Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Úr sláturhúsi SAH Afurða á Blönduósi.
Úr sláturhúsi SAH Afurða á Blönduósi.
Mynd / HKr.
Fréttir 1. febrúar 2019

Afurðastöðvar greiða sauðfjárbændum uppbætur

Höfundur: smh
Fjórar afurðastöðvar hafa til­kynnt um viðbótargreiðslur fyrir dilkakjöt úr síðustu sláturtíð; Kjöt­afurðastöð Kaupfélags (KS) Skag­firðinga, Sláturhús KVH ehf. (SKVH), SAH Afurðir og Sláturfélag Vopnfirðinga. 
 
KS og SKVH tilkynntu um þetta fyrst um miðjan janúar, að hækkun yrði 6,04 prósent á innlegg í september og október, en 10 prósent á innlegg ágústmánaðar. Þessar uppbætur hafa þegar verið greiddar. Í tilkynningu frá afurðastöðvunum segir að það hafi komið í ljós þegar birgðatalningu sé lokið og unnið sé að ársuppgjöri afurðastöðvanna að unnt reynist að greiða þessar viðbótargreiðslur.
 
„Sláturtíðin gekk í raun ágætlega og sala á afurðum hefur gengið nokkuð vel. Það liggur nú fyrir, að veiking íslensku krónunnar reyndist meiri heldur en við þorðum að byggja áætlun okkar á í haust og hefur það komið okkur til tekna. Því hefur verið tekin ákvörðun hjá Kjötafurðastöð KS og Sláturhúsi KVH um að greiða viðbótargreiðslu á lambakjötsinnlegg sl. hausts,“ segir í tilkynningunni.
 
SAH Afurðir á Blönduósi.
 
SAH Afurðir rétta úr kútnum
 
Þann 21. janúar var á vef SAH Afurða tilkynnt um að ákveðið hafi verið að greiða 12 prósent álag á áður auglýst verð fyrir dilkakjöt í síðustu sláturtíð. Álagið verður greitt 8. febrúar.
 
Í tilkynningunni er haft eftir Eiði Gunnlaugssyni, stjórnarformanni Kjarnafæðis, sem er eigandi SAH Afurða, að afar ánægjulegt sé að fyrirtækið hafi rétt svo mikið úr kútnum eftir mjög erfið ár, að mögulegt sé að hækka greiðslur til bænda. 
 
„Þegar við tókum fyrirtækið yfir var það varla rekstrarhæft – nánast að hruni komið. Margir bændur áttu þá háar fjárhæðir inni hjá félaginu og segja má að hvert áfallið hafi rekið annað 2015 og 2016; kjötverð lækkaði á markaði, gærur og aðrar aukaafurðir voru nánast óseljanlegar og krónan styrktist. Það féll ekkert með okkur,“ segir Eiður. „Vegna alls þessa urðum við að taka erfiðar ákvarðanir, meðal annars að greiða lægra afurðaverð en við hefðum kosið, en þau skref voru stigin til þess að verja hagsmuni bænda til lengri tíma litið, og til þess að tryggja okkur aðgang að hráefni. Þetta voru sársaukafullar aðgerðir en því miður nauðsynlegar. Með mikilli vinnu starfsmanna og viðskiptabanka okkar, Íslandsbanka, tókst að afstýra því að félagið færi í þrot. Reksturinn lagaðist mikið árið 2017 og eftir síðasta ár er viðsnúningurinn orðinn það mikill að við getum sem betur fer greitt bændum álag á innleggið frá því í haust. Með þessu er ég ekki að segja að reksturinn sé kominn á einhverja beina braut, hann er ennþá brothættur og eigið fé félagsins er enn neikvætt. En mikil breyting hefur orðið til batnaðar,“ segir Eiður.
 
Hann segir að leitað hafi verið til Byggðastofnunar á sínum tíma, þegar hætta var á að SAH færi hreinlega í þrot. „Við lögðum mikla vinna í að fá aðstoð, en þar á bæ var ekki áhugi fyrir því. Okkur var tjáð að eins væri hægt að henda peningunum út um gluggann eins og að lána okkur. Íslandsbanki hefur hins vegar alltaf staðið með okkur eins og klettur og fyrir það er ég mjög þakklátur,“ segir Eiður á vef SAH Afurða.
Hann kveðst einnig, og ekki síður, mjög þakklátur bændum fyrir trygglyndi þeirra. „Þeir hafa staðið með okkur á erfiðum tímum síðustu misseri og sýnt aðdáunarverða samstöðu á meðan við gátum ekki greitt þeim það verð fyrir afurðir sem við hefðum sannarlega viljað. Þess vegna er einstaklega ánægjulegt að fyrirtækið sé nú komið í þá stöðu að geta loks hækkað greiðslur til bænda.“
 
Þórður Pálsson, skrifstofustjóri hjá Sláturhúsi Vopnfirðinga.
 
Sláturfélag Vopnfirðinga greiðir 45 krónur á kíló
 
Þórður Pálsson, skrifstofustjóri hjá Sláturhúsi Vopnfirðinga, segir að tekin hafi verið ákvörðun um það að greiða 45 króna uppbót á hvert innlagt kíló, jafnt á alla flokka lambakjöts. Hann segir að byrjað verði fljótlega að greiða þessar uppbætur og þeim ætti að verða lokið fyrir 15. febrúar.  
Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...