Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 7 mánaða.
Marþöll í góðu skógarskjóli með sveigðan topp sem þó kemur ekki í veg fyrir að stofninn verði beinn með tímanum.
Marþöll í góðu skógarskjóli með sveigðan topp sem þó kemur ekki í veg fyrir að stofninn verði beinn með tímanum.
Mynd / Pétur Halldórsson
Á faglegum nótum 18. september 2023

Marþöll (Tsuga heterophylla)

Höfundur: Pétur Halldórsson

Þöll er gamalt orð í norrænu máli sem meðal annars kemur fram í fornum kveðskap í kenningum eins og skrúða þöll.

Upprunaleg merking er væntanlega fura eða jafnvel bara barrviður. Fura er til dæmis kölluð tall í sænsku nútímamáli. Það orð er af sama meiði og þöll í íslensku. Í grasafræðinni er ein ætt barrtrjáa kölluð þallarætt og henni tilheyra nokkrar ættkvíslir, sedrusviðir, furur, lerki-, furu- og grenitegundir, en líka þallir. Því má segja að þetta gamla orð, þöll, hafi einskorðast í íslensku nútímamáli við tré af einni þessara ættkvísla.

Þallartegundirnar eiga uppruna sinn í Norður-Ameríku og austanverðri Asíu. Asísku tegundirnar eru ýmist taldar fjórar eða sex eftir því hversu hart er flokkað. Þær norður- amerísku eru fjórar og hafa tvær þeirra verið ræktaðar nokkuð hérlendis, marþöll og fjallaþöll.

Lundur beinvaxinna marþallartrjáa við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Mynd / Þröstur Eysteinsson

Mikið var flutt inn til Íslands af marþallarfræi á 6. áratug síðustu aldar í þeirri von að þetta væri framtíðartegund í skógrækt hérlendis. Fræið kom af suðurströnd Alaska, frá sömu svæðum og fræ af sitkagreni sem hingað var flutt. Árangurinn varð þó ekki í samræmi við magnið. Hér skorti þekkingu og aðstöðu til sáningar fræja þessara tegunda og uppeldis smáplantna. Aðstaða í gróðrarstöðvum var frumstæð og mikil afföll urðu af báðum þessum tegundum. Nokkur hluti sitkagrenitrjánna komst að vísu á legg en einungis örfáar marþallir, jafnvel bara teljandi á fingrum annarrar handar. Þau tré lifa þó enn í dag og hafa borið fræ.
Margar barrtrjátegundir eru mjög skuggþolnar í uppvexti og þrífast best fyrstu árin í skjóli eldri trjáa. Barrið er mjög viðkvæmt á þeim í æsku og því þola þær illa við á berangri þar sem þær eru óvarðar fyrir sterku sólarljósi, vindum og skaraveðrum. Marþöll er sérstaklega viðkvæm í æsku að þessu leyti. Ræktun hennar verður að fara fram undir trjáskermi ef einhver teljandi árangur á að nást. Hún þarf að vaxa í algjöru skjóli. Þetta er líka hægvaxin tegund og af þessu leiðir að hún er ekki álitleg nytjatrjátegund hérlendis eins og sakir standa.

Í framtíðinni gæti þetta hugsanlega breyst, þegar hægt verður að skipuleggja ræktun marþallar að einhverju marki í algjöru skjóli eldri trjáa. Marþöll gefur nefnilega gott timbur sem talsvert er notað í til dæmis veggjastoðir og þess háttar en einnig í framleiðslu á krossviði og límtré, pappírsgerð og fleira. Marþallarviður er góður smíðaviður með jafnan þéttleika og einsleitar trefjar þannig að gott er að skera í hann, hefla og slípa.

Marþöll er einstofna tré, beinvaxið og hefur keilulaga krónu. Einkennandi fyrir vöxt hennar er slútandi toppsproti sem þó hefur engin áhrif á vaxtarlagið þegar upp er staðið því stofninn verður þráðbeinn þrátt fyrir allt. Þetta er hægt að sjá við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi þar sem farnir eru að myndast litlir lundir marþallar með beinum og fallegum trjám. Tegundin hefur fallegt, mjúkt ljósgrænt og gljáandi barr með stuttar nálar sem gefur henni sérstakan svip.

Sem tegund til að auka fjölbreytni í eldri íslenskum skógum er marþöll mjög álitleg. Hún er til mikillar prýði og vex yfirleitt áfallalaust ef hún fær það atlæti sem hér hefur verið lýst að hún þurfi. Hún hefur gott frostþol, er langlíf og laus við óþrif eins og sjúkdóma eða meindýr. Í upprunalegum heimkynnum sínum getur marþöll orðið 60-70 metra há og fær mjög gildvaxinn stofn neðan til með tímanum. Eftir er að sjá hversu há og sver hún verður hérlendis en það fáum við sem nú lifum varla að vita því marþöll er mjög langlíf tegund. Í elsta trénu sem vitað er um voru taldir 1.238 árhringir. Það tré stendur í suðvestanverðri Bresku- Kólumbíu í Kanada en annars er útbreiðslusvæði marþallar um mestalla vesturströnd Norður- Ameríku, allt frá Kaliforníu í suðri norður um Kanada og Alaska. Þar er marþöll víða ríkjandi tegund ásamt sitkagreni og degli.

Skylt efni: Skógrækt

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...