Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 6 ára.
„Hvað eru þið að bauka þarna í Bændahöllinni?“
Skoðun 15. desember 2016

„Hvað eru þið að bauka þarna í Bændahöllinni?“

Höfundur: Sindri Sigurgeirsson
Það er ekki óalgengt að bændur velti fyrir sér því starfi sem unnið er á vettvangi Bændasamtakanna.
Margt af því sem við gerum er ekki sýnilegt og annað fer ekki fram hjá neinum. Við sem störfum fyrir íslenska bændur verðum því að að vera dugleg að miðla upplýsingum um þau verkefni sem unnið er að hverju sinni og einnig að hlusta eftir því hvað brennur á bændum.
 
Sú breyting sem verður á innheimtu félagsgjalda nú um áramótin gefur okkur tækifæri til að draga fram það sem við erum að gera hjá BÍ til að vinna að hagsmunum íslenskra bænda. Samtökin verða 180 ára í janúar á næsta ári, félagsmenn okkar í dag telja um sex þúsund og aðildarfélög eru 24. Stöðugildi eru rúmlega 26 alls.
 
Meginstarfsemi samtakanna er í Bænda­höllinni en samtökin eru einnig með starfsstöð á Akureyri, auk þess sem nokkrir starfsmenn hafa aðsetur annars staðar. Þá eiga og reka samtökin Nautastöðina á Hesti og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins sem rekur 13 starfsstöðvar víðs vegar um land.
 
Að auki er Hótel Saga í eigu Bænda­samtakanna en ákveðið var af stórhuga bændum á fimmta áratugnum að eiga hótel og athvarf í höfuðstaðnum. Hótelið var tekið í notkun árið 1962 og er fyrir löngu orðið þekkt kennileiti í bæjarmyndinni í Reykjavík.
 
Fjölbreytt starfsemi
 
Hjá Bændasamtökunum starfar fjölbreyttur hópur fólks með ólíka reynslu og menntun. 
Á félags-, fjármála- og skrifstofusviði starfar hagfræðingur og lögfræðingur ásamt sérhæfðu skrifstofufólki sem fæst meðal annars við fjármálastjórn, ritarastörf, umsýslu auglýsinga, símsvörun, bókhald og reikningagerð.  
 
Í tölvudeild Bændasamtaka Íslands starfa tíu manns sem gegna mismunandi hlutverkum og eru staðsettir á þremur starfsstöðvum. Þjónustufulltrúar eru þrír, einn kerfisstjóri, fimm aðilar sem sinna hugbúnaðargerð og einn kynbótafræðingur. Meginverkefni deildarinnar eru þróun og viðhald á skýrsluhaldskerfum er tilheyra landbúnaði, gagnaumsjón og innri þjónusta við samtökin sjálf og Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.
 
Á útgáfu- og kynningarsviði starfa fimm manns í fullu starfi auk þess sem verktakar víða um land sjá deildinni fyrir efni og vinna að sérverkefnum. Bændablaðið er fyrirferðarmest í rekstrinum en þar starfa tveir blaðamenn, auglýsingastjóri og ritstjóri. Skólaverkefnið „Dagur með bónda“, þar sem bændur heimsækja grunnskóla, er rekið allt árið um kring auk þess sem deildin heldur utan um tengslanet bænda í Opnum landbúnaði. Almannatengsl og ýmis upplýsingagjöf er jafnframt stór hluti af rekstri sviðsins, s.s. útgáfa kynningarefnis, rekstur vefja og innsetning efnis á samfélagsmiðla.
 
Á Nautastöðinni á Hesti í Borgarfirði starfa þrír starfsmenn í fullu starfi, forstöðumaður, dýralæknir og fjósameistari.
 
Stjórn BÍ samanstendur af fimm bændum sem kosnir eru á Búnaðarþingi til tveggja ára í senn. Framkvæmdastjóri og formaður BÍ eru talsmenn samtakanna og koma fram fyrir þeirra hönd.
 
Bændasamtökin vinna fyrir alla bændur
 
Bændasamtökin móta stefnu í málefnum bænda og landbúnaðarins í heild. Fulltrúar bænda á Búnaðarþingi marka stefnuna en starfsmenn og trúnaðarmenn bænda fylgja henni eftir á milli þinga. Stór hluti af starfsemi Bændasamtakanna felst í samskiptum við stjórnvöld og ýmsa skylda aðila.
Bændasamtökin veita umsagnir um lagafrumvörp og reglugerðir sem snerta landbúnaðinn og hag bænda og fylgja þeim eftir gagnvart stjórnvöldum.
 
BÍ eru málsvari bændastéttarinnar gagnvart ríkisvaldinu og öðrum aðilum þjóðfélagsins sem stéttin hefur samskipti við. 
 
Fulltrúar samtakanna taka þátt í samráðshópum og nefndum þar sem landbúnaðurinn er til umfjöllunar og halda fram stefnu samtakanna þar sem það á við. Þeir halda hagsmunum bænda á lofti í stjórnkerfinu og berjast fyrir eðlilegum og sanngjörnum starfsskilyrðum þeirra.
 
Samtökin annast samningagerð af hálfu bænda, til dæmis búvörusamningagerð við ríkisvaldið og samninga um kjör starfsfólks í landbúnaði.
 
BÍ koma fram fyrir hönd íslenskra bænda gagnvart hliðstæðum samtökum erlendis og eru m.a. aðilar að Heimssamtökum bænda (WFO), Evrópusamtökum bænda (COPA) og Samtökum bænda á Norðurlöndum (NBC).
 
Til að þjónusta bændur sem best þá hafa samtökin á sínum snærum orlofshús fyrir félagsmenn auk orlofsíbúðar í Kópavogi. Enn fremur njóta bændur bestu fáanlegra kjara á gistingu á Hótel Sögu. BÍ reka starfsmenntasjóð þar sem bændur geta fengið stuðning vegna sí- og endurmenntunar auk þess að stefna á enn frekari þjónustu og stuðning við sína félagsmenn. 
 
Sterk bændahreyfing tryggir slagkraft
 
Af þessu öllu er ljóst að það er heilmikið umleikis hjá þeim sem starfa hjá samtökum bænda, bæði í Bændahöllinni sem og um allt land. Það er enda keppikefli okkar að vinna að bættum kjörum bænda á öllum sviðum, vera málsvarar þeirra og vinna að framförum og hagsæld í landbúnaði á Íslandi.
 
Slagkraftur alls þess fjölda bænda sem standa á bak við samtökin hafa gert þau að því afli sem þau eru í samfélaginu.
 
Á síðustu árum hafa mörg stór verkefni verið á borði Bændasamtakanna. Má þar nefna vinnu vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, umræða um matvælaverð og tolla, umræðu um dýravelferð og viðvarandi baráttu fyrir bættum búsetuskilyrðum í dreifbýli. Stærsta verkefni síðustu misserin er vinna tengd gerð nýrra búvörusamninga. Öll þessi verkefni kosta mikla fjármuni og því er samtökunum mikilvægt að tryggja áfram fjármögnun sína og sjálfstæði.  
 
Með þeim breytingum sem verða á félagsaðild að Bændasamtökunum er komið til móts við sjónarmið um félagafrelsi. Með brottfalli búnaðargjalds munu Bændasamtökin ekki lengur fá tekjur af félagsmönnum sínum með óbeinum hætti eins og verið hefur – heldur með beinum hætti í gegnum félagsgjöld. Það þýðir líka að enginn þarf að greiða til samtakanna sem ekki vill gera það. Breytingunni fylgja einnig skemmtilegar áskoranir um að reka öflug og skilvirk samtök sem íslenskir bændur geta sameinast um.  
Lesendum blaðsins og bændum í sveitum landsins eru færðar bestu óskir frá stjórn og starfsfólki BÍ um gleðileg jól og farsæld á nýju ári. Árið þar sem Bændasamtök Íslands ætla áfram að vera öflugur málsvari íslenskra bænda. Til þess að svo megi verða vonumst við til þess að sem flestir bændur verði þátttakendur í öflugri liðsheild BÍ og aðildarfélaga þeirra. Þannig getum við áfram unnið að framförum og hagsæld í landbúnaði – fyrir okkur öll. 
Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert
Fréttir 8. desember 2023

Bæta má orkunýtingu í landbúnaði talsvert

Unnt er að spara allt að 1.500 GWst árlega á Íslandi og þar af um 43 GWst í land...

Opnunarhóf í Miðskógi
Fréttir 8. desember 2023

Opnunarhóf í Miðskógi

Byggingu nýs kjúklingahúss í Dölunum er lokið og verður tekið í notkun 1. desemb...

Skilgreina opinbera grunnþjónustu
Fréttir 8. desember 2023

Skilgreina opinbera grunnþjónustu

Unnin hafa verið drög að skilgreiningu á opinberri grunnþjónustu, ásamt greinarg...

Innleiða þarf vistkerfisnálgun
Fréttir 7. desember 2023

Innleiða þarf vistkerfisnálgun

Tímabært þykir að innleiða vistkerfisnálgun á Íslandi með skipulögðum hætti. Fræ...

Verðmætasköpun eykst og mikil sala
Fréttir 7. desember 2023

Verðmætasköpun eykst og mikil sala

Æðarræktarfélag Íslands (ÆÍ) hélt aðalfund að Keldnaholti 18. nóvember. Alls mæt...

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu
Fréttir 6. desember 2023

Tilraun til að bjarga færeyska hrossakyninu

Færeyska hestakynið er í útrýmingarhættu en í dag eru til 89 færeysk hross og af...

Nýr stjórnarformaður
Fréttir 6. desember 2023

Nýr stjórnarformaður

Daði Guðjónsson er nýr stjórnarformaður markaðsstofunnar Icelandic Lamb, sem fer...

Margir fengu vel í soðið
Fréttir 6. desember 2023

Margir fengu vel í soðið

Útlit er fyrir að rjúpnaveiði hafi í ár verið allt að 20% meiri en í fyrra. Meða...