Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Vel hentar að rækta rauðgreni sem jólatré í skógarrjóðrum og á öðrum skjólsælum stöðum.
Vel hentar að rækta rauðgreni sem jólatré í skógarrjóðrum og á öðrum skjólsælum stöðum.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 20. desember 2022

Rauðgreni (Picea abies)

Höfundur: Pétur Halldórsson

Hið eina sanna jólatré er í margra huga rauðgreni. Samt hefur það látið undan síga sem jólatré á Íslandi.

Okkur gengur illa að láta það endast öll jólin í hlýjum og þurrum húsakynnum okkar. Ef vatnið lækkar niður fyrir stubbinn í jólatrésfætinum missir tréð safaspennu og hættir að geta dregið upp vatn. Þá þornar það fljótt upp og barrið fellur af. Það finnst okkur leitt.

Í Skandinavíu, Þýskalandi og víðar er gömul hefð að sækja sér rauðgrenitré út í skóg fyrir jólin og á gömlum jólakortum og myndskreytingum í jólasögum sjást tré sem líkjast rauðgreni. Ekki skyldi vanmeta rauðgrenið því með alúð er vel hægt að láta barrið halda sér fram á þrettándann. Frískt rauðgreni er fallega grænt og ilmar vel.

Rauðgreni er stórt tré og nær örugglega að minnsta kosti 30 metra hæð hérlendis. Í fornum heimkynnum finnast allt að 55 metra há tré af tegundinni og þau geta þar náð a.m.k. 300 ára aldri. Vaxtarlagið er einkennandi, einstofna og beinvaxin tré með fremur mjóa, keilulaga krónu. Það minnir mjög á ýmsar þintegundir, ekki síst síberíuþin, sem endurspeglast í latneska tegundarheitinu abies, sem þýðir „eins og þinur“.

Á meginlandinu vex tegundin hratt í æsku og er ekki óalgengt að sjá 50-100 sentímetra ársprota á rauðgreni. Miklar vonir voru bundnar við rauðgreni á fyrstu áratugum skógræktar á Íslandi. Rauðgreni frá Norður-Noregi var mikið gróðursett hér frá 1950 og fram yfir 1970 en minna síðan. Það vex mjög hægt. Kvæmi frá Suður- Noregi vaxa mun betur. Hins vegar þola ungplöntur rauðgrenis illa við á berangri hér á landi og því fór svo að þegar hætt var að gróðursetja í skjóli birkiskóga var rauðgreni ekki lengur gjaldgengt til skógræktar í miklum mæli. Vel hentar þó að rækta það sem jólatré í skógarrjóðrum og á öðrum skjólsælum stöðum, til að auka fjölbreytni í skógum, á útivistarsvæðum og í görðum enda mjög fallegt tré. Best gengur ræktun rauðgrenis í innsveitum hérlendis og mest er af því á Norður- og Austurlandi.

Af grenitegundum þroskar rauðgreni stærstu könglana.

Auk þess að vera gott jólatré eru styrkleikar rauðgrenis gott frostþol vor og haust, sem leiðir af sér að vaxtarskemmdir verða nánast engar og trén verða einstaklega beinvaxin. Annar styrkleiki er gæðaviðurinn, ekki síst viður af hægvöxnum rauðgrenitrjám sem er eftirsóttur í ýmsa sérsmíði, svo sem glugga, hurðir og annað þar sem þarf þéttan, stöðugan við. Til veikleika má aftur á móti telja að rauðgreni er viðkvæmt fyrir vindnæðingi og þolir illa saltákomu af sjó. Helsta óværa sem herjað hefur á rauðgreni hérlendis er köngulingur, agnarsmá áttfætla sem stingur gat á frumur á yfirborði nála þannig að á þeim myndast rauðgulir flekkir og trén verða ljót.

Áhugasömum um ræktun rauðgrenis skal bent á að tegundin launar ræktandanum ríkulega ef hann sér henni fyrir skjóli í æsku og frjósömum jarðvegi. Ekki er ráðlegt að gróðursetja rauðgreni í lyngmóum því þar eru skilyrði of fátækleg. Vel getur borgað sig að sækja skógarmold í eldri greniskóg og nesta smáplönturnar með henni. Moldinni má dreifa yfir plöntubakkana eða dýfa bökkunum í bala með moldarblönduðu vatni. Þá ættu ræturnar að fá með sér hagstætt jarðvegslíf sem hjálpar trjánum að komast í vöxt.

Rauðgreni er kennt við Noreg á enskri tungu, jafnvel þótt á jarðsögulegum mælikvarða sé fremur stutt síðan tegundin barst þangað eftir ísöld. Hún á náttúrleg heimkynni víða um norðanverða Evrópu, langt austur í Rússland, í fjöllum Mið- og Austur-Evrópu austur til Balkanskaga. Þá hefur hún verið tekin til ræktunar víðs vegar um Vestur-Evrópu og einnig vestanhafs. Rauðgreni er náskylt síberíugreni, sem einnig hefur verið kallað vetrargreni (Picea obovata) og geta þessar tegundir auðveldlega blandast. Tvennt í viðbót er sérstakt við rauðgreni. Það fær stærstu köngla allra grenitrjáa og á fjallinu Fulufjället í Dölunum í Svíþjóð er rauðgrenirót sem skotið hefur upp trjám í um 9.550 ár. Það er því ein elsta lífvera heims, ef til vill sú elsta.

Skylt efni: Skógrækt | greni | rauðgreni

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...