Með tilkomu ÍST 95 er hægt að leggja faglega og trúverðuga sýn til grundvallar ákvörðunum um grisjun, skógarhögg og nýtingu skóga til bættrar lýðheilsu, afþreygingar og upplifunar, svo fátt eitt sé nefnt.
Með tilkomu ÍST 95 er hægt að leggja faglega og trúverðuga sýn til grundvallar ákvörðunum um grisjun, skógarhögg og nýtingu skóga til bættrar lýðheilsu, afþreygingar og upplifunar, svo fátt eitt sé nefnt.
Mynd / ál
Lesendarýni 13. nóvember 2025

Nýr staðall styrkir sjálfbæra skógrækt á Íslandi

Höfundur: Gunnlaugur Guðjónsson, sviðstjóri hjá Land og skógi, Úlfur Óskarsson, sérfræðingur hjá Land og skógi, og Haukur Logi Jóhannsson, ritari Fagstaðlaráðs í umhverfis- og loftslagsmálum.

Útgáfa staðalsins ÍST 95 – Leiðbeiningar um sjálfbæra skógrækt markar mikilvæg tímamót í þróun skógræktar á Íslandi. Með staðlinum eru nú til staðar skýr og samræmd viðmið um hvernig viðhald, nýting og endurnýjun skóga eigi að fara fram með sjálfbærum og ábyrgum hætti. Þetta er í fyrsta sinn sem slíkur faglegur rammi er mótaður sérstaklega fyrir íslenskar aðstæður og staðallinn mun því hafa áhrif á hvernig skógrækt er skipulögð og framkvæmd á komandi árum.

Staðallinn er unninn á vettvangi Fagstaðlaráðs í umhverfis- og loftslagsmálum, í samstarfi við sérfræðinga í ýmsum fræðigreinum og hagsmunaaðila úr stjórnsýslu og atvinnulífi. Hann byggir á alþjóðlegum viðmiðum sjálfbærrar skógræktar en er sérstaklega aðlagaður að íslenskum aðstæðum. Staðlinum fylgir ítarefni þar sem meginreglur hinna ýmsu þátta sjálfbærrar skógræktar eru útskýrðar nánar og bent á hvernig hægt er að uppfylla kröfur ÍST 95. Markmið staðalsins er að stuðla að því að íslensk skógrækt byggi á alþjóðlega viðurkenndum vísindum og fagmennsku.

ÍST 95 snýr fyrst og fremst að sjálfbærri skógstjórnun og tekur bæði til náttúruskóga og ræktaðra skóga. Staðallinn fjallar ekki sérstaklega um nýskógrækt og breytta landnotkun vegna hennar. Megintilgangur ÍST 95 er að stuðla að jafnvægi milli nýtingar, viðhalds og verndar. Þar er gert ráð fyrir að allar aðgerðir í skógum, hvort sem um er að ræða grisjun, viðarnytjar eða endurnýjun, byggist á markvissum stjórnunaráætlunum sem taka tillit til umhverfis, samfélags og efnahags. Þannig verður tryggt að skógar haldi gildi sínu til lengri tíma og að nýting þeirra skerði hvorki vistkerfi né líffræðilega fjölbreytni.

Skógrækt er langtímaverkefni og því er lögð áhersla á áætlanagerð, vöktun og endurbætur. Staðallinn kveður á um að þeir sem stunda skógrækt skuli hafa skýra framtíðarsýn um viðhald og nýtingu, byggða á áreiðanlegum gögnum um jarðveg, minjar, vatn og lífríki. Með reglulegri vöktun er hægt að meta hvort markmið náist og bregðast við þegar breytingar verða á aðstæðum, hvort sem þær stafa af náttúrulegum ferlum eða mannlegum áhrifum.

ÍST 95 fjallar um umhverfislega sjálfbærni á víðan hátt og þar með um félagslega og efnahagslega ábyrgð. Hann hvetur landeigendur og skógræktaraðila til að hafa samráð við nágranna, sveitarfélög og aðra hagsmunaaðila um stjórnunaráform og stórframkvæmdir. Slík nálgun eykur traust og stuðlar að því að skógrækt verði samþætt öðrum landnýtingarverkefnum, svo sem öðrum landbúnaði, ferðaþjónustu og náttúruvernd.

Staðallinn er leiðbeinandi en hefur engu að síður ríka þýðingu fyrir fagmennsku innan greinarinnar. Hann skapar sameiginlegt viðmið sem auðveldar samræmda framkvæmd og eykur gagnsæi í ákvarðanatöku. Fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög geta notað hann sem verkfæri til að þróa eigin gæðakerfi og til að sýna fram á að starf þeirra byggist á viðurkenndum viðmiðum. Þannig verður ÍST 95 einnig grundvöllur fyrir vottun eða aðra staðfestingu á sjálfbærum starfsháttum.

Íslensk skógrækt stendur frammi fyrir nýjum verkefnum og tækifærum. Mikilvægi skóga við að ná loftslagsog sjálfbærnimarkmiðum Íslands hefur aukist verulega. Mikilvægt er að tryggja að ábyrg nýting skógarauðlindarinnar byggi á traustum grunni. Með tilkomu ÍST 95 er hægt að leggja faglega og trúverðuga sýn til grundvallar ákvörðunum um grisjun, skógarhögg og nýtingu skóga til bættrar lýðheilsu, afþreygingar og upplifunar, svo fátt eitt sé nefnt.

Eitt af því sem gerir staðalinn sérstaklega mikilvægan er hvernig hann tengir íslenska skógrækt við alþjóðlega umræðu um sjálfbærni og ábyrgð. Hann er í takt við þau viðmið sem mörg lönd hafa þegar tekið upp um vernd jarðvegs og vatns, þróun samfélaga og landslags, líffræðilega fjölbreytni, varðveislu náttúru- og menningarminja, og aðgerðir í lofslagsmálum. Með því að móta eigin staðal sýnir Ísland að það hyggst standa jafnfætis öðrum þjóðum þegar kemur að því að tryggja ábyrga nýtingu og vernd skóga.

Þróun ÍST 95 hefur jafnframt haft það gildi að efla samvinnu innan greinarinnar. Í vinnunni komu saman fulltrúar frá fjölbreyttum stofnunum og fyrirtækjum, sem öll eiga sameiginlegan áhuga á að tryggja sjálfbæra framtíð skógræktar á Íslandi. Þetta samstarf hefur skapað vettvang fyrir faglegt samtal og þekkingarmiðlun sem mun nýtast langt fram í tímann.

Útgáfa staðalsins er því ekki aðeins tæknilegur áfangi heldur tákn um fagmennsku og framtíðarsýn. Hún styður við markmið stjórnvalda um sjálfbærni, kolefnishlutleysi og vernd líffræðilegrar fjölbreytni, en er jafnframt raunhæft verkfæri í höndum þeirra sem vinna í skógum. Með ÍST 95 verður hægt að byggja upp sameiginlega nálgun á skógrækt þar sem ábyrg nýting, umhverfisvernd og samfélagsleg velferð mynda eina heild.

Þegar litið er til framtíðar verður ÍST 95 lykilhluti í þeirri viðleitni að tryggja að íslenskir skógar verði heilbrigðir, fjölbreyttir og sjálfbærir til langs tíma. Með staðlinum er lagður traustur grunnur að því að skógar landsins verði áfram nýttir af ábyrgð og með virðingu fyrir náttúrunni. Í kjölfarið mun staðall um nýskógrækt bætast við, og saman munu þessir staðlar mynda faglegt og samræmt kerfi sem þjónar bæði náttúru og samfélagi.

Staðalinn má nálgast án endurgjalds á heimasíðu Staðlaráðs Íslands. 

Skylt efni: Skógrækt Íslands

Gerum allt að garði
Lesendarýni 28. nóvember 2025

Gerum allt að garði

Garðurinn í kringum Listasafn Árnesinga í Hveragerði er bæði umgjörð um safnið o...

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Ríkið á ekki að styrkja skógrækt með framandi ágengum tegundum

Aukin ásókn í ræktun skóga með framandi ágengum tegundum, eins og hún hefur tíðk...

Að vera í stríði við sjálfan sig
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Að vera í stríði við sjálfan sig

Snjótittlingurinn er ein helsta hetja norðursins. Vegur um 40 grömm og stenst fr...

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Aðgerðir til stuðnings sjálfbærum landbúnaði

Tækifærin til orkusparnaðar, aukinnar sjálfbærni og samdráttar í losun gróðurhús...

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi
Lesendarýni 27. nóvember 2025

Bóndi er bústólpi, bú landstólpi

Um allt land á Íslandi eru lítil þorp, með litlum húsum en stórum garði. Garðuri...

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?
Lesendarýni 26. nóvember 2025

Er ríkið að takmarka eignarrétt á kostnað landeigenda?

Framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár gengur í fáum orðum út á það til hvaða aðgerð...

Beitarstýring er best
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Beitarstýring er best

Í 16. tölublaði Bændablaðsins frá 11. september er forsíðugrein sem heldur því f...

Ávaxtaðu jarðveginn þinn
Lesendarýni 18. nóvember 2025

Ávaxtaðu jarðveginn þinn

Heimsbyggðin stendur frammi fyrir tveimur áskorunum, loftslagsbreytingum og hnig...