Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Loðnuveiðar um vetur. Sjómennskan í dag er orðin hátæknistarf með tilkomu allrar þeirrar tækni sem er um borð í skipunum.
Loðnuveiðar um vetur. Sjómennskan í dag er orðin hátæknistarf með tilkomu allrar þeirrar tækni sem er um borð í skipunum.
Mynd / Þráinn Kolbeinsson
Á faglegum nótum 15. júní 2023

Öryggismál sjómanna

Höfundur: Sigurgeir B. Kristgeirsson

Í bernskuminni mínu, líklega fyrir 1970, er minning vonar og ótta. Þá hafði pabbi, við annan mann, farið á sjó á tveggja tonna trillu að hausti að vitja haukalóðar (línu) sem gaf von um skötu og lúðu.

Þeir ætluðu að skjótast milli lægða að vitja um og reiknuðu með að koma aftur um hádegið. Brælan var fyrr á ferðinni og ekkert sást til þeirra í hádeginu. Þeir voru án björgunarbáts, talstöðvar og síma. Engin leið var að vita hvernig gengi eða hvort allt væri í lagi. Ég sat límdur við gluggann, milli vonar og ótta. Undir síðdegiskaffið var sjórinn orðinn ískyggilegur, en viti menn, birtist ekki smáskektan, inn á milli öldutoppa og smábrota á landleið. Það var glaður lítill hnokki sem tók sprettinn niður á bryggju að fagna pabba sínum. Pabbinn var ekki síður glaður að fá að taka strákinn sinn í fangið aftur. En það hafa ekki alltaf allir verið jafn heppnir og glaðir.

Sjómennska var saga sjóslysa

Saga Íslendinga er að hluta til saga sjóslysa. Frá upphafi sjómannadagsins í Vestmannaeyjum árið 1944 hafa rúmlega 1.100 sjómenn farist. Það er því ekki að undra að sjómannadagurinn er dagur sorgar og söknuðar ekki síður en gleði sjómanna og fjölskyldna þeirra. Í Vestmannaeyjum er ávallt haldin messa til minningar um drukknaða sjómenn þar sem minning þeirra er heiðruð í sérstakri athöfn. Í ár var einnig afhjúpaður í Vestmannaeyjum minnisvarði um drukknaða frá árinu 1227. Alls höfðu 502 drukknað frá þeim tíma, langflestir sjómenn.

Forvarnir og færri slys

Slysavarnaskóli sjómanna var stofnaður árið 1985. Við fengum Hilmar Snorrason, skólastjóra skólans, til að fara yfir þróun slysa á sjó og hvers vegna þeim hefur fækkað.

„Þetta var hrikalegt hér á árum áður. Þegar ég var að alast upp og man eftir mér, um og upp úr 1970, og fór síðar á sjó sem unglingur, þá voru forsíður blaðanna oft með myndum af mönnum sem höfðu farist á sjó. Heilu og hálfu áhafnirnar. Þarna voru fjölskyldur að missa ástvini sína og börn feður sína. Stundum fórst fjöldi manna úr sömu byggð. Þetta var hreinlega skálmöld. En þetta er allt að breytast sem betur fer,“ segir Hilmar.

Margt hefur breyst á undanförnum árum. Skip eru betri en áður, þau eru stærri og tæknivæddari, hafa betri siglingatæki og aðbúnað sjómanna. En það eru fyrst og fremst nýrri skipin. Svo hafa veðurspár batnað, sjósókn er ekki eins kappsfull því meginhluta fiskveiða Íslendinga er stýrt með kvótakerfi þar sem hvert skip eða fyrirtæki er með ákveðinn kvóta og því ekki ástæða til að róa í vondum veðrum eða veðurútliti. En það er ekki bara að menn hugi að aðstæðum og aðbúnaði um borð í skipum. Við þetta bætast tilkynningarskylda sjómanna sem nú er orðin sjálfvirk, öflugri björgunartæki Landhelgisgæslunnar og fleira. Allt þetta hefur haft jákvæð áhrif til fækkunar sjóslysa. En hvert er mat Hilmars á að sjóslysum hafi fækkað? „Það eru margar ástæður fyrir því,“ segir Hilmar. „Frá stofnun skólans er það fyrst og fremst öryggisfræðsla. Öryggisbúnaður sem var sjaldan notaður er nú notaður, eins og öryggishjálmar, öryggisvesti,
líflínur og fleira. Menn eru farnir að nota þetta við vinnu um borð í skipum. Þetta hefur leitt af sér fækkun slysa um borð í skipum. En allt byggir þetta á hugarfari sjómannsins og stjórnenda skipanna. Menn verða að vera vakandi fyrir umhverfi sínu í vinnunni og hafa rétt hugarfar. Það skiptir mestu máli.“

Magnús Ríkarðsson skipstjóri, til vinstri, og Hilmar Snorrason, skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, til hægri. Hér eru þeir við afhjúpun minnisvarða um drukknaða í Vestmannaeyjum á sjómannadaginn um liðna helgi.

Hver er ábyrgð eigenda og útgerða skipanna?

En hvað með eigendur og útgerðarmenn? Hvernig hafa þeir staðið sig? „Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að útgerðarmenn eiga að vera harðir þegar kemur að öryggismálum og það á að gera kröfur til þess að öryggismál séu í lagi. Það er skylda að halda æfingar, það er skylda að vera með áhættumat og það er skylda að vera með öryggisnefnd í vissum stærðum skipa. Allt er þetta liður í forvörnum um borð. Menn munu ekki ná niður slysatíðni nema með forvörnum. Þess vegna eiga útgerðarmenn að vera harðir við sína menn á sjó,“ segir Hilmar. ,,Það stendur hvergi í lögum að sjómenn eigi að fiska en það stendur í lögum að menn skuli halda æfingar.“

Með stærri og aflmeiri skipum verður allt stærra og þyngra. Þegar eitthvað fer úrskeiðis þá verður hættan mun meiri heldur en á minni bátum. Nætur sem verið er að snurpa í dag eru gríðarstórar og þungar og dregnar af aflmiklum spilum en í árdaga voru þær dregnar á höndum. Það leiðir að sjálfsögðu til þess að sjómenn verða að meta vinnustaðinn sinn með gagnrýnum hætti. Áhöfn hvers skips þarf því að vera samhæfð og æfð. Slys verða oftast vegna þess að einhver var að gera það sem hann átti ekki að gera. Yfirvegun og skynsamar ákvarðanir skipta miklu nú í sjómennsku en ekki djöfulgangur og að rjúka í verkin með böðulsskap eins og áður var.

Hvíldartími sjómanna

Vökur sjómanna voru þekktar og hér á árum áður voru vökulög sett sem kváðu á um lágmarkshvíld sjómanna. Nú eru skipin betri, eins og áður sagði, og vinnan ekki eins líkamlega erfið, þótt auðvitað geti hún verið það í mörgum tilfellum, en eru menn þá ekki betur í stakk búnir til að takast á við verkefni dagsins?

„Auðvitað er þetta miklu betra, en það er ekki alveg allt í góðu lagi þar,“ segir Hilmar. „Menn hafa vissulega betri aðbúnað, eru einir í klefa, jafnvel með sérstakt baðherbergi og sturtu fyrir sig, og internettengingu inni í sínum klefa, þá er ekki öll sagan sögð. Menn verða að hugsa líka um sjálfan sig. Það gengur ekki að nota hvíldartíma sinn til að hanga á netinu til að horfa á bíómyndir í klefanum eða vera á spjallrásum samfélagsmiðla og sofa svo 2–3 tíma og koma örþreyttir til vinnu. Það gengur auðvitað ekki. Við tókum það saman hjá rannsóknarnefnd samgönguslysa að algengasta ástæða stranda skipa var að skipstjórnendur höfðu verið vakandi allt að sólarhring og upp í tvo og sofnuðu svo allt í einu.“

Launajafnrétti, fjölmenning og framtíðin

Með fjölgun útlendinga um borð í skipum er augljóst að samskipti verða kannski ekki jafn auðveld og áður. Skipulag skiptir augljóslega öllu þegar hættu ber að höndum. Hvernig er það, getur þetta ekki haft áhrif? „Jú, útlendingar eru margir hörkugóðir sjómenn. En samskiptin og samhæfing þarf að vera í lagi. Það er ekki bara dagsdaglega vinnan sem skiptir máli, heldur líka hvað gerist þegar neyðin kemur upp. Áhöfn er einfaldlega eitt lið. Því skiptir skipulag, samhæfing og æfing kannski enn meira máli en áður,“ segir Hilmar en bætir svo við um framtíðina: „Sjómennskan í dag er orðin hátæknistarf með tilkomu allrar þeirrar tækni sem er um borð í skipunum. Hún er að verða allt öðruvísi en hún var.

Okkur vantar ungt fólk með tækniþekkingu til sjós og konur líka. Það má ekki gera lítið úr því að það er launajafnrétti til sjós. Þar eru allir á jöfnum hlut, hvort heldur það eru karlar eða konur og hefur alltaf verið. Okkur hefur ekki auðnast það að auka hlut kvenna í sjómennsku, því miður. Konur eru lagnari við tæki en karlar og því er engin ástæða til annars en að hvetja þær til að ráða sig til sjós. Við verðum að gefa þeim tækifæri í framtíðinni.“

Skylt efni: Nytjar hafsins

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...