Fréttir af sumarexemi
Hestar með sumarexem sýndu bata í kjölfar afnæmingar með ofnæmisvökum í ónæmisglæðum.

Grein um þróun á meðferð gegn sumarexemi í hestum birtist á dögunum í FrontiersinAllergy. Sumarexem í hrossum er IgE-miðlað ofnæmi gegn munnvatnskirtlapróteinum úr lúsmýstegundum af ættkvíslinni Culicoides. Lúsmýstegundir sem valda ofnæminu finnast ekki á Íslandi en ofnæmið er alvarlegt vandamál í íslenskum hestum sem fluttir eru út.
Eldri afnæmingartilraunir með seyði af heilum flugum hafa ekki gefið góða raun. Markmiðið með þessari rannsókn var að meta áhrif afnæmingar þar sem notuð var blanda af hreinsuðum Culicoides-ofnæmisvökum í ónæmisglæðum í framsýnni, tvíblindri samanburðarrannsókn með lyfleysu.
Einkenni sumarexems hjá 17 hestum í Þýskalandi voru metin ári áður en afnæming hófst og á fyrsta ári afnæmingar (maí til október) og í maí og júlí á öðru ári afnæmingar. Níu hestar voru bólusettir þrisvar sinnum undir húð með blöndu af níu ofnæmisvökum í ónæmisglæðunum alum og monophosphoryl lipid A (MPLA). Átta hestar fengu lyfleysu. Á öðru afnæmingarári voru hestarnir bólusettir tvisvar sinnum með sömu blöndu. Ofnæmisvaka-sérvirkt svar gegn einum ofnæmivaka sem var í blöndunni var metið.

Á fyrsta afnæmingarári minnkuðu meðal sumarexemeinkenni marktækt meira í meðferðarhópnum samanborið við lyfleysu. Meira en 50% bati (e. improvement) á meðal sumarexemseinkennum varð í 67% hestanna í afnæmingarhóp en 25% í lyfleysuhópnum. Á öðru afnæmingarári var munurinn enn meiri eða 89% í afnæmingarhópnum en 14% í lyfleysuhópnum. Í kjölfar afnæmingarinnar mynduðu hestarnir ofnæmisvaka sértæk IgG-mótefni af öllum undirflokkum. IgG-mótefnin hindruðu sértæka IgE-bindingu við ofnæmisvaka.
Ofnæmisvakasértæk afnæming á hestum með sumarexem virðist lofa góðu sem meðferð á hestum með ofnæmi gegn biti skordýra.

Rannsóknir í 25 ár
Rannsóknir á sumarexemi í hestum hafa staðið í 25 ár á Tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum í samstarfi við dýrasjúkdómadeild háskólans í Bern.
Markmið rannsóknanna er að þróa bóluefni, sem hægt er að nota sem forvörn áður en hestarnir eru fluttir út og til að meðhöndla hesta með exem erlendis.
Bóluefnið inniheldur aðalofnæmisvaka upprunna úr munnvatnskirtlum lúsmýsins og ónæmisglæða. Auk þess að vinna úr stórri forvarnarbólusetningu þar sem bólusettir hestar voru fluttir út á flugusvæði, þá er verið að skoða samsetningu bóluefnisins, aldur við bólusetningu og meðhöndlun um slímhúð munns með ofnæmisvökum tjáðum í byggi.
Sjá nánar á vefnum keldur.is