Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 3 mánaða.
Nokkrum klukkustundum eftir vökvun er áður skraufþurr og brún Jeríkórósin orðin mjúk og græn og af henni leggur milda jarðarangan.
Nokkrum klukkustundum eftir vökvun er áður skraufþurr og brún Jeríkórósin orðin mjúk og græn og af henni leggur milda jarðarangan.
Mynd / SÁ
Líf og starf 10. janúar 2024

Urtin þraukar allslaus

Höfundur: Steinunn Ásmundsdóttir

Upprisuplöntur eru merkileg fyrirbæri. Um þær hafa spunnist ýmsar sögur og helgisagnir.

Fyrir um þrjátíu árum bjó sú er þetta ritar í Þýskalandi, sunnan við Hamborg. Skömmu fyrir jól var ég á rangli um bændamarkað og sá þá í körfu liggjandi óhrjálegar, þurrar, brúnar kúlur, u.þ.b. 15 cm í þvermál, og var auglýst að þetta væri hin heilaga og eilífa Jeríkórós. Ég stóðst ekki mátið og keypti fáeinar; eina handa sjálfri mér og aðrar til jólagjafa fyrir mitt nánasta fólk uppi á Íslandi.

Í þýskri lýsingu með þessum skraufþurru og brothættu vöndlum sagði að Jeríkórósin væri eitt af undrum náttúrunnar. Aðeins þyrfti að leggja hana í vatn og þá spryngi hún út og yrði iðjagræn en annars gæti hún lifað í ár og aldir, og jafnvel endalaust, án vatns eða jarðvegs af nokkru tagi. Hún þyldi hvort tveggja mikinn hita og kulda. Ekki mætti hún þó standa lengi í vatni, eftir átta daga þyrfti að þurrka rósina aftur í þrjá daga minnst en svo gæti þessi hringrás: að þurrka og væta, átt sér stað út í það óendanlega ef eigandi rósarinnar kysi svo en ella mætti hún geymast þurr.

Jeríkórósin hefur legið algerlega skraufþurr í pappaöskju inni í skáp allt árið en á aðfangadag er hún vætt og lögð í skál með ylvolgu vatni.

Tvær plöntur og jafnvel fleiri

Við nánari eftirgrennslan, árum síðar, áttaði ég mig á að hér var verið að rugla saman tveimur óskyldum eyðimerkurplöntum. Annars vegar Anastatica hierochuntica af sinnepsættinni (Brassicaceae), sem vex einkum í Mið- Austurlöndum og er kölluð hin sanna Jeríkórós og hins vegar Selaginella lepidophylla, upprisuplöntu af tegund (mosa)jafna, sem vex m.a. í Chihuahuan-eyðimörkinni í Mexíkó og Bandaríkjunum og hefur verið nefnd Jeríkórós, Kristsrós, eilífðarjurt (Siempre viva), fölsk Jeríkórós, upprisuplanta, upprisumosi, risaeðluplanta og steinblóm, svo eitthvað sé nefnt. Ég var með þá síðarnefndu í höndum.

Upprisuplöntur geta lifað af mikla þurrka og síðan endurheimt eðlilega efnaskiptavirkni við endurvökvun. Vatnssvörunarhreyfingar plöntunnar stjórnast af rakainnihaldi, eiginleikum vefja og stigskiptri dreifingu ákveðinna frumna sem hefur áhrif á sammiðja stífleika og spíralmyndun. Ytri stilkar plöntunnar beygjast hringlaga eftir tiltölulega stuttan tíma án vatns. S. lepidophylla framleiðir hvorki blóm né fræ heldur fjölgar sér með gróum. Af henni blautri leggur sannkallaða jarðarangan, milda moldarlykt. Þessar plöntur losna auðveldlega úr sínum rýra jarðvegi og geta þá oltið um berangur með veðri og vindum eins og fisléttir boltar.

Látum liggja á milli hluta hvor plantan er hin eina sanna Jeríkórós og hugum að þeim sögnum sem orðið hafa til um hana.

Svona eru þær óhrjálegar við fyrstu sýn, Jeríkórósirnar, en sannkölluð undur og stórmerki gerast þegar þær eru bleyttar.

Höfð í hávegum

Upprisuplantan þótti sjaldgæf og forvitnileg og öðlaðist slíkan orðstír að m.a. franskar aðalsfjölskyldur bættu henni við skjaldarmerki sín. Gamlar þýskar bændafjölskyldur miðla enn þann dag í dag Jeríkórósinni frá kynslóð til kynslóðar og er hún víða í Þýskalandi kölluð jólarós og Kristsrós. Þar er gjarnan til siðs að sýna börnum þetta náttúruundur opnast undir jólatrénu á aðfangadagskvöld. Í öðrum löndum þekkist einnig að miðla rósinni sem fjölskyldudjásni milli kynslóðanna.

Sjálf hef ég fyrir sið að leggja Jeríkórósina mína í vatn einu sinni á ári, í hádeginu á aðfangadag meðan setið er að snæðingi jólagrauts. Viðstaddir sjá þá með eigin augum þessa þurru og brothættu greinakúlu opnast, taka lit og verða silkimjúka og slétta. Við það tækifæri er í hljóði farið með bæn fyrir mannkyni öllu; um frið og kærleika á jörðu og jöfnuð meðal manna.

Um Rósina frá Jeríkó hafa orðið til margar sögur. Nokkrar tengjast Maríu mey. Sagt er að á ferð sinni frá Nasaret til Betlehem hafi hún blessað plöntuna sem þannig öðlaðist eilíft líf.

Einnig er sögn um að rósin hafi fylgt Maríu mey á ferð hennar frá Jerúsalem til Egyptalands og hafi jurtin af virðingu fyrir meynni opnast í hvert sinn er María staðnæmdist og svo lokað sér er hin helga mær hélt áfram ferðinni. María hafi grátið sárt og tár hennar vætt rósina svo hún varð ódauðleg vegna blessunar táranna. Sömuleiðis er til saga um að María mey hafi nærst af rósinni á leið sinni um hið hrjóstruga land.

Þá er sagt að nálægt Jeríkó, við lindina þar sem Elía spámaður er sagður hafa hreinsað beiskt vatn með salti, vaxi planta sem aldrei deyr. Hún opnist einu sinni á hverju ári, nákvæmlega á þeirri stundu sem drottinn hafi fæðst. Rósin er einnig sögð vera tákn um þjáningar palestínsku þjóðarinnar og von hennar um betri tíma.

Bæklingur fylgdi Jeríkórósinni þegar hún var keypt á þýskum bændamarkaði fyrir jól árið 1995 og þar segir af meðhöndlun og ýmsum helgisögnum henni tengdum.
Að þorna upp og lifna aftur við

Plantan táknar upprisu, endurfæðingu, varanlega ást og langlífi í allmörgum trúarbrögðum. Hún er sömuleiðis þekkt fyrir að veita vernd og heppni, jafnvel auð, og vera nytsamleg til að koma jafnvægi á neikvæða orku fólks. Dæmi eru um að Jeríkórósin hafi verið notuð í álögum og göldrum til að hressa upp á rómantík eða fjárhagsstöðu. Hún hefur m.a. fundist í fornum gröfum.

Biblíuborgin Jeríkó byggðist um 9.000 árum f.Kr. og var líklega í upphafi byggð af um 3.000 íbúum sem ræktuðu hveiti og bygg á ökrum. Þeir byggðu stóran steinvegg umhverfis byggðina til verndar. Borgin byggðist upp og var eyðilögð á víxl og þaðan mun tengingin við plöntuna koma ekki síst: að skrælna og lifna til skiptis.

Vekur forvitni vísindanna

Rósinni eru ætlaðir hinir ýmsu læknandi eiginleikar. A. hierochuntica þykir m.a. gagnast við fæðingarhjálp meðan S. lepidophylla er talin góð við kvefi. Rétt er þó að taka fram að engar vísindalegar rannsóknir eða sannanir finnast fyrir meintum lækningamætti Jeríkórósarinnar.

Vísindamenn hafa hins vegar lengi verið forvitnir um eiginleika upprisuplantna enda gætu þær gefið vísbendingar um hvernig efla mætti þurrkþolnari nytjaplöntur til ræktunar.

Rósin frá Jeríkó stingur allvíða upp kollinum í skáldskap því auðvitað er slík upprisuplanta öflug samlíking fyrir líf, ást og endurfæðingu. Má til dæmis nefna ljóð eins og „To the Duke of York“ eftir Robert Herrick, „A Rose Plant in Jericho“ eftir Christina Georgina Rossetti og „The Resurrection Plant“ eftir Mollie Moore.

Jeríkórósaræktun á tunglinu

Allar Jeríkórósirnar sem ég gaf eru nú týndar og tröllum gefnar og hefur fólk líklega hent þeim, haldið að þetta væri eitthvert drasl. En ég hyggst láta mína Jeríkórós ganga áfram til barna minna í fyllingu tímans. Hún er jafn spræk og þegar ég eignaðist hana fyrir þrjátíu árum, þrátt fyrir að vera aðeins lögð í vatn einu sinni á ári hverju.

Lausleg könnun gefur til kynna að Jeríkórósin fáist hvergi hérlendis.

Þess má að lokum geta að hið ástralska Lunaria One Lunar Experiment to Promote Horticulture (ALEPH)-verkefni hyggst hefja tilraunir í ræktun m.a. upprisuplantna á tunglinu árið 2025.

Skylt efni: jeríkórósin

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...