Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
„Hann hefur frá upphafi verið mjög gefandi hestur að vinna með og erum við mjög ánægð með hve vel hefur tekist að sameina marga eftirsóknarverða gæðingskosti í einum grip,“ segir Birna um stóðhestinn Sirkus sem hlaut meðal annars einkunnina 9,5 fyrir vilj
„Hann hefur frá upphafi verið mjög gefandi hestur að vinna með og erum við mjög ánægð með hve vel hefur tekist að sameina marga eftirsóknarverða gæðingskosti í einum grip,“ segir Birna um stóðhestinn Sirkus sem hlaut meðal annars einkunnina 9,5 fyrir vilj
Mynd / GHP
Fréttir 2. ágúst 2016

Ævintýralegur árangur hjá ungu ræktunarbúi

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir
Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon í Garðshorni á Þelamörk standa að baki áhugaverðri verðlaunahrossarækt. Stóðhestur úr þeirra ræktun stóð uppi sem sigurvegari í yngsta flokki á Landsmóti hestamanna, en þetta er ekki í fyrsta sinn sem ræktun þeirra vekur athygli fyrir frambærileg ung hross. 
 
Sirkus frá Garðshorni á Þelamörk stóð efstur í flokki 4 vetra stóðhesta á Landsmóti hestamanna. Sirkus mun vera næsthæst dæmdi 4 vetra hestur fyrir hæfileika í heiminum en hann hlaut 8,71 fyrir kosti þar af einkunnina 9,5 fyrir vilja og geðslag. Hann hlaut 8,17 fyrir byggingu og í aðaleinkunn 8,49. Birna Tryggvadóttir Thorlacius og Agnar Þór Magnússon ræktuðu stóðhestinn. Þau kenndu ræktun sína áður við Lambanes í Dalasýslu en í dag kenna þau öll sín hross við Garðshorn á Þelamörk þar sem þau búa. 
Birna og Agnar Þór hafa bæði áratuga reynslu af hestamennsku og búa því að gagnlegri reynslu og þekkingu sem hefur fleytt þeim í fremstu röð hrossaræktenda landsins. Ræktunarbú þeirra hefur í tvígang verið tilnefnt sem ræktunarbú ársins og hlutu þann titil árið 2014. Ræktun þeirra hefur ekki síst vakið athygli fyrir framgangi ungra hrossa á kynbótabrautinni, en sem dæmi komu sex hross úr þeirra ræktun til dóms í vor, fimm þeirra fjögurra vetra og ein fimm vetra gömul. Hlutu fimm þessara ungu hrossa fyrstu einkunn, þar af voru fjögur þeirra einungis 4. vetra gömul. Þá eru ekki nema þrjú ár síðan annar stóðhestur úr þeirra ræktun, Hersir frá Lambanesi, hlaut hæstu einkunn 4 vetra hesta eftir kynbótaárið 2013. 
 
Ótamin stofnhryssa
 
Góður árangur í hrossarækt grundvallast af góðum ræktunarhryssum. Agnar og Birna byggja ræktun sína að mörgu leyti á einni hryssu, Sveiflu frá Lambanesi. Agnar fékk Sveiflu til eignar þegar hann var aðeins tvítugur, og var hryssan aldrei tamin því hún hafði týnst í nokkur ár. Agnar hafði þó trú á getu hryssunnar þar sem hún fór um á skrefmiklum gangi með miklum fótaburði að hans sögn. Hann hefur þar veðjað á rétta ­hryssu því Sveifla gaf samtals fjórtán afkvæmi, níu þeirra hafa komið til kynbótadóms og hafa sjö þeirra hlotið fyrstu verðlaun. Nokkrar dætur Sveiflu bera hróður hennar áfram í ræktunarhópi Garðshorns á Þelamörk og er landsmótssigurvegarinn Sirkus næstsíðasta afkvæmi þessarar gömlu stofnhryssu. 
 
Gleði að rækta góð hross
 
Það sem vekur einnig eftirtekt þegar litið er á ræktun þeirra Agnars og Birnu er pörun og val á stóðhestum. Þar má segja að þau treysti á innsæi og þekkingu. „Við veljum það sem höfðar sérstaklega til okkar og fylgjum hjartanu. Maður nær ekki árangri í ræktun ef maður fylgir bara tískustraumum. Við höfum tamið allar ræktunarhryssurnar og sýnt að undanskilinni Sveiflu og þekkjum þær því mjög vel sem skiptir miklu máli við val á stóðhestum,“ segir Agnar Þór. 
 
Sem dæmi um þetta er þegar þau völdu þónokkuð óþekktan stóðhest, Fáfni frá Hvolsvelli, fyrir allar ­hryssur sínar eitt árið. Birna hafði séð hestinn á kynbótasýningu og hrifist mikið af honum. „Hann virkaði á mig eins og geðgóður gæðingur með eðlisfótaburð. Hann hlaut háan byggingar- og hæfileikadóm, til dæmis 9 fyrir háls, tölt, brokk, vilja og geð og fegurð í reið, auk þess að hafa áhugaverðar ættir á bakvið sig. Hann hafði skemmtilega útgeislun og var skrefmikill. Hann hafði þá þætti sem við höfum verið að leitast eftir í okkar ræktun.“ 
 
Agnar Þór og Birna, hrossaræktendur á Garðshorni á Þelamörk, ásamt nokkrum fulltrúum ræktunar sinnar á Landsmótinu á Hólum. Agnar Þór heldur í Garún og Sirkus, hæst dæmda 4 vetra stóðhest Landsmótsins. Birna heldur í Hersi og Laxnes frá Lambanesi. Báðir byrjuðu þeir feril sinn vel á kynbótabrautinni en hafa á síðastliðnu ári komið fram í keppnum. Garún, Sirkus og Laxnes eru öll undan Sveiflu frá Lambanesi og Hersir undan dóttur Sveiflu.
 
Fáfnir var lítið notaður hér á landi og var seldur til Þýskalands árið 2012. Hann skilur þó eftir sig góðan fulltrúa, þökk sé framsýni ungu ræktendanna því undan honum er Sirkus. Auk þess eignuðust Birna og Agnar fjögur önnur áhugaverð hross undan honum. „Gleðin við þennan árangur er í raun að hafa valið það sem við vildum sjálf. Það skiptir máli að hafa persónulega gaman af hrossunum sem notuð eru til undaneldis og leitast eftir að rækta það sem maður heldur að muni veita manni ánægju,“ segir Birna. 
Innt eftir hve lykillinn sé að góðum árangri svo ungra hrossa segja Agnar Þór og Birna að fóðrun við uppeldi hrossa skipta sköpum þegar kemur að undirbúningi fyrir tamningu og þjálfun „Það þarf að passa vel upp á hrossin í uppvextinum, sérstaklega stóðhestana, fóðra þau vel svo vöðvalagið byggist rétt upp,“ segir Agnar Þór. Þau nefndu jafnframt að góð ástundun, vandasöm uppbygging og þjálfun hross­anna skipta miklu máli. Að hrossin séu andlega og líkamlega vel uppbyggð þannig að þau séu undir það búin að sýna það sem í þeim býr þegar til dóms er mætt. 
 
Geðslagsgull
 
Agnar Þór og Birna lýsa Sirkusi sem einstökum karakter. „Geðslagið og hreyfieðlið er frábært, það er mikil mýkt í skrokknum. Hann kemur mér alltaf á óvart þegar ég sest á hann,“ segir Agnar Þór og nefnir sem dæmi jafnaðargeðið sem hann sýndi í verðlaunaveitingu Landsmótsins. „Þar kemur hann inn á völlinn sem var umvafinn klappandi fólki og myndavélum um allt. En hann var bara sultuslakur allan tímann. Hann er alltaf svo þægur og fús.“ 
 
Birna segir þau hafi fundið það strax í frumtamningu að Sirkus væri efni í gæðing. „Sirkus hefur frá upphafi verið mjög áhugaverður hestur, næmur, fljótur að læra og skemmtilegur karakter. Hann er með sterkar gangtegundir, hefur til dæmis skemmtilegt fjaðurmagnað brokk, mikið stinnt og öruggt og styrkurinn er mikil. Hann hefur frá upphafi verið mjög gefandi hestur að vinna með og erum við mjög ánægð með hve vel hefur tekist að sameina marga eftirsóknarverða gæðingskosti í einum grip.“
 
Framför í hrossarækt hafa meðal annað skilað sér í bættu lundarfari hrossa. Agnar og Birna leggja mikið upp úr ræktun geðgóðra hrossa og hlaut Sirkus m.a. 9,5 fyrir vilja og geðslag. En hvað er gott geðslag? „Algjört spennuleysi og jákvæðni. Sirkus er þannig að ef þú ferð í reiðtúr og ætlar að vera rólegur, þá er hann slakur. Ef maður biður um meira, þá gefur hann meira, en slakar svo vel eftir á. Viljinn er þannig akkúrat eins og maðurinn sem situr á honum vill hafa hann,“ segir Agnar Þór. 
 
„Gott geðslag lýsir sér í hesti sem hugnast knapanum og sýnir ekki mótþróa, en er þvert á móti kátur og samstarfsfús. Í tilfelli Sirkusar þá hefur aldrei þurft að þvinga hann, heldur hefur þjálfun hans snúist um að laða fram kostina og styrkja hann á jákvæðan hátt, með því að byggja upp styrk og þol og hjálpa honum með jafnvægið,“ segir Birna. 
 
Hestafjölskyldan sameinast
 
Landsmót eru annasöm hátíð hjá hestaeigendum og knöpum en Agnar segir að góð aðstaða og skipulag á Hólum hafi gert þátttökuna afar ánægjulega. „Það hefur verið rosalega gaman að taka þátt og vera með í að skapa þessa heild. Það hefur verið sérstaklega gott þar sem aðstaðan hér er til fyrirmyndar bæði fyrir hesta og þátttakendur. Nálægðin við fólkið er skemmtileg, hesthúsin eru í göngufjarlægð og maður getur því auðveldlega labbað á milli, horft á dagskrána milli sýninga, slakað á og hitt fólk,“ segir Agnar Þór. 
Birna nefnir einnig góðan aðbúnað í hesthúsinu á Hólum, en þar voru saman komin tæp 200 þátttökuhross og því var ávallt mikið um að vera frá morgni til kvölds. „Eitt það skemmtilegasta við þetta mót er sú stemning sem hefur myndast í hesthúsinu. Þar er frábært að vera og spjalla við kollegana milli sýninga í stað þess að vera á víð og dreif,“ segir Birna og Agnar Þór tekur í sama streng. „Þar sameinaðist hestafjölskyldan.“
 
Í huga þeirra eru Hólar í Hjaltadal því komin til að vera landsmótsstaður. „Þetta er besti staðurinn sem við höfum verið á. Hér höfum við ekki þurft að standa í neinum flutningum á hestum til og frá mótsstað. Ég finn það á hestunum að andleg streita er engin. Stanslaus akstur milli staða og það að vera í kerru getur skapað spennu. Því er þetta ekki síst góður staður út frá velferðarsjónarmiðum,“ segir Agnar Þór. 
 
Þau segjast jafnframt greina sýnileg framför í gæðum tamningar og þjálfunar á hrossum. „Þá má sjá bætta reiðmennsku knapanna sem ég tel stóran þátt í framförunum. Knaparnir eru farnir að hugsa um sig sjálfa sem íþróttamenn, ekki síður en hestana,“ segir Birna. Þessum hugsunarhætti hefur fleytt fram á undanförnum árum. „Maður kemst bara hálfa leið á því að hafa hrossin í toppþjálfun. Það er jafnmikið atriði að knapinn sé í góðu líkamlegu ástandi svo hann hafi jafnvægi á móti hestinum. Þetta er sérstaklega mikilvægt hjá ungum hrossum,“ bætir Agnar Þór við. 
 
Sirkus falur
 
Hrossaræktendurnir hafa enga ákvörðun tekið um framtíð Sirkusar. „Við höfum trú á að hann eigi eftir að geta reynst vel sem kynbótahestur og sé efni í mjög frambærilegan keppnishest til að mynda. Þar sem við vinnum við að rækta hross, temja og selja hross þá erum við opin fyrir að selja hann,“ segja þau. 
 
Sjálf ætluðu þau að fagna árangrinum í langþráðri utanlandsferð með börnum sínum. „Við erum ekki búin að meðtaka árangurinn fyrir þetta litla ræktunarbú okkar. Við erum hins vegar ákaflega stolt og í raun hrærð. Það er ótrúlegt hvernig þetta hefur spilast út hjá okkur, “ segir Agnar Þór. 

Skylt efni: Hrossarækt | Garðshorn

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018
Fréttir 13. september 2024

Fyrsta myglulausa sumarið frá 2018

Ekki hefur orðið vart við kartöflumyglu í sumar sem er þá fyrsta myglulausa suma...

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum
Fréttir 13. september 2024

Tugmilljónatjón hjá kartöflubændum

Kartöflubændur í Nesjum í Hornafirði urðu fyrir verulegu tjóni á dögunum þegar h...

Bændur selja Búsæld
Fréttir 13. september 2024

Bændur selja Búsæld

Um 90 prósent bænda í Búsæld hafa ákveðið að taka kauptilboði Kaupfélags Skagfir...

Frekari fækkun sláturgripa
Fréttir 12. september 2024

Frekari fækkun sláturgripa

Um 28 þúsund færri lömb komu til slátrunar síðasta haust en árið á undan. Áfram ...

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
Fréttir 12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Fjár- og stóðréttir eru fram undan og venju samkvæmt birtir Bændablaðið lista yf...

Lækkað verð á greiðslumarki
Fréttir 12. september 2024

Lækkað verð á greiðslumarki

Niðurstöður tilboðsmarkaðar fyrir greiðslumark mjólkur í byrjun september sýna l...

Smalað vegna óveðurs
Fréttir 12. september 2024

Smalað vegna óveðurs

Fyrsta haustlægðin kom á dögunum, með gulum og appelsínugulum viðvörunum, norðan...

Garðyrkjubændur rafmagnslausir
Fréttir 12. september 2024

Garðyrkjubændur rafmagnslausir

Raforkusamningum meirihluta garðyrkjubænda landsins hefur verið sagt upp. Í suma...

Réttalistinn 2024
29. ágúst 2024

Réttalistinn 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi
12. september 2024

Fjár- og stóðréttir 2024 - Uppfærður listi

Gerum okkur dagamun
13. september 2024

Gerum okkur dagamun

Göngur og góður reiðtúr
13. september 2024

Göngur og góður reiðtúr

Bændur selja Búsæld
13. september 2024

Bændur selja Búsæld