Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 2 mánaða.
Volkswagen ID.7 er vel útbúinn og fágaður rafmagnsbíll. Innra rýmið er vandað eins og gengur og gerist með þýskar bifreiðar. Aksturseiginleikarnir eru afslappandi og er akstursaðstoðin býsna fullkomin.
Volkswagen ID.7 er vel útbúinn og fágaður rafmagnsbíll. Innra rýmið er vandað eins og gengur og gerist með þýskar bifreiðar. Aksturseiginleikarnir eru afslappandi og er akstursaðstoðin býsna fullkomin.
Mynd / ÁL
Vélabásinn 14. mars 2024

Rúmgóð og rennileg drossía

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Að þessu sinni er tekinn til kostanna Volkswagen ID.7 Pro í 1st Style útfærslu. Hér er um að ræða stóran fimm manna rafmagnsfólksbíl sem væri hægt að setja í sama flokk og hinn gamalreynda Volkswagen Passat.

ID.7 er langur bíll og er það eitt helsta útlitseinkenni hans. Mjúkar línur eru ráðandi og sígur þakið niður í aflíðandi halla að aftan. Andlit bílsins er í samræmi við aðra rafmagnsbíla frá Volkswagen og er ID.7 tilbrigði við sömu hönnun. Framljósin eru tengd saman með ljósrönd, eins og er mikið í tísku þessa dagana.

Þegar stigið er um borð er tekið í innfellda hurðarhúna. Að innan tekur á móti manni týpísk Volkswagen innrétting sem er skynsamlega hönnuð. Flest allt sem fingurnir geta snert er mjúkt en sé það úr hörðu plasti er áferðin á því áhugaverð. Beint fyrir framan bílstjórann er pínulítill skjár sem sýnir grunnupplýsingar, eins og aksturshraða, hvaða akstursstefna er valin og hleðslu á rafhlöðu.

Þessi skjár er hálf óþarfur vegna hins afbragðsgóða sjónlínuskjás sem varpað er inn á framrúðuna og sýnir sömu upplýsingar og meira til. Þessi sjónlínuskjár er sá skýrasti sem undirritaður hefur reynt og er hann til að mynda tengdur við leiðsögukerfið sem sýnir á einstaklega greinilegan hátt hvar og hvenær skal beygja.

Form ID.7 er rennilegt en aflíðandi halla á þaki fylgir sá ókostur að höfuðrými aftursætisfarþega skerðist.

Takkar í lágmarki

Takkar eru í algjöru lágmarki en það helsta er aðgengilegt á heimaskjá margmiðlunarskjásins, sem er af svipaðri stærð og í Tesla Model 3. Stýrikerfið er býsna einfalt og hraðvirkt og tekur enga stund að tengja Blátönnina í símanum. Þá er þráðlaust Android-auto og Apple CarPlay. Það er ágætur eiginleiki til að hafa, því þótt innbyggða leiðsögukerfið í bílnum sé gott, þá er það ekki eins notendavænt og Google Maps.

Allt sem viðkemur miðstöðinni hefur verið fært í skjáinn. Það er fljótlegt að stilla hita og blástur, en maður þarf að kafa aðeins dýpra til að stjórna blástursstefnunni. Það er ekki hægt að hreyfa neinar ristar handvirkt heldur þarf að gera það í gegnum valmynd á skjánum. Þarna myndi maður segja að Volkswagen sé að gera einfaldan hlut flókinn.

Öflug bakkmyndavél er í bílnum sem sýnir mynd á skjánum. Hún er algjörlega nauðsynleg vegna stærðar bílsins og hversu langt er á milli ökumannsins og afturendans.

Þjóðverjar eru góðir í að gera innréttingar. Hér er allt einhvern veginn mátulegt.

Miklir stillimöguleikar í sætum

Framsætin eru breið með stórri sessu, sem er hægt að lengja handvirkt til að fá betri stuðning undir lærin. Flest öllum stillingum á báðum sætum er stjórnað með rafmagni og er býsna öflugt nudd í sætisbakinu. Mikill aðdráttur er í stýrinu sem ætti að gleðja þá sem vilja hafa sætið aftarlega. Hvort sem ökumaðurinn er stuttur eða langur ætti hann að geta komið sér vel fyrir. Hægra megin á bak við stýrishjólið er gírstöngin og vinstra megin stöng fyrir stefnuljós og rúðuþurrkur.

Á milli framsætanna er djúp geymsla undir armhvílunni. Þar fyrir framan eru tveir glasahaldarar og bakki þar sem hægt er að hlaða símann þráðlaust, þó hleðslan þar sé frekar hægvirk. Hanskahólfið mætti teljast miðlungsstórt, en hurðavasarnir eru stórir og fóðraðir að innan.

Aftursætin rúma þrjá fullorðna einstaklinga með góðu móti. Þar sem þakið á bílnum er aflíðandi þurfa þeir hávöxnustu að lúta höfði. Miðað við að þetta sé fólksbíll er aðgengið inn og út úr bílnum að framan og aftan prýðilegt. Þá er innra rýmið bjart með stórum gluggum. Skotthlerinn er firnastór og farangursrýmið með eindæmum rúmgott.

Aftursætin ættu að rúma þrjá fullorðna einstaklinga að því gefnu að þeir séu ekki þeir hávöxnustu.

Yfirveguð akstursaðstoð

ID.7 er með afbragðsgóða akstursaðstoð sem er næstum á pari við það sem er í Tesla. Hann heldur sér vel í akreinum og er með yfirveguð við- brögð við breytingum á umferðinni. Þá varpar áðurnefndur sjónlínuskjár mynd inn á framrúðuna sem lætur ökumanninn vita hvað akstursaðstoðin er að hugsa. Óþarft er því að taka augun af veginum til að fá fullvissu um að bíllinn sé líka að fylgjast með.

Sé skynvæddi hraðastillirinn í gangi fylgir bíllinn hámarkshraða. Það er frábær eiginleiki, nema þegar bíllinn sér hámarkshraðaskilti til hliðar og heldur að það eigi við um stofnbrautina sem ekið er á. Því getur bíllinn hægt á sér að því er virðist fyrirvaralaust.

Samkvæmt upplýsingum frá Heklu mun vera hægt að slökkva á þessum eiginleika, en undirritaður fann ekki út úr því meðan á þessum prufuakstri stóð. Þess skal getið að Tesla Model 3 glímir við mjög svipaðan vanda.

Skottið er rúmgott og stór afturhlerinn gefur gott aðgengi til að koma fyrir stórum hlutum.

Lítill hvati fyrir glannaakstur

Aksturseiginleikar bílsins eru alveg mátulegir. Hann er hvorki leiðinlegur né skemmtilegur en hægt er að ganga að því vísu að upplifunin sé afslappandi. Þrátt fyrir 286 hestafla mótor er lítið sem eggjar ökumanninn til að keyra rallíakstur.

Ef inngjöfinni er þrýst í botn er ekki nokkur leið að láta bílinn spóla. Undirritaður reyndi meira að segja á glerhálum þjóðvegi, en spólvörnin gaf ekki færi á glannaakstri og fór bíllinn rólega og örugglega af stað. Sé allt gefið í botn á þurru malbiki er hröðunin næg til að koma bílnum á umferðarhraða, en ekki þannig að ökumaður og farþegar fái fiðring í magann.

Afturdrifi fylgja takmarkanir

Bíllinn í þessum prufuakstri var afturdrifinn og það fer honum ágætlega. Langflestir íslenskir öku- menn hafa vanist framhjóla- eða fjórhjóladrifnum fólksbílum og var það ekki fyrr en með tilkomu rafmagnsbíla sem algengt varð aftur að fá bifreiðar með drif á aftari öxli. Nokkur viðbrigði geta fylgt því að aka þess konar bílum, sérstaklega í snjó. ID.7 er ekki alslæmur í þeirri færð eins og oft er sagt um afturdrifnar sjálfrennireiðar. Undirritaður saknaði þó framdrifsins þegar ekið var í djúpum og hörðum hjólförum í illa mokuðum íbúðagötum. Þá var ekki hægt að ganga að því vísu að komast úr farinu til að leggja í stæði.

Áðurnefnd spólvörn er hins vegar það öflug að hún kom í veg fyrir að maður kæmi sér í vandræði. Þá var eina ráðið að finna annað stæði þar sem brúnin var aðeins lægri. Eins og verður sífellt algengara í nýjum bílum, þá gefur ID.7 frá sér viðvörunarhljóð þegar ekið er yfir hámarkshraða. Ólíkt þeim ökutækjum sem undirritaður hefur prufað frá til að mynda Hyundai og Kia, þá eru viðvörunarhljóðin í þessum bíl alls ekki ágeng og sýnir bíllinn smá umburðarlyndi þó að ekið sé rétt yfir hámarkshraða.

Pípið í þessum bíl rétt dugar til að minna á hraðann án þess að fara í taugarnar á nokkrum.

Að lokum

Volkswagen ID.7 er vel heppnaður og rúmgóður fólksbíll. Það er í raun ekkert sem er hægt að finna honum til foráttu, en afturdrif getur verið galli fyrir þá sem þurfa reglulega að berjast í gegnum vonda vetrarfærð. Innrarýmið er með eindæmum vandað og nær alls staðar ofgnótt rýmis, nema þegar kemur að höfði aftursætisfarþega.

Samkvæmt verðlista hjá Heklu kostar Volkswagen ID.7 Pro með afturdrifi og 77 kílóvattstunda rafhlöðu 9.990.000 krónur með virðisaukaskatti. Sem stendur er þetta eina útgáfan sem er flutt inn.

Skylt efni: prufuakstur

Sænskættaði töffarinn
Vélabásinn 9. maí 2024

Sænskættaði töffarinn

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Volvo EX30 í Ultra útfærslu. Umrætt ökutæki...

Nýstárleg íhaldssemi
Vélabásinn 17. apríl 2024

Nýstárleg íhaldssemi

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Toyota C-HR. Þetta er fágaður smájepplingur...

Allt sem margir þurfa
Vélabásinn 4. apríl 2024

Allt sem margir þurfa

Bændablaðið fékk til prufu nýjasta útspil indverska dráttarvélaframleiðandans So...

Rúmgóð og rennileg drossía
Vélabásinn 14. mars 2024

Rúmgóð og rennileg drossía

Að þessu sinni er tekinn til kostanna Volkswagen ID.7 Pro í 1st Style útfærslu. ...

Allir fá besta sætið
Vélabásinn 1. mars 2024

Allir fá besta sætið

Að þessu sinni er tekinn til kost- anna hinn nýi Kia EV9 í GT Line útfærslu. Þet...

Upplagður í ófærðina
Vélabásinn 15. febrúar 2024

Upplagður í ófærðina

Hér er tekin til kostanna uppfærð útgáfa af Polestar 2 Long range Dual motor raf...

Ekki sækja vatnið yfir lækinn
Vélabásinn 1. febrúar 2024

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Bændablaðið fékk til prufu Tesla Model 3 Long Range með fjórhjóladrifi á dögunum...

Eftirminnilegustu tækin 2023
Vélabásinn 23. janúar 2024

Eftirminnilegustu tækin 2023

Á síðasta ári prufukeyrði Bændablaðið 23 mismunandi tæki. Nokkur breidd var á vi...