Alvarlegar athugasemdir við gjaldskrá
Hækkun á gjaldskrá Matvælastofnunar var í umsagnarferli í samráðsgátt stjórnvalda í aprílmánuði. BÍ og SAFL gera alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaðar hækkanir.
Atvinnuvegaráðuneytið birti 2. apríl til umsagnar drög að breytingu á gjaldskrá Matvælastofnunar í samræmi við ákvæði 25. gr. laga um matvæli nr. 93/1995. Með breytingunni er lögð til 30% hækkun á annars vegar almennu tímagjaldi fyrir eftirlit, úr 10.162 kr. í 13.211 kr., og hins vegar á tímagjaldi fyrir heilbrigðisskoðun sláturdýra og tengda þjónustu, úr 8.099 í 10.529 kr. Fyrir eftirlit og aðrar skoðanir sem héraðsdýralæknar og aðrir dýralæknar og eftirlitsmenn sem starfa við umdæmisstofur stofnunarinnar sinna skal greitt tímagjald.
Ný málsgrein bætist við 10. gr. gjaldskrárinnar sem heimilar Matvælastofnun (MAST) að innheimta þjónustugjöld vegna raunkostnaðar við útgáfu starfsleyfa dýralækna og heilbrigðisstarfsmanna dýra.
Fyrst þurfi að laga til innan MAST
Samráðsferlinu lauk 30. apríl. Forsvarsmenn Bændasamtaka Íslands (BÍ) og Samtaka fyrirtækja í landbúnaði (SAFL) gera í umsögn alvarlegar athugasemdir við fyrirhugaða 30% hækkun tímagjalds og telja einhlítt að fara verði í nauðsynlegar kerfisbreytingar og hagræðingu innan MAST áður en gripið sé til gjaldskrárhækkana. Félagsmenn samtakanna hafi þungar áhyggjur af þróun eftirlitsgjalda frá því að nýtt fyrirkomulag gjaldskrár tók gildi sl. sumar, sem átti að fela í sér aukinn skýrleika en hafi á hinn bóginn frekar falið í sér meira ógagnsæi og minni fyrirsjáanleika fyrir þjónustuþega. Hækkun nú, án hagræðingar, gangi gegn ábyrgri stjórnsýslu.
Áframhaldandi gagnrýni
Fyrir rúmu ári var gjaldskrá Matvælastofnunar breytt með þeim hætti að horfið var frá kílóagjaldi og farið í tímagjald, og gjaldaliðum fækkað úr 70 í 2. Hafði það m.a. í för með sér að eftirlitsgjald jókst verulega, mest hjá alifuglasláturhúsum. Urðu talsverð átök um þær breytingar og sömuleiðis um boðaðar gjaldskrárhækkanir innan ársins, sem síðan voru dregnar til baka. Segja BÍ og SAFL að fyrirkomulag gjaldskrárinnar sé ósanngjarnt og óskilvirkt. Gjaldtaka án umbóta dragi úr samkeppnishæfni, trausti og getu landbúnaðar til að þróast með sjálfbærum og arðbærum hætti.