Hnignun ESB
Mynd / Ben Shanks, Unsplash
Lesendarýni 8. nóvember 2024

Hnignun ESB

Höfundur: Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur hjá Mjólkursamsölunni.

„Evrópusambandið líkist Sovétríkjunum í vestrænum fötum“, á Mikhail Gorbasjov að hafa sagt. Þannig hefst grein Christian Anton Smedshaug, norsks hagfræðings, í Klasse kampen 23. október sl. Hann hefur gefið undirritaðri góðfúslegt leyfi til að þýða hana og endursegja.

Evrópusambandinu (ESB) er miðstýrt, skrifræðið er verulegt, og frá Brussel koma áætlanir um efnahagsam bandsins, svipað og gerðist í Sovétríkjunum. Þar var sósíalísk útópía markmiðið og til að ná þeim markmiðum í sósíalíska hagkerfinu var beitt hinum svokölluðu fimm ára áætlunum. Metnaður ESB stendur til að verða umhverfis- og loftslagsvænsta hagkerfi heims á sama tíma og samkeppnishæfni ESB verði tryggð gagnvart Kína og Bandaríkjunum.

Alþekkt er hvernig fór fyrir Sovétríkjunum og varðandi ESB verður ekki annað sagt en að markið sé sett hátt. Kína er nú orðið næststærsta hagkerfi heimsins og hagkerfi Bandaríkjanna er þriðjungi stærra en ESB í dag. Fyrir fjármálakreppuna 2008–2009 voru þessi hagkerfi hins vegar álíka stór. Stóra spurningin nú er hvort svokallaður markmiðsstýrður „siðferðiskapítalismi“ ESB getur keppt við raunsæjan kapítalisma USA en þar eru reglurnar færri og fjármagn aðgengilegra bæði á alríkisstigi og frá einkafjárfestum. Þetta þýðir að bæði ný alþjóðleg fyrirtæki og byltingarkenndar nýjungar koma fyrst og fremst fram í Bandaríkjunum en að litlu leyti innan ESB. Að mörgu leyti hefur ESB einsleitt hagkerfi og takmarkaðan aðgang að hráefnum. Aðildarríkin eru því háð innflutningi hráefna frá öðrum löndum til að virðiskeðjan virki. Þetta á sérstaklega við um málma og nú líka orku eftir að kjarnorkuverum hefur að mestu leyti verið lokað, að Frakklandi undanskildu. Framleiðslu á orku með kolum hefur sömuleiðis að mestu verið hætt. Leiðslugasið og olían frá Rússlandi er á svörtum lista og hefur þurft að skipta út fyrir dýrt, en engu að síður nauðsynlegt, fljótandi jarðgas (LNG) frá Persaflóa og Bandaríkjunum.

Afleiðingar þessa eru efnahagsleg stöðnun og fátt er alvarlegra en upplausn efnahagsnets Þýskalands sem við verðum nú vitni að, þar sem Volkswagen ræðir í fyrsta sinn um lokanir í Þýskalandi, uppkaup á þýskum iðnfyrirtækjum og uppsagnir hjá undirverktökum. M.ö.o. hagkerfið nötrar um þessar mundir. Þannig eiga sér stað verulegar breytingar í evrópskum bílaiðnaði sem er grundvöllurinn í evrópskri framleiðslu. Lítill vöxtur er í hagkerfinu í heild sinni og engar atvinnugreinar virðast geta fyllt það skarð sem samdráttur í bílaframleiðslu og lokun orkufreks iðnaðar hefur skapað. Flóðbylgja reglugerða frá framkvæmdastjórninni og skipulag innri markaðarins virðist ekki geta brugðist við þessum áskorunum. Á sama tíma tekst Bandaríkjum Bidens að lokka evrópsk fyrirtæki til Bandaríkjanna með ríkisaðstoð, skattaívilnunum og ekki síst minna skrifræði, sérstaklega eftir samþykkt „Verðbólgulækkunarlaganna“ (e. Reduction of Inflation Act).

Fyrrnefndur „siðferðiskapítalismi“ ESB með há og göfug markmið virðist munu tapa í samkeppninni við raunsærri (niðurgreiddan) kapítalisma sem nú stafar frá Bandaríkjunum. Sérstaða Bandaríkjanna er að banna ekki gamlar lausnir, þ.e.a.s kol og olíu, heldur niðurgreiða nýju lausnirnar með ýmsum hætti. Þannig tekur líkan Bandaríkjanna minni áhættu og nýtir þau verðmæti sem enn eru til staðar í núverandi fjárfestingum. Hjá ESB er hins vegar tekin mikil markaðsáhætta og menn missa frá sér verðmæti í núverandi fjárfestingum sem ekki uppfylla „siðferðiskröfurnar“. Einnig aðlaga Bandaríkin sig að breyttum tímum mun hraðar á pólitíska sviðinu og eru nú að ræða tiltekna verndarstefnu langt umfram það sem ESB gerir, jafnvel þó að ESB hafi nýlega lagt tolla á kínverska rafbíla.

Markmiðsstjórnun ESB er frábrugðin stjórnun Sovétríkjanna að því leyti að engar áætlanir hafa verið uppi um hvernig markmiðunum skuli náð. Búist hefur verið við að markaðurinn myndi skila tilsettum árangri þegar loftslags- og umhverfismarkmið ESB voru hert. Þetta hefur ekki gerst í nægilegum mæli. Þess í stað hefur Kína, með sínum sérstæða ríkiskapítalisma, búið til framleiðsluinnviði fyrir þá rafbíla sem ESB þurfti, sem þýðir að landið hefur bæði betri tækni og virðiskeðjur en evrópskir keppinautar og þrýstir því verðinu niður. Sama hefur gerst með sólarsellur þar sem afkastageta og verðlag í Kína heldur allri annarri sambærilegri starfsemi niðri um allan heim.

Lokaorð Smedshaug eru svo þau að sem betur fer er Noregur líkari Bandaríkjunum en ESB hvað efnahagsstefnu varðar, að því leyti að Noregur hefur ekki breytt virðiskeðjum framleiðsluiðnaðarins og orkuframboði verulega. Það er góður upphafspunktur fyrir endurskipulagningu. Á áttunda og níunda áratugnum var hugtakið „eurosclerosis“ notað um evrópskt ofeftirlit og stöðnun sem fylgdi í kjölfarið, ástand sem aftur einkennir nú álfuna. Norðmenn ættu því að nýta svigrúmið innan EES-samningsins eins vel og nokkur kostur er og nýta athafnafrelsi utan stjórnmálasambands ESB til að þróa eigin virðiskeðjur og framtíðarmiðaðan iðnað.

Það blasir við að svo margt er líkt með Íslandi og Noregi að þessi lokaorð eiga einnig við hér á landi um íslenska þjóðarhagsmuni.

Skylt efni: Evrópusambandið

Viðsjár eru uppi um veröld víða
Lesendarýni 3. desember 2024

Viðsjár eru uppi um veröld víða

Á undanförnum árum hefur íslenskur landbúnaður sýnt af sér mikla aðlögunarhæfni....

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland
Lesendarýni 2. desember 2024

Nytjaskógar, nytjaplöntur, nytjaland

Að nytja eitthvað er að hafa gagn af einhverju, mega nota sér til framdráttar á ...

Kosningar
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Kosningar

Kæru kjósendur. Það er ekkert mikilvægara en að nýta atkvæðisréttinn sem svo mik...

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata
Lesendarýni 29. nóvember 2024

Tryggjum nýliðun og skattalega hvata

Það eru vissulega forréttindi að búa í sveit, ala upp börnin sín í faðmi náttúru...

Verum til vinstri – verndum náttúruna
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Verum til vinstri – verndum náttúruna

Á meðan Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur staðið vörð um náttúruna og gæt...

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu
Lesendarýni 28. nóvember 2024

Þú treystir ekki hverjum sem er fyrir búinu þínu

Að vera bóndi getur verið félagslega einangrandi, sérstaklega ef aldrei er svigr...

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Eignarhald bænda á jörðum tryggir hag þeirra best

Umræða um jarðir, jarðaviðskipti og kynslóðaskipti í landbúnaði er og á að vera ...

Landbúnaður í velsældarhagkerfi
Lesendarýni 27. nóvember 2024

Landbúnaður í velsældarhagkerfi

Landbúnaður í heiminum öllum stendur frammi fyrir umbyltingu vegna framfara í ræ...