 40 milljón lítrum meira en raunin varð árið 2016. Það sama má vafalítið segja um nýtingu hefðbundinna mjaltatækja, þótt ólíku sé saman að jafna.
 
Mismunandi hönnunarforsendur
 
Víðast er það svo að stærð bús ræður að miklu leyti hvaða afkastakröfur eru gerðar til nýtingar á mjaltatækjunum. Þannig er mun algengara en ekki að þeir sem hafa fjárfest í mjaltaþjónum reyni að ná sem flestum lítrum í gegnum mjaltatækið á degi hverjum, en þeir sem eru með hefðbundna mjaltatækni eru e.t.v. ekki jafn mikið að velta þessu fyrir sér. Þó sjáum við verulegan mun á þessu eftir bústærð og því stærri sem búin eru, því meiri eru líkurnar á því að bændurnir horfi til bættrar nýtingar mjaltatækjanna. 
Skýringin á sér að hluta til rætur í fjölda þeirra sem starfa á hverju búi en þar sem fámennt er, voru hönnunarforsendur mjaltakerfis oft miðaðar við að hægt væri að mjólka allar kýr á tveimur klukkustundum að morgni og einni og hálfri klukkustund að kveldi. Þetta skýrðist auðvitað af því að bændurnir þurftu að sinna ótal öðrum verkefnum samhliða mjöltunum og því ekki hægt annað en að miða við að ekki færi of mikill tími í mjaltir. Á stærri búum sjáum við oftar en ekki í dag að þetta atriði skiptir minna og minna máli og víða um heim eru til bú þar sem mjólkað er nánast allan sólarhringinn, enda þá ráðið fólk í því að mjólka.
 
Nota á sjálfvirka aftakara
 
Að vera með sjálfvirkan aftakara ætti að vera sjálfsagður hlutur í dag í öllum fjósum og það óháð mjaltatækninni enda hefur þessi tækni nú verið til í rúma hálfa öld, er þrautreynd og virkar. Hvernig hinir sjálfvirku aftakarar eru stilltir þarf svo að meta hverju sinni, en allar kýr eiga að þola það allvel að tekið sé af þeim við 400 millilítra rennsli á mínútu. Verksmiðjustillingar á aftökurum eru oft mun neðar og þýðir það nánast undantekningarlaust að of margar kýr verða tómmjólkaðar. Þess vegna ætti að skoða vel að hækka þetta og um leið sparast töluvert mikill tími við mjaltir en það mun ekki sjást þess merki í tanknum, enda þýðir rennslishraði ekki að mikið magn mjólkur sé til staðar. Erlendis, þar sem nytin er mun hærri, er oftast miðað við 500 millilítra á mínútu og víðar farið mun hærra í rennsli við aftöku.
 
Rétt spenagúmmí
 
Þá má nefna atriði eins og soghæð, spenagúmmí og sogskiptastillingar og á það við um bæði rörmjaltakerfin, mjaltabásana og mjaltaþjónana. Ótal rannsóknir hafa verið gerðar á þessum þremur þáttum varðandi mjaltir og hafa allir þessir þættir áhrif á afköstin og gæði mjaltanna með einum eða öðrum hætti. 
 
Að velja rétt spenagúmmí er afar mikilvægt enda spenagerðir hér á landi einstaklega fjölbreyttar. Sé farið eftir hefðbundnum leiðbeiningum eru spenar mældir á flestum kúm og svo valið rétt spenagúmmí fyrir hjörðina. Reyndar er um mun flóknara ferli en svo að ræða og efni í heila grein út af fyrir sig. Til þess að meta hvort spenagúmmíið sem er í notkun sé rétt þarf bæði að horfa á útlit spenanna fyrir og eftir mjaltir, kragamyndun við spenarót, lit og áferð spenanna ásamt því að framkvæma mælingar við mjaltir með þar til gerðum búnaði. Sé þetta ekki gert, eru líkurnar á því að valið sé rétt spenagúmmí meira spurning um heppni heldur en að um klæðskerasniðna lausn sé að ræða. Allir geta þó valið að vera með einhverskonar meðaltals-spenagúmmí en sé slík lausn valin, oft byggð á áralöngum hefðum eða takmörkuðu söluframboði á spenagúmmíi, þarf um leið að gera sanngjarnar kröfur til spenagúmmísins og ekki vænta hámarks árangurs.
 
Soghæð í mjaltakrossi 
 
En að hverju á þá að stefna? Með því að mæla soghæð í mjaltakrossi við mjaltir má auðveldlega nálgast rétta stillingu á kerfissoginu. Til þess að ná að mjólka kýrnar hratt þarf kerfissogið að vera eins hátt og hægt er, án þess að það valdi skaða á spenaendum. 
 
Sé soghæðin í mjaltakrossinum á bilinu 32-40 kPa ætti að vera tryggt að kerfissoghæðin sé ekki of há. Sé um mjög afurðahátt bú að ræða myndi ég skoða alvarlega að fara upp í 42 kPa í mjaltakrossi við mjaltir þegar hámarksflæði á sér stað. Athuga þarf hér sérstaklega að um soghæð í mjaltakrossi er að ræða eða sk. spenaendasog við mesta flæði mjólkur frá spenunum. Þetta má mæla með þar til gerðum sogmælum við mjaltir og er í raun einfalt mál að framkvæma með réttum tækjum.
 
Sogskiptastillingar
 
Sogskiptastillingar hafa verið heldur fastar undanfarna áratugi og flest mjaltatæki slá 60 slög á mínútu þ.e. spenagúmmíið opnast og lokast einu sinni á sekúndu. Þá þekkja margir kúabændur sog-skiptahlutföllin 60:40 eða 65:35 en fyrri talan þýðir einfaldlega hlutfallslega lengd þess ferlis við hreyfingu á spenagúmmíi er það opnast og er opið og mjólkar kúna og aftari talan þýðir hlutfallslega lengd þess ferlis þegar spenagúmmí lokast og er lokað og hvílir þar með spenann. 
 
Undanfarin ár hefur í auknum mæli verið horft til þessara hlutfalla og eru nú til sogskiptar sem mjólka af enn meiri krafti, þ.e. er með 70:30 og jafnvel 72:28 sem þýðir að speninn fær afar litla hvíld á hverri sekúndu þegar mjaltatækin eru á. Þetta getur kallað á verri spenaenda og þar með hættu á sýkingum en það þarf þó ekki að vera og á það sér í lagi við um bú þar sem kýrnar eru fljótmjólka, þ.e. með hátt meðalflæði mjólkur.
 
Hvað er til ráða með rörmjaltakerfi?
 
Það er hægt að bæta afköst við mjaltir með afar ólíkum hætti og er þar með vísað í það sem hér að ofan stendur, þ.e. stundum vilja bændur stytta mjaltatímann sjálfan en stundum að nýta hvert mjaltatæki betur. Í hefðbundnum básafjósum með rörmjaltakerfi er líklega langskilvirkasta aðferðin við að bæta afköst við mjaltir að setja upp brautarkerfi og að vera með sjálfvirka aftakara. Sé þetta gert sýnir reynslan að oftast getur sami aðili fjölgað þeim mjaltatækjum sem hann sinnti áður í sama básafjósi og auk þess styttist mjaltatíminn að jafnaði heldur, þar sem tækin hanga síður á kúm sem eru orðnar tómar. Þannig getur sami aðili komist yfir að mjólka fleiri kýr og þar með aukið afköstin. Með því að nota jafnframt ríkulega af undirburði og klippa júgurhár og hala má halda kúnum hreinni og þar með tekur vinnan við þrif fyrir mjaltir styttri tíma og eykur enn frekar afköstin. Nefna má hér sem dæmi að í tvístæðu dönsku básafjósi með 180 kúm tekur það hjónin á bænum rétt um 2 tíma á morgnana að mjólka allar kýrnar enda eru þar öll framangreind atriði í hávegum höfð og fyrir vikið getur hvort þeirra sinnt 8 mjaltatækjum í einu!
 
Hvað er til ráða með mjaltabás?
 
Séu kýrnar mjólkaðar í mjaltabás er oft um ótal möguleika að ræða til þess að auka afköstin. Fyrst og fremst þarf að tryggja að kýrnar vilji fara inn og út úr básnum en þar geta haft áhrif atriði eins og gólfgerð, innréttingar og lýsing svo dæmi sé tekið. Þegar kýrnar eru svo komnar til mjalta þarf að vera fljótlegt að þvo þær og því þarf, rétt eins og í básafjósinu, bæði að vera með nægan undirburð en einnig að vera með innréttingarnar rétt stilltar. Þannig að kýrnar liggi rétt í legubásunum og séu ekki að óhreinka sig. Það þarf sérstaklega að horfa til örvunar spenaendanna við þvottinn og að gefa sér nægan tíma til að mjaltavakinn nái að vinna sitt verk, þá ganga mjaltirnar hraðar fyrir sig. 
 
Að vera með góða slöngustýringu er lykilatriði svo tækin hangi rétt undir kúnni og að mjólkin flæði hratt frá rúmmálsmiklum mjaltakrossinum og niður í mjólkurlögnina og enn skal nefnt að sjálfvirkir aftakarar eru auðvitað sjálfsagðir. Að síðustu má benda á að jafnvel þó svo að mjaltabásarnir séu ekki mjög stórir þá er hægt að fá þá með svokölluðum hraðútgangi, þ.e. að þegar síðasta kýrin hefur verið mjólkur þá opnast öll langhlið bássins og kýrnar ganga samtímis út. Þetta sparar verulegan tíma og er þessi búnaður til fyrir allt niður í fjögurra kúa mjaltabása.
 
Hvað er til ráða með mjaltaþjóna?
 
Hér gilda sömu reglur og áður hafa verið nefndar hvað varðar spenagúmmí, soghæð og sogskiptastillingar. Þá þurfa inngangar og útgangar að vera greiðfærir og gjarnan í sama plani og gólf fjóssins, svo ekki sé um uppstig að ræða inn í mjaltaklefann sjálfan. Góð lýsing inni í básnum hefur  virkað vel á kýrnar og dregið þær hraðar inn til mjalta. Þá bjóða flest mjaltaþjónamerki nú orðið upp á enn meiri tækni við stýringu á mjöltunum en hægt er að fá, í dag a.m.k., þar sem kýr eru mjólkaðar með hefðbundnum mjaltatækjum. 
 
Hér má t.d. nefna lausnir eins og „Smart pulsering“ sem kalla mætti snjalla sogskiptastillingu en það kerfi snýst um að finna rétt sogskiptahlutfall fyrir viðkomandi kú, en það getur verið breytilegt á milli kúa hvað hentar þeim best. Sjálfvirk og flæðisstýrð hækkun á kerfissogi er einnig þekkt, enda ræðst soghæð kerfisins af því hve mikið álag er á spenaenda við mjaltir. 
 
Þegar mest flæði mjólkur er frá spenaendanum er auðveldlega hægt að hækka kerfissogið án vandkvæða og geta mjaltaþjónarnir leikið sér að því að gera þetta, nokkuð sem ekki er hægt í dag að gera t.d. í mjaltabás en unnið er að lausn á því máli! Einnig má nefna stillingarmöguleika eins og að taka af síðasta spena áður en hann er tæmdur og getur mjaltaþjónninn þar með flýtt mjöltum nokkuð í stað þess að bíða eftir að síðasti speninn klárast.
 
Hér að framan hafa verið talin upp nokkur atriði sem hafa má í huga sé áhugi á því að auka afköstin við mjaltir með einum eða öðrum hætti og er um að gera að nýta sér þá þekkingu og þær tæknilausnir sem til eru í dag til þess að auka afköstin eins og hægt er. 
 
Hefðbundnar mjaltir eiga ekki og þurfa ekki að vera tíma- eða vinnufrekar sé rétt staðið að málum. Þá ætti alltaf að horfa til þess að ná sem mestu út úr hverjum mjaltaþjóni, enda bæði fastur og breytilegur kostnaður þess tækis slíkur að það hlýtur að vera allra hagur af því að lagðir séu inn sem flestir lítrar og mögulegt er frá hverjum mjaltaþjóni.
 
Snorri Sigurðsson
sns@seges.dk
Sviðsstjóri mjólkurgæðasviðs
Dýralækninga- og gæðadeild
SEGES í Danmörku
Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...