Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 10 mánaða.
Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála vilja þrír af hverjum fjórum Íslendingum að bætt verði í strandveiðipottinn. „Könnunin leiddi í ljós að þjóðin hefur fengið sig fullsadda af þeirri spillingu sem kvótakerfið hefur leitt af sér en vill aftur á móti rétta hlut strandveiðiflotans svo um munar.“
Samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála vilja þrír af hverjum fjórum Íslendingum að bætt verði í strandveiðipottinn. „Könnunin leiddi í ljós að þjóðin hefur fengið sig fullsadda af þeirri spillingu sem kvótakerfið hefur leitt af sér en vill aftur á móti rétta hlut strandveiðiflotans svo um munar.“
Mynd / KPS
Á faglegum nótum 31. maí 2023

Kúabændur, bifvélavirkjar og trillukarlar

Höfundur: Kjartan Páll Sveinsson, félagsfræðingur, trillukarl og formaður Strandveiðifélags Íslands.

Hvað eiga kúabændur, bifvéla virkjar og trillukarlar sameiginlegt? Ekki veit ég það en LÍÚ hefur einhvern veginn tekist að troða okkur undir sama hatt.

Kjartan Páll Sveinsson

Þannig er mál með vexti að nýverið birti Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands skoðanakönnun um viðhorf Íslendinga til sjávarútvegsmála. Könnunin leiddi í ljós að þjóðin hefur fengið sig fullsadda af þeirri spillingu sem kvótakerfið hefur leitt af sér en vill aftur á móti rétta hlut strandveiðiflotans svo um munar; þrír af hverjum fjórum Íslendingum vilja að bætt verði í strandveiðipottinn. Í sjálfu sér eru þetta engar fréttir þar sem niðurstöðurnar endurspegla allar þær skoðanakannanir sem gerðar hafa verið á þessu viðfangsefni. Stjórnvöld hafa þó gott af því að fá reglulega áminningu um að þau séu að ganga þvert á vilja þjóðarinnar í stefnu sinni í sjávarútvegsmálum.

Könnunin kemur sem sagt illa út fyrir kvótakóngana en trillukarlar og konur standa uppi með pálmann í höndunum. Þá er áróðursmaskínu LÍÚ snúið í gang eins og gamalli 24 hestafla BUKH vél og er aflið í málflutningi eftir því. Nauðvörnin er alger eins og tíðkast hjá þeim sem eiga vondan málstað að verja. Röksemdafærslan – eða öllu heldur rökleysan – afhjúpar hversu erfiðlega þeim reynist að finna flöt á umræðunni sér í hag. Ég ætla að skoða tvö dæmi um örvæntingarfulla nauðvörn LÍÚ við skoðanakönnuninni.

Trillukarlar sem Bjössi á mjólkurbílnum

Fyrra dæmið er greinin „Strandveiðar – sveitarómantík“ eftir Samúel Sigurjónsson, sem birtist 15. maí á visir.is. Inntakið er að „hobbýveiðar“ strandveiðiflotans ræni „atvinnusjómönnum“ störfum sínum. Hann segist vera kominn í þriggja mánaða launalaust frí, væntanlega vegna þess að útgerðaraðilinn hans er búinn með kvótann sinn sökum dæmalausrar fiskgengdar og mokfiskerís. Þetta er ósanngjarnt því á meðan er strandveiðiflotinn að fiska eins og enginn sé morgundagurinn.

Höfundur veltir því kaldhæðnislega fyrir sér hvort ekki mætti gera það sama með mjólkurflutninga: setja upp kerfi fyrir „frístundamjólkurbíla“ í anda strandveiðikerfisins. Ef frístundamjólkurbílstjórar sækja betri afurð á umhverfisvænan og félagslega ábyrgan hátt og selja svo mjólkina á hærra verði, þá er þetta í sjálfu sér ekkert galin hugmynd hjá honum. Það sem er þó áhugavert við röksemdafærsluna er það að hann reynir að geirnegla mýtuna um að strandveiðar séu í eðli sínu frístundaveiðar frekar en afleiðing handónýtrar stjórnsýslu. Taktíkin er að skera pottinn svo við nögl að ekki sé hægt að lifa á strandveiðum og svo að úthrópa þær sem hobbísjómennsku vegna þess að enginn getur haft þær sem aðalstarf.

Ef Samúel er kominn í þriggja mánaða launalaust leyfi þá ætti hann að biðja atvinnuveitanda sinn að skipuleggja útgerðina sína betur. Þrátt fyrir allt tal Þorsteins Más um mikilvægi þess að vera „365“ með stöðugt og öruggt framboð af fiski í erlenda stórmarkaði, þá gat stórútgerðin ekki stillt sig og ryksugaði upp kvótann sinn á mettíma. Það þýðir ekki að kenna trillukörlum um þetta sjálfskaparvíti.

Öllu nær væri að þakka þeim fyrir að hlaupa í skarðið og bjarga því sem bjargað verður á erlendum mörkuðum.

Sannleikurinn er sá að allur strandveiðipotturinn eins og hann leggur sig myndi vart duga fyrir einn ísfisktogara. Í stað 700 starfa sem dreifast um landið byðust eingöngu 50 störf þar sem kvótakóngunum hugnaðist að hafa þau. Hafa ber í huga að hlutdeild strandveiða af heildarafla innan kvótakerfisins er á bilinu 1,5­2%. Er það virkilega svo að þessi hungurlús sé að setja sægreifana á hliðina?

Íslenska þjóðin sem bifvélavirkjar

Seinna dæmið er greinin „Læknar bifvélavirki eyrnabólgu?“ sem Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka fyrir­tækja í sjávarútvegi (LÍÚ), skrifaði fyrir Bláa hagkerfið 4. maí.

Hún byrjar á að undra sig á því að skoðanakönnun með úrtak upp á 1.133 manns geti talist marktæk. Þetta eru jú eingöngu 0,4% landsmanna. Kannski þekkir hún ekki fræðin á bak við skoðana­kannanir (og ætti því, eðli mál­ flutnings hennar samkvæmt, ekki að hafa skoðun á þeim) en það þarf töluvert sterkari rök til þess að smætta fagmennsku kollega minna í Félagsvísindastofnun niður í fúsk. Þar starfa tölfræðingar og félagsvísindafólk á heimsmæli­kvarða. Það eru þó ekki starfshættir Félagsvísindastofnunar sem er stóri skúrkurinn í skoðanakönnuninni heldur íslenska þjóðin, því hún hefur ekki hundsvit á sjávarútvegi. Heiðrún Lind leggur það að jöfnu að spyrja þjóðina hvað henni finnst um fiskveiðistjórnun á Íslandi og að biðja bifvélavirkja um að lækna eyrnabólgu. Bifvélavirkjar mega þá væntanlega ekki hafa skoðun á heilbrigðiskerfinu heldur. Það sem skín í gegnum greinina er að Íslendingar vita ekki neitt. Þeir eru svo vitlausir að þeir geta ekki látið fólk með yfirburðagáfur sjá um meðferð auðlindarinnar okkar.

Vandamálið er að fólk þarf ekki að þekkja muninn á almennum og sértækum byggðakvóta til þess að sjá að það er vitlaust gefið í kerfinu. Þjóðin virðist vera staðföst í skoðun sinni að fiskveiðar séu mikilvægar fyrir efnahag landsins. Könnunin sýnir því ekki eingöngu að þjóðin sé vel meðvituð um hvernig kvótakerfið hefur grafið undan atvinnumöguleikum þjóðarinnar og tekið sjálfsákvörðunarrétt af fólki, heldur líka hvernig megi lagfæra það sem aflaga hefur farið í kerfinu. Það er greinilega sterk réttlætiskennd í landinu sem sést á skoðunum almennings um hvað myndi stuðla að sátt um sjávarútveginn. Efst á lista eru gagnsæi á kvótaeign, hækkuð veiðigjöld, ákvæði í stjórnarskrá að þjóðin eigi fiskinn, bann á framsali kvóta, og auknar smábátaveiðar.

En hvar er matvælaráðherra?

Ég álasa ekki LÍÚ fyrir bullið sem upp úr þeim vellur. Þau eru eingöngu að verja sína hagsmuni og hafa ekki úr öðru að moða. Öðru máli gegnir um matvælaráðuneytið. Strandveiðivertíðin hófst 2. maí síðastliðinn í skugga smánarlegrar framkomu matvælaráðuneytisins í garð smábátasjómanna. Í allan vetur hefur ráðuneytið dregið lappirnar með að ákveða fyrirkomulag vertíðarinnar. Frumvarp um svæða­ skiptingu strandveiðipottsins – sérhannað til þess að sundra samstöðu innan strandveiðiflotans – var keyrt í gang á síðustu stundu með þeim afleiðingum að algjör óvissa ríkir enn, þremur vikum eftir vertíðarbyrjun.

Ráðuneytið virðist standa í þeirri trú að eingöngu tvær leiðir séu í boði fyrir strandveiðikerfið: óbreytt ástand (lokuð svæði, opinn pottur), eða svæðaskipting (fjögur svæði, fjórir pottar, fjögur tímabil). Svo er ekki þar sem að þriðja leiðin liggur fyrir, sem er að afnema stöðvunarheimildina, en Strandveiðifélag Íslands styður tillögu Landssambands smábátaeigenda að fórna nokkrum sóknardögum á móti. Við höfum látið atvinnuveganefnd vita að við teljum þetta einu ásættanlegu lausnina. Strandveiðiflotinn kallar eftir þessu einum rómi, hringinn í kringum landið.

Með því að fara þessa leið myndi ráðherra kaupa sér tíma í sumar þannig að allir gætu klárað vertíðina sáttir. Hún gæti svo notað næsta vetur – sem verður að hennar sögn tileinkaður nýjum frumvörpum sem byggja á fyrrnefndri skoðanakönnun – til þess að finna leiðir til að fara eftir vilja þjóðarinnar og efna eigin loforð um að styrkja strandveiðikerfið í sessi.

Skylt efni: Nytjar hafsins

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...