Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Um viðskipti með bújarðir
Lesendarýni 23. mars 2020

Um viðskipti með bújarðir

Höfundur: Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs

Sextíu ár eru frá stofnun Veiði­klúbbsins Strengs. Umsvif hans hafa á stundum verið höfð á orði í umræðu um viðskipti með bújarðir þar sem sitt sýnist hverjum. Strengur er líka meðal þeirra sem yrðu fyrir áhrifum nýrra tillagna að lagabreytingum sem meðal annars gerðu sölu jarða yfir ákveðnum stærðarmörkum háðar leyfi ráðherra.

Margir álíta tillögurnar, sem áhrif hafa á fjölda bújarða og þar á meðal flestar jarðir á Austur- og Norðausturlandi, úr hófi íþyngjandi. Og fleiri kunna að verða fyrir áhrifum en ætla hefði mátt að óathuguðu máli.

Fyrirætlanir Strengs hafa verið ágætlega kynntar síðustu misseri. Markmið okkar eru skýr, að stöðva hnignun Atlantshafslaxins, sem nú flokkast sem tegund í hættu, með sjálfbærni að leiðarljósi og með aðgerðum til langs tíma, og til góða fyrir nærsamfélagið. Verkefnið nefnist Verndarsvæði laxa á Norðausturlandi og snýst um villta laxastofna í ám Norðausturlands. Engar áætlanir eru um útvíkkun út fyrir það svæði.

Líkt og margir vita þá er upphafs­maður verkefnisins breski fjárfestirinn Jim Ratcliffe og því stýrt af Streng. Verkefnið er fjármagnað í bland af landareignum Jims Ratcliffe á Íslandi og tekjur af sölu Strengs á veiðileyfum í ám verkefnisins. (Frekari upplýsingar eru á www.verndarsvaedi.is.)

Strengur og margir aðrir hafa gert athugasemdir við frumvarpsdrögin í samráðsgátt stjórnvalda. Sumar eru mjög gagnrýnar á tillögurnar. Þar á meðal er umsögn Bændasamtaka Íslands frá 11. mars. Í henni er bent á að allar hömlur á sölu fasteigna, þ.á m. jarða, séu til þess fallnar að afmarka kaupendahópinn og rýra þ.a.l. verðmæti jarðanna. „Lægra verðmæti þýðir svo aftur minna veðrými. Að mati Bændasamtakanna er nauðsynlegt að fram fari sjálfstæð rannsókn á því hvaða áhrif takmarkandi reglur sem þessar geta haft á virði og veðhæfi jarða sem og afleiðingar fyrir þá sem eiga þær m.t.t. skuldbindinga þeirra,“ segir þar. Samtökin gagnrýna einnig hversu mikið vald ráðherra er fært og vara við því að takmarkanir á sölu fasteigna stangist á við eignarréttarákvæði 72. gr. stjórnarskrárinnar.

Álit í þessa veru er að finna í mörgum öðrum athugasemdum sem skilað hefur verið inn. Þá er vert að benda á álit Gunnars Þorgeirssonar, nýkjörins formanns Bændasamtakanna, sem birtust í grein hans í Bændablaðinu 5. mars. Hann bendir á að ekki sé síður mikilvægt að ríkið skilgreini stefnu um hvað gera eigi við ríkisjarðir. „Því þær eru fjölmargar og standa ósetnar og hafa mjög mikil áhrif á búsetumynstur í hinum dreifðu byggðum,“ segir hann.

Rökræða má hvort breyting­arnar sem forsætisráðherra leggur til gagnist í baráttunni gegn fækkun í bændastétt. Vandkvæði land­­búnaðarins eru vel þekkt. Forsíðufrétt Bændablaðsins 24. október síðastliðinn fjallað um vandann sem stafar af þeim fjöl­mörgu býlum sem fallið hafa úr nýtingu í kjölfar erfða þar sem nýir eigendur hafa ekki hug á búskap. Umræða um þetta heldur áfram.

Markmið frumvarpsdraganna falla hins vegar vel að náttúruverndar- og uppbyggingarstarfi verndars­væðisins á Norðausturlandi. Þau snúast meðal annars um að stuðla að því að nýting lands og réttinda sé við landkosti og með hags­muni samfélagsins að leiðarljósi, og stuðli að fjölbreyttum og samkeppnishæfum landbúnaði, náttúru­vernd, viðhaldi og þróun byggðar og um leið þjóðfélagslega gagnlegri og sjálfbærri landnýtingu.

Áframhaldandi hefðbundinn landbúnaður styður markmið verndar­starfsins og Strengur vill styðja komandi kynslóðir í að velja sér bændastarfið. Um áframhaldandi ábúð hafa því verið útbúnir langtímaleigusamningar. Við kaup hefur íþyngjandi skuldum á stundum verið létt af rekstri búa og rekstur þeirra vænlegri á eftir. Staðreyndin er að búskapur hefur ekki lagst af á neinni jörð sem keypt hefur verið í tengslum við verkefnið, og raunar verið tekinn upp aftur á einni þar sem hann var að leggjast af.

Að okkar mati takmarkast jákvæðar afleiðingar verndar­svæðisins ekki við verndar- og uppbyggingarstarfið, heldur gagnast þau nærsamfélaginu einnig stórlega, þar með talið bændum. Markmiðið er að verkefnið  verði sjálfbært, að allar tekjur renni aftur til verkefnisins og áframhaldandi uppbyggingar og þannig verði það uppspretta starfa og umsvifa á svæðinu til langrar framtíðar. Tilgangurinn starfsins er skýr, að stöðva á sjálfbæran máta hnignun Atlantshafslaxins, þannig að gagnist nærsamfélaginu um leið.

Gísli Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Veiðiklúbbsins Strengs.

Íslenska kýrin í mikilli framför
Lesendarýni 12. febrúar 2025

Íslenska kýrin í mikilli framför

Það liggur fyrir mikið afrek hjá kúabændum á þessari öld hversu stórstígar framf...

Kolefnisskógrækt á villigötum
Lesendarýni 11. febrúar 2025

Kolefnisskógrækt á villigötum

Á samfélagsmiðlinum Vísi birtist umfjöllun um skógræktina á Þverá og í Saltvík í...

Að gefnu tilefni
Lesendarýni 10. febrúar 2025

Að gefnu tilefni

Í síðasta tölublaði Bændablaðsins birtist grein eftir þá félaga Baldur Helga Ben...

Ljótur er ég
Lesendarýni 5. febrúar 2025

Ljótur er ég

Sykur skiptir öllu máli. Án hans væru einungis sykurlausir drykkir í boði og mig...

Fokskaðar á þökum
Lesendarýni 3. febrúar 2025

Fokskaðar á þökum

Á hverju ári koma ofsaveður hér á landi þar sem allt lauslegt, og sumt fast, tek...

Bláskelin er bjargvættur
Lesendarýni 31. janúar 2025

Bláskelin er bjargvættur

Ein allra stærsta áskorun samtímans er hvernig hægt verður að mæta vaxandi þörf ...

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi
Lesendarýni 30. janúar 2025

Raunhæfar leiðir til að efla nautgriparækt á Íslandi

Samkvæmt öllum tölulegum upplýsingum um afkomu íslenskra kúabænda sem lesa hefur...

Aldarafmæli íslenskrar ylræktar 2024
Lesendarýni 29. janúar 2025

Aldarafmæli íslenskrar ylræktar 2024

Eitt hundrað ár eru síðan ylræktun sem atvinnugrein hófst á Íslandi og er hún nú...