Hvernig viljum við sjá skýrsluhaldskerfið Huppu þróast?
Þegar tölvudeild Bændasamtaka Íslands var sameinuð RML varð til vettvangur sem sameinaði tækni- og forritunarþekkingu starfsmanna tölvudeildar BÍ við þá fagþekkingu á skýrsluhaldi og ræktunarstarfi sem til var hjá ráðunautum RML. Í kjölfarið var farið að huga að því að byrja að móta heildstæða stefnu varðandi framtíðarþróun skýrsluhaldskerfanna.

Notendakannanir voru settar í loftið fyrir afurðaskýrsluhaldskerfin með það í huga að niðurstöður þeirra gætu síðar legið til grundvallar fyrir framtíðar ákvarðanatöku varðandi framþróun kerfanna. Nokkuð er síðan könnun fyrir Huppu fór í loftið en hér verður gerð grein fyrir helstu atriðum og hvernig þær niðurstöður munu móta framtíðarvinnu við kerfið. Þeir sem vilja rýna betur svör við einstaka spurningum er bent á að um leið og þessi grein birtist verður samantekt úr niðurstöðunum birt á heimasíðu RML: www.rml.is
Alls tóku 162 kúabændur þátt í könnuninni. Af þeim voru 52 eingöngu í mjólkurframleiðslu, 12 eingöngu í kjötframleiðslu og 98 bæði í mjólk og kjötframleiðslu. Bústærð þátttakenda var þannig að flestir mjólkurframleiðendur voru með 41-60 árskýr. Þeir bændur sem voru eingöngu í kjötframleiðslu voru flestir með meira en 50 sláturgripi á ári en þeir kjötframleiðendur sem voru einnig í mjólkurframleiðslu voru flestir með 11-30 sláturgripi á ári.
Kúabændur á Norðausturlandi voru duglegastir að taka þátt í könnuninni og nokkuð jöfn dreifing var á þátttakendum á aldursbilinu 31-60 ára. Langflestir þátttakendur voru með fullan aðgang að Huppu. Þegar kom að því hvaða hluta af skýrsluhaldskerfinu notendur eru mest að nýta sér þá eru flestir að nota Huppu í kringum mánaðarleg skil en skrá jafnframt burði og afdrif reglulega. Uppflettingar á upplýsingum um einstaka gripi eru líka mikið notaðar.
Þegar kemur að upplýsingum um einstaka gripi þá er vinsælast að skoða upplýsingar um afkvæmi, ættartré, kynbótamat, afurðir og fangsögu. Yfirlit yfir væntanlega burði er mest notaða skýrslan í Huppu samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Almennt telja notendur Huppu, að kerfið sé einfalt í notkun, að þjónusta við kerfið sé góð og að Huppa sé mikilvægt tæki í bústjórn og ræktunarstarfi á þeirra búi.
Grundvallarhlutverk afurðaskýrsluhaldskerfa í búfjárrækt er auðvitað að safna þeim gögnum sem nauðsynleg eru til að halda uppi öflugu sameiginlegu ræktunarstarfi en um leið er mikilvægt að þau séu um leið öflug bústjórnartæki sem þjónar sem flestum á sem bestan hátt. Í því samhengi er líka mikilvægt að hafa í huga að áherslur gærdagsins eða dagsins í dag endurspegla ekki endilega það sem framtíðin krefst af okkur. Vaxandi nautakjötsframleiðsla gerir kröfur til þess að skýrsluhaldið komi betur til móts við þarfir þeirra bænda sem hana stunda. Það er líka mikilvægt að reglulegt samtal fari fram við notendur kerfisins varðandi áframhaldandi þróun.
Íslenskir kúabændur standa framarlega þegar kemur að tæknivæðingu búa. Stærstur hluti þeirra mjólkurframleiðenda sem svöruðu könnuninni voru með mjaltaþjón eða tölvustýrt mjaltakerfi á sínu búi og hafa þar með aðgang að bústjórnarhugbúnaði með þeim búnaði. Þá kom einnig fram mikil áhersla á að unnið væri að því að koma á samskiptum við mjaltaþjóna eða önnur tölvustýrð mjaltakerfi og að kerfið væri notendavænna í snjalltækjum. Þetta eru skilaboð sem mikilvægt er að leggja til grundvallar í framtíðarþróun á skýrsluhaldskerfinu Huppu þannig að öll þessi kerfi vinni sem best saman til að létta bændum störfin. Gagnasamskipti milli skýrsluhaldskerfa og annars bústjórnarhugbúnaðar er mikilvægur þáttur í því. Þegar talað er um annan bústjórnarhugbúnað skal taka fram að þar inni eru önnur jaðartæki s.s. vigtunarbúnaður eða annar búnaður sem safnar gögnum um gripi þó þeir séu ekki í mjólkurframleiðslu.
RMl hefur frá 2014 verið aðili að NCDX sem var norrænt samstarf þar sem unnið var að því að koma á gagnasamskiptum milli tölvustýrðs mjaltabúnaðar og annara jaðartækja við skýrsluhaldsgagnagrunna. Sú hugbúnaðarlausn sem þróuð var undir nafni NCDX, og var komið að hluta í notkun í Skandinavíu, var um mitt ár 2019 seld til IDDEN sem er alþjóðlegt fyrirtæki aðila í skýrsluhaldi og mjólkuriðnaði. Undirrituð hefur setið í stjórn NCDX fyrir hönd RML frá 2018. Hið upprunalega NCDX samstarf Norðurlandanna myndaði fyrirtækið NCDX Aps sem á 1/7 af IDDEN ásamt aðilum sem í Evrópu, Norður Ameríku, og Eyjaálfu. Aðilar að IDDEN samstarfinu halda utan um skýrsluhald fyrir yfir 20 miljónir nautgripa í 15 löndum. Við berum væntingar til þess að þetta samstarf verði grundvöllur að því að þróa íslenskt skýrsluhald í takt við aðrar tæknilausnir sem bændum bjóðast þannig að þessi kerfi vinni sem best saman með áherslu á sameiginlegt ræktunarstarf og það sem er mikilvægast varðandi heildarhagsmuni notenda.
Það er sterkt ákall frá íslenskum kúabændum að afurðaskýrsluhaldið vinni bæði fyrir mjólkur og kjötframleiðslu, það geti unnið með öðrum bústjórnarkerfum og að það sé einfaldara í notkun í snjalltækjum þannig að bændur geti betur unnið með skráningar eða leitað upplýsinga um sína gripi um leið og þeir sinna daglegum störfum í fjósinu. Þetta hljóta því að verða áhersluatriði við framtíðarþróun Huppu.
Þeir sem vilja kynna sér NCDX og IDDEN samstarfið geta haft samband við undirritaða sem situr í stjórn NCDX fyrir hönd RML. Nánari upplýsingar er einnig að finna HÉR.