Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 4 ára.
Yfirlitsmynd af einu af mörgum fjósþyrpingum Shengmu.
Yfirlitsmynd af einu af mörgum fjósþyrpingum Shengmu.
Á faglegum nótum 18. október 2019

Byggðu upp mjólkurframleiðslu inn í miðri eyðimörk!

Höfundur: Snorri Sigurðsson, snsig@arlafoods.com
Það sem flestir líta á sem óyfirstíganlegar hindranir, líta Kínverjar oft á bara sem verkefni og eru til mörg dæmi um þennan hugsunargang í Kína. Eitt skýrasta dæmið innan landbúnaðar er einstök uppbygging fyrirtækisins Shengmu á kúabúskap í héraðinu Innri Mongólíu.
 
Shengmu var stofnað árið 2009 og er því tiltölulega ungt fyrirtæki en að því stóðu í upphafi fjársterkir aðilar sem sáu tækifæri í því að fara út í mjólkurframleiðslu í Kína í kjölfar hins svokallaða melamín hneykslis í landinu árið 2008. Þegar það mál kom upp, en það snerist um að óprúttnir aðilar keyptu mjólk af smábændum og seldu svo til stórra afurðastöðva en í millitíðinni höfðu þeir blandað melamíni, sem er íblöndunarefni sem oft er notað í byggingariðnaði, út í mjólkina til þess að hækka próteininnihald hennar. Þetta hafði skelfilegar afleiðingar og olli miklu vantrausti kínverskra neytenda á þarlendum mjólkurafurðum. Forsvarsmenn Shengmu áttuðu sig á því að það þyrfti að byggja upp traust neytenda og ákváðu að fara út í lífrænt vottaða mjólkurframleiðslu í Innri Mongólíu og lögðu fyrirtækinu til um 5 milljarða íslenskra króna svo hægt væri að byggja upp framleiðsluna.
 
50% heimafengið fóður
 
Í Kína eru líklega flest kúabúin byggð án þess að hafa land vegna gróffóðuröflunarinnar en eru þess í stað með samninga við ýmsa bændur sem eiga land og kaupa af þeim fóður og þá byggir kínversk mjólkurframleiðsla einnig mikið á innfluttu fóðri. 
 
Eigi að vera með lífrænt vottaða mjólkurframleiðslu í Kína þarf að lágmarki 50% af gróffóðrinu að koma frá næsta nágrenni kúa-búsins og að sjálfsögðu þarf það fóður að vera framleitt samkvæmt lífrænt vottuðu ferli. Forsvarsmenn Shengmu sáu það strax í hendi sér að það gæti orðið erfitt að kaupa fóður af mörgum búum og á sama tíma að tryggja að allar reglur um lífrænt vottaða framleiðslu yrðu haldnar og fóru því að leita eftir heppilegu landi fyrir búskapinn. Það var þó ekki einfalt mál enda var stefnan strax sett á afar mikla framleiðslu og því var fyrirsjáanlegt að landþörfin var mikil.
 
Þegar framkvæmdirnar hófust var svæðið samkvæmt lýsingu heimamanna alsett sandöldum líkt og hér má sjá.
 
Ulan Buh-eyðimörkin
 
Í leit Shengmu að heppilegu landsvæði fyrir búskapinn kom Ulan Buh eyðimörkin fljótt upp sem möguleiki en hún er 14 þúsund ferkílómetrar að stærð og áttunda stærsta eyðimörkin í Kína. Þessi eyðimörk er staðsett í vesturhluta Innri Mongólíu og liggur meðfram Gula fljóti á kafla, en Gula fljót er næststærsta fljót Kína og það sjötta stærsta í heimi. 
 
Þessi eyðimörk er mjög óvenjuleg enda hefur hún myndast ofan á gömlum árfarvegum Gula fljótsins en það hefur sem sagt verið að færast töluvert til og skilur þá eftir afar frjóan árfarveg. Auk þess er á þessu svæði um 10 metra þykkt lag af rauðum leir, sem skapar afar sérstakar aðstæður m.a. til varðveislu á vatni sem kemur með flóðum Gula fljóts! Vatnið sem Gula fljót kemur með í flóðum sínum inniheldur auk þess mikið magn af næringarefnum, eftir langa ferð sína frá upptökum Gula fljóts í Bayan Harfjöllunum í Qinghai-héraði og er einstaklega heppilegt fyrir hvers konar landbúnaðarnotkun.
 
Engin smitefni
 
Þó svo að þarna sé sem sagt gríðarlega stór eyðimörk þá er undir henni bæði frjór jarðvegur og mikið magn af vatni og þessar sérstöku aðstæður urðu til þess að ákveðið var að staðsetja lífræna mjólkurframleiðslu Shengmu þarna. Þá hjálpaði upp á ákvörðunina að þurr eyðimörkin er líka heppileg fyrir þær sakir að þarna er langt í næsta kúabú sem dregur úr líkum á því að mögulegt smit berist inn á búið auk þess sem sandur er heppilegur í nærumhverfi kúa, þar sem smitefni eiga harla erfitt með að fjölga sér í þurrum sandi.
 
2 ára vinnslutími
 
Fyrirtækið fékk úthlutað hluta af Ulan Buh eyðimörkinni og svo var hreinlega hafist handa við að jafna margra metra háar sandöldur og lægðir á stærðarinnar svæði og voru notaðar til þess mikill fjöldi af jarðýtum og þúsundir vinnustunda. Fyrst var byggður vegur eftir miðju svæðinu og svo út frá honum jafnað land fyrir ræktun og fjós.
 
Um gríðarlega umfangsmikið verkefni var að ræða enda stóð ekki til að byggja bara eitt fjós heldur 18 fjós með um 3 þúsund skepnum í hverju þeirra! Frá því að fyrstu tækin voru sett af stað inn í eyðimörkinni, og þar til fyrsta fjósið var tilbúið, liðu 2 ár sem er eiginlega ótrúlega stuttur tími miðað við umfang verkefnisins enda var ekki bara verið að slétta land undir fjósin heldur fyrst og fremst verið að slétta land fyrir ræktun svo hægt væri að afla fóðurs fyrir alla framleiðsluna.
 
Nóg af vatni
 
Eins og áður segir þá er þessi óvenjulega eyðimörk ofan á þéttu og vatnsheldu leirlagi og því er í raun nóg vatn til neðanjarðar á svæðinu. Það var því einfalt mál fyrir fyrirtækið að ná í vatn til vökvunar á ökrum, fyrirtækið boraði einfaldlega eftir vatni sem er svo pumpað upp og yfir í öll fjósin og í vökvunarkerfin. 
Allir akrar Shengmu eru hringlaga enda eru vökvunarkerfin þannig gerð að þau eru fest í miðju hvers stykkis og út frá miðjunni liggur gríðarlega langur armur á hjólum sem keyrir svo hring eftir hring eins og vísir á klukku.
 
Hér má sjá hvernig ræktunin er gerð. Hringlaga akrar eftir vökvunarkerfin sem ganga í hring út frá miðju. Til hliðar sést í fjósþyrpingu.
 
Úr sandi í ræktarland
 
Það tekur alllangan tíma að breyta þurrum sandi í ræktarland og þó svo að aðgengi að nægu vatni sé grunnforsenda góðs árangurs þá þarf ýmislegt annað að ganga upp einnig og hjá Shengmu er lykillinn góður ræktunarferill og þolinmæði! 
 
Þegar búið er að jafna sandöldurnar og gera þær tilbúnar fyrir vökvunarkerfin, er byrjað á því að dreifa mykju yfir svæðið fyrsta árið og svo sáð í sandinn. Uppskeran fyrsta árið er skiljanlega lítil en fyrirtækið ræktar þrjár gerðir af plöntum: fóðurmaís, sólblóm og refasmára og að sögn heimamanna tekur það um fimm ár að ná fullri uppskeru, enda tekur tíma að binda sandinn og ná fullum afköstum. Þá hefur verið lögð mikil vinna í skjólbeltaræktun en sandfok er mikið vandamál á svæðinu og henta skjólbeltin vel til þess að draga úr sandfokinu að sögn heimamanna.
 
Hér er verið að ryðja vegi í eyðimörkinni. 
 
Staðan í dag
 
Nú, 10 árum eftir að fyrirtækið var stofnað, er það enn í miklum vexti og er nú þegar orðið lang-stærsti einstaki framleiðandi á lífrænt vottaðri mjólk í heiminum. Við hinn svokallað Mjólkurveg í Ulan Buh eyðimörkinni standa nú 18 fjósþyrpingar og er hver þeirra í raun sjálfstæð framleiðslueining en þó er margs konar samvinna á milli fjósþyrpinganna. Skýringin á því að Shengmu ákvað að fara þá leið að vera með margar heldur minni einingar í stað þess að vera með fáar og stórar var til að draga úr líkum á smithættu og að ef eitthvað kæmi upp á, þá væri auðveldara að takast á við það í minni einingu. Shengmu er auk þessara 18 fjósþyrpinga með 5 aðrar þyrpingar á öðrum stað svo fyrirtækið er alls með 23 fjósþyrpingar, um 40 þúsund Holstein kýr og nemur árs-framleiðsla fyrirtækisins um 400 milljón lítrum af mjólk. Reyndar er ekki öll mjólkin framleidd samkvæmt lífrænum stöðlum svo hin lífræni hluti er heldur minni. Þá er lífræna ræktunin þegar orðin gríðarlega umsvifamikil og alls nær hún nú yfir 13 þúsund hektara svæði í eyðimörkinni en stefnt er að því að auka ræktunina um 10 þúsund hektara á komandi árum enda fékk Shengmu úthlutað 2% af Ulan Buh eyðimörkinni og getur því notað allt að 28 þúsund hektara lands alls.
 
Selja mjólk og jógúrt
 
Mjólkin, sem kemur frá hinum lífrænt vottuðu fjósum Shengmu, fer í dag í eigin afurðastöð sem svo selur lífrænt vottaða drykkjarmjólk og jógúrt. Salan er gerð í samvinnu við kínverska afurðafyrirtækið Mengniu, sem er að hluta til í eigu norður-evrópska afurðafélagsins Arla sem er afar viðeigandi enda er Arla stærsta afurðafélag í heimi á sviði lífrænt vottaðra mjólkurvara.

6 myndir:

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...

Bænder
12. júlí 2024

Bænder

Skammur aðdragandi að sölunni
11. júlí 2024

Skammur aðdragandi að sölunni

Magnað Landsmót 2024
12. júlí 2024

Magnað Landsmót 2024

Oddgeirshólar
29. ágúst 2019

Oddgeirshólar

Svín og korn
12. júlí 2024

Svín og korn