Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Drangi 15-989 frá Hriflu var útnefndur besti kynbótahrúturinn.
Drangi 15-989 frá Hriflu var útnefndur besti kynbótahrúturinn.
Mynd / Aðsend
Fréttir 28. apríl 2022

Amor og Drangi bestu kynbótahrútarnir

Höfundur: smh

Fagfundur sauðfjárræktarinnar var haldinn 7. apríl á Hvanneyri. Venju samkvæmt voru veitt hrútaverðlaun sæðingastöðvanna, sem telja má til þeirra æðstu í sauðfjárræktinni. Að þessu sinni var Amor 17-831 frá Snartarstöðum II valinn besti lambafaðirinn og Drangi 15-989 frá Hriflu útnefndur besti kynbótahrúturinn. Í fyrsta skipti var nú einnig besta sauðfjárræktarbúið verðlaunað og hlotnaðist Þoroddsstöðum í Hrútafirði sá heiður.

Verðlaunahafarnir; Sigurlína Jóhannesdóttir, Snartarstöðum II, Gunnar Þórarinsson, Þóroddsstöðum og Vagn Sigtryggsson, Hriflu.  Mynd / Unnsteinn Snorri

Veglegur farandgripur var veittur fyrir besta sauðfjárræktarbúið. Þau verðlaun eru veitt úr minningarsjóði Halldórs Pálssonar en sauðfjárdeild Bændasamtaka Íslands stendur fyrir því að þessi verðlaun eru nú veitt. Sauðfjárræktarráðunautar Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins (RML) sjá um val á verðlaunahöfum, sem byggir á reglum sem samþykktar hafa verið af fagráði sauðfjárræktar. Þeir gera einnig grein fyrir rökstuðningi sem hverjum grip fylgir.

Um gerð umsagna og veitingu verðlauna sáu ráðunautarnir Eyþór Einarsson, Árni B. Bragason og Eyjólfur Ingvi Bjarnason.

Amor 17-831 frá Snartarstöðum II var valinn besti lambafaðirinn.  Mynd / Aðsend

Afkvæmin hafa holdfyllt bak og frábær lærahold

Að sögn Eyþórs byggir val á besta lambaföður á niðurstöðum dóma frá haustinu 2021. „Horft er til þeirra hrúta sem áttu yfir 100 fullstigaða syni. Við valið er tekið tillit til flokkunar lambanna, fallþungaeinkunnar og kynbótamats en hrútarnir þurfa að standast ákveðnar lágmarkskröfur. Áhersla er lögð á góða útkomu úr ómmælingum og stigun lambanna.

Ræktendur Amors 17-831 frá Snartarstöðum II í Núpasveit, þau Helgi Árnason og Sigurlína Jóhannesdóttir, hreppa hnossið fyrir besta lambaföðurinn. „Faðir Amors er Börkur 13-952 frá Efri-Fitjum og móðurfaðir hans er Korni 10-520 frá Þverá. Amor kom á sæðingastöð haustið 2018 og fékk góða notkun tvö fyrstu árin. Heldur dró svo úr ásókn í hann í vetur og spilar þar örugglega inn í að dætur Amors mættu sýna meiri mjólkurlagni. BLUP kynbótamat hans fyrir gerð, fitu, frjósemi og mjólkurlagni er í sömu röð: 121 – 107- 105 – 101,“ segir Eyþór.

„Afkvæmi Amors hafa einkar holdfyllt bak og frábær lærahold. Öflug gerðin kemur skýrt fram í góðri flokkun sláturlamba og fáir stöðvahrútar skjóta honum þar ref fyrir rass. Vænleiki lambanna er góður. Hann getur gefið hreinhvít lömb með prýðilega ull. Við val Amors var horft til þess að enginn af þeim hrútum sem til álita komu skila jafn þykkum bakvöðva, en um 200 synir hans mældust með 32,9 mm þykkan vöðva sl. haust,“ segir í umsögninni um Amor.

Dætur sem skila góðum vænleika

Að sögn Eyþórs er besti kynbótahrúturinn valinn út frá alhliða reynslu en sá sem er útnefndur þarf að hafa verið öflugur bæði sem lambafaðir og ærfaðir. „Að lágmarki þarf að vera komin tveggja ára reynsla á dætur hrútsins sem til eru komnar í gegnum sæðingar.  BLUP kynbótamat hrútsins þarf að vera að lágmarki 105 stig fyrir gerði og mjólkurlagni dætra og 100 stig fyrir fitumat og frjósemi.

Einnig er horft til vænleika afkvæmanna,“ segir Eyþór.

Ræktandi Dranga 15-989 eru Vagn Sigtryggsson sem á því heiðurinn af besta kynbótahrútinum ásamt Hriflubúinu í Þingeyjarsveit. „Faðir hans er einnig frá Hriflu en það er Dreki 13-953. Drangi er því þriðji hrúturinn í beinan karlegg til að hljóta viðurkenningu sem mesti kynbótahrúturinn en Dreki hlaut þann heiður árið 2019 og Grábotni 06-833 árið 2013. Drangi var valinn inn á sæðingastöð sumarið 2017 eftir að hafa sýnt frábæran árangur sem lambafaðir heima í Hriflu.  Því miður entist honum ekki aldur til að þjóna á stöðvunum nema eitt ár en þann vetur voru tæpar 700 ær sæddar við honum.

Drangi skilaði þroskamiklum lömbum með þykkan bakvöðva og ágæt lærahold. Þau vor fremur fitulítil.  BLUP kynbótamat hans fyrir gerð stendur nú í 109 stigum og fyrir fitu 113 stigum. Dætur hans hafa verið prýðilega frjósamar og skilað mjög góðum vænleika. Kynbótamat hans fyrir frjósemi stendur í 103 stigum og fyrir mjólkurlangi í 112 stigum,“ segir Eyþór.

Í umsögn um Dranga segir: „Drangi er sannarlega einn af öflugustu alhliða kynbótahrútum stöðvanna og er vel að því kominn að vera útnefndur „mesti kynbótahrútur sæðingastöðvanna árið 2021“.

Þóroddsstaðir í Hrútafirði. Mynd / HKr.

Þóroddsstaðir ræktunarbú ársins 

Í fyrsta sinn voru veitt verðlaun fyrir besta sauðfjárræktarbúið á fagfundi sauðfjárræktar. Að sögn Eyþórs var búið valið út frá heildareinkunn kynbótamats en aðeins koma til greina bú sem standast ákveðin skilyrði. „Einungis er horft til búa með 100 eða fleiri fullorðnar ær. Afurðir þurfa að hafa verið yfir landsmeðaltali. Frjósemi sé yfir 1,9 lamb á hverja fullorðna á og 0,9 á veturgamla á.

Gerð sláturlamba sé yfir 9,2 í einkunn og fitan sé á bilinu 5,4 til 7,6. BLUP kynbótamat ánna þarf að vera að meðaltali yfir 100 stigum fyrir gerð, fitu, frjósemi og mjólkurlagni. Reiknuð er heildareinkunn kynbótamats fyrir ær fæddar á bilinu 2011 til 2020 og er búunum raðað upp eftir þeirri einkunn. Þegar heildareinkunn er reiknuð er sett þak á kynbótamat fitu við 110 stig og frjósemi við 120 stig,“ segir Eyþór.

Ætíð mjög góðar afurðir frá Þóroddsstöðum

Gunnar Þórarinsson og Matthildur Hjálmarsdóttir hafa staðið að búrekstrinum á Þóroddsstöðum. Í umsögn RML sem fylgir verðlaununum segir: „Búið á Þóroddsstöðum hefur lengi verið mjög virkt í ræktunarstarfi sauðfjár á Íslandi. Þar hafa nokkrum sinnum verið haldnar afkvæmarannsóknir úrvalshrúta í Miðfjarðarhólfi fyrir sæðingastöðvarnar en að auki hefur búið verið þátttakandi í afkvæmarannsókn nánast árlega síðan skipulegar afkvæmarannsóknir í núverandi mynd hófust árið 1999.

Frá búinu hafa komið nokkrir hrútar á sæðingastöð gegnum tíðina. Þeir eru: Ljóri 95-828, Oddur 02-942, Bósi 08-901, Gutti 13-984, Kappi 16-839 og Sammi 16-841. Einkenni á mörgum gripum sem koma frá Þóroddsstöðum er hversu sterkir þeir eru til kynbóta á mæðraeiginleikum, þ.e. frjósemi og mjólkurlagni dætra. Í dag eru helstu ættfeður á Þóroddsstöðum byggt á greiningu ætternisgagna búsins þeir Sammi 16-841 og Bósi 08-901. Þeim að baki eru eldri höfðingjar eins og Lóði 00-871, Hörvi 92-972 og Strammi 83-833 enn mjög áhrifamiklir ættfeður í framræktun hjarðarinnar á Þóroddsstöðum.

Auk þess að hafa verið mjög virkt í ræktunarstarfi sauðfjár gegnum árin hafa afurðir á Þóroddsstöðum ætíð verið mjög góðar. Því til staðfestingar er búið eitt fárra búa sem hefur alltaf náð inn á lista yfir Úrvalsbú hjá RML sem hefur verið birtur síðan 2013.

Sauðfjárbúið Þóroddsstaðir í Hrútafirði er því vel að þessum verðlaunum komið sem ræktunarbú ársins 2021,“ segir í umsögninni.

Minningarsjóður Halldórs Pálssonar gefur verðlaunagripinn fyrir besta ræktunarbúið

Minningarsjóður Halldórs Pálssonar gefur verðlaunin í minningu Halldórs Pálssonar og heiðrar þar með hans mikla ævistarf sem m.a. lagði grunninn að þeim miklu framförum sem orðið hafa í kynbótastarfi í sauðfjárrækt síðustu áratugina.  

Einn af þekktustu vísindamönnum þjóðarinnar

Halldór var einn af þekktustu vísindamönnum þjóðarinnar. Hann lauk doktorsprófi frá Háskólanum í Edinborg 1938. Doktorsverkefnið var á sviði vaxtarlífeðlisfræði sauðfjár og fjallaði ritgerðin um kjötgæði og kjöteiginleika skoskra sauðfjárkynja og samanburð við eiginleika íslenska fjárins. Verkefni sitt vann Halldór undir leiðsögn hins þekkta búfjárræktarmanns dr. John Hammonds.  

Búnaðarmálastjóri

Árið 1937 hóf Halldór störf hjá Búnaðarfélagi Íslands og starfaði þar allt til ársins 1980. Fyrst sem sauðfjárræktarráðunautur og síðar sem búnaðarmálastjóri. Halldór kom að stofnun sauðfjárræktarbúsins að Hesti í Borgarfirði árið 1943. Halldór skildi eftir sig mikið ævistarf, hvort sem horft er til verkefna hans á sviði búfjárrannsókna en ekki síður í starfi sínu sem búnaðarmálastjóri. Það er því vel við hæfi að heiðra minningu og ævistarf Halldórs Pálssonar með því að kenna þessa viðurkenningu, Halldórsskjöldinn, við hann.

Þessi veglegi skjöldur er útskorinn af Sigríði Jónu Kristjánsdóttur, Siggu á Grund. Sigga er uppalin í Villingaholti í Flóa, dóttir Ingvars Kristjáns Jónssonar og Grétu Svanlaugar Jónsdóttur. Sigga hefur stundað útskurð frá því að hún var barn og var farin að skera út eftir pöntunum þegar hún var 12 ára. Sigga hefur unnið bæði úr horni og tré. Hún er í grunninn sjálfmenntuð en stundaði nám við City and Guilds Art School í London. Siggu var veittur Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu 1. janúar 2010. Sigga er einn færasti útskurðarmeistari landsins og er verk eftir hana að finna úti um allt land. Hún hefur einstakt lag á því að skera út sauðfé og hross og hefur oft verið leitað til hennar til að skera út verðlaun fyrir hin ýmsu tilefni.

Halla tekur upp Íslenskt staðfest
Fréttir 28. mars 2024

Halla tekur upp Íslenskt staðfest

Halla Sif Svansdóttir Hölludóttir, garðyrkjubóndi og eigandi Sólskins grænmetis ...

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands
Fréttir 27. mars 2024

Uppfærsla á stefnumörkun Bændasamtaka Íslands

Fjölmörg mál voru til afgreiðslu á nýliðnu Búnaðarþingi 2024, úr fimm nefndum, s...

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025
Fréttir 27. mars 2024

Endurnýting heimil til 1. nóvember 2025

Matvælaráðuneytið hefur tilkynnt um frestun á gildistöku banns við endurnýtingu ...

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi
Fréttir 27. mars 2024

Horfið frá framleiðslutengdum stuðningi

Fyrirkomulag landbúnaðarstuðningskerfis á Íslandi mun taka miklum breytingum ef ...

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst
Fréttir 26. mars 2024

Hyggur á slátrun í haust ef leyfi fæst

Fyrrverandi sláturhússtjóri á Vopnafirði ætlar ekki að láta deigan síga þrátt fy...

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal
Fréttir 26. mars 2024

Niðurskurði lokið á fé úr Blöndudal

Niðurskurður á sauðfé frá bæjunum Eiðsstöðum og Guðlaugsstöðum í Blöndudal fór f...

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga
Fréttir 26. mars 2024

Kornræktarfélag gengur í endurnýjun lífdaga

Kornræktarfélag Suðurlands verður endurvakið sem viðskiptavettvangur ræktenda og...

Grípa þarf tækifærin
Fréttir 26. mars 2024

Grípa þarf tækifærin

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, telur að bændur eigi að leyfa sér að hor...