Frá plöntu til planka
Í mars var haldin Fagráðstefna skógræktar. Kveikjan að Fagráðstefnu skógræktar var ráðstefna sem haldin var á Akureyri 12. janúar 2001 undir yfirskriftinni „Líf eða dauði undir frostmarki“. Að þessu sinni var hún haldin í vöggu skógræktar á Íslandi, á Hallormsstað, og líkt og áður stóð hún yfir í tvo daga, 26.–27. mars.
Ráðstefnan er fyrst og fremst hugsuð sem upplýsingavettvangur af nýjustu fréttum úr fræðaheimi skógargeirans. Á sama tíma er ráðstefnan eins konar uppgjörshátíð hins ört vaxandi skógargeira á Íslandi en vel á annað hundrað gestir sóttu Hallormsstað heim að þessu sinni. Að baki ráðstefnunni standa nokkrir íslenskir aðilar: Land og skógur, Landbúnaðarháskóli Íslands, Skógfræðingafélag Íslands, Skógræktarfélag Íslands og Bændasamtök Íslands.
Kjörorð ráðstefnunnar í ár voru „frá plöntu til planka“. Þar er vísað í tiltölulega afmarkaðan feril sem getur tekið mannsævi eða svo. Í sjálfu sér er skógrækt lítið annað en það eitt að rækta og uppskera, líkt og annar landbúnaður.
Í upphafi skal endinn skoða. Gjarnan eru borð og plankar lokamarkmið skógræktar. Því meiri gæði sem eru í viðnum, því meira gagn er hægt að hafa af honum og þar með verður afurðin verðmætari. Besti viðurinn kemur venjulega úr trjám skóga sem hafa fengið viðeigandi meðhöndlun allt ræktunarferlið, alveg frá því að fræ voru valin af móðurtrénu þar til trén eru felld til vinnslu. Það getur því borgað sig að líta upp áður en horft er niður. Á þessari fagráðstefnu var einmitt ferlinu gefinn gaumur.
Upp á líf og dauða
Viðskiptamódel gróðrarstöðva má segja fullum fetum að sé upp á líf og dauða. Þá er ekki eingöngu átt við líf og dauða plantna, sem jafnvel er hent í ruslið vegna þess að kaupandinn gat ekki staðið við skuldbindingar sínar (betur er vikið að því hér rétt á eftir) heldur getur það leitt til gjaldþrota gróðrarstöðvanna. Þegar gróðrarstöð fer í þrot hefur það mjög alvarlegar afleiðingar. Bæði hverfa starfsmenn til annarra verka og þar með glatast mikil reynsla og þekking sem ekki er auðfengin. Einnig glatast sérhæfður tæknibúnaður, húsakostur og aðstaða. Það að halda úti gróðrarstöð krefst áreiðanlegra samninga við kaupendur og til að svo megi verða þarf að vera tilbúið land til gróðursetningar á hverjum tíma.
Skipulagsmál eru mannanna verk og því er þeim hætt við að vera bæði flókin og dýr. Mikilvægt er að greiða leið skógræktar hjá öllum sveitarfélögum því ávinningur skógræktar er svo stórkostlegur. Þegar helsti dragbítur skógræktar eru leyfisveitingar og aðrar mannanna kvaðir úr fortíð og nútíð þá hefur það áhrif á sjálfbæra þróun inn í komandi framtíð. Skógrækt virðist einungis umdeilanleg í litlum hópi fólks og er það í sjálfu sér fagnaðarefni því að gagnrýni og deilur geta leitt til betrumbóta og framfara. Aftur á móti er hjákátlegt að hugsa til þess að karp vinaþjóða okkar á Norðurlöndum er svo til algerlega á skjön við það sem hér er. Þar vill fólk ólmt halda trjánum í skóginum en hér eru sumir hræddir við breytingar sem fylgja vaxandi trjám. Að greiða leið skógræktar styrkir ekki bara stöðugleika í rekstri gróðrarstöðva heldur glæðir það lífvana land lífi og eykur líffjölbreytileika þess.
Eilífðarvélin
Þegar skógur er kominn upp getum við fyrst farið að tala saman af alvöru. Í árhundruð hefur viðtekin venja skógræktar legið í einsleitum gróðursetningarekrum sem loks eru felldar á einu bretti þegar kemur að uppskerutíma. Þetta er að breytast. Einn fyrirlesaranna á ráðstefnunni kom frá Noregi til að segja okkur frá aðferðum og reynslu af tilraunum sem Norðmenn hafa haft af síþekjuskógrækt (enska: Continuous cover forestry). Þessi hugmyndafræði þýðir að skógarnir verða fjölbreyttari og langlífari. Geta jafnvel verið viðnámssterkari fyrir vágestum á borð við barkarbjöllur. Við bestu aðstæður má segja að skógar af slíku heilbrigði geti varað að eilífu og má þá líta á timbrið sem úr þeim kemur sem afurð eilífðarvélar. Svo má deila um hvort það sé ekki bara sjálfbært heldur eitthvað miklu meira.

Úrvals kolefnisgjafi
Með stolti getur íslensk þjóð séð kísilmálmverksmiðjum landsins fyrir gnægð af vistvænum, vel fengnum og hagkvæmum kolefnisgjafa til málmvinnslunnar í formi hráefnis sem í raun er aukaafurð ef við lítum á gagnvið sem lokaafurð. Sá viður sem fellur til við grisjun á vaxtartíma skógarins er nefnilega úrvals kolefnisgjafi, og í þessum efnum er stafafurunni okkar hrósað framar öðrum tegundum vegna þess hversu hagstæð efnasamsetning hennar er til kísilmálmvinnslu.
Í upphafi skal endinn skoða. Í dag er skógarumhirða og viðarvinnsla ekki lengur nýlunda á Íslandi. Margt er um að vera og fyrir þá alhörðustu þá má vænta CE-vottaðs íslensks burðarviðar fyrir lok árs. Það sama má segja um ýmsa aðra vottun en ekki verður fjallað frekar um það hér og nú því þessi mál þykja oft ofviða almenningi að skilja.
Urmuls fróðlegra greina má nú vænta á vef- og prentmiðlum skógargeirans á næstu vikum. Verið því ekki hissa ef fleiri greinar af Fagráðstefnu skógræktar birtist af bleki eða beri á góma næstu misserin.