Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 ára.
Hvanneyri.
Hvanneyri.
Fréttir 10. ágúst 2018

Aðeins 25 til 30 búfræðingar útskrifast á ári

Höfundur: Vilmundur Hansen

Á hverju ári berast milli 40 og 60 umsóknir í búfræðinám Landbúnaðarháskóla Íslands en vegna fjárskorts eru einungis teknir inn 25 til 30 nemendur. Fjöldi nemenda í búvísindum á BS-stigi er um 25.

Alls bárust LbhÍ 350 umsóknir um nám næsta skólaár, þar af um 160 í starfsmenntanám, búfræði og í garðyrkju.

Stjórnarmaður í Bænda­sam­tökunum telur útskrifaða nem­endur í búfræði ekki standa undir nauðsynlegri endurnýjun í landbúnaði. Auk þess sem skortur er á nemendum í meistara- og doktorsnám við Land­búnaðar­háskóla Íslands.

Einar Ófeigur Björnsson, bóndi að Lóni II og stjórnarmaður í Bændasamtökum Íslands, segist hafa áhyggjur af starfi Landbúnaðarháskóla Íslands og segir skólann ekki útskrifa nægilega marga búfræðinga til að standa undir nauðsynlegri endurnýjun í landbúnaði. Hann segir að annað hvert ár þurfi að taka inn fleiri nemendur í búfræðideild skólans eða leita þurfi samstarfs við einhverja framhaldsskóla svo að hægt sé að ljúka búfræðinámi frá þeim.

Nauðsynlegt að fjölga útskrifuðum búfræðingum

„Mér skilst að það útskrifist tæpir 30 búfræðingar á ári og ef við gefum okkur að bændur í landinu séu um 3.000 þá tekur um hundrað ár að endurnýja bændastéttina, að því gefnu að allir útskrifaðir búfræðingar gerist bændur. Þannig er það þó ekki því að það má gefa sér að sex til tíu af þessum 30 fari í framhaldsnám og ekki allir sem fara í búskap, eins og allir vita, og fara til annarra starfa. Ég held því að gróft áætlað getum við gefið okkur að hámark 15 útskrifaðir búfræðingar á ári fari í almennan búskap sem þýðir að það tekur 200 ár að endurnýja bændastéttina og það er of langur tími.

Einar segir að þessi staða sé búin að vera viðvarandi lengi. „Mér skilst að aðsókn í bændadeildina sé næg en að það sé ekki nema hluti umsækjenda tekinn inn. Fljótt á litið sýnist mér að ef við viljum hafa menntaða bændastétt í landinu þá þarf að lágmarki að útskrifa um 45 búfræðinga á ári og hugsanlega 60 ef vel á að vera.“

Að sögn Einars hefur þróun í landbúnaði undanfarin ár verið sú að búum fækkar og þau stækka og bændum hefur verið að fækka en það kemur að endamörkum í því.

„Það sem sló mig í ræðum við útskrift á Hvanneyri í vor var að enginn ræðumanna minntist á bændadeildina og öll áherslan var lögð á háskólahluta námsins við skólann og það nefndi enginn að það þyrfti að standa vörð um búfræðinámið.

Persónulega er ég á því að það ætti að koma á búfræðibraut í einhverjum framhaldsskólum þar sem hægt er að læra búfræði. Námið á Hvanneyri er mörgum nemendum dýrt, sérstaklega þeim sem koma langt að, og því æskilegt að það sé boðið upp á búfræðinám nærri heimabyggð.“

Tveggja ára nám

Búfræðinám við Landbúnaðar­háskóla Íslands er tveggja ára nám á starfsmenntasviði, bæði staðarnám og fjarnám. Markmið búfræðináms er að auka þekkingu og færni einstaklingsins til að takast á við búrekstur og alhliða landbúnaðarstörf, ekki síst á sviði rekstrar, bútækni, jarð- og búfjárræktar.

Ólöf Ósk Guðmundsdóttir, landbúnaðarfræðingur og brautarstjóri búfræðideildar Landbúnaðarháskóla Íslands, segir að síðustu ár hafi 25 til 30 nemendur útskrifast sem búfræðingar á ári.

Aðspurð hvort það sé nægur fjöldi til að mæta endurnýjun í bændastétt segir Ólöf að skólinn sé ekki með neina stefnu hvað það varðar. „Aðsóknin að skólanum er meiri en hann nær að anna. Umsóknir á ári eru milli 40 og 60 en við getum ekki tekið inn nema 25 til 30 nemendur á ári vegna fjárskorts. Það vantar einnig fleiri kennara og til að ráða fleiri kennara þarf meira fjármagn og það er pólitísk ákvörðun.“

Ólöf segir í sjálfu sér snúið að reka háskóla með starfsmenntadeild en að metnaður fyrir búfræðideild skólans sé mikill og engu minni en fyrir öðru námi hjá Landbúnaðarháskólanum enda deildin mikilvæg.

„Næstkomandi vetur verða teknir inn 25 staðarnemar og 10 nemar í fjarnámi og er það í fyrsta sinn í nokkur ár sem teknir eru inn fjarnemar sem koma til okkar í starfbundnar lotur nokkrum sinnum á ári.“

Skortur á meistara- og doktorsnemum

Samkvæmt upplýsingum Birnu Kristínar Baldurs­dóttur, brautar­stjóra búvísinda­deildar LbhÍ, er fjöldi umsækjenda í BS-nám í bú­vísindum svip­aður og undanfarin ár.

„Nemendur í búvísindum sem útskrifast með BS-próf hafa verið 25 á ári og stór hluti þeirra fer í búskap að náminu loknu en minna um að þeir fari í framhaldsnám og í raun skortur á nemendum í meistara- og doktorsnámi.“

Góð aðsókn í garðyrkjunám

Í garðyrkjunám að Reykjum bárust 73 umsóknir og eru flestar þeirra í garðyrkjuframleiðslu. Það er sambærilegt og þegar tekið var síðast inn í skólann fyrir tveimur árum.
 

Mugga bar þremur kvígum
Fréttir 26. júlí 2024

Mugga bar þremur kvígum

Kýrin Mugga 985 frá bænum Steindyrum í Svarfaðardal í Dalvíkurbyggð bar þríkelfi...

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku
Fréttir 25. júlí 2024

Innleiða kolefnisgjald á landbúnað í Danmörku

Þann 24. júní náðist sögulegt samkomulag í Danmörku, á milli stjórnvalda og nokk...

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?
Fréttir 25. júlí 2024

Er endurheimt vistkerfa skilvirkari en skógrækt?

Því hefur verið varpað fram að þegar kemur að kolefnisbindingu ætti að leggja me...

Snikka til lög um flutningsjöfnuð
Fréttir 25. júlí 2024

Snikka til lög um flutningsjöfnuð

Áform eru uppi um breytingu á lögum um svæðisbundna flutningsjöfnun.

Stofnanir út á land
Fréttir 24. júlí 2024

Stofnanir út á land

Aðsetur nýrra stofnana umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytisins verður utan h...

Lundaveiðar leyfðar
Fréttir 24. júlí 2024

Lundaveiðar leyfðar

Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja hefur samþykkt að heimila lundaveiði 27...

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum
Fréttir 23. júlí 2024

Óska eftir sýnum úr dauðum kálfum

Rannsóknamiðstöð landbúnaðarins, RML, rannsakar nú erfðaorsakir kálfadauða.

Upphreinsun skurða
Fréttir 23. júlí 2024

Upphreinsun skurða

Búnaðarfélag Austur-Landeyja hefur sent sveitarstjórn Rangárþings eystra erindi ...