Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Frambjóðendur á kynningarfundi Bændasamtaka Íslands.
Frambjóðendur á kynningarfundi Bændasamtaka Íslands.
Mynd / HKr.
Skoðun 9. september 2021

Ný verkefni í landbúnaði kalla á uppstokkun í stjórnsýslu

Höfundur: Gunnar Þorgeirsson formaður Bændasamtaka Íslands - gunnar@bondi.is

Þegar tvær vikur eru til kosninga, sem haldnar verða 25. september næstkomandi, er baráttan að ná hámarki. Tíu flokkar eru í framboði að þessu sinni og í síðasta mánuði var öllum framboðum boðið að þiggja kynningu frá Bændasamtökunum og hlýða á áherslur samtakanna í aðdraganda kosninga. 

Einungis einn stjórnmálaflokkur hafði strax samband og óskaði eftir kynningu og samtali við sérfræðinga hjá Bændasamtökunum. Annað boð var sent út í liðinni viku á framboðin og fleiri flokkar eru væntanlegir. 

Fyrir hönd þeirra þúsunda bænda sem eru meðlimir í Bændasamtökunum viljum við fá áheyrn til þess að kynna hagsmuni bænda. Þannig getum við vonandi vakið áhuga frambjóðenda á landbúnaðarmálum. Mikið er í húfi, enda ljóst að endurnýjun á þingi í haust verður umtalsverð og ný þingmannsefni munu fá það hlutskipti að vinna að nýjum búvörusamningum. 

Munu frambjóðendur leggja fram sinn skerf í þágu íslensks landbúnaðar?

Áherslur Bændasamtakanna eru þau atriði sem við teljum að hafi úrslitaáhrif á afkomumál íslenskra bænda til lengri tíma. Síðustu tíu ár hafa markast af stefnuleysi og viðbrögðum við aðstæðum í stað skipulegrar sýnar til lengri tíma. Þetta hefur skilað sér í vondri afkomu í sauðfjárrækt og í framleiðslu nautakjöts. Þess vegna telja Bændasamtökin að setja þurfi Landbúnaðarstefnu sem staðfest sé af Alþingi. Þessa stefnu þarf að setja áður en hafist er handa við að ræða breytingar á fyrirkomulagi styrkja til landbúnaðar eða einstaka þætti búvöruframleiðslu.  

Umhverfis- og loftslagsmálin verða ein af stóru málaflokkum Bændasamtakanna á komandi árum. Samtökin hafa sett sér Umhverfisstefnu til ársins 2030. Ný skýrsla IPCC hvetur okkur til að hraða enn frekar aðgerðum, enda stefni í að breytingarnar verði hraðari og meiri en áður var talið. Breytingarnar finnum við á eigin skinni þessi misserin. Landbúnaðurinn ber hér ábyrgð eins og aðrir í samfélaginu. Í núgildandi aðgerðaráætlun er gert ráð fyrir 5% samdrætti í losun fram til ársins 2030 – en ljóst er að ef að auka á aðgerðir á landsvísu mun hlutur landbúnaðar aukast.

BÍ og Landssamtök skógareigenda hafa stofnað með sér félag, Kolefnisbrúna. Markmið Kolefnisbrúarinnar er að tengja saman þá sem þurfa að auka bindingu og þá sem geta aukið bindingu. Kolefnisbrúin mun vinna með landeigendum að því að framleiða nýja búvöru, vottaðar kolefniseiningar. Þær verður hægt að nýta í þágu eigin rekstrar til kolefnisjöfnunar eða til þess að selja á markaði til fyrirtækja sem vilja jafna sína losun. Undirbúningi er að mestu lokið (staðlar, úttektir, vottun o.fl.) og næstu skref er að fá landeigendur og fyrirtæki inn í verkefni. Með því að styðja við brúarsmíði bænda geta stjórnmálamenn stuðlað að árangri í loftslagsmálum, aukinni atvinnu í dreifbýli og fjölbreyttari tekjumöguleikum. 

Skýra þarf viðskiptakjör íslensks landbúnaðar

Stjórnvöld hafa þegar óskað eftir endurskoðun á tollasamningi við ESB enda er hann afar óhagstæður íslenskum landbúnaði og matvælaiðnaði. Endurmeta þarf útflutningsheimildir í samráði við afurðastöðvar. Taka þarf tillit til útgöngu Bretlands úr ESB og endurmeta þarf hlutföll innflutnings á hvorn markað fyrir sig og bera saman við aðra samninga. Til að mynda gáfu íslensk stjórnvöld eftir tíu sinnum meira magn af innanlandsmarkaði gegn útflutningi í samningi við ESB heldur en í nýlegum samningi við Bretland. 

Bændur eru ekki á móti fríverslun – þeir eru hins vegar á móti ósanngjörnum viðskiptasamningum þar sem hagsmunum innlendrar framleiðslu og launþega er fórnað. Til þess að Ísland geti gert hagstæða viðskiptasamninga þurfa forsendur þeirra að hvíla á traustum grunni. Sá grunnur verður ekki byggður nema í samtali.  

Nátengt viðskiptasamningum eru markaðsmálin. Auka þarf sýnileika og markaðshlutdeild íslenskra afurða hjá neytendum. Tengja þarf neytendur betur við frumframleiðendur og auka verðmæti innlendra afurða. Taka þarf á villandi merkingum þannig að neytendur þurfi ekki að hafa stækkunargler meðferðis til þess að rannsaka uppruna matvæla sem þeir versla. 

Að lokum

Ný verkefni í landbúnaði kalla á uppstokkun í stjórnsýslu. Það er ekki hægt að takast á við fjölbreyttar áskoranir þessarar aldar með því að þyrla stjórnsýslu landbúnaðarmála milli margra ráðuneyta. Bændur hafa tekið til heima hjá sér með því að sameina alla bændur í ein samtök. Nú er komið að stjórnsýslunni að taka til hjá sér. 

Við viljum sjá stofnun sérstaks ráðuneytis landbúnaðarmála. Við viljum sjá tilfærslu á málaflokkum á milli ráðuneyta þannig að skógrækt og landgræðsla færist úr umhverfisráðuneytinu yfir í nýtt ráðuneyti landbúnaðarmála og skipulagsmálunum sem eiga heima í ráðuneyti sveitarstjórnar og byggðarmála. 

Fagfundur og afmælisráðstefna
Skoðun 11. mars 2024

Fagfundur og afmælisráðstefna

Tveir viðburðir tengdir sauðfjárrækt haldnir dagana 21. -22. mars næstkomandi.

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?
Skoðun 15. febrúar 2024

Er framtíðin lægra verð fyrir minni gæði?

Við sem neytendur gerum miklar kröfur til innlendrar matvælaframleiðslu og við t...

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting
Skoðun 16. nóvember 2023

Heilsársvegur yfir Öxi er skynsamleg fjárfesting

Tilhneiging stjórnmálamanna er að líta á fjármagn sem veitt er í samgöngur sem k...

Óvissutímar
Skoðun 16. nóvember 2023

Óvissutímar

Á óvissutímum með eldgos yfirvofandi, þegar þetta er skrifað, er hægt að fullyrð...

Hinn glæsilegi árangur
Skoðun 14. nóvember 2023

Hinn glæsilegi árangur

Mér líður satt að segja hálf hjárænulega að setjast við skriftir um þrasið og ós...

Dagur sauðkindarinnar
Skoðun 13. nóvember 2023

Dagur sauðkindarinnar

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu var haldinn í reiðhöllinni Skeiðvangi á...

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum
Skoðun 1. ágúst 2023

Áhættumatið og aðför að íslenskum hagsmunum

Í fréttatilkynningu Hafrannsóknastofnunar og í grein Ragnars Jóhannssonar, ranns...

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu
Skoðun 8. júní 2023

Landbúnaðurinn og aðstoð við Úkraínu

Við lifum á óstöðugustu og hættulegustu tímum síðan síðari heimsstyrjöldinni lau...