Klassík í bland við bleikar fjaðrir
Líf og starf 19. desember 2025

Klassík í bland við bleikar fjaðrir

Höfundur: Sigrún Pétursdóttir

Klassískur Chanel-kjóll fyrir þær smörtustu, þykkt, mjúkt dökkbleikt flauel eða tjull, bleikar pallíettur og fjaðrir er aðalþema jólatískunnar nú í ár.

Tískurisarnir hafa gegnum árið gefið okkur hugmynd að því sem nú ber að klæðast og kannski ákveðin áskorun í því að fara ekki yfir strikið heldur hafa klassíkina yfirráðandi. Tímalaus svartur kjóll frá Chanel er þar óumdeilanlegur vinningshafi allra tækifæra – töfrandi og einfaldur.

Aldarafmæli LBD

Coco Chanel, guðmóðir tískunnar, hannaði fyrsta klassíska svarta kjólinn sem ekki var tengdur sorgarferli, en teikningar af honum birtust á síðum bandaríska Vouge, árið 1926. Þetta þótti byltingarkennd hugmynd vegna litarins, en þessi dýrð var upphafið að því sem margar konur þekkja undir stöfunum LBD („little black dress“ semsé) og á nær undantekningarlaust við hin flestu tækifæri.

Dökkbleikur litur prýðir svo draumakjóla ársins í ár en þar má bregða á leik. Hönnuðir á borð við Betsey Johnson flétta saman flauel og tjull, fjaðrir og pallíettur og útkoman ekkert annað en stórfengleg. Christian Dior kemur að sama skapi sterkur inn, með hausttísku Johns Galliano frá 2007 þar sem bleikur feldur skreytir samlitan silkikjól svo og með vorlínunni frá 2011. Þó þarna sé ýmislegt meira „flamboyant“ en ella má vel mæta í fjöðrum á virðulega viðburði, þá einungis ef öllu öðru er stillt í hóf.

Vor- og sumarlína Yves Saint Laurant
2026 leikur sér með mónókrómíska
samsetningu sem á alltaf við.
Ert þú alvöru karlmaður?

Fyrir karlmennina er dökka mónókrómíska lúkkið allsráðandi um jólin, þar sem allt er í sama lit – helst dökkt: svart, kolgrátt, djúpbrúnt eða dökkblátt. Innblásturinn kemur meðal annars úr smiðju Prada og Saint Laurant, en þar kemur einfaldleikinn og klassíkin aftur við sögu sem miðlar styrk, yfirvegun og sjálfsöryggi. Karlmenn eru ekki að fela sig, heldur velja einfaldleika sem meðvitaða yfirlýsingu. Karlmennskan sem slík er nefnilega hluti af jólatískunni í ár og rétt að skilgreina þá hugmyndafræði.

Samkvæmt ritinu Liljunni frá árinu 1916 kemur eftirfarandi fram; „Það er til heilög karlmennska, og í henni eigið þér að æfa yður af öllum kröftum. Mont og mikillæti er ekki karlmennska, þótt sumir haldi það, En það er sönn karlmennska, að þora ávalt að segja satt, hvað sem kostar. Það er karlmennska að taka svari lítilmagnans, er á hann er lagst. Það er og karlmennska, að þora að segja nei, þegar slæmir félagar vilja fá yður til að gjöra eitthvað rangt. Það er enn fremur karlmennska, að kunna að stjórna skapi sínu, að geta látið á móti sér og hafa taumhald á óskum sínum og tungu. Sá sem aðeins æfir sína líkamskrafta, en vanrækir að æfa sig í hinni andlegu karlmennsku, hann getur ef til vill orðið sterkur sem naut, en verið samt hið mesta gauð.“

Nú tæpum 110 árum síðar þykir þetta eiga enn við. Karlmannlegur karlmaður ber sig með sjálfsöryggi og yfirvegun. Hann þarf ekki stöðugt að sanna eigið ágæti heldur er samkvæmur sjálfum sér og getur tekist á við erfiðar aðstæður með ró. Hann tekur tillit til fólksins síns, hlustar og sýnir hugrekki, ekki síst þegar kemur að því að taka ábyrgð á mistökum. Hann er hlýr, ábyrgur og áreiðanlegur; fólk veit hvar það hefur hann. Hann stendur við orð sín og ver þá sem honum þykir vænt um. Fyrir utan það auðvitað að hafa húmor fyrir sjálfum sér.

En þarna koma fylgihlutirnir inn sem leika stórt hlutverk í jólatískunni.

Gimsteinar og perlur fyrir allan peninginn

Karlmannlegustu karlmennirnir, þessar elskur, eru nefnilega óhræddir við að skreyta sig bæði perlum og gimsteinum, en einungis þeir sem þekkja sjálfa sig hafa sjálfsöryggið í þá tímalausu fegurð. Perluarmbönd og armbönd með princess cut gimsteinum eru áberandi í ár, og marka ákveðna byltingu í karlatísku. Þetta eru skartgripir sem áður voru taldir „óhefðbundnir“ fyrir karla, en eru nú tákn þeirra sem þora að leika sér með mörk kynjatískunnar án þess að fórna styrk eða reisn.

Jólatískan í ár felst sem sé ekki í að fylgja settum reglum þó ekki sé mælt með að blanda saman fjöðrum, pallíettum demöntum og perlum ef á að halda einhvers konar reisn. Hún er „flamboyant“ á réttum stöðum, yfirveguð á öðrum, og leyfir hverjum og einum að vera bæði hátíðlegur og óhræddur við að láta ljós sitt skína með fegurðina í fyrirrúmi.

Gleðileg jól.

Ps. Jólaskórnir eru svo annaðhvort klassískir eða hrista aðeins upp í mannskapnum, alveg eftir því hvað stemningin býður upp á.

Klassík í bland við bleikar fjaðrir
Líf og starf 19. desember 2025

Klassík í bland við bleikar fjaðrir

Klassískur Chanel-kjóll fyrir þær smörtustu, þykkt, mjúkt dökkbleikt flauel eða ...

Ekki gripið í tómt
Líf og starf 16. desember 2025

Ekki gripið í tómt

Jarðtengd norðurljós eftir Þórarin Eldjárn inniheldur tvær bækur, Frumbók og Nát...

KR-ingar efstir
Líf og starf 16. desember 2025

KR-ingar efstir

Íslandsmót skákfélaga fór fram á dögunum í Rimaskóla.

Að missa af síðustu lestinni
Líf og starf 15. desember 2025

Að missa af síðustu lestinni

6 pör spiluðu alslemmu í spili dagsins, 14 fóru í hálfslemmu en nokkur létu duga...

Okkar besti maður
Líf og starf 11. desember 2025

Okkar besti maður

Á næsta ári verða 300 ár liðin frá fæðingu Eggerts Ólafssonar. Þegar við svipleg...

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum
Líf og starf 8. desember 2025

Jólablóm frá íslenskum garðyrkjubændum

Íslensk blóm gleðja augað. Bæði afskorin blóm og pottaplöntur geta á einn eða an...

Stjörnuspá vikunnar
Líf og starf 8. desember 2025

Stjörnuspá vikunnar

Vatnsberinn mun fljótlega upplifa einhvers konar deyfð og myndi helst kjósa að u...

Jólin eru að koma
Líf og starf 5. desember 2025

Jólin eru að koma

Nú fer að líða að hátíð ljóssins og jólasveinanna og því ekki seinna vænna að sk...