Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Því fleiri sem skepnurnar eru, því fleiri verða möguleikar fyrir beinar smitleiðir
á milli þeirra.
Því fleiri sem skepnurnar eru, því fleiri verða möguleikar fyrir beinar smitleiðir á milli þeirra.
Mynd / Aðsendar
Á faglegum nótum 9. ágúst 2022

Fagþing nautgriparæktarinnar í Danmörku – síðasti hluti

Höfundur: Snorri Sigurðsson

Í maí sl. var haldið hið árlega Fagþing Nautgriparæktarinnar í Danmörku eða „Kvægkongres“ en þeir sem til þekkja vita að þetta er einn helsti vettvangur þekkingarmiðlunar varðandi nautgriparækt í norðanverðri Evrópu.

Alls voru flutt 70 erindi að þessu sinni í 11 málstofum og hér fer síðasta greinin af þremur, sem fjalla allar um nokkur sérvalin fróðleg erindi sem flutt voru á Fagþinginu. Fyrsti og annar hluti umfjöllunar um þetta Fagþing voru birtir í tveimur síðustu Bændablöðum.

Kolefnishlutleysi 2050

Að þessu sinni var á Fagþinginu sérstök málstofa sem fjallaði einungis um sótspor landbúnaðar og hvaða leiðir væru færar til þess að ná þeim markmiðum að gera danskan landbúnað kolefnishlutlausan árið 2050. Dönsk nautgriparækt, bæði mjólkur- og kjötframleiðsla, er með eitt lægsta sótspor framleiðslu á þessu sviði í heiminum en bændurnir vilja gera enn betur.

Kýrnar mikilvægur milliliður

Maike Brask, frá afurðafélaginu Arla Foods, fjallaði um það hvernig félagið hefur nálgast þetta verkefni en undanfarin ár hefur Arla Foods verið leiðandi, á meðal helstu félaga og fyrirtækja í mjólkuriðnaði, þegar kemur að málefnum sem snúa að kolefnishlutleysi. Í erindinu benti hún réttilega á að kýr eru gríðarlega mikilvægur milliður á milli móður jarðar og mannfólks enda geta þær umbreytt jarðargróða, sem ekki nýtist til manneldis, í mjólk og kjöt. Þannig nýtist m.a. land sem ekki er nýtanlegt til beinnar matvælaframleiðslu sem beitarland fyrir kýr og þær geta auk þess nýtt allt frá alls konar afgöngum, úrgangi matvælavinnslu til auðvitað trénisríkra plantna. Þetta skýrist auðvitað af einstökum meltingarvegi en á móti kemur að við þessa vinnslu verður m.a. til metangas, vegna gerjunar, sem hefur áhrif á sótsporið.
41% frá jórtrun

Þegar horft er til sótspors kúabúa benda tölur til þess að 41% af sótspori búanna stafi frá jórtrun, 34% frá fóðurframleiðslu og vegna aðkeypts fóðurs, 10% frá mykjunni, 8% frá metanlosun lands og 5% vegna orkunotkunar. Arla Foods hefur þegar gert úttekt á 7 þúsund, af tæplega 9 þúsund, kúabúum sem selja mjólk til félagsins og benda tölur þess að á bak við þessi hlutföll sem hér að framan greinir sé verulegur breytileiki á milli búanna og benti Maike á að það bendi til þess að gera megi töluvert betur. Þetta á m.a. við um sótspor fóðursins, sérstaklega aðkeypts fóðurs sem hún sagði að væri með hátt sótspor vegna bæði framleiðsluaðferðar fóðursins og flutningsvegalengdar þess frá upprunastað.

Fimm meginatriðin

Arla Foods hefur nú varðað leiðina sem farin verður fram til ársins 2030, en það ár er markmiðið að hafa skorið 30% af sótsporinu miðað við árið 2015. Sett hafa verið fram 5 meginatriði sem sérfræðingar félagsins telja færa til þess að ná þessum árangri:

I. Fóðurnýting. Bæta skal fóðurnýtinguna, þ.e. fá fleiri lítra af mjólk út úr sama magni fóðurþurrefnis. Tölur félagins benda til mikils breytileika hvað þetta varðar á milli félagsmanna svo afar líklegt er að þetta eigi að geta nást.

II. Próteinnýting. Of margir kúabændur virðast offóðra á próteini sem er bæði dýrt og kostar óþarfa sótspor. Reynt verður að ná tökum á þessu á komandi árum.

III. Ending kúa. Of margar kýr enda í sláturhúsi mun fyrr en þær ættu að gera. Mikil endurnýjunarþörf þýðir að setja þarf á of margar kvígur með tilheyrandi óþarfa sótspori. Þetta ætlar Arla Foods að leggja áherslu á að verði bætt m.a. með því að bæta heilbrigði kúa.

IV. Áburðarnýting. Allnokkur munur er á milli búa þegar horft er til nýtingar áburðarefna og má bæta verulega úr þessu m.a. með betri vélbúnaði til dreifingar, notkun tölvu- og staðsetningartækni og með betri geymsluaðferðum fyrir mykju svo dæmi séu tekin.

V. Landnotkun. Stuðull sem Arla Foods notar fyrir mat á landnotkun eru m2/kg mjólkur þ.e. hvað það þarf mikið landsvæði til þess að framleiða mjólkurpottinn. Meðal félagsmanna Arla Foods er allmikill breytileiki á þessu gildi, sem eins og hér að framan greinir bendir til þess að bæta megi úr.

Mikill munur á sótspori nautakjöts

Í öðru erindi þessari málstofu var horft til nautakjötsframleiðslunnar og þar kom fram að lægsta sótsporið er á nautgripakjöti frá kúabúum í mjólkurframleiðslu (um 11 kg CO2 gilda/kg kjöts), hvort heldur sem var á slátruðum ungnautum þaðan, kvígum eða kúm. Skýring felst einfaldlega í því að kjöt er aukaafurð með mjólkurframleiðslunni og því deilist sótsporið á mun meira en bara kjötið sem slíkt. Þá eru búin stór, en kúabú í mjólkurframleiðslu í Danmörku eru að jafnaði með um 220 kýr í dag, sem hefur jákvæð áhrif á hagræði framleiðslunnar. Þá var langhæsta sótsporið á kjöti frá holdakúabúum (um 36 kg CO2 gilda/ kg kjöts), þar sem beit er aðallega stunduð en sótspor holdakúabúa, þar sem eldistíminn var styttri og stundað þauleldi, var lægra (um 25 kg CO2 gilda/kg kjöts). Enn er verið að skoða hvaða leiðir eru bestar til þess að lækka sótspor holdakúabúa í Danmörku.

37% minni metanlosun

Enn eitt áhugavert erindi í þessari málstofu var rannsókn þróunar- og ráðgjafarfyrirtækisins SEGES á efninu Bovaer® frá hollenska fyrirtækinu DSM. Þetta er einskonar fæðubótarefni sem er selt með þeim formerkjum að það dragi úr metanlosun frá jórtrun. Gerð var tilraun á 350 dönskum kúm í fjóra mánuði og minnkaði metanlosun tilraunahópsins um 37%, og það nánast samdægurs og efninu var blandað í fóðrið! Þá jókst losun vetnis frá jórtruninni um 406% í samanburði við mælingar frá kúm sem fengu ekki efnið. Enginn marktækur munur fannst á áti, afurðasemi eða efnainnihaldi mjólkur.

Heilbrigðismál

Síðasta málstofan sem hér verður fjallað um snerist um heilbrigðismál. Erindi þeirra Vibeke Fladkjær Nielsen og Betinu B. Tvistholm var einkar áhugavert en það fjallaði um smitvarnir á kúabúum og mikilvægi þess að bændur taki þau mál föstum tökum. Þær stöllur stóðu að rannsókn á stöðu smitvarna á dönskum kúabúum og komust m.a. að því að bændur eru almennt mjög meðvitaðir um mikilvægi smitvarna en oft reynist þó erfitt í reynd að vera með öflugar smitvarnir.

Þannig reynist t.d. mörgum bændum erfitt að hindra smit á milli dýra og vex sú áskorun með auknum fjölda gripa. Þannig eru t.d. 12 mögulegar beinar smitleiðir á milli fjögurra dýra en séu þau 30 eru beinu smitleiðirnar 870!

Hvert kúabú á að vera með föt og skóbúnað til skiptanna fyrir bæði starfsfólk búsins og gestkomandi.

Vinnuföt fyrir alla

Eitt af því sem þær töldu mikilvægast var að bændur tryggi að allir sem vinna við gripina, hvort heldur sem það eru heimamenn eða aðkomufólk svo sem dýralæknar, frjótæknar eða ráðunautar, noti einungis vinnuföt viðkomandi kúabús. Sé svo gert dregur það verulega úr líkum á því að smit berist í gripina. Þá nefndu þær einnig að mikilvægt væri að búið sé svo um hlutina að þeir, sem fara á milli búa eins og t.d. bílstjórar slátur-, mjólkur- eða fóðurbíla, geti athafnað sig án þess að hætta sé á því að þeir beri með sér smit á milli búa.

Ofnotkun lyfja

Ofnotkun lyfja á kúabúm er vandamál víða um heim og fjallaði einmitt eitt erindið, flutt af Volkar Krömker frá háskólanum í Kaupmannahöfn, um það hvernig draga megi úr lyfjanotkun á kúabúum. Mest notkun lyfja er tengd meðhöndlun gegn júgurbólgu en reynslan sýnir þó að oft er verið að setja lyf í kýr sem í raun geta læknað sig sjálfar og án aðkomu lyfja!

Þá gerist það einnig of oft að reynt er of mikið eða lengi að slást við þráláta júgurbólgu þegar besta leiðin í raun væri að slátra kúnni í staðinn fyrir að meðhöndla hana fyrst með heilmiklum lyfjakúr. Auðveldara sagt en gert, en hvernig má þá ná árangri? Volkar nefndi m.a. að kýr, sem hafa fengið tvisvar sinnum sýnilega júgurbólgu og með kýrsýni þrisvar í röð sem er hærra en 700.000 frumur/ml eigi að senda beint í sláturhús! Þessar kýr væru með svo þráláta sýkingu að meira að segja löng geldstaða, ásamt geldstöðumeðhöndlun, gerði lítið sem ekkert fyrir þær.

Innri smitvarnir besta leiðin

Volker benti á að til þess að ná árangri í því að draga úr notkun lyfja þá þyrfti fyrst að stíga rétt skref innan búsins. Þessi skref væru að draga úr líkum á smiti s.s. með því að halda kúnum tandurhreinum með því að veita þeim aðgengi að þurru legusvæði og hreinum gangsvæðum.

Þá þyrfti að halda júgri og spenum hreinum fyrir og við mjaltir auk þess að hreinsa mjaltabúnað vel milli mjalta einstakra kúa svo bakteríur
geti ekki borist á milli spena ólíkra kúa með mjaltatækjunum.

Í dag geta bændur keypt margs konar einföld heimapróf til þess að greina smitvalda í kýrsýnum.

Greina sýkla fyrir meðhöndlun

Síðasta atriðið sem Volker nefndi var að aldrei ætti að meðhöndla sýkingu nema það liggi fyrir hvaða bakteríur eru að valda henni. Reynslan sýni að mótstöðukerfi kúa getur ráðið við margs konar sýkingar án hjálpar frá lyfjum og að til væru í dag ýmsar aðferðir sem nota má til þess að gera einfaldar bakteríugreiningar heima á kúabúunum sjálfum.

Þannig geti bændurnir ræktað upp sýni, frá sýktum kirtli, með einföldum og ódýrum hætti og komist þannig skjótt að því hvort ástæða sé til þess að meðhöndla með lyfjum eða ekki. Sneggstu prófin á markaðinum taka ekki nema 12 tíma að skila niðurstöðum og þegar þær liggja fyrir, megi kalla til dýralækni sé þörf á því. Þess ber þó að geta að sé sýkingin að valda sársauka þarf auðvitað að meðhöndla kúna með verkjastillandi lyfjum óháð því hvort sýkingarvaldinn þurfi að meðhöndla með öðrum lyfjum eða ekki.

Líkt og fyrr segir hefur í þeim þremur greinum, sem hafa fjallað um þetta danska Fagþing, einungis verið gripið niður í nokkur af þeim 70 erindum sem voru flutt og því af mun meiru að taka. Öll erindin er hægt er að skoða og hlaða niður með því að nota eftirfarandi hlekk: https:// www.tilmeld.dk/kvaegkongres2022/ praesentationer.

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...