Smábátaveiðar eru mikilvæg lyftistöng fyrir brothættar byggðir.
Smábátaveiðar eru mikilvæg lyftistöng fyrir brothættar byggðir.
Mynd / Kjartan Sveinsson
Á faglegum nótum 12. febrúar 2024

Ljós og líf í hverju húsi við ströndina

Höfundur: Kjartan Sveinsson, trillukarl og formaður Strandveiðifélags Íslands.

Það er fátt varðandi íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið sem allir geta verið sammála um, en eitt atriði er óumdeilt: kvótakerfið hefur verið byggðarstefnulegt stórslys.

Kjartan Sveinsson.

Vissulega eru til byggðarlög sem enn lifa að stórum hluta á fiskveiðum, sem sýnir það og sannar að sterkasta lyftistöngin fyrir sjávarþorp er að veita þeim aðgang að sjávarauðlindum. Fyrir flestar brothættar byggðir hefur blóðtakan þó verið vægðarlaus.

Frá sjónarhóli stórútgerðarinnar er þetta einfaldlega sá fórnarkostnaður sem fylgir því að reka fyrirtæki með ofurhagnaði. Fyrir þeim er samþjöppun veiðiheimilda á fáar hendur eina leiðin til að byggja upp risafyrirtæki þar sem íslenskir útgerðaraðilar geta verið menn með mönnum á alþjóðlegum markaði. Þetta virðist vera sjálfstætt markmið og vegur þyngra en afkoma hundruð fjölskyldna um allt land. Ef ljósin slokkna í húsum við sjávarsíðuna, þá verður bara svo að vera.

Stefnubreyting hjá Norðmönnum

Það dró til tíðinda í fiskveiðistjórnun Norðmanna þegar Cecilie Myrseth, sjávarútvegsráðherra þeirra, boðaði stefnubreytingu í ræðu sem hún flutti 12. janúar síðastliðinn. Hugmyndin, sagði hún, er að útdeila „kvótanum á fyrirsjáanlegan og sanngjarnari hátt sem tryggir breidd og fjölbreytni í fiskiskipaflotanum og fleiri heilsársstörf í byggðarlögum meðfram allri ströndinni“.

Þessu ætlar hún að áorka með því að endurúthluta 6.000 tonna þorskkvóta frá togurum til smábáta. Auk þess hyggst hún endurreisa „Trålstigen“ svokallaða: dreifingarkerfi þorsks milli haf- og strandflota, sem er breytilegt eftir stærð heildarkvóta Noregs. Hlutfallið lækkar í 27% fyrir togara þegar heildarkvóti þorsks er lítill en hækkar í 33% þegar hann er mikill.

Það sem er sérstaklega áhugavert við stefnubreytinguna er sú samfélagslega umræða sem hún hefur hrint af stað. Norska stórútgerðin orgar að sjálfsögðu eins og stungnir grísir og hótar öllu illu enda hafa norskir stórútgerðarmenn ekki farið í neinar grafgötur með það að þeir horfa öfundaraugum til íslenskra kvótakónga. En röksemdafærsla norsku ríkisstjórnarinnar er tvíþætt: 1) að núverandi úthlutun aflaheimilda sé óréttlát og 2) að togveiðiflotinn hafi ekki sinnt þeirri skyldu sinni að tryggja byggð og atvinnu í sjávarþorpum.

Markmiðið er að stuðla að fjölbreyttum skipaflota þar sem minnstu bátunum sé ekki síður sinnt en þeim stærstu. Með því að saxa á forskot stórútgerðarinnar skal tryggja jafnræði milli útgerðarflokka og gera smábátaútgerð að raunhæfum atvinnumöguleika. Ef stórútgerðin treystir sér ekki til að axla ábyrgð á atvinnusköpun við sjávarsíðuna þarf að hleypa öðrum að sem eru færir um það.

Íslensk stjórnvöld í þveröfuga átt

Strandveiðifélag Íslands hefur einmitt kallað eftir hugarfarsbreytingu sem þessari innan íslenskrar stjórnsýslu. Fiskveiðifloti Íslands er fjölbreyttur þar sem ýmis útgerðarform eru brúkuð til þess að sækja mismunandi tegundir sjávarfangs við fjölbreyttar vistfræðilegar aðstæður.

Kerfið verður að endurspegla og gera ráð fyrir fjölbreytileika og hlúa að ólíkum útgerðarformum og hafa opnar dyr fyrir fólk sem vill stunda sjóinn á eigin forsendum. Styrkja þarf hið svokallaða félagslega kerfi og þá sérstaklega strandveiðikerfið innan þess.

Smábátaveiðar eru mikilvægur hlekkur í því að styrkja brothættar byggðir og glæða sjávarpláss lífi á ný. Kosturinn við smábáta- veiðar er að þær eru alfarið sjálf sprottin grasrótarlausn á byggða- vandanum. Þar að auki eru þær algjörlega sjálfbær liður í því að styrkja brothættar byggðir. Þeim fylgir enginn kostnaður fyrir skattgreiðendur, þar sem smábátaflotinn leggur miklu meira til ríkisins en hann tekur út.

Engu að síður virðist stjórnsýslan vera föst í þeirri kreddu að einkaeign sé eina leiðin til að ná ábyrgri og sjálfbærri nýtingu auðlindar. Þess vegna má ekki hrófla við framseljanleika kvótans, auk þess sem best væri að sökkva strandveiðiflotanum.

Endrum og eins má þó heyra á stjórnvöldum að þeim ofbýður ofríki sægreifanna. Í kjölfar kaupa Síldarvinnslunnar á Vísi virtust íslensk stjórnvöld til dæmis taka við sér, í orði ef ekki á borði. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagðist hafa miklar áhyggjur af aukinni samþjöppun í sjávarútvegi og að endurskoða þyrfti regluverkið varðandi kvótaþak og tengda eigendur: „Síðan eðlilega hefur maður áhyggjur af áhrifum á byggðarlögin. Við erum auðvitað með sögu þar sem við höfum oft séð að hagræðing hefur ráðið för en ekki sjónarmið um samfélagslega ábyrgð eða byggðafestu. Þannig að ég hef líka áhyggjur af því.“ Katrín vitnaði í „ákvæði í lögum um fiskveiðistjórnunarkerfið um að auðlindin sé sameign þjóðarinnar“ máli sínu til stuðnings.

Sjávarútvegsstefna og frumvarp til laga um sjávarútveg

Þrátt fyrir þetta og mörg önnur dæmi um blákalda hörku kvótakónganna (nægir þar að nefna síðastliðið haust þegar Síldarvinnslan lagði niður 30 störf á Seyðisfirði) þá hefur matvælaráðherra í umboði flokks forsætisráðherra lagt fram frumvarp sem boðar aukna samþjöppun í sjávarútvegi á kostnað nýliðunar og samkeppni.

Opna á 5,3% pottinn enn frekar fyrir stórútgerðinni. Tilgangurinn er augljóslega að smygla félagslega kerfinu inn í kvótakerfið bakdyramegin. Þá er það sturlun að potturinn skuli ekki lengur vera lögfestur heldur háður heimild frá ráðherra. Að sama skapi eru það algjör svik við smábátasjómenn að skerða strandveiðar með því að fella á brott heimild strandveiðiskipa til að landa ufsa án þess að sá afli teljist til hámarksafla.

Sú hugmynd að hækka kvótaþakið úr 12% í 15% mun hafa þær afleiðingar að örfáar fjölskyldur sitja uppi með nánast allar aflaheimildir með tilheyrandi blóðtöku sjávarbyggða. Eins er hin svokallaða „innviðaleið“ – þar sem heimildir sem áður runnu til sjávarbyggða eru leigðar út og leigutekjur renni til sveitar- félaga – ávísun á frekari skell fyrir brothættar byggðir. Í þeirri innviðaleið sem greinilega er stefnt að er einfaldlega verið að múta sveitarfélögum með þeirra eigin peningum. Er þeim þar með gert að gleyma fiskveiðum fyrir fullt og allt og sætta sig við að íbúar sjávarplássa eigi ekkert tilkall til hafsins og auðlinda þess.

Þetta er svívirðileg og siðlaus aðferð til þess að neyða íbúa sjávarplássa til að sætta sig við „orðinn hlut“. Það sést vel á þeim sjávarplássum sem ekki hafa farið illa út úr kvótabraski að besta leiðin til þess að styrkja byggðir í nálægð við fengsæl fiskimið er að leyfa þeim að sækja sjóinn. Eins og lesa má í umsögnum Tálknafjarðarhrepps, Vopnafjarðarhrepps, Skagastrandar og Vesturbyggðar um þetta frumvarp þá vita þessar innviðatillögur ekki á gott.

Spurningin sem stjórnvöld verða að svara er því þessi: hvers vegna horfa þau algjörlega framhjá 1. grein laga um stjórn fiskveiða? Þar stendur skýrum stöfum að eitt meginmarkmið laganna sé að tryggja „trausta atvinnu og byggð í landinu“. Stefnan ætti að vera: Ljós og líf í hverju húsi við ströndina.

Skylt efni: Nytjar hafsins

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...