Vinsamlegast athugið að þetta efni er eldra en 1 árs.
Að mörgu er að huga þegar fengist er við jarðarberjaframleiðslu í fyrsta sinn, en Elfa Björk Sævarsdóttir og Ragna Dagbjört Davíðsdóttir gátu með leigu á Laugabóli uppfyllt kröfur um verknám og búið haugánarannsóknum sínum nýtt athvarf.
Að mörgu er að huga þegar fengist er við jarðarberjaframleiðslu í fyrsta sinn, en Elfa Björk Sævarsdóttir og Ragna Dagbjört Davíðsdóttir gátu með leigu á Laugabóli uppfyllt kröfur um verknám og búið haugánarannsóknum sínum nýtt athvarf.
Mynd / ghp
Líf og starf 1. júní 2022

Í jarðarberja- og jarðvegsrækt

Þær Elfa Björk Sævarsdóttir og Ragna Dagbjört Davíðsdóttir ráðgjafar, ömmur og nem­endur Garðyrkjuskólans á Reykjum, stigu ærlega út fyrir þægindarammann þegar þær tóku á leigu garðyrkjustöð í Mosfellsdal. Þar ætla þær að rækta jarðarber og sinna samhliða rannsóknarverkefni með haugána­moltugerð.

Í mars síðastliðnum var Ragna Dagbjört stödd í garðyrkjustöðinni Laugabóli í Mosfellsdal. Þar kom upp sú hugmynd að hún fengi þar athvarf fyrir haugánamaðkana sína. Kom til tals að eigendur staðarins hygðust hætta garðyrkjuframleiðslu.

Tveimur vikum síðar stóðu Ragna og samnemandi hennar í Garðyrkjuskólanum, Elfa Björk, í ströngu við að koma þúsundum jarðarberjaplantna í potta og stilla upp jarðarberjaframleiðslu í 600 fermetra ræktunarhúsnæði sem þær höfðu leigt.

„Satt best að segja vorum við farnar að kvíða því að finna okkur verknámsstað því konur á sextugsaldri eru ekki fyrsta val garðyrkjustöðvanna. Þar sem tækifærið gafst ákváðum við bara að kýla á þetta og slá tvær flugur í einu höggi; fengum húsnæði fyrir ánanna og urðum okkur út um verknám. Hér var okkur svolítið hent út í nokkra óvissu. Við höfðum auðvitað lært eitthvað í skólanum en nú þurftum við að fara að láta fræðin virka,“ segir Ragna en þær Elfa Björk tilheyra þeim hluta garðyrkjunemenda sem ákveða að setjast á skólabekk eftir langan feril á vinnumarkaði.

Áður störfuðu þær báðar sjálfstætt, áttu báðar sín eigin ráðgjafarfyrirtæki. Á meðan Elva Björk sá um gæðaráðgjöf fyrir bændur með heimavinnslu þá starfaði Ragna á sviði úrgangsmála, síðast hjá Fjarðabyggð. Þær kynntust í garðyrkjunáminu og vinna nú saman alla daga.

Synda í djúpu

Af ýmsu er að huga við framleiðslu á jarðarberjum.

„Þegar plöntunum hafði verið komið fyrir þá þarf að huga að áburðargjöf og passa hitastig, fylgjast með vökvun, binda upp plöntur, bregðast við óværum ef þær koma upp, hugsa um býflugurnar og taka sprota svo eitthvað sé nefnt. Þetta væri kannski ekki jafn mikið starf ef við værum búnar að gera þetta í áratug, en núna erum við að fást við þetta í fyrsta sinn svo við erum vel á verði og vakandi fyrir öllu,“ segir Elfa Björk.

„Eigendur staðarins komu okkur ágætlega af stað fyrstu dagana en flugu svo til Tenerife. Þá höfðum við ekki einu sinni lært á áburðarblandarann. Okkur fannst það svolítið ógnvekjandi en eftir á að hyggja var það algjör nauðsyn, við fórum að lesa leiðbeiningar sem fylgdu vélinni og finna út úr hvernig hlutirnir virkuðu. Þarna var okkur hent út í djúpu og auðvitað gátum við synt,“ segir Ragna.

Rekstrarhlið framleiðslunnar er annar stór þáttur matjurtaframleiðslu en þar eru vinkonurnar báðar þaulreyndar. „Það þarf að halda utan um reksturinn, vera í tengslum við birgja, panta inn öskjur og merkimiða og fylgja þessu öllu eftir,“ segir Elfa Björk, en þær eiga von á um 2,5 tonna uppskeru af jarðarberjum næstu vikur og mánuði.

Haugánar þrífast vel í kössum inni í gróðurhúsum. Þeir nærast af forunnum lífrænum úrgangi og sölnuðum laufum úr jarðarberjaframleiðslunni. Úrgangurinn breytist í fyrirtaks ræktunarefni.

Ánamold er fyrirtaks ræktunarefni

Samhliða jarðarberjaræktuninni eru vinkonurnar því að gera tilraunir með haugánamoltu, rannsóknir sem Ragna hóf fyrir nokkrum misserum.

Hún hlaut meðal annars styrkúthlutun úr sjóði umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem stuðlar að eflingu hringrásarhagkerfis
á Íslandi.

„Með styrknum gafst tækifæri til að stækka umfang rannsóknarinnar, auk þess sem þetta er góð viðurkenning. Ég fór í Garðyrkjuskólann fyrst og fremst til að læra meira um þetta áhugasvið mitt. Mér fannst ekki nóg að gera moltu, ég vildi að hún væri góð, næringarrík og nothæf. Til þess þurfti ég að vita hvað plöntur þurfa,“ segir Ragna.

Haugánar lifa ekki úti í íslenskri náttúru. „Fámennur hópur hérlendis hefur notað þá til að moltugera heima við en erlendis er þetta gert á stærri skala, þar er tekið við alls konar lífrænum úrgangi í stórum skemmum og þar er úrganginum breytt í fyrirtaks ræktunarefni. Úrgangur sem hefur farið í gegnum meltingu ána hefur æskilega örveruflóru og rannsóknir hafa sýnt að ánar hreinsi jarðveg svo sem af salmonellu,“ segir Ragna.

„Í stað þess að hita moltuna upp í 70 gráðu hita er þetta því svokölluð köld moltugerð. Með því rýkur minna af næringarefnum út sem gas og auk þess myndar hún koltvísýring í réttu magni fyrir gróðurhúsið,“ bætir Elfa Björk við.

„Í raun sé ég fyrir mér litlar ánamoltustöðvar dreifðar um landið. Þetta krefst ekki mikils stofnkostnaðar – einungis upphitaðs húsnæðis. Mér finnst svona moltugerð henta mjög vel í gróðurhús þar sem haugánarnir vinna vel í hita og raka og gefa svo frá sér koltvísýring í réttu magni til ræktunarinnar. Ormakassarnir gætu til að mynda verið undir ræktunarborðunum. Hægt er að setja sölnuð lauf af plöntum ofan í kassann, sem fóður fyrir ormana, auk þess að safna lífrænum úrgangi úr nágrenninu. Það yrði til dæmis smart að vera grænmetisræktandi sem seldi afurðir til hótela, taka svo frá þeim lífræna úrganginn og nýta hann í ræktunina með þessum hætti. Þannig myndast hringrás.“

Í leit að starfsstöð

Vinkonurnar sjá ekki fyrir sér að sitja auðum höndum eftir að ræktunartímabilinu á Laugabóli lýkur og þær útskrifast sem garðyrkjufræðingar. Þær eru í reynd í leit að jarðnæði fyrir frekari garðyrkjustarfsemi.

„Við erum rétt að byrja að rækta og eigum í það minnsta þrjátíu ár eftir á vinnumarkaði svo við erum að leita að góðu landi, minnst hektara, á heitu svæði fyrir gróðurhús.“ 

Safnað fyrir Einstök börn
Líf og starf 26. apríl 2024

Safnað fyrir Einstök börn

Stóðhestaveisla Eiðfaxa var haldin 13. apríl í HorseDay-höllinni á Ingólfshvoli ...

Umhverfisvænar blómaskreytingar
Líf og starf 25. apríl 2024

Umhverfisvænar blómaskreytingar

Náttúruleg fegurð var í fyrirrúmi á námskeiði um blómaskreytingar í Garðyrkjuskó...

Sumardagurinn fyrsti
Líf og starf 25. apríl 2024

Sumardagurinn fyrsti

Samkvæmt dagatalinu kemur sumarið 25. apríl. Bændablaðið leitaði því til lesenda...

Lóan
Líf og starf 23. apríl 2024

Lóan

Lóan er komin! Um þessar mundir eru heiðlóur að tínast til landsins en apríl er ...

Jöklapeysur úr íslenskum lopa
Líf og starf 23. apríl 2024

Jöklapeysur úr íslenskum lopa

Mjólkurfræðingurinn og frumkvöðullinn Pétur Pétursson setur nú á fót hönnunarsam...

Að höndla sér hross til reiðar
Líf og starf 22. apríl 2024

Að höndla sér hross til reiðar

Orðsins list kemur að þessu sinni úr Íslendingasögunum.

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands
Líf og starf 16. apríl 2024

Sigurður í Pylsumeistaranum er Kjötmeistari Íslands

Sigurður Haraldsson í Pylsumeistaranum var krýndur Kjötmeistari Íslands í fagkep...

Paella með skelfiski
Líf og starf 16. apríl 2024

Paella með skelfiski

Paella er einfaldur réttur og til í ýmsum útgáfum, grunnurinn þó alltaf sá sami ...