Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 5 mánaða.
Ineos Grenadier er líklegast einn besti fjallajeppinn sem hefur verið framleiddur í seinni tíð. Reynsluaksturinn á þeim bíl var sá eftirminnilegasti árið 2023.
Ineos Grenadier er líklegast einn besti fjallajeppinn sem hefur verið framleiddur í seinni tíð. Reynsluaksturinn á þeim bíl var sá eftirminnilegasti árið 2023.
Mynd / Daníel Freyr Árnason
Vélabásinn 23. janúar 2024

Eftirminnilegustu tækin 2023

Höfundur: Ástvaldur Lárusson

Á síðasta ári prufukeyrði Bændablaðið 23 mismunandi tæki. Nokkur breidd var á viðfangsefnunum, það minnsta Can-Am Traxter sexhjóla vinnutæki og það stærsta 112 tonna Caterpillar D11 jarðýta. Þá voru einnig prufuð landbúnaðartæki, fólksbílar og jeppar.

Sá prufuakstur sem undirritaður hugsar fyrst um var á hinum nýja jeppa Ineos Grenadier, sem er hugarfóstur milljarðamæringsins Jim Ratcliffe. Hann er innilegur áhugamaður um gömlu Land Rover Defender sem hættu í framleiðslu í byrjun árs 2016. Eftir að Land Rover hafði neitað að selja honum framleiðsluréttinn af þeim bíl sló hann til og setti á stofn nýja bílategund innblásna af uppáhaldsbifreiðinni.

Á Íslandi hefur hið nýja bílaumboð Verðir tekið að sér sölu þessara bíla og fékk undirritaður að keyra fyrsta Grenadier bílinn sem fékk íslenska skráningu. Einar Sverrir Sigurðarson og Daníel Freyr Árnason hjá Vörðum komu með í ökuferð. Ólíkt því sem blaðamaður hafði reiknað með voru þeir frekar að hvetja þann sem þetta ritar til að gefa allt í botn á grófum slóðum í stað þess að gæta að sér. Þannig gafst færi á að prufa bílinn til hins ýtrasta og finna hvers hann var megnugur.

Óvæntur gæðabíll frá Kína

Þá kom prufuaksturinn á hinum nýja rafmagnsbíl smart #1 mjög á óvart (nb. nafn bílsins á víst að vera alfarið skrifað í lágstöfum). Það er bílategund sem er að hálfu í eigu hins þýska Mercedez-Benz og kínverska framleiðandans Geely. Fyrrnefndi aðilinn sá um alla útlitshönnun og innréttingar á meðan sá síðarnefndi útfærði rafhlöður og drifbúnað og sá um framleiðsluna. Undirritaður hefur fengið smjörþef af öðrum kínverskum bílum og hafa þeir allir verið vonbrigði – nema smart #1.

Þessi bíll var einhvern veginn mátulegur á allan hátt. Öll fimm sætin voru á pari við það sem má ætlast af þýskum bílum, innréttingin var þétt og margmiðlunarbúnaðurinn vel útfærður. Það sem toppaði þetta allt var verð sem var einstaklega heillandi á þeim tíma, þó það hafi hækkað um áramótin. Eftir prufuaksturinn mátaði blaðamaður nokkra Benz bíla og var ekki laust við að smart #1 slægi þeim út á vissum sviðum.

Hinn kínversk-þýski smart #1 fór langt fram úr öllum væntingum. Myndir / ál

Mýksti traktorinn

Eftirminnilegasta dráttarvélin sem tekin var til kostanna á árinu var JCB Fastrac. Blaðamaður náði að verða sér úti um prufuakstur á einni slíkri á ferðalagi á Bretlandi og var vélinni ekið fram og til baka á landareign Bamford lávarðar, eiganda JCB. Þessir traktorar hafa ekki verið algeng sjón í íslenskum sveitum og var því heiður að fá að prufa splunkunýtt eintak með sölumanni JCB á Englandi.

Það sem skilur þessa dráttarvél frá öllum öðrum er helst vökvafjöðrunarkerfið. Þó það hljómi ekki traustvekjandi þá vinnur það á svipaðan hátt og fjöðrunarkerfið í Citroën forðum daga, nema auðvitað margfalt sterkbyggðara. Þetta er líklega eina dráttarvélin sem er með fjöðrun á öllum hjólum og er hún svo mjúk að enginn fjöðrunarbúnaður er undir húsinu. Undirritaður gat brunað yfir ójöfnur án þess að kastast til eins og oft vill vera í hefðbundnari dráttarvélum.

JCB Fastrac er líklegast mýksti traktor sem hægt er að kaupa. Hann þolir hraðakstur bæði yfir óplægða akra og malbikuð stræti.

Stærsta ýtan

Til að fá enn meiri breidd í tækjaflóruna tókst blaðamanni að nauða út prufuakstur á stærstu fjöldaframleiddu jarðýtu heims sem kom til landsins síðasta sumar. Þessi var af gerðinni Caterpillar D11 og vegur 112 tonn, þó sú tala geti verið breytileg eftir útbúnaði. Á þeim tíma var hún notuð í malarnámu en hefur hlotið athygli á síðustu vikum eftir að hún var send til að gera varnargarða við gosstöðvarnar á Suðurnesjum.

Eigendur jarðýtunnar tóku vel á móti blaðamanni, klæddu í mótorhjólahjálm og ferjuðu svo upp snarbratta fjallshlíð á sexhjóli þangað sem ýtan var að störfum. Þá fékk undirritaður smá kennslu frá þaulvönum ýtustjóra sem lét ferlíkið í hendur skrifstofublókarinnar eftir nokkrar mínútur.

Þótt þessi vinnuvél vegi 112 tonn þá kom á óvart hversu létt er að stjórna henni og aðstaðan fyrir starfsmanninn hin þægilegasta.

Auðvitað prufukeyrði Bændablaðið stærstu fjöldaframleiddu jarðýtu heims svo lesendur geti vitað hvernig upplifunin er af þeim akstri.

Skylt efni: prufuakstur

Fyrir fágaða iðnaðarmenn
Vélabásinn 19. júní 2024

Fyrir fágaða iðnaðarmenn

Bændablaðið fékk til prufu minnsta sendibílinn frá Mercedes Benz í Business Pro ...

Sænskættaði töffarinn
Vélabásinn 9. maí 2024

Sænskættaði töffarinn

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Volvo EX30 í Ultra útfærslu. Umrætt ökutæki...

Nýstárleg íhaldssemi
Vélabásinn 17. apríl 2024

Nýstárleg íhaldssemi

Bændablaðið fékk til prufu hinn nýja Toyota C-HR. Þetta er fágaður smájepplingur...

Allt sem margir þurfa
Vélabásinn 4. apríl 2024

Allt sem margir þurfa

Bændablaðið fékk til prufu nýjasta útspil indverska dráttarvélaframleiðandans So...

Rúmgóð og rennileg drossía
Vélabásinn 14. mars 2024

Rúmgóð og rennileg drossía

Að þessu sinni er tekinn til kostanna Volkswagen ID.7 Pro í 1st Style útfærslu. ...

Allir fá besta sætið
Vélabásinn 1. mars 2024

Allir fá besta sætið

Að þessu sinni er tekinn til kost- anna hinn nýi Kia EV9 í GT Line útfærslu. Þet...

Upplagður í ófærðina
Vélabásinn 15. febrúar 2024

Upplagður í ófærðina

Hér er tekin til kostanna uppfærð útgáfa af Polestar 2 Long range Dual motor raf...

Ekki sækja vatnið yfir lækinn
Vélabásinn 1. febrúar 2024

Ekki sækja vatnið yfir lækinn

Bændablaðið fékk til prufu Tesla Model 3 Long Range með fjórhjóladrifi á dögunum...