Meðhöndlun júgurbólgu með leysigeisla?
Það er alþekkt aðferð að nota laser eða leysigeisla við sértækar meðferðir einstaklinga á sjúkrahúsum, við húð og hármeðferðir eða t.d. við sjúkraþjálfun svo dæmi sé tekið.
Í landbúnaði er notkun á leysigeisla einnig stöðugt að aukast og er líklega þekktasta dæmið sérstakur búnaður mjaltaþjóna sem staðsetur spena á kúm. Að nota leysigeisla til lækninga búfjár er einnig nokkuð þekkt tækni nú orðið, þá sérstaklega svokallað lágstyrks leysimeðferð og er tæknin víða notuð af sérfræðingum svo sem á dýraspítölum eða af dýralæknum. Hingað til hefur tæknin hins vegar ekki verið almennt í notkun meðal bænda.
Japanskir vísindamenn framarlega
Fyrir rúmlega 30 árum var birt niðurstaða japanskrar rannsóknar sem þótti framúrstefnuleg þá en rannsókn þeirra gekk einmitt út á að nota leysigeisla til þess að reyna að meðhöndla júgurbólgu. Niðurstöðurnar bentu þá þegar til þess að þessi aðferð hefði bætandi áhrif á veikar kýr og m.a. á dulda júgurbólgu, þ.e. júgurbólgu án sýnilegra einkenna. Síðan eru liðnir margir áratugir en aðferðin hefur ekki náð raunverulegri fótfestu og kann skýringin að vera sú að ekki hefur verið til nógu heppileg og kostnaðarlega handhæg lausn fyrir bændur, en nú gæti þetta verið að breytast og hafa nokkur fyrirtæki skotið upp kollinum undanfarið með lausnir sem gætu hentað hinum almenna bónda.
Hvernig virkar tæknin?
Lágstyrks leysimeðferð (enska: Low-Level Laser Therapy, LLLT) virkar þannig að tæki með leysigeisla er sérstaklega stillt á ákveðna bylgjulengd, stutta bylgjulengd fyrir meðhöndlun á yfirborðsvef og lengri eigi að meðhöndla dýpri vefi. Þessar mismunandi bylgjulengdir hafa svo áhrif með því að örva frumuvirkni í vefjum þegar þær taka upp þessa ljósorku sem berst inn í frumurnar með leysigeislanum. Talið er að tæknin sé bæði bætandi fyrir virkni bandvefsfrumna og virki í raun sem bólguminnkandi aðferð vegna aukinnar vefjaviðgerða og endurnýjunar.
Viðbót við hefðbundna júgurbólgumeðferð
Eitt þessara fyrirtækja, sem nú hefur sett á markað búnað sem hentar bændum, er danska fyrirtækið Neeo Bovis. Búnaður fyrirtækisins er í raun svipaður og annarra sambærilegra fyrirtækja á markaðinum og virðist einfaldur eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Fyrirtækið, sem fékk sérstök verðlaun fyrir þessa nýjung á dönsku landbúnaðarsýningunni Agromek í fyrra, segir að tæknin sér fyrst og fremst hugsuð sem viðbót við hefðbundna júgurbólgumeðferð þ.e. stuðningur við lyfjameðferð kúa. Rannsóknir fyrirtækisins bendi til þess að kýrnar jafni sig fyrr af sýkingum þar sem leysigeislinn örvi frumurnar til þess að takast sjálfar á við sýkinguna af meiri krafti en ella og því megi jafnvel draga úr lyfjamagninu sem nota þarf við hefðbundna meðhöndlun.

Minni sársauki?
Þar sem notkun á tækninni er enn frekar ný af nálinni eru ekki margar rannsóknir til á áhrifum hennar á t.d. kýr en rannsóknir danska fyrirtækisins eru þó í þá átt að tæknin hjálpi kúm að takast á við sársauka, þ.e. að sársauki út frá bólgum verði minni sem lýsir sér í rólegri kúm og aukinni jórtrun sem bendir til þess að kúnum líði betur.
15 sekúndur er allt sem þarf
Samkvæmt lýsingu Neeo Bovis þarf ekki nema 15 sekúndna meðferð sé kýr með júgurbólgu, sá tími sé nægur til þess að örva frumurnar í júgrinu svo þær fari að takast betur á við sýkingarvaldinn. Þá fullyrðir fyrirtækið að bráðajúgurbólgu megi að mestu lækna á þremur dögum og dulda júgurbólgu á 5-7 dögum. Þess skal þó getið að um er að ræða beinar upplýsingar frá fyrirtækinu sjálfu en ekki óháðum rannsóknaraðila. SEGES, danska þróunarfyrirtækið í landbúnaði, hefur einmitt fjallað um þetta í fréttabréfi sínu og bendir á að það vanti frekari rannsóknir á þessari tækni, svo hægt sé að segja af eða á um kosti hennar eða galla. SEGES bendir á að það vanti óháðar rannsóknir á tækninni þegar kemur að notkun heima á búum bænda og hefur SEGES einmitt boðist til þess að standa fyrir slíkum rannsóknum en þau fyrirtæki sem selja þessa tækni í dag hafi þó hafnað slíku samstarfi. Fyrir vikið sé ekki hægt að segja af eða á um þessa nýjung en SEGES bendir því bændum á það að ef þeir hyggjast taka hana í notkun, að gera það þá í samráði við dýralækni búsins þar sem hana ætti fyrst og fremst að nota sem viðbót við hefðbundnar meðferðir en ekki í stað þeirra fyrr en frekari upplýsingar liggja fyrir.