Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 ára.
Villandi framsetning
Leiðari 10. febrúar 2023

Villandi framsetning

Höfundur: Guðrún Hulda Pálsdóttir, ritstjóri

Yfirgnæfandi meirihluti neytenda telur upprunamerkingar á mat mikilvægar, ef marka má könnun sem Gallup gerði fyrir hönd Icelandic Lamb árið 2021.

Samkvæmt henni sögðust rúmlega 70% neytenda óánægðir með að erlendar kjötafurðir séu seldar undir íslenskum vörumerkjum og hafði a.m.k. 20% svarenda upplifað að hafa verið blekktir við innkaup hvað varðar uppruna matvöru.

Á meðan reglugerðir kveða á um að skylt sé að merkja uppruna á kjöti og ferskum matjurtum er einhverra hluta vegna ekki skylda að merkja unnar kjötvörur eða tilbúna rétti eftir upprunalandi.

Því skyldi engan undra þótt neytendur hér á landi kvarti yfir því að óljóst þyki hvort búvara sé úr innlendu eða erlendu hráefni. Skyldumerkingarnar eru oft í smáu letri og á ólíkum stöðum á pakkningum.

Uppruni matvöru skiptir miklu máli og allir ættu að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um hvernig vara er til komin, hvernig hún er ræktuð og framleidd, hversu langt að hún er flutt og svo framvegis.

Það sýnir sig ekki síst hversu brýnt þetta neytendamál er þegar upp koma dæmi um grófar blekkingar.

Áhyggjur bænda af neikvæðum áhrifum af tollfrjálsum innflutningi á landbúnaðarvörum frá Úkraínu voru ekki úr lausu lofti gripnar.

Þegar Bændasamtökin lögðu til fyrirvara við tollaniðurfellingu á vörum upprunnum frá Úkraínu í júní síðastliðnum var því slegið upp í mörgum fjölmiðlum sem einhvers lags hysteríu af þeirra hálfu. Innflutningur á búvörum frá Úkraínu þekktist ekki, flutningsvegalengdin væri svo mikil að ekki þótti ástæða til að óttast að nokkuð þess háttar myndi gerast.

En viðskiptahættir geta verið siðlausir eins og eftirfarandi dæmi sýnir:

Þegar þetta er ritað standa afurðafyrirtæki, í eigu hérlendra bænda, að innflutningi, vinnslu og umpökkun á úkraínsku kjúklingakjöti. Uppruna er ekki getið á umbúðum. Þetta eru fyrirtæki sem gefa sig út fyrir að vinna kjötvöru af ýmsu tagi og endurselja til verslana, veitingahúsa, hótela og mötuneyta. Umræddar vörur liggja frammi í verslunum á tæplega helmingi lægra kílóverði en aðrar kjúklingavörur með svipaðri framsetningu.

Af hverju í ósköpunum eru teknar ákvarðanir sem brjóta í bága við hagsmuni íslenskrar landbúnaðarframleiðslu í fyrirtækjum sem eru í eigu íslenskra bænda?

Þetta nær ekki nokkurri átt.

Af hverju er kjúklinginn ekki sérstaklega merktur sem úkraínskur? Slíkt getur þótt söluvænlegt, auk hagstæða verðsins. Neytendur gætu þá sýnt samhug og stuðning sinn við Úkraínu með því að velja úkraínskt hráefni vísvitandi. Yfirlýstur tilgangur ríkisstjórnarinnar með tollaniðurfellingunni var jú að sýna stuðning í verki. Þarna eru augljós tækifæri.

Með þessum blekkingarleik er hins vegar engum greiði gerður. Hvorki neytendum, né framleiðendum á Íslandi. Traust til verslunar og matvælaframleiðslu dvínar. Stuðningurinn við Úkraínu virðist óheiðarlegur.

Skylt efni: upprunamerkingar

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 4. desember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Stofnanir og fyrirtæki á þessu landi virðast mörg hver vera orðin þreytt á því a...

Fæðuöryggi og landbúnaður
Leiðari 4. desember 2025

Fæðuöryggi og landbúnaður

Umræðan um fæðuöryggi er alltaf að taka á sig skýrari mynd. Atvinnuvegaráðherra ...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. nóvember 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Tregðan til þess að seinka klukkunni hér á landi er sorglegt dæmi um íhaldssemi ...

Mikill vöxtur í landeldi
Leiðari 20. nóvember 2025

Mikill vöxtur í landeldi

Mikill vöxtur er fyrirsjáanlegur í íslensku landeldi á næstu árum, eins og fram ...

Vannýtt tækifæri
Leiðari 6. nóvember 2025

Vannýtt tækifæri

Hlutfall innlendrar búvöruframleiðslu á íslenskum matvörumarkaði hefur dregist s...

Jarmað, hneggjað, baulað ...
Leiðari 24. október 2025

Jarmað, hneggjað, baulað ...

Varla hefur farið fram hjá mörgum að mikill þrýstingur á auknar virkjanaframkvæm...

Út í óvissuna
Leiðari 23. október 2025

Út í óvissuna

Ljóst er að það markmið frumvarps atvinnuvegaráðherra um breytingar á búvörulögu...

Kraftapólitík og undanbrögð
Leiðari 14. október 2025

Kraftapólitík og undanbrögð

Búvörulög mynda grundvöllinn að starfsskilyrðum bænda í landinu ásamt búvörusamn...

https://bestun.airserve.net/banner_bundles/de3e87e0d8dde67f98882b3ac12f8b2f