Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 ára.
KIA Optima SW.
KIA Optima SW.
Á faglegum nótum 31. október 2017

205 hestafla sjálfskiptur KIA

Askja er með umboð fyrir KIA og eru KIA bílar þeir einu sem eru með 7 ára ábyrgð. Nýjasti bíllinn frá þeim er KIA Optima SW sem er svokallaður „plug-in hybrid“ bíll sem fer fyrstu 40-60 km á rafmagninu áður en bensínvélin tekur við.
 
Ég tók stuttan prufuhring á bílnum fyrir skemmstu. 
 
Þægilegur í akstri og kraftmikill 
 
Bíllinn var fullhlaðinn inn á rafhlöðuna þegar ég tók hann og því voru fyrstu kílómetrarnir á rafmagnsmótornum einum fyrir utan þau skipti sem ég gaf bílnum í botn, en þá fór bensínmótorinn í gang til að gefa meiri kraft og snerpu. Í tvígang gaf ég bílnum í botn þegar ég var að fara af stað og mótorinn fór þá í gang, en strax og ég sló af þagnaði mótorinn og bíllinn leið áfram á rafmagnsmótornum nánast hljóðlaust. Eina hljóðið var veghljóðið frá dekkjunum og örlítill niður í rafmagnsmótornum sem er staðsettur þar sem varadekk á öðrum bílum er almennt. 
 
Hlaðinn aukabúnaði
 
KIA Optima SW er með lyklalaust aðgengi. Ef maður er með lykilinn í vasanum og nálgast bílinn læstan koma hliðarspeglarnir út og lítil ljóstíra kviknar við hurðarhúninn bílstjóramegin þar sem lítill takki er til að ýta á og opna bílinn. 
 
Þegar drepið er á bílnum fer bílstjórasætið aðeins aftur til að þægilegra sé að fara út úr bílnum og síðar inn í bílinn aftur og þegar ýtt er á starttakkann fer sætið í fyrri stöðu eins og síðasti ökumaður stillti sætið. 
Mikið af rafmagnsaukabúnaði er í bílnum, s.s. hiti og loftkæling í framsætum og hiti í aftursætum, hiti í stýri, bílstjórasæti með minni, þráðlaus hleðsla fyrir síma og margt fleira. Einnig er í bílnum SPAS (Smart Parking Assist System) sem les bílastæði sem bakka á inn í og bíllinn stýrir sjálfur inn í stæðið. Ökumaður þarf bara að fylgja skipunum í mælaborði með að setja bílinn í áfram- og afturábak gíra og bremsa. 
 
Liggur vel á malarvegum
 
Þar sem að rafmagnsmótorinn er aftur í bílnum og setur þunga vélbúnaðarins á afturöxulinn situr bíllinn vel á vegum. Það er ólíkt mörgum öðrum bílum sem eru með allan vélbúnað yfir framöxli og ekkert á afturöxli. Það gerir suma bíla varasama í lausamöl og hálku. Sérstaklega fann ég hve KIA Optima SW situr vel á lausum malarvegi. 
 
Þrátt fyrir að vera bara framhjóladrifinn virkaði bíllinn stundum eins og að hann væri fjórhjóladrifinn fyrir það að vera með þennan þunga yfir afturöxlinum þegar ekið var í lausamöl. Það eina sem angraði mig á malarveginum var hversu mikið heyrðist í smásteinum og möl upp undir bílinn. Það er  hreinlega spurning um að sprauta einhverju hljóðeinangrandi efni upp undir bílinn til að minka þetta. Hugsanlega myndi þá einnig minnka veghljóð inn í bílinn frá hjólbörðunum sem er full mikið miðað við rafmagnsbíl.  
 
Kostir og ókostir 
 
Miðað við að dagleg notkun bílsins sé um 50 km ætti bíllinn þá nánast eingöngu að ganga fyrir rafmagninu. Ef akstur er lengri og rafmagn klárast er kraftmikil tveggja lítra bensínvélin ekki að eyða miklu. Því ætti bíllinn að vera mjög hagkvæmur í rekstri. 
 
Allt pláss fyrir farþega er gott, sæti þægileg og fótapláss gott. Rafmagnsmótorinn tekur plássið þar sem varadekk er í flestum bílum og því ekkert varadekk sem er ókostur. Hins vegar fylgir með bílnum lítil taska til dekkjaviðgerða með viðgerðarvökva og rafmagnspumpu. Flestir þeir sem reyna að nota þetta eru í stökustu vandræðum og ná ekki að koma lofti í sprungið dekk. Hins vegar eru hjólbarðarnir undir bílnum með ágætis hæð (nokkuð belgmikil með háan „prófíl“) og því þokkalega fjaðrandi. Þau ættu að þola, en innan ákveðinna marka, holótta og skemmda íslenska vegi. 
 
Eins og flestir bílar þá er ljósarofinn þannig að smátírur koma að framan séu ljós ekki kveikt, en ef ljósarofinn er settur á ON (myndina af ljósinu) þá þarf ekki að slökkva ljós þegar farið er frá bílnum. Ljósin slokkna sjálfkrafa eftir um 10 sekúndur eftir að bílnum er læst. Hæð undir lægsta punkt er frekar lítil sé hugsað til aksturs á malarvegum og í snjó.      
 
Gott verð miðað við ábyrgð og stærð
 
Ég hefði viljað keyra bílinn lengra en ég gerði (tímaleysi og lítt spennandi veður), en minn akstur var rétt tæpir 100 km. Miðað við aksturstölvu bílsins, þar sem að ýmsir viðskiptavinir Öskju höfðu prófað bílinn á undan mér, var meðaleyðsla mín og þeirra 4,7 lítrar á hundraðið fyrstu 682 km í akstri bílsins.
 
Verðið er að mínu mati mjög gott miðað við hagkvæmi í rekstri, kraft og þægindi, en ásett verð á bílnum sem ég prófaði er 4.990.777. 
 
Allar nánari upplýsingar um KIA má finna á vefsíðunni www.kia.is. 
 
Helstu mál og upplýsingar:
Þyngd 1.805 kg 
Hæð 1.465 mm
Breidd 1.860 mm
Lengd 4.855 mm
 

 

6 myndir:

Vegaframkvæmdum forgangsraðað
Fréttir 4. desember 2024

Vegaframkvæmdum forgangsraðað

Alls verður rúmum 27 milljörðum króna ráðstafað til framkvæmda og viðhalds á veg...

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina
Fréttir 4. desember 2024

Hrossafeitin mýkri fyrir húðina

Fremur mun fátítt að hrossafeiti sé notuð í sápuframleiðslu hérlendis. Úr tíu kí...

Nýr skóli byggður
Fréttir 3. desember 2024

Nýr skóli byggður

Fyrsta skóflustungan var tekin á dögunum að nýjum Bíldudalsskóla sem verður samr...

Ávextir beint frá spænskum bónda
Fréttir 3. desember 2024

Ávextir beint frá spænskum bónda

Rekstur norðlenska innflutnings­fyrirtækisins Fincafresh hefur vaxið jafnt og þé...

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga
Fréttir 2. desember 2024

Félagssálfræðilegur munur milli sveitarfélaga

Vonast er til að að aukin þekking á sálfræðilegum hliðum byggðamála geti stuðlað...

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð
Fréttir 29. nóvember 2024

Ráðinn slökkviliðsstjóri í Fjarðabyggð

Suðurnesjamaðurinn Ingvar Georg Georgsson hefur verið ráðinn í starf slökkviliðs...

Rannsókn ungra bænda
Fréttir 29. nóvember 2024

Rannsókn ungra bænda

Samtök ungra bænda (SUB) eru að kortleggja hindranir og hvata nýliðunar og kynsl...

Haustrúningur í fullum gangi
Fréttir 29. nóvember 2024

Haustrúningur í fullum gangi

Baldur Stefánsson, rúningsmaður frá Klifshaga í Öxarfirði, klippir tólf til þret...