Uppbygging á vinnslustöð fyrir dýrahræ í efsta áhættuflokki
Það er brýnt verkefni að bæta meðferð á dýraleifum í landinu. Ljóst er að Ísland uppfyllir enn ekki skyldur sínar þegar kemur að söfnun, meðhöndlun og vinnslu dýraleifa í efsta áhættuflokki og afar mikilvægt hlýtur að teljast að koma á viðunandi innviðum sem uppfylla þær kröfur sem Ísland hefur undirgengist í EES-samningnum.
Í 4. tölublaði Bbl. þessa árs var ítarleg umfjöllun um stöðuna í málaflokknum og ber að þakka fyrir þá greinargóðu yfirferð. Til að leysa þennan vanda þarf að gera tvennt: (1) Koma á samræmdu söfnunarkerfi fyrir dýraleifar á landsvísu og (2) reisa vinnslustöð fyrir meðhöndlun þessara dýraleifa. Fram kom undir lok greinarinnar að nú ynni atvinnuvegaráðuneytið að útfærslu á slíku söfnunarkerfi sem byggir á vinnu Líforkuvers ehf., og stefnt væri að því að sú útfærsla lægi fyrir undir lok árs.
En hvað á þá að gera við hræin? Í dag eru engir innviðir á Íslandi sem anna meðhöndlun á dýraleifum í hæsta áhættuflokki í því magni sem fellur til á landinu. Undir hæsta áhættuflokk falla til að mynda dýrahræ af bæjum, hjarðir sem skera þarf niður í tilfelli dýrasjúkdóma, og áhættuvefur sem skorinn er frá við vinnslu í sláturhúsum. Eini löglegi farvegur þessa efnis í dag er brennslustöðin Kalka. Ekki er langt síðan urða þurfti stóra hjörð riðusmitaðs fjár sem brennslustöðin gat ekki tekið við vegna reglubundins viðhalds sem þá stóð yfir. Þá verður það að teljast óskynsamleg ráðstöfun að brenna dýrahræ, en efnið er í eðli sínu mjög blautt og því afar orkufrekt að brenna það. Þessar staðreyndir enduróma fyrirsögn forsíðufréttar 6. tbl. Bbl. um vanburða innviði hringrásarhagkerfisins. Vinnslustöð þar sem hægt er að farga smituðu efni á öruggan og skilvirkan hátt er mikilvæg hvaða landi sem leggur áherslu á matvælaöryggi og heilnæmi sinnar matvælaframleiðslu.
Fyrir liggur tillaga að líforkuveri á Dysnesi við Eyjafjörð, sem tekið gæti við öllu efni úr efsta áhættuflokki dýraleifa sem fellur til á landinu. Tillagan byggir á reynslu Finnlands og Noregs, og þar með á þekktri tækni og verklagi sem stenst alþjóðlegar kröfur og tekur mið af innlendum aðstæðum. Vegna lítils umfangs landbúnaðar á Íslandi í evrópsku samhengi og þrátt fyrir dreifbýli er aðeins þörf á einni vinnslustöð á landinu. Til samanburðar má nefna að aðeins ein slík stöð er í Finnlandi, og tvær í Noregi (ein sunnarlega og önnur smærri mjög norðarlega). Undanfarin ár hefur gríðarmikil vinna farið fram á Norðurlandi. Fyrst hjá Vistorku (félagi þá á vegum Norðurorku), Líforkuveri, Samtökum sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi eystra, Eimi, sveitarfélögum, hafnaryfirvöldum og fleirum. Vinnan hefur snúið að því að styðja við uppbyggingu á Dysnesi við framleiðslu orkugjafa og áburðarefna sem unnir eru úr lífrænu efni. Stjórnvöld hafa stutt við þessa vinnu með ýmsum hætti, bæði fjárhagslega og pólitískt, en fyrrum matvælaráðherra, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, lýsti yfir stuðningi við verkefnið í ágúst 2024.
En hvers vegna Dysnes? Tillagan að söfnunarkerfi um dýraleifar, sem atvinnuvegaráðuneytið hefur nú undir höndum, var unnin í samstarfi við innlenda og erlenda sérfræðinga. Þar var reiknað út hvar heppileg staðsetning líforkuvers gæti verið, að teknu tilliti til magns efnis og fjarlægða. Þegar horft er til efnis í hæsta áhættuflokki er skýrt að þungamiðjan er á Norðurlandi (nautgripir og sauðfé), á meðan efni í lægri áhættuflokki er frekar að finna á sunnanverðu landinu (svín og alifuglar). Vegna þess er það þjóðhagslega hagkvæmt að staðsetja líforkuver á Norðurlandi þangað sem dýrahræjum og öðru efni í hæsta áhættuflokki yrði ekið til meðhöndlunar á sama hátt og gert er í nágrannalöndum okkar. Þannig yrði fjöldi ekinna kílómetra við söfnun efnis í hæsta áhættuflokki lágmarkaður, sem lágmarkar einnig vegslit, umhverfisáhrif og dregur úr slysahættu.
Dysnes er heppileg staðsetning sem fellur vel að gildandi skipulagi og vilja landeigenda. Fyrir liggur kostnaðarmat og verkfræðileg útfærsla á líforkuveri, sem og mat Skipulagsstofnunar á að starfsemin henti vel á iðnaðarlóð á Dysnesi, þannig að hægt verður að ganga hratt í verkefnið um leið og ákvörðun liggur fyrir. Mikil samstaða er meðal hagaðila á svæðinu um mikilvægi verkefnisins, sem byggði á þeim grunni sem lagður hafði verið árin á undan. Staðsetningin opnar einnig möguleika á frekari uppbyggingu, t.a.m. á meðhöndlun lífræns úrgangs af áhættuflokki 2 og 3, en allt styður þetta við innleiðingu hringrásarhagkerfis í landbúnaði, í takti við hugmyndafræði um hringrásargarða eins og lýst var í greininni „Hringrásargarðar á Íslandi“ í 6. tbl. Bbl. Á Dysnesi er horft til fullvinnslu hráfitu í lífdísil og jafnframt er unnið að stýrðri framleiðslu á metangasi úr lífrænu efni í lægri áhættuflokkum. Verði unnt að starfrækja þessar rekstrareiningar á sama stað hlytist af því rekstrarsamlegð, rekstrarkostnaður allra aðila mun lækka og mun meiri líkur eru á að hægt sé að framleiða þjóðhagsleg verðmæti úr úrgangi sem ætti að fara með eins og auðlindir.
Íslenska ríkið hefur verið dregið fyrir dóm og var dæmt í júlí 2022 af EFTA-dómstólnum fyrir að hafa látið undir höfuð leggjast að innleiða söfnun og rétta meðhöndlun dýraleifa í efsta áhættuflokki. Það er mikilvægt að íslenska ríkið taki af skarið og haldi áfram þeirri vegferð sem hafin er á Norðurlandi, því hér er allt til reiðu og vilji til að vinnslan verði að veruleika.