Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Citan býður vinnandi fólki upp á smá skammt af Benz í líf þeirra á verði sem er ekki hærra en hjá öðrum framleiðendum sendibíla. Að framan sjást greinileg ættartengsl við aðra bíla frá sama framleiðanda.
Citan býður vinnandi fólki upp á smá skammt af Benz í líf þeirra á verði sem er ekki hærra en hjá öðrum framleiðendum sendibíla. Að framan sjást greinileg ættartengsl við aðra bíla frá sama framleiðanda.
Mynd / Ástvaldur Lárusson
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro útfærslu. Þetta er praktískur bíll sem er í sama stærðarflokki og Volkswagen Caddy og Citroën Berlingo.

Þegar horft er á Citan frá réttu sjónarhorni að framan væri hægt að rugla honum saman við aðra fólksbíla frá Mercedes Benz. Frá öllum öðrum hliðum væri skiljanlegt ef menn tækju feil á þessum og Renault Kangoo. Það er ekki leiðum að líkjast, enda framleiðir Benz þennan bíl í nánu samstarfi við Renault.

Eins og lítill Sprinter

Samkvæmt upplýsingum frá umboðinu liggur munurinn á þessum tveimur bílum helst í innréttingunni, en þar má sjá ættareinkenni frá þeim þýsku, eins og hringlaga op á miðstöð sem minna á þotuhreyfla. Sé horft á neðri hluta innréttingarinnar er erfitt að sjá mun á þessum og Renault Kangoo. Þrátt fyrir það er auðvelt að ímynda sér að setið sé í smækkaðri útgáfu af nýjustu Sprinter sendibílunum.

Stýrið er afar vandað og klætt með efni sem minnir á mjúkt leður. Þar eru takkar fyrir helstu skipanir og er hægt að fletta í gegnum margmiðlunarskjáinn með lítilli snertimús við þumalinn. Ökumannssætið er vel mótað og hæðarstillanlegt. Enn fremur er ágætur aðdráttur í stýri, þannig að fólk af flestum stærðum ætti að geta komið sér vel fyrir. Engar stillingar eru á farþegasætinu, en það er mjúkt og prýðilega þægilegt.

Margmiðlunarskjárinn er afar sambærilegur þeim sem eru í öðrum vinnubílum frá Mercedes Benz. Hann er snöggur og einfaldur, sama hvort hann er notaður sem snertiskjár eða stuðst sé við snertimúsina í stýrinu. Það er hægt að tengja símann með Android Auto og Apple CarPlay, að því gefnu að maður muni eftir að taka með sér snúru.

Innréttingin er greinilega Benz ef horft er á efri hluta hennar. Neðri helmingurinn er nánast óþekkjanlegur frá Kangoo.

Ekkert mál að bakka

Í litlum sendibílum er ósjaldan fullt af sniðugum lausnum til að auðvelda vinnandi fólki lífið, eins og tölvuborð eða hleri aftur í farangursrýmið. Þessi er lítið af slíku fyrir utan að auðvelt er að fella niður farþegasætið og fá alveg flatt geymslupláss sem virðist geta borið nokkurn þunga.

Þá er nóg af geymsluplássi í farþegarýminu, en fyrir ofan sólskyggnin er hilla þar sem er hægt að týna haug af kvittunum og öðru smáu. Fyrir ofan hraðamælinn er lokað hólf sem rúmar tvær samlokur, ásamt því sem hurðirnar geyma rúmgóða vasa. Hanskahólfið er af meðalstærð.

Hægt er að opna afturhurðirnar í allt að 180 gráður og skilja minni hlerann eftir opinn í 90 gráðum í akstri þegar flytja þarf löng borð eða pípur. Hann kemur með rennihurðum á báðum hliðum og er rétt að nefna að í lengri útgáfunni eru þær nógu stórar til að hægt sé að setja inn EURO-bretti. Annars er fátt um farangursrýmið að segja. Þetta er stórt kassalaga hólf skilið frá farþegarýminu með öflugu þili.

Þrátt fyrir að afturrúðurnar séu engar kom þessi bíll útbúinn með baksýnisspegli sem mun helst gagnast í að fylgjast með hvort hárgreiðslan sé í lagi. Sem betur fer er Citan með góða bakkskynjara og myndavél sem sýnir víða mynd aftur og til hliða. Því er auðvelt að bakka úr stæði og átta sig á umferð sem kemur frá hlið.

Business Pro útfærslan kemur með afar skilvirkri blindpunktsviðvörun sem lætur vita ef ökumaðurinn er við það að keyra í hliðina á öðrum bíl þegar skipt er um akrein. Akstursaðstoðin í þessum bíl er að öðru leyti nokkuð takmörkuð, en hann er útbúinn hraðastilli sem aðlagar sig ekki að aksturshraða bílsins fyrir framan.

Sé horft aftan á bílinn væri auðvelt að rugla honum við Renault Kangoo, en Citan er framleiddur í nánu samstarfi við franska fyrirtækið.

Vinalegt dísil-mal

Lyklalausa aðgengið er afbragð. Notandinn þarf aldrei að taka lykilinn úr vasanum og er bíllinn alltaf fljótur að fara úr lás þegar gengið er að honum og snöggur að læsa sér þegar farið er í burtu. Þetta er eiginleiki sem sendlar og aðrir sem þurfa oft að stökkva úr bílnum ættu að verða þakklátir fyrir.

Bifreiðin er ræst með hnappi og heyrist vinalegt dísil-mal í vélinni. Bíllinn í þessum prufuakstri var með sjálfskiptingu sem er afar þíð og veit ökumaðurinn ekkert af henni. Strax á fyrstu metrunum finnst að akstursupplifunin er býsna fáguð og mikil framför frá eldri gerðinni af Citan. Bíllinn er nokkuð hljóðlátur, fyrir utan smá glym sem berst úr farangursrýminu. Fjöðrunin er mjúk og er hægt að keyra nokkuð áhyggjulaus yfir hraðahindranir. Veghæðin er jafnframt talsvert meiri en á hefðbundnum fólksbílum, sem kemur sér vel þegar skrölt er yfir grófar akstursleiðir á framkvæmdasvæðum.

Farangursrýmið er stór og einfaldur kassi.

Að lokum

Citan kemur með margreyndri 1,5 lítra dísilvél sem hefur verið notuð í fjölmarga bíla frá Renault–Nissan– Mitsubishi samsteypunni og nokkra minni bíla frá Mercedes Benz. Þar má nefna Nissan Qashqai, Dacia Duster og Mercedes Benz A-Class.

Einn af hennar helstu kostum er mikið tog á lágum snúningum, sem finnst sérstaklega vel á beinskiptum bílum. 

Hérna skilar vélin 95 hestöflum og 260 newton metra togi. Beinskipti bíllinn eyðir 5,3 lítrum á hundraði á meðan sá sjálfskipti eyðir 5,6. Styttri bíllinn er 4.498 millimetrar að lengd, á meðan sá lengri er 4.922. Báðir eru 1.802 mm á breidd án spegla og 1.832 á hæð án loftnets. Beinskiptur Citan í Basic útfærslu kostar frá 3.943.548 krónur án vsk. Sá sem tekinn var fyrir hér var styttri gerðin af sjálfskiptum Citan í Business Pro útfæslunni og kostar frá 4.911.290 krónum án vsk. Hægt er að fá allar gerðir í lengri útfærslu sem kostar 300.000 krónur aukalega.

Citan er sendibíll fyrir iðnaðarmenn sem vilja smá Benz í lífið. Hann kemur á samkeppnishæfu verði og stenst vel samanburð. Nánari upplýsingar er hægt að fá hjá Öskju, söluaðila Mercedes Benz á Íslandi.

Skylt efni: prufuakstur

Traustur fararskjóti endurnýjaður
Vélabásinn 28. nóvember 2024

Traustur fararskjóti endurnýjaður

Bændablaðið fékk til prufu nýjustu gerðina af Honda CR-V e:PHEV Advance Tech, se...

Með öfluga bensínvél og stórt batterí
Vélabásinn 14. nóvember 2024

Með öfluga bensínvél og stórt batterí

Bændablaðið fékk til prufu Audi Q7 sem er stór og vel útbúinn jepplingur frá Þýs...

Alveg eins og sportbíll
Vélabásinn 17. október 2024

Alveg eins og sportbíll

Bændablaðið fékk til prufu Hyundai Ioniq 6 sem er stór rafknúinn fólksbíll með a...

Fjölskyldubíll með stæla
Vélabásinn 3. október 2024

Fjölskyldubíll með stæla

Hér er á ferðinni praktískur fjölskyldubíll sem er ekki nema 2,6 sekúndur frá ky...

Snarpur borgarbíll
Vélabásinn 19. september 2024

Snarpur borgarbíll

Bændablaðið fékk til prufu smart #3, miðlungsstóran rafmagnsbíl sem sameinar ýms...

Óviðjafnanleg fágun
Vélabásinn 5. september 2024

Óviðjafnanleg fágun

Bændablaðið fékk til prufu EQE SUV rafmagnsbílinn frá Mercedes Benz. Um er að ræ...

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra
Vélabásinn 22. ágúst 2024

Sjálfkeyrandi ítölsk kerra

Bændablaðið fékk til prufu vinnubíl af gerðinni Piaggio Porter sem er nánast óþe...

Algjör jaxl utan vega
Vélabásinn 8. ágúst 2024

Algjör jaxl utan vega

Bændablaðið fékk til prufu þriðju kynslóð af Can-Am Outlander fjórhjólinu. Það e...