Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Myndin sýnir vægi eiginleikanna í nýrri heildareinkunn kynbótamats. Fyrir breytingu var vægið: Gerð 16,5%, Fita 16,5%, Frjósemi 33% og Mjólkurlagni 33%..
Myndin sýnir vægi eiginleikanna í nýrri heildareinkunn kynbótamats. Fyrir breytingu var vægið: Gerð 16,5%, Fita 16,5%, Frjósemi 33% og Mjólkurlagni 33%..
Á faglegum nótum 29. mars 2023

Vægisbreytingar og fjölgun eiginleika

Höfundur: Eyþór Einarsson og Þórdís Þórarinsdóttir, ráðunautar hjá RML.

Talsverðar endurbætur hafa verið gerðar á kynbótamatsútreikningum fyrir sauðfjárræktina. Nýjum eiginleikum hefur verið bætt við, vægi eiginleika í heildareinkunn hefur verið breytt og þá hefur opnast sá möguleiki að bændur geta skilgreint eigin heildareinkunn út frá sínum forsendum í Fjárvís.

Nýir eiginleikar og helstu breytingar

Ásamt hinum hefðbundnu eiginleikum – gerð, fitu, frjósemi og mjólkurlagni – er nú reiknað kynbótamat fyrir sex nýja eiginleika: Ómvöðva, ómfitu, fallþunga bein áhrif, fallþunga mæðraáhrif, lífþunga bein áhrif og lífþunga mæðraáhrif.

Ómvöðva- og ómfitumælingar úr lambaskoðunum, sem byggja á bakvöðvamælingu og fitu yfir bakvöðva, eru keyrðir sem tengdir eiginleikar saman í mati með gerð og fitu. Með því eykst öryggi kynbótamatsins fyrir slátureiginleikana og það lagar bjögun á gerðarmati hrúta sem mikið er sett á undan. Í líkönum fyrir gerð, fitu, ómvöðva og ómfitu er leiðrétt fyrir þungaflokki, kyni, búi og ári.

Þá er einnig komið í gagnið kynbótamat fyrir þunga lamba, annars vegar fallþunga og hins vegar lífþunga.

Þessir eiginleikar skiptast svo aftur niður í einkunn fyrir bein áhrif og því næst mæðraáhrif. Einkunnir fyrir bein áhrif eiga að vera mat á vaxtargetu lambanna sjálfra. Einkunnir fyrir mæðraáhrif eiga að vera mat á afurðasemi áa/dætra og á að koma í staðinn fyrir kynbótamat fyrir mjólkurlagni.

Lífþunga- og fallþungamælingar eru keyrðar saman í kynbótamatinu sem tengdir eiginleikar. Í líkönum fyrir þunga er leiðrétt fyrir kyni, burði lamba, fjölda lamba sem gengu með móður, aldri móður, búi, ári og aldri lamba við vigtun/slátrun.

Stuðst er við fyrstu lífþungamælingu sem skráð er í Fjárvís þannig að hjá þeim bændum sem skrá lífþunga reglulega yfir haustið þá er kynbótamat fyrir lífþunga að segja talsvert um mæður lambsins og hvernig lömbin eru að koma úr sumarhögum.

Við viljum því eindregið hvetja bændur til að vigta sem flest lömb beint af sumarbeitinni og skrá vigtina inn í Fjárvís. Það stendur til að keyra kynbótamat fyrir þunga reglulega yfir sláturtíðina næsta haust og því gætu bændur sem skrá líf- og fallþunga í Fjárvís fengið uppfærslu á kynbótamati gripanna eftir hverja keyrslu. Mælingar fyrir lífþunga lamba sem og fallþungamælingar sem tínast inn nýtast til að reikna mat á eftirlifandi gripi og ætti að auðvelda endanlegt val á ásetningslömbum.

Vægi eiginleika í nýrri heildareinkunn kynbótamats

Ástæður fyrir því að vægi heildareinkunnar hefur verið breytt eru aðallega tvær. Í fyrsta lagi var þörf á að draga úr vægi fitunnar. Áherslan í ræktunarstarfinu á fitu hefur í raun verið á síðustu árum að halda henni í horfinu frekar en að leggja áherslu á að minnka hana. Jafnvel hefur það hentað sumum að auka hana en í heildina þarf að halda henni hæfilegri. Þetta hefur endurspeglast í vali á hrútum inn á stöðvarnar en reynt hefur verið að hafa í boði hrútakost sem er breytilegur m.t.t. fitusöfnunar þannig að bændur geti valið gripi eftir því hvað hentar á hverju búi.

Samkvæmt ræktunarmarkmiðunum skal stefnt að því að um 90% framleiðslunnar fari í fituflokka 2 og 3 en síðasta haust fór einmitt 90 % dilka í þessa tvo flokka. Vægi fitu í heildareinkunn kynbótamats var 16,5 % en í nýrri heildareinkunn verður það sáralítið, eða 5%. Hugmyndir eru á lofti um að þróa kynbótamatið í framtíðinni á þann hátt að fitueinkunnin hafi ákveðið kjörgildi og öfgarnar virki neikvætt í báðar áttir.

Hin ástæðan er að nauðsynlegt var að endurskoða vægið þegar nýir eiginleikar bættust við kynbótamatsútreikninga. Að sinni mun kynbótamat fyrir ómmælingar ekki vega inn í heildareinkunn, enda er nú tekið tillit til þeirra í kynbótamati fyrir gerð og fitu sem eru ræktunarmarkmiðseiginleikarnir.

Þá munu eiginleikarnir „lífþungi bein áhrif“ og „lífþungi mæðraáhrif“, a.m.k. fyrst um sinn, ekki hafa vægi í heildareinkunn. Ræktunarmarkmiðs eiginleikinn er fallþungi en horft til lífþunga sem viðbótarupplýsinga.

Ákveðið var að setja 20% vægi á „fallþungi bein áhrif“ og 20% á „fallþungi mæðraáhrif“ og vega því fallþungaeiginleikarnir 40% í nýrri heildareinkunn. Áður var mjókurlagni með 33,3% vægi en mun hér eftir ekki hafa sérstakt vægi. Sú einkunn verður þó reiknuð og birt fyrst um sinn. Ný vægi hafa verið samþykkt af fagráði í sauðfjárrækt og verður heildareinkunn gripa uppfærð í Fjárvís á næstunni.

Af lifandi sæðingastöðvarhrútum stendur Angi 18-882 frá Borgarfelli efstur samkvæmt nýrri heildareinkunn.

Einkunn bónda

Í kynbótamatsyfirlitinu í Fjárvís hefur ásamt nýju eiginleikunum sex einnig bæst við dálkur sem heitir „Einkunn bónda“. Með því að fara inn í - Notandi – og svo – Stillingar – geta bændur skilgreint sína eigin heildareinkunn sem birtist í þessum nýja dálki. Bændur geta því sett sín eigin ræktunarmarkmið og raðað upp gripum búsins út frá þeim forsendum.

Skylt efni: sauðfjárrækt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...