Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 mánaða.
Arnold 23-332 frá Ketilsstöðum er hæststigaði lambhrútur landsins haustið 2023.
Arnold 23-332 frá Ketilsstöðum er hæststigaði lambhrútur landsins haustið 2023.
Mynd / EE
Á faglegum nótum 18. desember 2023

Það glampaði á gullmola og gimsteina

Höfundur: Eyþór Einarsson, ráðunautur á búfjárræktar- og þjónustusviði.

Þátttaka í lambadómum var góð í haust og jókst talsvert á milli ára. Skráðir hafa verið dómar á 57.588 lömb í Fjárvís.is, sem er fjölgun um rúmlega 4.000 lömb frá fyrra ári.

Aukin þátttaka skýrist líklega aðallega af tvennu.

Annars vegar því að lömbin voru með vænsta móti í haust og því mikið af álitlegum lömbum til að skoða. Hins vegar er ljóst að sú bylting sem er hafin tengd ræktun gegn riðu hefur ákveðin örvandi áhrif á kynbótastarfið.

Skoðaðir voru rúmlega 11.800 lambhrútar. Þeir mældust að jafnaði með þykkari bakvöðva en áður hefur mælst, eða 31,6 mm. Í hópnum voru 70 hrútlömb sem mældust með bakvöðva á bilinu 40 til 44 mm. Þykkustu vöðvarnir í haust mældust í gimbrum en þær voru með 45 mm vöðva. Önnur frá Sölvabakka í Refasveit og hin frá Bæ 1 í Hrútafirði. Lömbin reyndust heldur feitari en áður og mældist bakfita í hrútum 3,4 mm að jafnaði. Að meðaltali hlutu hrútarnir 84,9 stig og vógu 48,1 kg. Til samanburðar þá var meðal lambhrúturinn með 85 stig haustið 2022, vó 47,7 kg og mældist með 31 mm þykkan vöðva.

Það að lömbin væru holdmeiri en áður endurspeglaðist í góðri gerð sláturlamba, en samkvæmt tölum frá MAST þá var gerðareinkunnin í haust sú hæsta sem verið hefur, eða 9,58, og fallþungi sláturlamba hefur aðeins einu sinni verið meiri á landinu. Var nú 17,2 kg en hæst hefur landsvigtin farið í 17,4 kg sem var árið 2021.

Hæstu hrútar

Þrír lambhrútar hlutu 92 stig í haust, en enginn hrútur fór svo hátt á síðasta ári. Sá hrútur sem raðast efst yfir landið er Arnold 23-332 frá Ketilsstöðum á Tjörnesi. Hann er svarflekkóttur að lit en trúlega hefur flekkóttur hrútur ekki áður staðið hrúta fremstur á landsvísu. Faðir hans, Tindastóll 21-123, er frá Syðri-Sandhólum og er sonur Glitnis 19-848 frá Efri-Fitjum og MMF er Lási 13-985 frá Leifsstöðum. Annar raðast hrútur nr. 230 frá Laxárdal í Hrútafirði. Hann er undan Hnaus 20-890 frá Mýrum 2 og er MFF hans Dreki 13-953 frá Hriflu. Þriðji í röðinni er síðan kollóttur hrútur frá Efri-Fitjum í Fitjárdal, lamb nr. 8. Sá er sonur Glæsis 19-887 frá Litlu-Ávík og MFF Dúlli 17-813 frá Miðdalsgröf.

Í meðfylgjandi töflu er listi yfir hæststiguðu lambhrúta landsins, raðað eftir sýslum. Séu hrútar jafnir að heildarstigum er þeim raðað eftir samanlögðum stigum fyrir gerðarþætti (frampart, bak, malir og læri), þá eftir bakvöðvaþykkt, síðan fituþykkt og ef einhverjir standa enn jafnir ræður lögun vöðvans röð.

Breyting á dómstiga – hvaða áhrif hafði hún?

Tvær breytingar voru gerðar á dómstiganum á þessu ári og því var áhugavert að sjá hvaða áhrif það hefði á útkomu dóma í haust. Í fyrsta lagi voru kröfur auknar um bakvöðvaþykkt um 2 mm fyrir hverja einkunn sem gefin er fyrir bak lambhrúta. Fyrir hæstu einkunnir var krafan aukin um lágmarks fituþykkt og mörk fyrir hámarksfitu rýmkuð. Nú er því krafan fyrir bakeinkunn upp á 10 (miðað við 45 kg hrútlamb) að bakvöðvinn nái 40 mm þykkt og að fituþykktin sé á bilinu 2 til 4 mm. Áður voru lágmarkskröfur fyrir einkunnina 10 að bakvöðvaþykkt væri 38 mm og að fitan væri á bilinu 1,5 til 3,0 mm. Þar sem bakvöðvi var almennt meiri en nokkru sinni áður í haust, olli breytingin ekki mikilli lækkun en meðaleinkunn fyrir bak lækkar um 0,14 stig milli ára. Dreifni einkunna var hins vegar betri. Ef ekki hefði verið búið að herða á skalanum hefðu um 190 hrútar hlotið 10 fyrir bak í haust en raunin varð að þeir voru 67.

Hin breytingin á dómstiganum tengist ullardómum. Nú er allt vægi einkunnarinnar sett á gæði og ullarmagn en eldveggir í skalanum gagnvart því hvernig kindin er á litinn voru teknir út. Þessi breyting skilaði meiri dreifni í einkunnagjöf fyrir ull. Í heildina hækkar meðaleinkunn hjá hrútum fyrir ull um 0,13 stig á milli ára. Væntingar standa til þess að breytingin skili betra mati á gæði ullar en ljóst er að áfram verður verkefnið að samræma vinnubrögð við dóma og auka færni í því að ná sem best utan um þennan eiginleika.

Frábær útkoma ARR hrútanna

Það sem var kannski hvað mest spennandi í haust var hver útkoman yrði á lömbum undan þessum fyrstu hrútum stöðvanna sem valdir voru til að dreifa verndandi arfgerðum gegn riðuveiki í sauðfjárstofninn. Skemmst er frá því að segja að útkoman var ákaflega góð. Þetta voru einfaldlega oftar en ekki bestu lömbin sem bændur áttu í haust. Sérstaklega hvað varðar ARR hrútana og má með sanni segja að víða hafi glampað á gullmola og gimsteina í lambahópum bænda.

Gullmoli náði þeim frækna árangri að eiga hæststigaða lambhrútahópinn ásamt Glæsi frá Litlu-Ávík. Synir þessara hrúta voru með 85,8 stig að jafnaði. Styrkur Gullmola lá sérstaklega í öflugum læraholdum. Synir hans hlutu 18,2 stig að meðaltali sem var hæsta meðaleinkunn sona stöðvahrútanna í haust. Þá var einkennandi hve þroskamikil afkvæmi Þernuneshrútanna voru. Til marks um það, að þá stendur nú Gullmoli þriðji efstur allra reyndra stöðvahrúta lifandi og dauðra í kynbótamati fyrir „fallþunga – bein áhrif“ með 125 stig og Gimsteinn sjötti með 123 stig. Gimsteinn var sá hrútur stöðvanna sem átti flesta skoðaða syni, eða rúmlega 390. Á meðfylgjandi lista yfir hæstu hrúta hverrar sýslu eiga þeir Gullmoli og Gimsteinn samtals 6 lambhrúta.

Af öðrum stöðvahrútum sem létu verulega að sér kveða sem feður úrvalshrúta í haust má nefna Fróða 18-880 frá Bjargi en hann á flesta hrúta á topplistanum, eða 6 alls. Rammi 18-834 hélt uppteknum hætti og er áfram sá hrútur sem skilar þykkasta bakvöðvanum. Því er ekki að undra að hann stendur efstur í kynbótamati fyrir bakvöðvaþykkt með 143 stig. Sævar 21-897 frá Ytri-Skógum kemur svo á hæla honum með næstþykkasta vöðvann og þriðja hæsta meðaltalið fyrir stig alls.

Af hrútum með mögulega verndandi arfgerðir má nefna góða útkomu hjá Hnaus 20-890, sem á næstflesta syni á topplistanum, eða fjóra. Hnaus skilur því vonandi eftir sig öfluga syni sem dreift geta AHQ genasamsætunni. Þá var prýðileg útkoma hjá Austra 20-892 frá Stóru-Hámundarstöðum, en hann átti úrvals gripi í bland en Austri var fyrsti hrúturinn sem fannst með breytileikann T137.

Að lokum

Það eru spennandi tímar í sauðfjárræktinni. Nýr eiginleiki hefur verið settur á oddinn í kynbótastarfinu, sem er þol gegn riðu. Óhætt er að segja að innleiðingin hafi fengið fljúgandi start. Það vekur vonir um að glatt muni ganga að koma arfgerðunum inn í stofninn. Vel lítur út með þátttöku í sæðingum í vetur en útlit er fyrir frábæra notkun á ARR hrútunum og sumum af þeim sem bera mögulega verndandi arfgerðir. Hversu vel þetta fer af stað er ýmsu að þakka en ekki síst bændum, hve jákvæðir þeir eru fyrir verkefninu. Það birtist m.a. í því hve auðfúsir þeir voru að láta stöðvunum í té álitlega ræktunargripi í haust.

Má því segja að útkoman og staðan eftir haustið gefi tilefni til bjartsýni á verkefnið sem er fram undan – sem er að halda áfram fulla ferð að bæta kosti sauðkindarinnar samhliða því að gera hana þolna gegn riðuveiki.

Gleðileg jól.

Skylt efni: Lambadómar | lambaskoðanir

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...