Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 mánaða.
Krefjandi tíðarfar fyrir bændur
Mynd / Natalie B
Á faglegum nótum 26. febrúar 2025

Krefjandi tíðarfar fyrir bændur

Höfundur: Eyjólfur Ingvi Bjarnason, ráðunautur í sauðfjárrækt.

Uppgjöri á skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir árið 2024 er að mestu lokið og þau bú sem enn eiga eftir að ljúka uppgjöri eru hvött til að ljúka því við fyrsta tækifæri.

Afurðir eftir hverja fullorðna kind voru 28,4 kg sem eru minni afurðir en undanfarin ár, en telst samt sem áður góður árangur í ljósi þeirra áskorana sem bændur landsins bjuggu við á síðasta ári. Áhrif af hretinu í fyrstu viku júní sjást greinilega í mörgum héruðum sem færri kíló eftir hverja kind en samt ekkert langt frá meðalafurðum síðustu 10 ára. Þó þarf að hafa í huga að fé hefur fækkað mikið síðustu ár sem hefur einhver áhrif á samanburð milli ára. Hlutfallslega hefur fækkun sauðfjár verið minnst í Austur-Húnavatnssýslu en mest á Vestfjörðum og í Vestur-Skaftafellssýslu.

Þegar þetta er skrifað er búið að skila skýrsluhaldi fyrir 264.245 fullorðnar ær og 59.806 veturgamlar, eða tæplega 96% af öllu sauðfé í landinu, sem er líklega mesta þátttaka í sameiginlegu skýrsluhaldi á heimsvísu. Skýrsluhaldið er eitt af þeim verkfærum sem hver bóndi nýtir í ákvarðanatöku í sínum búrekstri og á þannig þátt í auknum afurðum á hvern grip á síðustu 20 árum, ef skoðaðar eru tölur um innlagt magn dilkakjöts og fjölda kinda í landinu.

Afurðir árið 2024

Reiknaðar afurðir eftir hverja kind voru 28,4 kg árið 2024. Mestu afurðir í einu héraði voru í Vestur-Húnavatnssýslu, eða 30,7 kíló. Fædd lömb á hverja kind voru 1,85 vorið 2024 og hefur farið lítillega fjölgandi en helsta ástæða þess er aukinn fjöldi kinda sem eignast þrjú lömb eða fleiri. Fer það hlutfall í fyrsta skipti yfir 10% á landinu öllu en er eftir sem áður hæst í Vestur-Húnavatnssýslu 1,91 lömb, þar sem 13% ánna eru fleirlembur, en hlutfall geldra kinda er einnig nokkuð undir landsmeðaltali. Af þeim rúmlega 850 búum sem hafa fleiri en 100 fullorðnar ær eru 120 bú með 2 lömb fædd eða fleiri eftir hverja kind. Í þremur fjárræktarfélögum eru 2 lömb eða fleiri fædd að jafnaði, í fjárræktarfélagi Skefilsstaðahrepps, Skagafirði, Reykjahreppi, S-Þingeyjarsýslu og Hvammshrepps í V-Skaftafellssýslu.

Á meðfylgjandi mynd má sjá afurðir síðustu tveggja ára (2024 rauð súla, 2023 græn súla) sýndar eftir sýslum ásamt meðaltali síðustu 10 ára (blá súla) í viðkomandi héraði. Alls náðu 9 bú með fleiri en 100 kindur því að vera með meira en 40 kg eftir hverja fullorðna kind og sífellt fleiri bú bætast í hóp afurðahárra búa. Tvö bú ná meira en 40 kg eftir allar kindur búsins, þ.e. vegið meðaltal fullorðinna kinda og veturgamalla. En það eru Gýgjarhólskot og Bræðratunga í Biskupstungum.

1. mynd. Reiknaðar afurðir (kg/kg) eftir landsvæðum síðustu ár.

Afurðir eftir veturgömlu ærnar eru góðar og eru 12,3 kíló en þessar afurðir hafa aukist jafnt og þétt undanfarin ár sem er til marks um bætta umhirðu og fóðrun gemlinga. Líklega eru samt mest tækifæri til afurðaaukningar hjá sauðfé í þessum hópi en mjög skiptar skoðanir eru meðal bænda um hversu mikla afurðakröfu á að gera á veturgamlar ær en of víða er ekki hleypt til gemlinga en það hlutfall er 10,6% á landsvísu en hefur farið heldur lækkandi. Í Vestur-Húnavatnssýslu er þetta hlutfall 1,7% enda eru reiknaðar afurðir eftir hverja veturgamla kind mestar á landinu þar, eða 15,5 kg á hverja kind. Tíðarfar virðist þó hafa verið sérstaklega hagfellt sauðfé víða sunnanlands sumarið 2024 því þar er vænleiki víða umtalsvert meiri en árin á undan. Ef heildarafurðir eftir bæði fullorðnar og veturgamlar kindur eru skoðaðar stendur V-Skaftafellssýsla á toppnum með 27,5 kg eftir hverja kind en Strandamenn og Vestur- Húnvetningar eru þar skammt að baki. Á þessum þremur svæðum er hver kind með rúmlega 2 kg meira í reiknaðar afurðir en meðalkindin í landinu. Minnstar eru afurðir eftir hverja kind í Austur-Húnavatnssýslu og Skagafirði en þar lék tíðarfarið bændur hvað verst þó þar hafi menn unnið ákveðinn varnarsigur í því að fást við öfgakennt tíðarfar.

Efstu búin

Rúmlega 860 bú með fleiri en 100 fullorðnar kindur hafa skilað uppgjöri. Í 1. töflu er þeim raðað eftir afurðum eftir hverja kind. Líkt og undanfarin ár er bú Eiríks Jónssonar í Gýgjarhólskoti í Biskupstungum efst með 44,8 kg eftir fullorðna kind. Næst í röðinni er bú Kjartans Sveinssonar í Bræðratungu sem einnig er í Biskupstungum með 43,2 kg eftir hverja kind og búið að Efri-Fitjum í Fitjárdal er í þriðja sæti með 42,8 kg eftir hverja kind.

Sífellt fleiri bú eru að ná auknum afurðum og sem dæmi má nefna að árið 2024 voru 56 bú með meira en 35 kg eftir hverja fullorðna kind en árið 2010 náðu einungis 12 bú þeim árangri.

1. tafla. Efstu bú landsins samkvæmt afurðum eftir hverja fullorðna á. Einungis bú með 100 eða fleiri vetrafóðraðar ær.

Frjósemi og lömb til nytja

Afurðir eftir hverja á byggja á fjölda lamba til nytja og fallþunga lambanna og má kannski ekki taka sem algildum mælikvarða á útkomu sauðfjárbúa, þar sem þættir í framleiðslukerfinu eða aðstæður á milli búa geta verið mismunandi. Uppbygging á verðskrám hefur undanfarin ár verið með innbyggðum hvata til þess að slátra lömbunum fyrr á haustin og fá álag greitt á lömb í ákveðnum sláturvikum. Það sem mestu skiptir er að fá sem flest lömb til nytja að hausti. Nytjahlutfall er hlutfall þeirra lamba sem koma til nytja að hausti af þeim lömbum sem fædd eru að vori. Þarna er mikill breytileiki milli búa en í 2. töflu eru upplýsingar um þau bú sem hafa hæsta nytjahlutfall og skila meiru en 29 kg eftir allar ær búsins.

2. tafla. Efstu bú landsins raðað eftir nytjahlutfalli bús. Bú með 100 eða fleiri vetrarfóðraðar ær og meira en 28 kg eftir hverja kind búsins.

Afurðir eftir allar ær búsins

Nú er í þriðja sinn birtur listi yfir mestar afurðir eftir allar fullorðnar og veturgamlar ær á búinu. Röðun búanna er keimlík og miðað við listana fyrir fullorðnar ær en þó er alltaf einhver hreyfing sem er vísbending um að veturgömlu ærnar hafi staðið sig mjög vel. Jafnframt er rétt að hafa það í huga þegar þessi listi er skoðaður hvert hlutfall veturgömlu ánna er af heildarfjölda. Þessi listi sýnir líka hve mikilli framleiðslu er hægt að ná ef tækifærin eru nýtt eins og kostur er og íslenska fjárkynið á mun meira inni þegar kemur að afurðum veturgamalla kinda þegar kemur að fóðrun og umhirðu þeirra á fyrsta ári.

3. tafla. Efstu bú landsins samkvæmt afurðum eftir allar ær (veturgamlar og fullorðnar). Bú með 100 eða fleiri vetrarfóðraðar kindur.

Listi yfir bú sem ná góðum árangri (úrvalsbú)

Í nokkur ár hefur verið birtur listi á heimasíðu RML yfir bú sem náð hafa mjög góðum árangri með sína hjörð að teknu tilliti til margra þátta. Þessar viðmiðanir hafa verið í mótun og tekið breytingum í gegnum árin. Það er eðlilegt að svona viðmiðanir taki nokkuð örum breytingum í takt við vonandi almennt betri árangur hjá fleirum. Engar breytingar eru þó á uppsetningu listans milli áranna 2023 og 2024. Listann má finna á heimasíðu RML ásamt öllum öðrum niðurstöðum skýrsluhaldsins fyrir árið 2024, meðal annars umfjöllun um afkvæmarannsóknir, lista yfir mestu bakvöðvaþykkt gimbra og lista yfir afurðir einstakra fjárræktarfélaga.

Niðurstöður fyrir flokkun sláturlamba

Í skýrslum fjárræktarfélaganna fyrir framleiðsluárið 2024 eru upplýsingar um 386.931 dilk. Meðalfallþungi þeirra var 17,4 kg, einkunn fyrir holdfyllingu 9,50 og einkunn fyrir fitu 6,55, sem er örlítil lækkun milli ára. Miðað við 100 sláturlömb eða fleiri eru það 33 bú sem ná þeim frábæra árangri að holdfyllingareinkunn sláturlambanna sé 11,5 eða hærri. Árið 2021 voru þau 17 þannig að sífellt fleiri bú eru að skora hærra í holdfyllingarmati sláturlamba. Hæst gerðarmat var hjá Sigurfinni Bjarkarsyni í Brattholti í Árborg líkt og fyrir ári síðan, en 121 dilkur frá honum var að meðaltali með einkunnina 12,71.

Að lokum

Árið 2024 var prófsteinn á íslenska sauðfjárbændur – móðir náttúra minnti rækilega á sig og sumarið brást með öfgakenndu tíðarfari mjög víða. En sauðfjárbændur sýndu mikla aðlögunarhæfni og sinntu sínum verkefnum af kostgæfni. Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir árið 2024 staðfesta það.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...