Sýndargirðingar!
Notkun á hálsólum til að stjórna atferli dýra er ekki beint nýjung í dag enda hefur slíkur búnaður verið til t.d. á hunda í áraraðir. Það er þó nýjung að nota þessa tækni við að stjórna búfé á beit en fleiri og fleiri aðilar í heiminum bjóða nú orðið upp á slíkan tæknibúnað.
Í Noregi eru t.d. tvö fyrirtæki sem framleiða svona búnað, fyrirtækin Monil og Nofence, og eru nú ótal bændur sem þegar nýta sér þessa tækni frá þessum fyrirtækjum við að stjórna búfé sínu á beit. Það er gaman að segja frá því að íslenski fjárfestirinn Sigurlaug Óskarsdóttir er einn af lykilfjárfestunum á bak við fyrirtækið Monil, en hún hefur verið lykilmaður í norska sprotafyrirtækjasamfélaginu síðasta áratuginn. Sigurlaug er m.a. meðeigandi í tæknifjárfestafyrirtækinu FIRDA og hefur m.a. stýrt StartupLab í vísindagarðinum í Ósló svo dæmi sé tekið.
Sérstakar hálsólar
Bæði þessi norsku kerfi byggja í raun á svipuðum lausnum, þ.e. að sérstakar hálsólar eru settar á kindur, geitur eða kýr. Þessar hálsólar eru svo með búnað sem getur staðsett gripina á beitinni í rauntíma. Með uppsetningu á sýndargirðingum, þ.e. með því að setja upp hnitsetta sýndargirðingu í símanum eða tölvunni, getur bóndinn í raun afmarkað það svæði sem gripirnir geta farið um og ef þeir fara út fyrir mörk sýndargirðingarinnar gefa hálsólarnar frá sér viðvörunarhljóð. Ef gripurinn virðir svo ekki hljóðmerkið, þá gefur ólin frá sér lítils háttar straum og sér þannig um að halda gripnum innan þeirra marka sem á að virða, rétt eins og um rafmagnsgirðingu væri að ræða.
Notast við GPS-kerfið
Þessi kerfi byggja á notkun GPSkerfisins og er nákvæmni þess, þ.e. hvar mörk sýndargirðingarinnar liggja, um 3–5 metrar. Þ.e. girðingarmörkin eru nokkuð breið en það hefur líklega ekki stór áhrif á raunverulegt notkunargildi þessa kerfis. Þá geta bændurnir séð í rauntíma hvar hver einasti gripur heldur sig á beitinni. Þannig er í raun einnig hægt að fylgjast með atferli gripanna og líðan þeirra jafnvel þó þeir séu langt frá næsta fjósi. T.d. má sjá fyrir sér að sé gripur óvenju lengi á sama stað sé ástæða til að kanna málið með líðan gripsins svo dæmi sé tekið.
Til hvers?
Lesendur Bændablaðsins kunna að spyrja sig af hverju bændur gætu séð kosti við það að nota sýndargirðingar og svarið felst einfaldlega í því að þetta kerfi gerir hefðbundnar girðingar óþarfar með tilheyrandi stofn- og viðhaldskostnaði. Þá er hægt að nýta beitiland mun betur og án teljandi vinnu, enda er hægt að færa til sýndargirðingar í tölvu eða síma án mikillar fyrirhafnar.
Sýndargirðing sett upp
Samkvæmt upplýsingum á heimasíðum fyrirtækjanna er afar einfalt að setja upp sýndargirðingu með sérstöku snjallsímaforriti þar sem bóndinn velur það svæði sem gripirnir eiga að fá aðgengi að og teiknar hann svo upp girðinguna umhverfis beitarsvæðið. Girðinguna má svo færa til og stækka eða minnka beitarsvæðið eftir þörfum. Jafnvel má sjá fyrir sér randbeit með notkun þessarar nýju tækni.
Kenna þarf gripunum á kerfið
Áður en bændur geta tekið kerfin í notkun þarf að kenna búfénu á sýndargirðingarkerfið. Það er einfaldlega gert með því að hleypa þeim í frekar lítil beitarhólf sem eru með hefðbundinni girðingu allt um kring. Svo er sýndargirðing sett upp innan við hina hefðbundu girðingu þannig að gripirnir læra að hljóðmerkið þýðir að nú sé rétt að snúa við en um leið er hin hefðbundna girðing trygging fyrir því að ef gripur fer yfir mörkin þá sleppi hann ekki út. Reynslan frá Noregi sýnir að það tekur gripina 1–2 vikur að venja þá við nýju hálsólarnar og að læra á hljóðmerkið og þá hvernig á að bregðast við því svo hálsólin gefi ekki frá sér straum. Þá sýnir reynslan af þessu að ekki er hægt einungis að vera með hálsólar á hluta hjarðarinnar, allir gripir þurfa að vera með þetta því annars getur komið upp togstreita í hópnum ef einn gripur getur rölt út fyrir sýndargirðingarmörkin en aðrir ekki.
Hvað með dýravelferðina?
Eftir lestur á þessu efni kann að vera að fólk velti fyrir sér velferð dýranna sjálfra, hvort það sé forsvaranlegt að vera með hálsólar á gripum sem geta gefið frá sér straum í ákveðnum tilvikum. Um þetta hefur verið töluvert rætt og ritað erlendis og má nefna sem dæmi að sænsku dýravelferðarreglurnar hafa til þessa komið í veg fyrir notkun kerfisins þar í landi. Eftir rannsóknir á kerfunum, þar sem m.a. kom í ljós að langoftast er það einungis hljóðmerkið sem slíkt sem hindrar dýr í að fara að útmörkum sýndargirðingarinnar, hefur komið annað hljóð í strokkinn. Um komandi áramót verða þessi kerfi nefnilega heimil í Svíþjóð. Skýringin felst í niðurstöðum rannsóknanna, sem auk þess sem að framan er ritað, sýna að gripirnir eru bæði fljótir að læra á sýndargirðingarnar sem og að með tækninni má bæta verulega beitarmöguleika gripa með því að opna aðgengi að svæðum sem áður var erfitt að hleypa gripum á til beitar. Kerfi sem þessi ýti einnig undir að fleiri gripir fái bætt aðgengi að beit og því sé heildardýravelferðin betri með kerfinu en án þess. Þá segir í fréttatilkynningu sænsku ríkisstjórnarinnar að þar á bæ sé litið á það sem svo að með því að heimila sýndargirðingar stuðli sænska ríkisstjórnin að bættri samkeppnishæfni sænsku nautgripaog sauðfjárræktarinnar og um leið að efla velferð gripa.
Góð reynsla norskra bænda
Reynsla norskra bænda af notkun á sýndargirðingarkerfum virðist vera nokkuð góð og þá virðast gripirnir vera nokkuð fljótir að læra á það „hvað má og hvað ekki“. Þannig sýni gripirnir fljótt viðbrögð við því sé sýndargirðingin „færð“ þ.e. ef bóndinn breytir beitarsvæðinu og t.d. stækkar það eða þrengir. Það sé þó ákveðinn kostur að vera ekki að færa beitarmörkin of oft enda þurfa gripirnir þá að læra á nýtt svæði með tilheyrandi viðvörunarhringingum hálsólanna.
Fyrir áhugasama má benda á heimasíður norsku fyrirtækjanna tveggja: monil.com og nofence.no
