Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Baldur Stefánsson og Steinar Haukur Kristbjörnsson rýja af fagmennsku og öryggi.
Baldur Stefánsson og Steinar Haukur Kristbjörnsson rýja af fagmennsku og öryggi.
Mynd / úr einkasafni
Lesendarýni 22. júní 2020

Ullin í nútíð og framtíð

Höfundur: Hulda Brynjólfsdóttir
Í Evrópu er starfandi hópur fólks frá nokkrum ólíkum löndum sem hittist og fundar reglulega. Þetta er þverfaglegur hópur, stofnaður í nóvember 2019, sem kemur að ræktun sauðfjár og ullarvinnslu á ýmsan hátt og eru margir þeirra sérfræðingar á einhverju sviði rannsókna, vinnslu eða nýtingar hráefnis - ekki bara ullar.
 
Aðaláhersla þessa hóps er að athuga og ræða saman um hvernig megi auka þekkingu fólks í löndum félagsmanna á eiginleikum ullar og nýta hana meira og betur. 
 
Upplifun margra í hópnum er að fólk þekki almennt ekki hversu hlý og góð ullin er og að föt sem unnin eru úr ull veiti meiri yl en margt annað hráefni sem notað er í fatnað. 
 
Virðing fyrir ull megi vera meiri og að margir líti á hana sem verð­lausa hliðarafurð og hirði lítið sem ekkert um hana. Mörg lönd glíma við að ull fæst ekki unnin í band eða annað sem óskað er eftir að hún sé unnin og fjöldamargir bændur henda ullinni án þess að geta nýtt hana.
 
Þeim þykir jafnframt að aukins misskilnings gæti hjá almenningi um hvernig ullin er tekin af kindunum og að ull sé í raun og sannleika náttúrulegt hráefni sem sé umhverfisvænt að nýta.
 
Hópurinn vinnur að því að leita leiða til að kynna ullina og eiginleika hennar fyrir fólki og hvetja fólk til að nýta ullina betur, þá ekki síst bændur sem rækta sauðfé.
 
Margir hafa einnig áhyggjur af einsleitni í sauðfjárkynjum og að fjölbreytni í litum muni til dæmis hverfa. Sum fjárkyn hafa jafnvel alveg týnt einhverjum af náttúrulegum litum úr hjörðinni og virðist ekki vera mögulegt að rækta þá aftur þar inn.
 
Við Íslendingar höfum frá land­námi búið við þannig veðurfar að ullarfatnaður hefur verið sá eini sem hefur haldið okkur almennilega heitum við ólíkar aðstæður. 
 
Hulda Brynjólfsdóttir.
Frægðarsaga íslensku lopa­peys­unnar og að hún skyldi ná að verða tískuflík aftur og aftur hefur einnig viðhaldið þeirri þekkingu sem við höfum á eiginleikum ullar. Við vitum sjálf að ull og ullarfatnaður hefur reynst best til að halda á okkur hita í alls kyns veðrum. Við vitum það af því við notum þessi föt. Við höfum alltaf gert það.
 
Við höfum öll alist upp við að eiga ömmu, mömmu, frænku eða góðhjartaða vini sem hafa prjónað ullarsokka og ullarvettlinga, lopa­peysur og húfur og sagt að það verði að klæða barnið í ullarföt svo því verði ekki kalt!
 
Þannig að við erum ekki í sömu sporum og þessir hópar í Evrópu. Við þurfum ekki á þessum upplýsingum að halda. Eða hvað?
  • Hver er þekking okkar á ull og ullarflíkum?
  • Hvaða viðhorf höfum við til ullar almennt?
  • Veit almenningur hvernig ull er tekin af fé og hvernig hún er nýtt?
 
Á síðustu árum hafa sprottið upp hópar af fólki sem prjónar eða heklar öllum stundum, hefur lært að spinna á rokk, hannar og gefur út uppskriftir og eltist við margs konar ullarráðstefnur og garnhátíðir, bæði hérlendis og erlendis. Áhuginn á þessu handverki er gríðarlegur. Flugvélar með fullfermi af mannskap hafa farið á svona samkomur víðs vegar um heiminn.
 
Á meðan einangrun kórónuveirunnar hamlaði samkomum var meira að segja haldin slík garnhátíð á netinu, svo ekki þyrfti nú að missa af öllu slíku.
 
Facebook er morandi í prjónahópum og til eru netsíður sem snúast eingöngu um garn og uppskriftir tengdar garni. Þetta er á heimsvísu.
 
Og íslenska ullin á sér marga aðdáendur. Nokkrir erlendir hópar á Facebook eru eingöngu að fjalla um prjónaskap úr íslenskri ull. 
 
Einhver talaði um í slíkum hópi að það hefði verið svo mikið af grasi í einni dokku sem hún var að prjóna úr. Henni var svarað af ótal mörgum: „Ó, það er svo yndislegt. Partur af Íslandi með í garninu!“ „I love it!“
  • Hvernig hafa sauðfjárræktendur brugðist við þessum áhuga?
  • Erum við að rækta sauðfé með ullina í huga?
  • Er valið inn á sauðfjársæðingarstöðina með ullargæði að leiðarljósi?
  • Hugsum við markvisst um liti í okkar ræktun?
  • Flokkum við og meðhöndlum ullina eins og best verður á kosið?
  • Höfum við leitað leiða til að auka fjölbreytni eða framboð á ullarvörum eða garni?
  • Höfum við nýtt nýsköpun til að auka verðmæti ullarinnar?
  • Höfum við sótt okkur þekkingu til að nýta ull eins vel og kostur er?
 
Ég ætla ekki að svara þessum spurningum, heldur eingöngu kasta þeim fram í umræðuna, hvort sem hún fer fram á félagsfundum bænda, við eldhúsborðið eða á skrifstofum þeirra sem ráða ræktunar­markmiðum okkar. Já eða hjá prjónafólkinu sem hefur svo sannarlega skoðanir á þessu líka.
 
Mig langar að vekja okkur öll til enn frekari umhugsunar um þetta málefni.
 
Ég er sauðfjárbóndi. En ég rek einnig litla spunaverksmiðju sem vinnur úr íslenskri ull og á þeim árum sem ég hef nú unnið við ull hvern einasta dag hef ég komist að því að eiginleikar íslensku ullarinnar eru hreint og beint stórkostlegir og vinsældir hennar miklar.
 
Hún er ekki bara hlý, vatns­frá­hrindandi, einangrandi og slitsterk. Hún er líka til í öllum náttúrulegum litum hjarðarinnar sem nam hér land með víkingunum forðum daga. Hún hefur haldið þeim eiginleikum sem voru til staðar við landnám, en einnig þróast með því veðurfari sem hér ríkir og er því þykkari og hárin lengri en ættingjar hennar á hlýrri slóðum hafa.
 
Notkunarmöguleikar hennar virðast endalausir og hún hefur þessa tímalausu klassík að vera alltaf við hæfi. Alltaf í tísku. Og við sem notum ullarflíkur þekkjum gæði hennar og yl.
 
Textílmiðstöðin á Blönduósi mun bráðlega ýta af stað könnun á viðhorfi sauðfjárbænda til ullar­innar og ræktunar hennar. Könnunin er unnin í samstarfi við Landssamtök sauðfjárbænda og Félagsvísindastofnun HÍ. Hún er styrkt af Framleiðnisjóði land­búnaðarins og sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Könnunin verður send út til svörunar á næstu vikum og er úrtakið valið af handahófi.
 
Spurt verður um ýmsa þætti sem snúa að ræktun og notkun á ull í dag og hvernig bændur sjái fyrir sér framtíð ullarinnar á Íslandi, bæði gagnvart hverjum og einum og einnig með tilliti til heildarinnar. 
Með þessari litlu grein langar mig að tala fyrir þessari könnun og biðja alla þá sem fá listann sendan að taka þátt. Hvort sem þeir hafa mikinn áhuga á ull eða lítinn.
 
Breiður hópur þátttakenda gefur betri svör og betri mynd af skoðunum fjöldans.
 
Mig langar líka að biðja alla sauðfjárbændur og þá sem hafa með ræktunarmarkmið sauðfjár á Íslandi að gera að líta aðeins inn á við og meta með sjálfum sér hvar ræktun ullar er stödd á þeirra búi, hvar hún er stödd á Íslandi og hvert við viljum að hún stefni. 
 
Njótið sumarsins.
 
Hulda Brynjólfsdóttir,
eigandi og framkvæmdastjóri smáspunaverksmiðjunnar Uppspuna.
Kvenfélagið Freyja 90 ára
Lesendarýni 1. nóvember 2024

Kvenfélagið Freyja 90 ára

Það var í júní árið 1934 sem nokkrar konur komu saman að Krossi í Austur-Landeyj...

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni
Lesendarýni 31. október 2024

Leitum samstarfsaðila fyrir landsbyggðarverkefni

Landsbyggðin lifi leitar eftir samstarfi við framfarafélög, þorp, bæjarfélög eða...

Íslandsmót í rúningi
Lesendarýni 18. október 2024

Íslandsmót í rúningi

Félag sauðfjárbænda í Dalasýslu (FSD) hyggst endurvekja Íslandsmeistaramótið í r...

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi
Lesendarýni 15. október 2024

Ráðstefna evrópskra frjótækna á Selfossi

Árið 1981 voru samtök fag- og stéttarfélaga frjótækna í Evrópu stofnuð í Strasbo...

Hvað ber framtíðin í skauti sér?
Lesendarýni 9. október 2024

Hvað ber framtíðin í skauti sér?

Á meðan trén vaxa ræða skógarbændur framtíðina. „Það er víst lítið annað að gera...

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi
Lesendarýni 4. október 2024

MS eða gamla MBF er risafyrirtæki á Selfossi

Öldungaráð Selfoss boðaði komu sína í MS-stöðina á Selfossi með fyrirspurnina á ...

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu
Lesendarýni 3. október 2024

Dagur sauðkindarinnar í Rangárvallasýslu

Haustið 2007 setti stjórn félags sauðfjárbænda í Rangárvallasýslu saman nefnd ti...

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið
Lesendarýni 2. október 2024

Mikilvægi íslensks landbúnaðar fyrir samfélagið

Íslenskur landbúnaður hefur gegnt lykilhlutverki í þróun samfélagsins frá landná...