Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 9 mánaða.
Aukið verðmæti íslenskrar grænmetisframleiðslu
Mynd / Matís
Fréttir 15. nóvember 2021

Aukið verðmæti íslenskrar grænmetisframleiðslu

Höfundur: smh

Hjá Matís hefur á undanförnum vikum verið unnið að verkefni með stuðningi Matvælasjóðs, sem miðar að því meðal annars að lengja geymsluþol á útiræktuðu íslensku grænmeti. Verkefninu er stýrt af Ólafi Reykdal, en markmiðið er meðal annars að viðhalda gæðunum lengur og þannig auka verðmæti afurðanna.

Ólafur Reykdal.

Ólafur segir að íslenskt grænmeti gegni mikilvægu hlutverki fyrir ímynd landsins og sjálfbærni. „Heilbrigðisyfirvöld hvetja til aukinnar neyslu grænmetis og mikilvægt er fyrir framleiðendur að sem stærstur hluti neyslunnar verði íslenskt grænmeti. Nú er umtalsvert flutt inn af grænmæti og því eru tækifæri fyrir garðyrkjubændur að fylla meira í skarðið og draga þannig úr kolefnisspori fyrir þjóðina,“ segir hann um forsögu þess að þetta verkefni er sett á fót hjá Matís.

Aukið verðmæti íslenskrar grænmetisframleiðslu

„Íslenska framleiðslan er nálægt markaðnum og því eiga gæðin að vera betri en eru á því innflutta, sem er marga daga á leiðinni til landsins. Garðyrkju­bændur hafa unnið mikið við að bæta aðstæður hjá sér við uppskeru og geymslu en það er ekki nóg, því öll virðiskeðjan er undir og flutnings- og dreifingaraðilar, ásamt verslun og neytendum, þurfa að geyma grænmetið við bestu skilyrði. Með þessu móti fást mest verðmæti fyrir uppskeruna og dregið er úr rýrnun og sóun,“ segir Ólafur.

Matvælasjóður veitti Matís styrk til að vinna verkefni um virðiskeðju íslensks grænmetis árið 2021. Unnið verður að markmiðum verkefnisins með aðilum sem tengjast virðiskeðjunni; allt frá garðyrkjubændum til verslunar. „Nýja þekkingin sem verður til á þannig að styðja við uppbyggingu grænmetisgeirans og stuðla að aukinni framleiðslu, fleiri atvinnutækifærum og auknu framboði hágæða grænmetis. Leitast er við að ná til grænmetisframleiðslunnar sem víðast um landið svo sem Suðurlands, Vesturlands og Eyjafjarðar. Verkefninu er skipt í þrjú meginviðfangsefni; geymsluþolsrannsóknir, nýtingu hliðarafurða og minni sóun í virðiskeðju grænmetis,“ segir Ólafur.

Kjörgeymsluskilyrði lykilatriði fyrir verðmæti uppskerunnar
Blómkál.

Að sögn Ólafs er gott geymsluþol grænmetis lykilatriði fyrir framleiðendur, því með því móti fá þeir mest verðmæti fyrir uppskeruna. „Í verkefninu eru gerðar mælingar á hitastigi og rakastigi við geymslu grænmetis og upplýsingum miðlað til að hægt sé að vinna að úrbótum. Kjörgeymsluskilyrði eru mjög misjöfn eftir grænmetistegundum og því getur verið nokkuð flókið fyrir dreifingaraðila og verslanir að geyma grænmetið við þær aðstæður sem best henta.

Röng geymsluskilyrði geta fljótt leitt til skemmda á grænmeti, minni sölu og rýrnunar fyrir verslun og framleiðendur. Á Matís hafa staðið yfir geymsluþolstilraunir með ýmsar tegundir grænmetis. Nú er í gangi geymsluþolstilraun á blómkáli, spergilkáli og gulrófum. Notað er hitastýrt geymslurými sem fram til þessa hefur fyrst og fremst verið notað fyrir tilraunir með fisk. Ljóst er að við þessar stýrðu aðstæður hefur náðst lengra geymsluþol en reiknað var með. Ræktun blómkáls og spergilkáls er erfið á Íslandi vegna stutts geymsluþols og því er verið að leita leiða til að lengja geymsluþolið. Niðurstöður úr geymsluþolstilraunum verða birtar og kynntar á næstu mánuðum,“ segir Ólafur.

Þegar hann er spurður um notkun hjálparefna, segir hann að aðaláherslan sé á stýringu hita og raka en ekki notkun þeirra. „Hjálparefnin, eins og þráavarnarefni og rotvarnarefni, flokkast undir aukefni. Það er ekki leyfilegt að nota aukefni á ferskt grænmeti og ekki þörf á því. Vænlegra er að nota kjörgeymsluskilyrði fyrir hita og raka.

Það er kostnaðarsamt að koma upp fullkomnum geymsluskilyrðum því þá dugir ekki einn kælir. Ýmsir aðilar eru þegar búnir að fjárfesta umtalsvert í góðum geymslum. Við erum að kanna þessar aðstæður og hjálpa til við að finna það sem þarf að bæta.

Mögulegt er að nota aukefni fyrir skorið og unnið grænmeti. Við erum reyndar með eina tilraun þar sem reynt er að lengja geymsluþol blómkáls og spergilkáls með því að dýfa grænmetinu í hreina upplausn af C-vítamíni,“ segir hann.

Mikilvægi hliðarafurðanna

Að sögn Ólafs eru hliðarafurðir grænmetisframleiðslunnar, það sem til fellur við afblöðun, afskurð og grisjun plantna. „Unnið er við að leggja mat á magn þessara afurða og kanna hvaða hliðarafurðir henti fyrir mismunandi vinnslu. Ljóst er að í sumum hliðarafurðum eru efnisþættir sem gætu hentað í verðmætar afurðir matvælageirans. Hugsunin er sú að auka nýtingu og verðmæti þessara hliðarafurða líkt og Matís hefur tekið þátt í að gera í sjávarútvegi þar sem stefnt er að nær 100 prósenta nýtingu þorsksins. Prófanir hafa verið gerðar á vinnslu grænmetis sem selst ekki í verslununum og lofa þær tilraunir góðu. Starfsmenn Matís vonast til að geta skilað áhugaverðum niðurstöðum til grænmetisgeirans á næstu mánuðum,“ segir hann. 

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður
Fréttir 7. júlí 2022

Riðuþolinn sauðfjárstofn verður ræktaður

Staðfest er að samtals 128 gripir bera annaðhvort ARR-arfgerð, sem er alþjóðlega...

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021
Fréttir 7. júlí 2022

Bændur borguðu 412 krónur með hverju kílói af framleiddu nautakjöti árið 2021

Afurðatekjur af nautaeldi mæta ekki framleiðslukostnaði og hafa ekki gert síðast...

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir
Fréttir 27. júní 2022

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar verulegar afurðaverðshækkanir

Sláturfélag Vopnfirðinga boðar umtalsverðar hækkanir á afurðaverði til sauðfjárb...

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“
Fréttir 14. júní 2022

„Viðnámsþróttur þjóða byggir á öflugri innlendri matvælaframleiðslu“

Stjórn Bændasamtakana telur skýrslu og tillögur Spretthóps, sem lagaðar voru fyr...

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning
Fréttir 14. júní 2022

Spretthópur leggur til 2,5 milljarða króna stuðning

Spretthópur, sem matvælaráðherra skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframle...

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna
Fréttir 13. júní 2022

Mjólkurvörur frá Örnu til Bandaríkjanna

Nýlega skrifuðu forsvarsmenn Örnu í Bolungarvík og forsvars- menn Reykjavík...

Samdráttur í sölu á fræi
Fréttir 8. júní 2022

Samdráttur í sölu á fræi

Samkvæmt lauslegri könnun Bændablaðsins er búið að flytja inn rúm tvö tonn a...

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu
Fréttir 8. júní 2022

Aðstaða bænda og fyrirtækja í landbúnaði á Íslandi er lakari en í öðrum ríkjum Evrópu

Rúmlega tuttugu íslensk fyrirtæki sem tengjast landbúnaði og matvælaframleiðslu ...