Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 11 mánaða.
Leturhumar, Nephrops norvegicus, er sú humartegund sem veiðist við Ísland.
Leturhumar, Nephrops norvegicus, er sú humartegund sem veiðist við Ísland.
Á faglegum nótum 4. maí 2023

Humarveiðibann

Höfundur: Sigurgeir B. Kristgeirsson

Humarveiðar hafa verið stundaðar við Ísland frá 1950, fyrst eingöngu af erlendum skipum en rétt fyrir 1960 hófust humarveiðar Íslendinga við suðurströndina.

Mest fór aflinn í 6.000 tonn, eins og sést á meðfylgjandi mynd, en sveiflaðist í kringum 2.000 tonnin þar til hrun varð á veiðunum fyrir nokkrum árum og nú hafa humarveiðar verið bannaðar í tvö ár. En hvað er að gerast?

Við fengum Jónas Pál Jónasson, fiskifræðing hjá Hafrannsóknastofnun og sérfræðing í humri, til að segja okkur frá humrinum, veiðum, lífsferli og fleiru áhugaverðu um humarinn.

Afli 1950-2021.

Útbreiðsla og lífsferill humars

Leturhumarinn er eina humartegundin við Ísland. Leturhumar heitir ekki humar á erlendum tungumálum (enska: lobster), heldur ýmsum öðrum nöfnum.

Leturhumarinn er útbreiddur, allt frá Miðjarðarhafi, norður með ströndum V-Evrópu og Noregs, inn í Norðursjó og norðvestur um Færeyjar og alla leið til Íslands.

Heildarveiði leturhumars er um 80–100.000 tonn, mest við Skotland og Írland en einnig í öðrum löndum V-Evrópu. Humarveiðarnar hafa nánast eingöngu verið trollveiðar við Ísland. Þannig er einnig farið með humarveiðar við Skotland og Írland þar sem langmest er veitt af honum en á einstaka afmörkuðum svæðum er hann veiddur í gildrur.

Kjörhiti humars er 5–15 gráður. Af þeim sökum velur hann sér dýpi sem hæfir og er því á miklu dýpi í Miðjarðarhafinu en grynnra við Skotland. Humarinn er langlíf tegund, verður líklega allt að 20–25 ára, þótt það sé ekki vitað með fullri vissu því það er mjög erfitt að aldursgreina hann. Einkenni íslenska humarsins er að hann er að jafnaði stærri en humar veiddur við strendur Evrópu.

Útbreiðsla humars.

Erfðafræðilega lítill munur

Humarinn lifir í leirkenndum botni, einkum í jökulleirnum við suðurströndina, þar sem hann getur grafið sér holur í leirinn. Hann hrygnir annað hvert ár á vormánuðum, líklega í apríl–maí. Fyrstu 6–8 vikurnar eru lirfurnar sviflægar, þ.e.a.s. þær synda en taka síðan botn og umbreytast. En þegar upp er staðið eru það hafstraumar sem ráða mestu um hvar humarlirfurnar taka botn. Eftir að humarinn hefur grafið sér holu þá ferðast hann lítið eftir það.

,,Við tókum þátt í rannsókn á erfðafræðilegum mun á humri við Ísland og Skotland. Það sem kom í ljós þar var að það var nánast enginn erfðafræðilegur munur milli humars í Breiðamerkurdýpi og í djúpunum vestur af Írlandi.

Það er þekkt að skötuselur syndir í yfirborðinu austur úr og hrygnir á Hatton-Rockall svæðinu. Það er einnig þekkt að hrognastrengir þeirra reka að hluta til Íslands og klekjast út þar. Skötuselsstofninn við Ísland stækkaði mikið upp úr árinu 2000, á svipuðum tíma og nýliðun í humri var mikil við Ísland. Það er því ekki útilokað að svipað mynstur gæti hafa átt sér stað með lirfur humarsins,“ segir Jónas.

Veiðanleiki humars

Humarveiðin byggist aðallega á karldýrum en um eða yfir 90% í veiði er karldýr. Kvendýrið heldur sig að mestu í holum sínum og fer afar sjaldan út en karldýrið er meira á ferðinni og því veiðanlegra. Kvendýrið er oft með græna slikju undir höfuðbolnum og skelin linari. Hrognin eru fagurgræn.

Mælingar á stofnstærð humars hafa verið erfiðleikum háðar segir Jónas. ,,Humarinn er mjög háður hitastigi. Þannig er því farið hér við land að ef hitastig sjávar er lágt, þá fer hann ekki út úr holum sínum. Það er því mjög erfitt að meta stofnstærð humars út frá veiði með trolli, þar sem hitastig eða aðrar aðstæður ráða mestu um hvort hann veiðist eða ekki. Því hefur Hafró snúið sér frá stofnstærðarmælingu með trolli yfir í talningar á holum.

Eins og sjómenn þekkja þá er veiðanleiki hans meiri þegar smástreymt er fremur en stórstreymt. Eins kemur hann meira úr holum sínum þegar mikill blómi er í hafinu.“

Nýliðunarbrestur

Veiðibannið er afleiðing nýliðunarbrests. Á árunum 1990–1997 og síðan árið 2000 komu inn stórir árgangar sem voru undirstaða veiðanna árin á eftir. Síðan 2005 hefur ekki komið inn stór árgangur sem er ástæða minnkandi veiði og nú banns við humarveiði. En hver er ástæða þessa nýliðunarbrests?

,,Það er ekki að fullu þekkt. Það sem er merkilegt er að við sjáum svipað mynstur hjá öðrum suðlægum tegundum s.s. blálöngu, skötusel, keilu og sandsíli. Afleiðing hruns á sandsíli um 2006 var nýliðunarbrestur hjá lunda við suðurströndina frá 2006 til 2017 þegar rofa tók til í kjölfar þess að stofn sandsílis náði sér á strik,“ segir Jónas. Þess ber að geta að engar veiðar eru stundaðar á sandsíli og sveiflur á stofnstærð sandsílis eru því eingöngu náttúrulegar.

Breytingar á sjávarhita og straumum

Færeyingar hafa bent á að næringarsnauður suðlægur sjór hefur verið að berast sunnar út Atlantshafi inn á Norður Atlantshafið. Fyrst varð hans vart við Færeyjar en síðar kom hann að suðurströnd Íslands. Framleiðni sjávarins við Ísland hefur verið mikil sem er undirstaða lífríkis sjávar við landið. Gætu þessar breytingar verið að hafa áhrif? ,,Við vitum að þörungablómi er undirstöðufæða sviflægra lirfa eins og humarlirfa,“ segir Jónas.

,,Ef hrygning hittir ekki á blómann þá komast lirfurnar ekki af. Við vitum af gervihnattagögnum að hámark þörungablóma við Ísland hefur verið seinni en oft áður. Við vitum af öðrum tegundum sem eru með sviflæg egg, og í kjölfarið lirfur, hafa átt í basli með nýliðun af sömu ástæðu. Ofan á allt þetta er næringasnauðari sjór að koma inn á uppvaxtarsvæðin. Þetta tel ég helstu ástæðu nýliðunarbrests á humri á,undanförnum árum. Þegar maður sér öll sömu ljós kvikna hjá mörgum tegundum þá er langlíklegast að eitthvað sem er að gerast í náttúrunni sé aðalskýringin,“ bætir Jónas við. Er makríllinn að éta humarlirfurnar? Nú hafa margir bent á að makríllinn hafi komið inn á Íslandsmið árið 2006 og spurt sig, étur hann ekki allar lirfur og þar með humarlirfur? Þá hafa aðrir bent á að gríðarlega stór hrygningarstofn þorsks við suðurströndina þyki humar líka góður og éti hann. Hvað segir Jónas um þessar kenningar? ,,Þær eru áhugaverðar og hafa allar einhvern vinkil. Við vitum að þorskurinn étur humar og makríllinn líka. En þorskurinn er að éta fullorðinn humar en ekki lirfur og það er nýliðun sem vantar. En svo er það makríllinn. Hann kemur inn á slóðina þegar humarlirfur hafa að mestu tekið botn svo okkur finnst það ekki líkleg skýring.“

Von um bætta tíð?

En hvað með humarinn, eru engar vísbendingar um betri tíð hjá humrinum? ,,Við höfum ekki séð nein merki nýliðunar hjá humri enn þá enda er humarinn seinvaxið dýr. Hann kemur ekki inn í veiðina fyrr en 5–6 ára. Við höfum séð breytingu hjá nokkrum tegundum, t.d. í mælingum á sandsíli síðastliðin ár og sérstaklega frá 2020, sem gefur von en enn höfum við ekki séð nein merki nýliðunar í humri,“ segir Jónas og bætir við:

,,Það hefur verið skortur á grunnrannsóknum í hafinu við Ísland og við skiljum lífríkið ekki nægjanlega vel. Samspil náttúrulegra þátta skipta máli og við verðum að skilja þá líka. Það er vandinn og því höfum við ekki afdráttarlaus svör.“

Skylt efni: Nytjar hafsins | humar

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...