Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en mánaðar gamalt.
Afkoma sauðfjárbúa batnaði árið 2023
Á faglegum nótum 28. maí 2025

Afkoma sauðfjárbúa batnaði árið 2023

Höfundur: María Svanþrúður Jónsdóttir, Oddný Steina Valsdóttir og Guðfinna Harpa Árnadóttir, ráðgjafar hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins.

Nú liggja fyrir rekstrarniðurstöður úr afkomuvöktun sauðfjárbúa ársins 2023. Það má segja að helstu tíðindi þessarar vinnu séu að rekstrarniðurstaða búanna er nú réttum megin við núllið að meðaltali.

Afurðaverð dilkakjöts hefur nú loks náð raungildi þess verðs sem bændum var greitt haustið 2014. Mikill munur er í breytilegum kostnaði á milli búa. Þó breytileiki á rekstri þessara búa sé mikill þá er greinilegt samband á milli afurðasemi og afkomu. Niðurstöðurnar sýna einnig fram á ákveðna stærðarhagkvæmni við framleiðslu dilkakjöts. Þau sauðfjárbú sem taka þátt í verkefninu reikna sér laun sem eru að jafnaði innan við helmingur meðallauna í landinu. Á heimasíðu RML er skýrslan „Rekstur sauðfjárbúa 2021– 2023“ þar sem nánar er fjallað um niðurstöður verkefnisins og er sérstaklega vakin athygli á viðaukum hennar þar sem nánari úrvinnsla kemur fram.

Í þessari grein er stiklað á helstu niðurstöðum skýrslunnar sem rammar inn afkomu sauðfjárbúa sem eru með 200 vetrarfóðraðar kindur eða fleiri. Gögnin eru unnin upp úr rekstrargögnum 198 búa. Það er rúmlega 28% þeirra búa í landinu sem uppfylla þátttökuskilyrði og þau standa að baki 28,7% af dilkakjötsframleiðslunni. Rekstrargögnin eru tengd skýrsluhaldsgögnum hvers bús. Meðalbúið hefur 468 skýrslufærðar kindur og framleiðir 22,3 kg dilkakjöts á hverja vetrarfóðraða kind.

Til upprifjunar þá hófst þetta verkefni hjá RML um áramótin 2016–2017 með söfnun og greiningu rekstrargagna frá 44 sauðfjárbúum. Gögnin ná aftur til ársins 2014. Fram til þess tíma hafði hagtölusöfnun fyrir greinina og raunar landbúnaðinn í heild dalað mjög frá því sem áður þekktist. Það var því orðin brýn þörf á að ná betur utan um upplýsingar um rekstur og afkomu sauðfjárbúa.

Þátttökubúin og úrvinnsla gagna 2023

Búum í verkefninu hefur fjölgað jafnt og þétt á þessu tímabili. Með þátttöku fleiri búa og eftir því sem gögnin ná yfir stærri hluta framleiðslunnar styrkist ótvírætt gildi gagnanna til að endurspegla raunkostnað við framleiðslu sauðfjárafurða. Svona gagnasafn býður upp á gríðarlega möguleika til að skoða nánar og greina áhrifaþætti á rekstrarniðurstöður og fleiri þætti sem skipta máli í bústjórnarlegu samhengi. Þátttakendum í verkefninu gefst kostur á að fá greiningu fyrir sinn rekstur þar sem tekju- og kostnaðarliðir eru greindir niður á framleitt kg. Með þessu fæst góður samanburður við búrekstur margra búa sem er gott verkfæri og ætti að auðvelda bændum að sjá hvar þeir standa sig vel og greina möguleika til að gera betur í sínum rekstri.

Tekju- og kostnaðarliðum er deilt niður á framleidd kg dilkakjöts á viðkomandi búi, til að ná samanburðarhæfum gögnum við meðaltöl og á milli búa. Við greiningu niðurstaðna verkefnisins er búunum skipt í þrjá hópa eftir framlegð kr./kg af rekstri sauðfjárbúa. Þegar þróun þessara gagna eru skoðuð kemur í ljós að breytileiki í rekstrarniðurstöðum á milli búa fer vaxandi. Munurinn liggur að hluta í greiðslumarkseign þeirra og bústærð en einnig afurðasemi, tekjusamsetningu og ólíkri kostnaðardreifingu. Með hækkandi afurðaverði eykst munur í framlegð milli þriðjunga. Með hækkandi afurðaverði vega bústjórnarlegir þættir meira í rekstrarniðurstöðum búa.

Loksins jákvæð afkoma

Afkoma sauðfjárbúa batnaði árið 2023 en rekstarniðurstaða sauðfjárhluta þátttökubúa skilar í fyrsta skipti í langan tíma hagnaði. Bætt afkoma byggir einkum á hækkun á afurðaverði og einskiptisgreiðslum frá ríki. Þrátt fyrir hækkun afurðaverðs á síðastliðnum árum þá hækkar hlutdeild afurðatekna af heildartekjum búanna ekki mikið á móti opinberum greiðslum. Kemur það til af fækkun fjár sem veldur því að opinberar greiðslur deilast á minni framleiðslu og færri bú en áður.

Framleiðslukostnaður dilkakjöts, án fjármagnsliða og afskrifta, er að meðaltali 1.666 kr./kg árið 2023. Mikill breytileiki er eftir stærð búa og fer framleiðslukostnaður á hvert kg stiglækkandi með aukinni stærð búa. Að meðtöldum fjármagnsliðum og afskriftum er kostnaður á hvert kg að meðaltali 2.112 kr.

Í töflu um afurðir og afkomu eftir vetrarfóðraða kind sést að afurðir eftir hverja kind hafa afgerandi áhrif á afkomu búanna. Munurinn er 14.934 kr./kind á afurðalægsta og afurðahæsta hópnum. Tap af rekstri afurðaminnsta flokksins reiknast 7.252 kr./kind en þegar afurðir hafa náð 28-30 kg/kind eða meira er orðinn hagnaður af rekstri og mestur er hann í flokki 30-32 kg/kind eða 4.809 kr./kind. Búin sem eru með afurðir yfir 32 kg/ kind eru að greiða sér hærri laun sem skýrir að hluta að hagnaður er ekki mestur þar.

Tækifæri til framtíðar

Helstu tækifæri sauðfjárbænda liggja í aukinni afurðasemi og lægri breytilegum kostnaði á hvert framleitt kíló dilkakjöts. Munurinn á breytilegum kostnaði á hvert kg í efsta og neðsta þriðjungi eru 429 kr./kg árið 2023 og hefur vaxið á milli ára. Þetta er mikill munur og miðað við meðalframleiðslu þátttökubúa er þetta munur á breytilegum kostnaði upp á um 4,5 milljónir.

Afurðasemi gripa er að jafnaði minni á smærri búunum. Kann það að orsakast af því að á minni búum er gjarnan fjölbreyttari rekstur og sauðfjárbúskapurinn e.t.v. meira aukaatriði. Hitt kann líka að vera að þar sem afurðir eru meiri eftir hvern grip, er til staðar einhver fjárhagslegur hvati til að fjölga fé. Hvernig sem það orsakasamhengi liggur þá endurspeglast þessi staðreynd einnig í því að stærri bú eru að jafnaði með lægri framleiðslukostnað á hvert kg og á það bæði við þegar horft er til fasts og breytilegs kostnaðar.

Afurðaverð nær í fyrsta skipti, árið 2023, raungildi afurðaverðs frá árinu 2014 eftir mikla dýfu á markaði og fall á afurðaverði árin 2016 og 2017. Verðfallið kom til vegna verðfalls á mörkuðum erlendis sem aftur orsakaði offramboð og verðfall á innlendum markaði.

Miðað við að meðalatvinnutekjur á Íslandi 2023 eru 681 þúsund krónur á mánuði eru mánaðarlaun sauðfjárbúa, í verkefninu, að jafnaði aðeins 45,3% af meðallaunum í landinu.

Skuldahlutfall fer lækkandi milli ára sem er jákvætt. Ástæðan er einkum sú að velta búanna er að aukast. Heildarskuldir í krónum talið eru að hækka en þó ekki til jafns við almennar verðlagshækkanir. Það bendir til þess að bændur haldi enn að sér höndum í fjárfestingum í ríkjandi vaxtaumhverfi. Reynslan hefur jafnframt sýnt að bú sem treysta að stórum hluta á tekjur af sauðfjárrækt hafa átt erfitt með að fá lánsfjármagn og getur það einnig spilað inn í.

Þrátt fyrir augljós merki um batnandi afkomu í greininni þá er rekstrarumhverfi sauðfjárbúa ekki með þeim hætti að beinar tekjur af framleiðslu sauðfjárafurða standi undir eðlilegri launakröfu, nauðsynlegum fjárfestingum, tæknivæðingu og nýliðun.

Ein leið að bættum árangri liggur í að auka vitund bænda gagnvart meðferð bókhaldsgagna og að nýta niðurstöður bókhalds í auknum mæli sem bústjórnartæki líkt og skýrsluhald sauðfjárræktar.

Þátttaka bænda er lykilatriði

Um leið og við þökkum þátttökubændum fyrir sitt mikilvæga framlag inn í þessa vinnu viljum við hvetja aðra sauðfjárbændur sem uppfylla skilyrði til að taka þátt. Við hjá RML sjáum fyrir okkur að geta nýtt niðurstöður þessa verkefnis enn betur til að endurspegla stöðu greinarinnar og leita leiða til að efla faglega ráðgjöf til sauðfjárbænda. Ykkar þátttaka er forsenda þess að hægt sé að halda verkefninu lifandi og efla það. 

Skylt efni: Afkoma sauðfjárbúa

„Spjallað“ við kýr
Á faglegum nótum 9. janúar 2023

„Spjallað“ við kýr

Atferli, hegðun, útlit og ástand nautgripa getur gefið gríðarlega mikilvægar upp...

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Skógarbændur og Bændasamtök Íslands

Á aðalfundi Landssambands skógareigenda (LSE) sem haldinn var í Borgarnesi í maí...

Lífræn framleiðsla – nú er lag
Á faglegum nótum 5. janúar 2023

Lífræn framleiðsla – nú er lag

Á undanförnum árum hefur VOR látið til sín taka með ýmsum hætti til að hvetja ti...

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið
Á faglegum nótum 3. janúar 2023

Eitur á alltaf að vera síðasta úrræðið

Meindýr eru skaðvaldar í garð- og skógrækt og óvelkomnir gestir sem flestir vild...

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna
Á faglegum nótum 2. janúar 2023

Ýmsir vankantar við smíði nýju norrænu næringarráðanna

Vinna við norrænu næringarráðin (NNR), sem Norræna ráðherra­nefndin heldur utan ...

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022
Á faglegum nótum 30. desember 2022

Um niðurstöður lambadóma haustið 2022

Í heildina var útkoma lamba í haust góð. Meðalfallþungi á landinu var 16,6 kg og...

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?
Á faglegum nótum 28. desember 2022

Lífrænn úrgangur: höfuðverkur eða tækifæri?

Hér á landi fellur til gríðarlegt magn af lífrænum úrgangi á öllum stigum samfél...

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs
Á faglegum nótum 27. desember 2022

Skýrsluhald – heimarétt WorldFengs

Nú þegar líður að áramótum og allir eru búnir að skila haustskýrslu til matvælar...