Heyskaparþyrlur í sextíu ár
Þessi sumrin heyja íslenskir bændur tún sín með verkfærum af þyrlugerð, svo sem sláttuþyrlum og heyþyrlum, víða með undraverðum afköstum. Nú eru um það bil sextíu ár síðan þyrlu-heyskapartæknin nam land hérlendis. Af þeirri ástæðu eru eftirfarandi línur skrifaðar.
Heyskapurinn var handverk
Heyskapur var handverk fram undir lok nítjándu aldar. Þá komu fyrstu heyvinnuvélarnar: hestasláttuvél og rakstrarvél, sem í nágrannalöndum kallaðist einnig hestahrífa. Sláttuvélin tók bráðlega að breiðast út en rakstrarvélin fór hægar yfir. Fyrsta vélin til heysnúnings mun hafa komið árið 1907, einnig dregin af hesti. Hægt og sígandi unnu vélarnar á, með stækkandi vélfæru landi og með vaxandi trú manna á gildi og getu hinnar nýju verktækni. Þunga undiraldan var þó vinnuaflið sem leitaði úr sveitunum til annarra atvinnuvega. Vélar gátu komið í stað vinnuafls.
Íslenskum bændum virðist ekki hafa fallið alls kostar að nýta hestinn sem aflgjafa verkfæra, sé horft til þess hve fljótt þeir tóku dráttarvélarnar í þjónustu sína. Fram yfir 1950 höfðu búvélar og verkfæri einkum borist Íslendingum frá Vesturheimi en nú var Evrópa að rísa eftir hörmungar seinni heimsstyrjaldarinnar. Þaðan tóku því að berast búvélar og verkfæri sem hönnuð höfðu verið við aðstæður sem margar hverjar voru mun líkari íslenskum en gerðust fyrir vestan haf. Ekki síst átti það við grasrækt og heyöflun fjölskyldubúa þar sem ræktarlönd voru takmörkuð stærð.
Sláttuvél með ljá og greiðu
Fyrstu sex áratugi sláttuvélanna á Íslandi var gerð þeirra hin sama: Bakki, 3–5 feta „breiður“ (0,9–1,5 m langur), sem á voru þéttstæðir fingur, greiðan. Um fingurna lék ljárinn sem skar grasið við brúnir þeirra. Kornskurðarvélar byggjast enn á þessari tækni. Fram- og tilbaka-hreyfing ljásins í greiðunni, bæði eðli og hraða, setti því takmörk hve hratt mátti aka við sláttinn. Helsta leið til þess að auka afköst við sláttinn var því að auka vinnslubreiddina – með því að fá lengri greiðu. Vönduðum slætti mátti auðveldlega ná með beittum ljá, oddhvössum fingrum og á sléttu, grösugu og mosalausu landi. Við slíkar aðstæður, og með þjálfaða dráttarhesta, gat það verið áreynslulaus unun að sitja sláttuvélina og heyra notalegan klippiklið ljásins við tindana – og jafnvel fuglasönginn handan hans.
En þessu var ekki alltaf að heilsa. Steinar leyndust í slægjunni, ljárinn sljóvgaðist, mosi hlóðst á fingur sem skaddast höfðu og gras flæktist í greiðu og ljá ef afstilltust. Greiðan tók að bæla grasið undir sig í stað þess að greiða það að ljánum. Sumir höfðu því fyrir sið að láta ungling með hrífu ganga á eftir sláttuvélinni til þess að greiða fyrir slættinum með því að hreinsa ljámús af greiðunni og að raka frá henni.
Vinna við hirðingu og viðhald sláttugreiðanna með tilheyrandi ljá var drjúg. Það þurfti iðulega að rétta og hvessa odda greiðufingurna. Ljáblöðin þurfti að brýna reglulega, jafnvel að skipta um þau sem brotnað höfðu. Hvert blað var fest við bakkann með tveimur hnoðum. Ljábökkunartæki þekktust á síðari árum greiðusláttuvélanna. Flestir notuðu þó „gömlu“ aðferðina og beittu hnoðhamri og úrreki. Ljábrýnslutæki komu hins vegar snemma til sögunnar og þóttu hið mesta þing.
Sláttuvélar með greiðu og ljá hafa með árunum þróast, bæði að efni og gerð, án þess að hér verði það rakið. Nefna má t.d. tennta og bitbetri ljái sem og sláttuvélar með tveimur ljáum.
Sláttuþyrlurnar koma
Í Hollandi var árið 1937 stofnuð búvélaverksmiðja, ein af mörgum sem á þeim árum voru að eflast víða um lönd. Höfðingi þeirrar smiðju var Piet Zweegers. Afkomendur hans duttu árið 1964 ofan á nýstárlega gerð sláttuvéla. Þeir kölluðu hana „cyklomower“. Neðst á lóðréttum tromlum, sem snerust á ógnar hraða var komið fyrir hnífum sem hjuggu grasið af rót. Nú var það svo sem ekki ný hugmynd að slá gras með einhvers konar hringskífu. Má nefna að slík uppskeruvél, ensk, af gerðinni Silorator, var reynd á Hvanneyri sumarið 1958, og sláttuvél af gerðinni Hexa U2, sumarið 1964 (sú mundi líklega kölluð ruddasláttuvél í dag). Hvorug þessara véla reyndist viðunandi.
En „cyklomower“ þeirra Zweegers-feðga sló í gegn. Glöggir búvélasalar hérlendir veittu henni eftirtekt og 28. júní 1966 stóð ein slík, PZ, á Hvanneyrarhlaði tengd MF 135 albúin til sláttar. Hún var komin frá Véladeild SÍS. Þar réði þá ríkjum Gunnar Gunnarsson, búfræðikandídat frá Hvanneyri, fimm árum fyrr, áhugasamur ungur maður og kvikur.
Sláttuvélinni var samdægurs brugðið í gras við nokkra byrjunarörðugleika sem liðu hjá. Næstu daga var slegið og í dagbók skrifarans segir m.a.:30. júní 1966:... „ sló með PZ-sláttuþyrlu, er það ógurlegt áhald, hvinurinn í henni er eins og úr þrýstiloftsflugvél undir álagi.“
1. júlí 1966: „Ég sló ½ ha með PZ og var fljótur að því, þar eð aka má vélinni a.m.k. á 15 km hraða/klst.“
2. júlí 1966: „Eftir hádegið var ég settur í að slá með PZ-vélinni og sló eg tæpa 3 ha á 130 mín, sem er allgóður árangur.“
Nú var sú breyting orðin að ljárinn klippti ekki grasið við greiðufingur heldur voru stráin lamin af rót með þyrluhnífum á þeytingsferð, hnífum sem ekki þurftu að snúa stefnu sinni reglulega eins og ljárinn í greiðunni. Því gat ökuhraðinn orðið meiri og þar með sláttuafköstin. Hin nýja vél lét sig mosa og sinurubba engu skipt, sló allt hvað fyrir varð, jafnt aftur á bak sem áfram. Varla þurfti að brýna „ljáina“, aðeins að skipta um þá eftir þörfum. Vinna við umhirðu og viðhald varð hverfandi í samanburði við greiðusláttuvélarnar. En hin nýja tækni kostaði stórum meira afl en hin gamla. Eldneytisnotkun dráttarvélarinnar meira en þrefaldaðist miðað við slátt með greiðuvél og sama sláttuflöt. Kom sér nú vel að æ fleiri bændur höfðu komist yfir stærri/aflmeiri dráttarvélar en voru á fyrsta skeiði heimilisdráttarvélanna, gjarnan dráttarvélar með tvöfaldri kúplingu. Þrítengibeisli var orðinn staðalbúnaður þeirra.
Fleiri innflytjendur búvéla tóku að falbjóða sláttuþyrlur og búvélasýningar voru haldnar víða um land. Hin nýja sláttuvélagerð seldist eins og heitar lummur, jafnvel þó illa áraði til búskapar í ýmsum landshlutum – með kalárum og grasbresti, og að úti við sjónarrönd glitti í markaðsvanda hvað afurðir bænda snerti. Greiðusláttuvélarnar viku með öllu fyrir sláttuþyrlunum, en undir því nafni gengu þær um all langt skeið. Með nýrri öld hvarf þyrlunafnið þó að mestu svo nú kallast „cyklomower“ bara sláttuvél, megi marka auglýsingar um þær.
Fjölfætla – heyþyrla
Allt frá komu fyrstu véla til heysnúnings í byrjun síðustu aldar og fram yfir 1960 voru menn mjög leitandi um tæknibúnað þeirra og gerðir. Síðustu árin voru það snúningsvélar með kömbum sem töðuvellina áttu, líklega vegna þess að með þeim verkfærum mátti ekki aðeins rifja og snúa heyinu heldur einnig raka því saman. Má þá ekki gleyma hjólmúgavélunum sem uxu mjög að vinsældum undir lok sjötta áratugarins. Þær rökuðu afar vel, jafnvel á mis jöfnu landi, en þótt einnig væru hannaðar til heysnúnings unnu þær það verk afar illa við flestar kringumstæður.
Það var svo árið 1963 að Þór hf. undir stjórn Einars Þorkelssonar kynnti íslenskum bændum nýja gerð véla til heysnúnings. Hún kom frá þýsku Fahr-verksmiðjunum og kallaðist þar í landi „kreiselheuer“. Verkfæranefnd ríkisins á Hvanneyri reyndi slíka vél með fjórum þeytistjörnum samsumars. Í prófunarskýrslu um vélina var hún kölluð heyþeytir en Einar innflytjandi nefndi vélina fjölfætlu og var svo forsjáll að skrá heitið formlega sem vörumerki. Setti það aðra innflytjendur sem falbuðu snúningsvélar sömu gerðar en af öðrum tegundum í nokkurn bobba: Þeir urðu að finna önnur heiti. Þá urðu til nöfn eins og heyþyrla, heytætla, heyþeytir o.fl.
Skýrsla Verkfæranefndar um vélina var lofleg og í lokaorðum hennar sagði: „Fjölfætlan reyndist snúa heyi með góðum árangri, jafnvel á illa sléttu landi. Einnig dreifir hún vel úr heymúgum, séu þeir ekki mjög þykkir.“
Sigsteinn Pálsson, bóndi á Blikastöðum í Mosfellssveit, var hvað fyrstur bænda til að taka Fahrfjölfætluna í notkun. Hann sagði við blaðamann Morgunblaðsins í júnílok 1963:
Jú, ég tók eina slíka í notkun í gær. Hún er kölluð „Fjölfætla“. Þjóðverjarnir framleiða hana og hafa selt mikið af henni til Svíþjóðar, Englands og annarra landa í Evrópu. Þeir segja mér umboðsmennirnir hjá Þór h.f. í Hafnarstrætinu, að það sé þegar búið að panta mikið af þeim hérna og farið að nota hana hérna í nágrenninu og fyrir norðan. — Ég held að þessi vél sé hreinasta þing. Hún tætir slægjuna mjög vel upp úr jörðinni, dreifir henni vel og flýtir mjög fyrir þurrkun. Svo rótar hún betur en nokkur önnur vél úr múgum, en aðrar vélar hafa ekki tætt nóg úr miðjum múgunum. „Fjölfætlan“ er afkastamikið áhald og ég hef fulla ástæðu til að ætla að hún reynist mjög vel. . .
Sigsteinn reyndist sannspár. Næstu ár kepptust búvélasalar við að bjóða bændum snúningsvélar af hinni nýju gerð. Þannig lét Árni Gestsson í Globus hf. prófa nokkrar tegundir þeirra sumarið 1964. Af þeim valdi hann tegundina Fella, sem fékk nafnið heytætla sem skrásett vörumerki. Til hinna skrásettu vörumerkja má líklega rekja það að á bæjum var ýmist farið að tala um að fætla heyið eða að tætla það, allt eftir því hver snúningsvélartegundin á bænum var. Með árunum virðist nafnið heyþyrla hins vegar hafa náð almennri útbreiðslu. Hin skrásettu vörumerki eru horfin úr munni flestra. Og það var eins og við manninn mælt: Snúningsvélar þessarar gerðar vöktu athygli bænda sakir vinnugæða og afkasta. Þær seldust í hundraða tali og áttu gildan þátt í að flýta og bæta þurrkun heys á velli.
Myndarleg landbúnaðarsýning var haldin í Reykjavík sumarið 1968. Búvélahluti sýningarinnar var svo sem vænta mátti stór og glæsilegur. Sýninguna sótti fjöldi manns, ekki síst bændur landsins og búalið. Vöktu „þyrlur“ til sláttar og heysnúnings mikla athygli bænda svo ætla má að margir hafi þar tekið ákvörðun um kaup. Hinar nýju og bættu heyvinnuvélar léttu brúnir bænda sem þá glímdu við erfitt árferði, kal í túnum og grasbrest, eins og fyrr sagði. Fleiri heyskaparnýmæli voru á sýningunni, m.a. heyhleðsluvagnarnir, sem áttu eftir að gerbreyta heyhirðingu hérlendis á næstu árum en það er önnur saga.
Og fleiri þyrlur
Svo fór að hringhreyfing hnífa og tinda sláttu- og heyþyrlanna varð einnig fyrirmynd við hönnun nýrrar gerðar múgavéla. Með einföldun má segja að hún hafi orðið til með því að stjarna heyþyrlu var stækkuð og mjög dregið úr snúningshraða hennar. Tindunum var líka breytt smálega. Til varð það sem kallað var stjörnumúgavél. Sú fyrsta þeirrar gerðar var prófuð hjá Bútæknideild Rala á Hvanneyri sumarið 1971. Hún var af tegundinni Fahr, flutt inn af Þór hf., hinni traustu og grónu búvélasölu sem enn starfar.
Stjörnumúgavélarnar veittu hjólmúgavélunum brátt harða samkeppni og eru ríkjandi gerð múgavéla hérlendis um þessar mundir. Með batnandi ræktun, ekki síst á framræstu mýrlendi, urðu túnin æ sléttari á vanga. Stjörnumúgavélarnar féllu líka sem hanskinn að hönd heyhleðsluvagna og bindivéla: Þær skiluðu þeim hirðingarvélum hnúska- og þvælulausum görðum, ef rétt var beitt.
Margt hefur gerst á sextíu árum. Grunngerð heyskaparþyrlnanna hefur í aðalatriðum haldist óbreytt, en stærð þeirra og þar með afkastageta vaxið til muna. Vélarnar hafa þróast og batnað. Stjórnbúnaður og tæknileg gerð þeirra hefur verið löguð að breyttum og æ stærri dráttarvélum, umhirða auðvelduð og öryggi aukið. Þessar vélar eiga stóran þátt í því að nú má heyja þúsundir hestburða án þess að mannshöndin snerti eitt einasta strá. Tími handverksheyskapar er að baki.
