Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 8 mánaða.
Fyrir þá græjuóðu eru einnig til sérstakar vélar með vírburstum sem eru ætlaðar til þess að hreinsa hellulagnir.
Fyrir þá græjuóðu eru einnig til sérstakar vélar með vírburstum sem eru ætlaðar til þess að hreinsa hellulagnir.
Á faglegum nótum 5. september 2023

Viðhald á hellulögnum

Höfundur: Ágústa Erlingsdóttir, Ingólfur Guðnason, Garðyrkjuskólanum Reykjum/FSu

Það halda eflaust margir að það þurfi lítið eða ekkert að viðhalda hellulögnum.

Nú á dögum eru nánast allir með einhvers konar hellulögn í garðinum hjá sér. Ef það er ekki göngustígur á bak við hús þá er hellulagt bílastæði fyrir framan. Með tímanum þá verða hellulagnir svolítið sjúskaðar. Það byrjar að vaxa illgresi og mosi inn á milli hellnanna sem fljótt kemur niður á útliti svæðisins.

Hreinsa vel öðru hvoru á milli hellnanna

Þegar verið er að ganga frá hellulögn er endað á því að setja fínan pússningasand á milli hellnanna. Hann rennur niður á milli og gerir hellulögnina stöðuga og bindur hana saman. Eftir nokkurra ára notkun fer efsta lagið af þessum fína sandi að safna í sig ýmiss konar lífrænum óhreinindum og illgresisfræi sem getur fest þar rætur. Ef illgresi byrjar að vaxa í raufunum er best að fá sér járnsköfu, sem fæst í flestum garðyrkjutengdum verslunum, og skafa upp úr raufunum. Þá skefur maður upp illgresið með rótum og skrapar burt mosa og öðrum gróðri. Þetta er mikil handavinna og getur tekið nokkurn tíma á stórum hellulögðum svæðum.

Háþrýstidæla getur skilað góðu verki

Ef þolinmæðin er ekki fyrir hendi til að skafa illgresið í burtu þá er oft hægt að notast við nokkrar aðrar aðferðir líka. Þar ber fyrst að nefna háþrýstidæluna sem hægt er að nota til að spúla upp úr raufunum og ná jarðveginum og gróðrinum úr yfirborðinu. Þetta virkar í flestum tilfellum ef illgresið er ekki orðið mjög rótfast eða háþrýstidælan þeim mun öflugri. Gæta þarf þess að háþrýstiþvotturinn sé ekki svo öflugur að allt efni hreinsist upp úr fúgunum svo ekki verði skaði á undirlaginu undir hellulögninni. Háþrýstiþvottur getur líka skilið eftir sig rákir á hellulögninni sé gengið mjög hart fram.

Ef hellurnar eru með gróft yfirborð og hellulögnin er í miklum skugga og ef til vill raka líka, er hætta á að skófir og mosi nái fótfestu í hellunum. Ef þær ná sér á strik getur reynst mjög erfitt að ná þeim af. Það er best að grípa inn í um leið og þetta fer að sjást og skrúbba hellulögnina vel með grófum kústi og spúla svo á eftir. Garðaundri er vistvænt efni sem hefur reynst ágætlega í baráttunni við mosann. Honum er úðað yfir hellulögnina áður en hreinsun fer fram til þess að ná öllum óhreinindum auðveldar af. Þetta gæti þurft að gera reglulega til að halda skófunum í burtu.

Enn þá öflugri græjur

Fyrir þá græjuóðu eru einnig til sérstakar vélar með vírburstum sem eru ætlaðar til þess að hreinsa hellulagnir. Það er kannski ekki tæki sem hinn týpíski garðeigandi á í bílskúrnum en þessi tæki er hægt að leigja hjá tækjaleigum í verkefni af þessu tagi. Hellusóparnir eru búnir vírburstum sem sópa upp úr fúgunum en þó án þess að mikið efni fari upp úr þeim.

Á mjög illa förnum svæðum er hætt við að rótin af illgresinu verði eftir í fúgunum og því nauðsynlegt að nota hellusópinn til þess að halda hellulögninni hreinni. Sumum hefur komið í hug að brenna burt illgresi sem hefur safnast í hellulögnina með gasbrennara. Sú aðferð virkar aðeins í stuttan tíma og nær ekki alltaf að drepa rótarkerfi plantnanna, auk þess sem lífræna efnið situr í fúgunni eftir sem áður.

Fúgusandur

Hver þessara aðferða sem verður fyrir valinu þá er eitt mikilvægasta verkið sem þarf að framkvæma að sópa yfir nýhreinsuðu hellulagnirnar með pússningasandi um leið og hreinsun er lokið. Fúgurnar (raufarnar milli hellnanna) eiga alltaf að vera fullar af sandi til þess að tryggja endingu hellulagnarinnar og til þess að helluhreinsunin sé ekki erfiðari næst þegar að henni kemur. Ágætt er að eiga í handraðanum pakka af fínum pússningasandi.

Ef baráttan verður of hörð.

Skylt efni: Garðyrkja

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...