Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 ára.
Vínviður og veigar guðs
Á faglegum nótum 9. júlí 2015

Vínviður og veigar guðs

Höfundur: Vilmundur Hansen

Vínviður er með allra elstu nytjajurtum mannkyns og talið er að fólk hafi bruggað vín í allt að átta þúsund ár. Árleg framleiðsla á vínberjum er hátt í 80 milljón tonn og ríflega 70% hennar fara til víngerðar. Yrki vínviðar í ræktun teljast yfir tíu þúsund.

Áætluð heimsframleiðsla á vínberjum árið 2013 var rúmlega 77 milljón tonn. Kínverjar rækta þjóða mest af þeim, rúm 11,6 milljón tonn árið 2013, næst á eftir komu Ítalir, rúm 8 milljón tonn, Bandaríkin eru í þriðja sæti með rúm 7,7, Spánn í fjórða sæti, tæp 7,5 og Frakkland í því fimmta með ársframleiðslu upp á rétt rúm 5,5 milljón tonn. Í næstu fimm sætum yfir helstu vínberjaframleiðendur eru Tyrkland, Síle, Argentína, Indland og Íran.
Þegar kemur að ræktun berjanna til vínframleiðslu eru Spánverjar stórtækastir og rækta vínþrúgur á tæpum 12 þúsund hekturum lands, Frakkar nýta 8,6 þúsund hektara til vínframleiðslu, Ítalir 8,3, Tyrkir 8,1 og Bandaríkjamenn rúma 4 þúsund.

Síle flytur út þjóða mest af ferskum vínberjum, rúm 730 þúsund tonn, en ársframleiðslan þar í landi er um 3,3 milljón tonn, Bandaríkin flytja út næstmest, tæp 416 þúsund tonn, í þriðja sæti er Perú sem flytur út um 265 þúsund tonn. Kínverjar, sem framleiða mest af vínberjum, eru í tíunda sæti yfir útflutningslönd vínberja og flytja út rétt rúm 100 tonn.

Vegna hlýnunar lofthjúpsins eru  yfirgnæfandi líkur á að vínrækt leggist af víða í heiminum og að hún færist í auknum mæli á norðlægari slóðir.

Undir einum hatti fluttu lönd Evrópusambandsins inn tæplega 5,7 milljón tonn af vínberjum árið 2013, Bandaríkin voru í öðru sæti, 5,3 milljón tonn, Rússland í því þriðja, rúm 3,9, og Kína flutti inn 2,3 milljón tonn af vínberjum.

Samkvæmt tölum Hagstofunnar voru flutt inn 1.311 tonn af ferskum vínberjum til Íslands 2014. Mest var flutt inn af þeim frá Bandaríkjunum, Brasilíu, Suður-Afríku, Síle Egyptalandi og Hvíta-Rússlandi.

Áætlun FAO segir að um 71% af allri vínberjauppskeru heimsins nýtist til víngerðar, 27% er neytt sem ferskra vínberja og um 2% fer í annars konar framleiðslu eins og sultu, safa, hlaup, rúsínur og edik auk þess sem unnin er matarolía úr fræjum plöntunnar. Blöð plöntunnar eru talinn lostæti víða í Asíu.

Ættkvíslin Vitis

Nánast öll yrki af vínviði sem notaður er til víngerða eru af tegund sem kallast Vitis vinifera á latínu. Innan ættkvíslarinnar Vitis finnast um 60 tegundir sem flestar vaxa á norðurhveli jarðar.

Yrki V. vinifera eru talin vera hátt í tíu þúsund en þeirra helst eru Sultana, Airén, Cabernet Sauvignon, Sauvignon Blanc, Cabernet Franc, Merlot, Grenache, Tempranillo, Riesling og Chardonnay.

Úr þrúgum er búið til rauðvín, hvítvín, freyðivín, rósavín, púrtvín, sérrí og án efa fleiri gerðir af veigum.

Af öðrum tegundum innan ættkvíslarinnar má nefna V.labrusca, og V. riparia sem bæði eru upprunnin í Norður-Ameríku og aðallega notuð í sultu og lítillega til víngerðar. V. rotundifolia og V. vulpina koma frá suðausturhluta Bandaríkjanna og eru mikið notuð í sultu og lítillega til vínframleiðslu. V. amurensis vex villt í Norður-Asíu og í Síberíu. Vitis coignetian er þekkt skrautjurt í Asíu með rauðleitum blöðum.

Grasafræði og ræktun

Vínviður er fjölær klifurplanta sem getur náð 35 metra hæð við góð skilyrði. Plantan þrífst best í sendnum og kalkríkum jarðvegi, pH 6 til 7,5, og trefjarót hennar teygir anga sína djúpt niður í jörðina í leit að vatni og næringu.

Plantan vex hratt og sendir frá sér fálmara sem hún vefur utan um það sem fyrir verður til að halda greindum stönglunum uppréttum. Stöngullinn, sem getur orðið allt að 50 sentímetrar í þvermál niðri við jörð, trénar og flagnar með aldrinum. Úr honum vaxa nýir vaxtarsprotar á næsta vaxtartímabili. Blöðin eru stór, handsepótt, 5 til 20 sentímetra breið. Blómin lítil og mörg saman í hnapp, tvíkynja og vindfrjóvgandi. Aldinið er ber sem getur verið frá sex millimetrum og upp í þrjá sentímetra að stærð. Berin 15 til 300 saman í klasa, græn, gul, appelsínugul, hvít, rauð og allt að því svört að lit, súr eða sæt á bragðið. Fjölgað með græðlingum til að viðhalda yrkjum.

Stærstur hluti vínberjaræktunar til víngerðar fer fram í tempraða beltinu milli 30 og 50° beggja vegna miðbaugs. Meðalhiti á þeim slóðum er 10 til 22° á Celsíus. Þar sem plantan vex hratt þarf hún góðan aðgang að vatni án þess þó að jarðvegurinn sé blautur og því gott að rækta hana í halla. Við kjöraðstæður fær plantan milli 1300 og 1500 klukkustundir af sól yfir vaxtartímann sem er frá 160 til 200 dagar, og tæplega 700 millimetra að regni. Kjörhiti fyrir plöntuna í dvala er 3° á Celsíus.

Heimaræktun

Hér á landi er best að rækta vínvið í skála eða köldu gróðurhúsi en ekki er ólíklegt að til séu tegundir eða yrki sem hægt er að rækta utandyra. Vínviður ber ávöxt á eins árs greinum og þess vegna er gott að klippa plöntuna niður á haustin en skilja eftir tvö brum á hverri grein. Ekki skal rækta nema einn berjaklasa á hverri grein til að fá berin stærri. Gott er að gefa plöntunum kalkríkan áburð um það leyti sem blómin fara að myndast. Yrki með grænum berjum eru harðgerðari hér á landi en yrki með rauðum berjum. Meðal yrkja sem hafa reynst ágætlega eru ‘Frankenthaler‘ sem gefur sæt ber, ‘Nimrod’ sem er með lítil steinlaus ber með kryddkeim, ’Nordica’ með blá millisæt ber og ‘Vroege van der Laan’ sem gefur græn, sæt og miðlungsstór ber.

Sjúkdómar og varnir

Eins og í annarri ræktun herja á vínvið bakteríur, vírusar og sveppir og helstu varnir gegn slíku eru efni sem drepa óværuna.

Seint á 19. öld barst til Evrópu frá Norður-Ameríku smáfluga sem kallast Phylloxera og lifir á rótum vínviðar. Talið er að plantan hafi borist til Evrópu með norður-amerískum vínvið, V. labrusca, þegar gerðar voru tilraunir með að rækta hann í Frakklandi.

Plöntur í Norður-Ameríku voru aðlagaðar flugunni en plöntur í Evrópu ekki. Skaðinn sem flugan olli í Evrópu var slíkur að vínrækt lagðist nánast niður um tíma. Á síðustu stundu tókst að bjarga ræktuninni með því að græða evrópskar vínviðarplöntur á rætur plantna frá Norður-Ameríku en það tók mörg ár að koma ræktuninni til fyrra horfs. Ágræðsla af þessu tagi er viðhöfð enn í dag.

Tugir mismunandi skordýra- og illgresisefni eru notuð við vínrækt. Vinsælasta illgresislyfið er Roundup og tugir þúsunda lítra af því notað á ári til að halda niðri illgresi á vínekrum um allan heim. Rétt er að taka fram í þessu sambandi að framleiðsla á lífrænt ræktuðum vínum hefur verið að aukast.

Við heimilisræktun eru helstu óværurnar sem þarf að varast grámygla, mjölsveppur og spunamaur.

Uppruni og útbreiðsla

Elstu steingervingar plantna sem fundist hafa og tilheyra ættkvíslinni Vitis eru um 23 milljón ára gamlir. Vínviður er talinn vera einn allra elsta nytjaplanta mannkyns og að menn hafi verið farnir að tína ber af plöntunni til átu fyrir 10 til 12 þúsund árum. Tegundin V. vinifera er talið vera upprunnið í löndunum við Miðjarðarhafið og Mið-Asíu og fornleifar benda til ræktunar og víngerðar í Georgíu fyrir um 8 þúsund árum. Genakortlagning plöntuleifa sem fundist hafa í leirkrukkum á svæðum í kringum Kákasusfjöll sýna að fyrir 8 þúsund árum voru menn að rækta að minnsta kosti 110 mismunandi yrki af V. vinifera.

Í Armeníu er varðveitt 6 þúsund ára gömul vínpressa og í Egyptalandi sýna hellamyndir frá 2400 fyrir Krist ræktun, uppskeru, vinnslu og flutning á vínþrúgum. Á 9. öld var sagt að besta fáanlega vín í Mið-Austurlöndum kæmi frá borginni Shiraz í Íran.

Með aukinni verslun, siglingum og landafundum barst vínviðarplantan með tímanum út um svo gott sem allan heim, Norður- og Suður-Ameríku, suðurodda Afríku og Ástralíu. 

Þrúgur og trú

Vínviður og þrúgur koma fram sem hluti af helgihaldi eða sem tákn í fjölda trúarbragða, grískum, rómverskum og kristni.

Vín úr þrúgum var ómissandi í veislum og blótum Díónísusi og Bakkusi til heiðurs í Grikklandi og Róm til forna en þessi tvíeini svallguð víns og alsælu mun eiga ættir sínar að rekja til guðsins Osíris í Egyptalandi.

Í Fyrstu Mósebók segir frá því þegar Nói fer að rækta garðinn sinn og brugga vín í framhaldinu og dettur í það. „Nói gjörðist akuryrkjumaður og plantaði víngarð. Og hann drakk af víninu og varð drukkinn og lá nakinn í tjaldi sínu.“

Í 15. erindi Jóhannesarguðspjalls Biblíunnar segir „Ég er hinn sanni vínviður, og faðir minn er vínyrkinn. Hverja þá grein á mér, sem ber ekki ávöxt, sníður hann af, og hverja þá, sem ávöxt ber, hreinsar hann, svo að hún beri meiri ávöxt. Þér eruð þegar hreinir vegna orðsins, sem ég hef talað til yðar. Verið í mér, þá verð ég í yður. Eins og greinin getur ekki borið ávöxt af sjálfri sér, nema hún sé á vínviðnum, eins getið þér ekki heldur borið ávöxt, nema þér séuð í mér. Ég er vínviðurinn, þér eruð greinarnar. Sá ber mikinn ávöxt, sem er í mér og ég í honum, en án mín getið þér alls ekkert gjört.“

Á öðrum stað í Biblíunni má skilja sem svo að Jesú hafi verið mikið partíljón og ekki látið sitt eftir liggja þegar búsið var búið í veislunni.

„Á þriðja degi var brúðkaup í Kana í Galíleu. Móðir Jesú var þar. Jesú var og boðið til brúðkaupsins og lærisveinum hans. En er vín þraut segir móðir Jesú við hann: Þeir hafa ekki vín. Jesús svarar: Hvað varðar það mig og þig, kona? Minn tími er ekki enn kominn. Móðir hans sagði þá við þjónana: Gjörið það, sem hann kann að segja yður. Nú voru þar sex vatnsker úr steini samkvæmt reglum Gyðinga um hreinsun, og tók hvert þeirra tvo mæla eða þrjá. Jesús segir við þá: Fyllið kerin vatni. Þeir fylltu þau á barma. Síðan segir hann: Ausið nú af og færið veislustjóra. Þeir gjörðu svo. Veislustjóri bragðaði vatnið, sem var orðið vín, og vissi ekki, hvaðan það var, en þjónarnir, sem vatnið höfðu ausið, vissu það. Þá kallaði veislustjóri á brúðgumann og sagði: Allir menn bera fyrst fram góða vínið og síðan hið lakara, er menn gjörast ölvaðir. Þú hefur geymt góða vínið þar til nú.“

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...